15.04.1955
Neðri deild: 72. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1598 í B-deild Alþingistíðinda. (1862)

185. mál, skattgreiðsla h/f Eimskipafélags Íslands

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og hæstv. forsrh. hefur nú lýst, er enn á ný flutt hér frv. til laga um skattfrelsi fyrir h/f Eimskipafélag Íslands. Það mun hafa verið venja nú um allmargra ára skeið að framlengja slíkt skattfrelsi fyrir Eimskipafélagið frá ári til árs eða á 2 ára fresti. Þau rök, sem fyrir því hafa legið, að Eimskipafélagið hefur notið þessara sérstöku hlunninda, eru fyrst og fremst þau, að félagið hafi verið að vinna mjög mikilvægt þjóðnytjastarf við að byggja upp flutningaskipaflota landsmanna.

Þegar Eimskipafélag Íslands var stofnað fyrir rúmum 40 árum, var þar um að ræða mjög mikið og merkilegt átak, sem þjóðin öll sameinaðist um á eftirminnilegan hátt. Félagið var þá og lengi síðan kallað „óskabarn þjóðarinnar“ og var það vissulega á marga lund. Félagið vann mikið og merkilegt brautryðjendastarf, sem vissulega var ekki vanþörf á. Áður en það kom til sögunnar, höfðu Íslendingar orðið að sæta því að vera algerlega undir náð erlendra aðila komnir með alla aðflutninga til landsins og vöruflutninga frá því. Stofnun félagsins og vöxtur skipaflota þess var því á sínum tíma mjög mikilvægur liður í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Það var gæfuríkt spor, sem þá var stigið, og öll þjóðin fagnaði því af miklum einhug. Þetta er svo kunnugt, að það þarf ekki frekar að rekja.

Þegar svo Eimskipafélagið eftir síðustu heimsstyrjöld hafði misst verulegan hluta af skipaflota sínum, var rík nauðsyn á því, að flotinn ykist að nýju, og þess vegna munu flestir eða allir hafa talið eðlilegt, að Eimskipafélagið nyti þeirra fríðinda um skattgreiðslur, sem það hefur nú notið um alllangt skeið. En með hverju ári sem líður virðist ríkari ástæða til að endurskoða þessi atriði, athuga það, hvort nú sé jafnmikil ástæða og áður til þess, að Eimskipafélag íslands njóti þessara mjög svo mikilvægu fríðinda, sem aðrir aðilar njóta ekki.

Nú er Eimskipafélag Íslands ekki lengur eini innlendi aðilinn, sem á flutningaskip og sinnir flutningaþörf þjóðarinnar. Fleiri aðilar og félög hafa komið til sögunnar síðan. Nú er einnig svo komið, sem betur fer, að við Íslendingar erum orðnir nokkurn veginn um það færir að flytja þær vörur á eigin skipum að og frá landinu, sem þörf er á. Þar er að vísu nokkurt skarð í, þar sem okkur vantar algerlega olíuflutningaskip.

Á síðasta ári virtust nokkrar horfur á því, að Eimskipafélagið og nokkrir fleiri aðilar hefðu í hyggju að leysa úr þessari þörf landsmanna. Þá var flutt hér af hæstv. ríkisstj. frv., sem átti að auðvelda þessum aðilum að eignast 2 olíuflutningaskip. Svo brá þó við á því þingi, að þetta stjórnarfrv. hlaut ekki afgreiðslu; það var látið daga uppi, hvað sem valdið hefur. Og nú á þessu þingi hefur því nauðsynjamáli ekki verið hreyft af hæstv. ríkisstj. Það virðist því liggja nokkuð ljóst fyrir, að Eimskipafélag Íslands hefur ekki ríkan hug á því sem stendur að bæta úr þessari brýnu þörf.

Ég sagði áðan, að það hefði þótt réttnefni, þegar Eimskipafélagið var á sínum tíma við stofnun og lengi þar á eftir kallað „óskabarn þjóðarinnar“. Því miður hefur nú farið svo á síðari árum, að sá velvilji og sú ástsæld, sem Eimskipafélagið naut að maklegleikum, hefur nokkuð rýrnað, svo að ég viðhafi ekki sterkari orð. Því miður hefur forráðamönnum félagsins ekki lánazt að halda þeim velvilja, sem félagið naut í svo ríkum mæli áður fyrr, og ber margt til, og skal ég aðeins nefna fátt.

Ég hygg, að það sé rétt, sem fram hefur verið haldið, að Eimskipafélag Íslands og önnur íslenzk skipafélög haldi nú uppi hærri flutningagjöldum en yfirleitt þekkist á heimsmarkaðinum. Ég vil vænta þess, að hæstv. ráðherrar mótmæli þessu, ef það er ekki rétt. En ég hef það fyrir satt, að hér munn vera einhver hin allra hæstu flutningagjöld, sem nokkurs staðar þekkjast. Þetta er að sjálfsögðu eitt atriðið, sem veldur því, að Eimskipafélagið hefur ekki haldið þeirri velvild þjóðarinnar, sem það var búið að afla sér. Þá er það og vitað, að þegar félagið var stofnað, lagði svo að segja hvert mannsbarn á landinu, sem nokkur fjárráð hafði, fram sinn skerf, mikinn eða lítinn eftir getu, til þess að koma Eimskipafélaginu á fót, en síðan, og einkum á síðari árum, hefur mjög hnigið að því, að einstakir fjársterkir aðilar hafa keypt upp þessi hlutabréf almennings, náð æ meiri tökum á hlutabréfaeign Eimskipafélagsins og þar með á yfirráðum yfir því félagi.

Öll rök hníga nú að því, að það eigi að athugast vel, hvort Eimskipafélagið á öllu lengur að njóta svo algers skattfrelsis sem lagt er til í því frv., sem hér er flutt.

Eins og ég áðan sagði, erum við nú að verulegu leyti orðnir sjálfum okkur nægir um flutninga að og frá landinu. Nú kann að vera sagt, að það eigi ekki að vera okkur nóg, við eigum að stefna hærra, við eigum að stefna að því að verða veruleg siglingaþjóð í líkingu við frændur okkar Norðmenn, stefna að því að auka svo flutningaskipaflota okkar, að við getum siglt með vörur fyrir aðrar þjóðir. Þeir menn, er svo mæla, hafa mikið til síns máls. Ég hygg, að við eigum að stefna að þessu. En ef við ætlum að koma upp stórum flota til þess að taka upp siglingar um heimshöfin með vörur fyrir aðrar þjóðir, þá tel ég, að ekkert réttlæti sé í því, að aðeins eitt af skipafélögum, sem hér eru starfandi eða kynnu að verða stofnuð, njóti algerrar sérstöðu um skattfrelsi. Það virðist því aðeins tvennt til, að annaðhvort njóti skattfríðinda öll þau skipafélög, sem til eru í landinu eða stofnuð verða í því skyni að hafa flutninga með höndum, ellegar hitt, að ekkert njóti þessara sérstöku fríðinda. Það virðist a.m.k. ekki lögð of mikil kvöð á Eimskipafélag Íslands, þó að nú verði horfið að því ráði, að það greiði t.d. hliðstæða skatta við samvinnufélögin og þar á meðal það skipafélagið, sem stærst er nú hér á landi næst Eimskipafélaginu, þar sem er skipadeild S. Í. S. Um þetta atriði, hvort Eimskipafélagið á öllu lengur að njóta hér alveg sérstakra fríðinda fram yfir alla aðra aðila, má að sjálfsögðu fara mörgum orðum og rökræða fram og aftur. Ég ætla þó ekki að gera það að þessu sinni, vildi aðeins nú við þessa 1. umr. láta þetta sjónarmið koma fram, m.a. til athugunar fyrir þá hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, og væri þá hægt fyrir 2. umr., ef hv. n. teldi ekki ástæðu til að sinna þessum athugasemdum, að flytja brtt. við frv., sem færi eitthvað í þá átt, sem ég hef nú rætt um.