18.02.1955
Neðri deild: 49. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1250 í B-deild Alþingistíðinda. (1624)

127. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Flestir munu vera sammála um það, að æskilegt sé, að sem allra minnstar hömlur séu á vinnumarkaðinum, að vinnumarkaðurinn sé frjáls fyrir allt landið. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er þess efnis, að heimila skuli samgmrn., að fengnum till. stéttarfélaga, að takmarka fjölda leigubifreiða í Reykjavík, hvort heldur sé um að ræða vörubifreiðar eða fólksbíla. Síðan frv. kom hér fram, hafa komið fram brtt. í þá átt að láta takmarkanir á þessum hluta vinnumarkaðarins ná einnig til annarra kaupstaða og jafnvel til kaupstaðanna allra.

Ég vil taka það strax fram, að ég tel þessar hömlur á vinnumarkaðinum ekki æskilegar, dálítið varhugaverðar, og tel, að þessi byrjun gæti leitt til þess, að aðrar stéttir og starfshópar færu fram á það að fá lagalega vernd á líkan hátt og þetta og stuðning stjórnarvalda til þess að bægja mönnum frá frjálsum aðgangi að þeim vinnumarkaði, sem um er að ræða hér. Ég tel, að það hafi sýnt sig, að þær takmarkanir, sem einstakar iðnstéttir hafa fengið aðstöðu til að setja um aðgang að námi í ýmsum iðngreinum, hafi við breyttar aðstæður verið til tjóns, og þær takmarkanir sýndu það, að það er varhugavert að fá einstökum stéttum í hendur jafnvel ólögbundna aðstöðu til þess að takmarka aðgang að vissum vinnustéttum. En hér er um það að ræða, að það átti samkv. frv. að setja þessar takmarkanir á og lögbinda þær fyrir bifreiðarstjóra í einu bæjarfélagi, sem ég hefði nú út af fyrir sig talið óeðlilegt. Ég tel þess vegna, að þær fram komnu brtt. um, að það nái til kaupstaðanna allra, séu þó þess eðlis, að það væri breiðari lagalegur grundvöllur fyrir því, þetta næði þá til landsbyggðarinnar allrar, sem hefði svipaða aðstöðu. En í þessu sambandi vil ég þó enn fremur benda á, að það er mjög vafasamt, að þetta frv. kæmi ekki í bága við vinnulöggjöfina. Vinnulöggjöfin segir, að verkalýðsfélög öll — öll stéttarfélög — skuli vera opin öllum mönnum, sem hafi réttindi í þeirri starfsgrein. Og ég hygg, að þó að búið væri að lögfesta þetta, þá fengju þeir menn, sem hefðu bilstjóraréttindi og hefðu bifreiðaakstur að atvinnu og sæktu um að komast inn í stéttarfélög bifreiðarstjóranna hér, sig dæmda með félagsdómi inn í félögin. Þessi félög hafa svo samninga um forgangsrétt að vinnu við atvinnurekendur á því vinnusvæði, og þann rétt hefði viðkomandi maður öðlazt við það að vera dæmdur inn í félagið. Þessar hömlur, að hann fengi svo ekki að aka, kæmu þannig alveg í bága við vinnulöggjöfina og þau réttindi, sem stéttarfélögin hafa gagnvart atvinnurekendum á sínu félagssvæði. Mér er nær að halda, að úr þessu gætu orðið ónotalegir árekstrar um vinnurétt manna, og teldi það miður farið. Auk þess er það sýnt, og það hefur komið fram hér í umræðunum, að ef fámennar stéttir búa þannig um sig, að þær geti alltaf tryggt það, að mikil eftirspurn sé eftir vinnu í þeirri grein, sem um er að ræða, og viðkomandi stétt þannig tryggð fyrir atvinnuleysi, og fleiri stéttir færu í kjölfarið, þá er búið að beina aðalhættu atvinnuleysisins á svið hins ófaglærða verkamanns og verkakonu. Það er þá lagalegt misrétti, sem hinar ýmsu stéttir á vinnumarkaðinum eiga við að búa, og tel ég ástæðu til að minna hv. Alþingi á, að það er ekki hollt að leiða þann asna í herbúðirnar.