25.04.1955
Efri deild: 73. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1324 í B-deild Alþingistíðinda. (1714)

132. mál, jarðræktarlög

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Í 7. og síðustu gr. þessa frv. er svo ákveðið, að jafnframt séu úr gildi felld lög nr. 8 24. jan. 1952, um breyt. á jarðræktarl., en í þessum lögum, sem þarna eru numin úr gildi, var það eitt að framlengja styrkveitingar til að slétta tún til ársins 1954, frá 1952 til 1954. Nú munu þessi lög vera að nokkru leyti sjálffallin úr gildi, sökum þess að árið 1954 er liðið. Og hv. n. virðist líta þannig á, að það sé ekki lengur þörf á þessu lagaákvæði, sökum þess að búið sé að slétta öll gömul tún. En mér er fullkunnugt um það, að svo er ekki. Það er ekki búið enn að slétta öll gömul tún á jörðum, sem þó eru í byggð. Það er sjálfsagt mjög lítið um það, að eftir sé þýfi í túnum, en það er til. Og af því að þetta er án efa mjög lítið, mundi það að sjálfsögðu ekki muna ríkissjóð neinu eða svo sem neinu, þó að ákvæðið um styrk fyrir túnasléttur væri framlengt t.d. þetta ár og jafnvel næsta.

Ég man eftir því, að bændur fengu að vísu aðvörun um það að taka sig nú til og slétta það, sem eftir væri af þýfi í túnum. Sú aðvörun kom frá Búnaðarfélaginu í fyrra, en hún kom ekki fyrr en á slætti, og það mun ýmislegt hafa orðið þess valdandi, að það gátu ekki allir bændur sinnt því að ljúka við að slétta það litla þýfi, sem eftir var.

Ég vildi því leyfa mér að bera fram brtt. við 7. gr. frv., ég er ekki alveg búinn að skrifa hana, gengur auk þess illa að skrifa, vegna þess að ég hef ekki náð mér eftir veikindin. En till. mundi verða á þá leið, að 2. málsl. 7. gr. orðaðist þannig, að í staðinn fyrir 1954 í jarðræktarlagabreytingunni frá 1952 komi 1956.