10.05.1955
Efri deild: 87. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1646 í B-deild Alþingistíðinda. (1924)

121. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Frsm. meiri hl. (Kristinn Gunnarsson):

Herra forseti. Þetta frv. til l., sem hér er á þskj. 725, er hingað komið frá Nd. Aðalefni þess, má segja, að sé að styrkja yfirstjórn öryggismálanna á tilteknum vinnustöðum, og er það sett til styrktar þeirri löggjöf, sem þegar er í gildi um þau atriði, og enn fremur til þess að treysta ýmis atriði í þeirri löggjöf, sem eiga að vera til í reglugerðum, en hafa ýmist ekki verið sett í reglugerð eða ekki verið framkvæmd sem skyldi. — Það er sem sagt ætlunin að leggja frekari áherzlu á en gert hefur verið að fá þessi atriði fram, sem áttu að koma í reglugerð, en hafa ekki komið, og svo einnig að styrkja yfirstjórn þessara mála með því að setja upp sérstakt öryggisráð til að styrkja þá yfirstjórn þessara mála, sem núna er í höndum öryggismálastjóra.

Það má að vísu deila um það, ef sett er öryggisráð yfir þær vinnustöðvar, sem hér eru tilteknar, aðallega verksmiðjuiðnaðinn, hvort það ætti að ná eitthvað víðar. En þar sem hér er um nýjung að ræða, má líta á það sem tilraun að skipa þetta öryggisráð á þann veg, sem hér er lagt til, þ.e.a.s. með fulltrúum frá Alþýðusambandi Íslands og iðnsveinaráði Alþýðusambands Íslands annars vegar og hins vegar frá Félagi ísl. iðnrekenda og Vinnuveitendasambandi Íslands, þar sem ráðh. skipar oddamann.

Það eru ríkar ástæður til að halda, að í samvinnu milli fulltrúa þessara tveggja aðila, vinnuseljenda og vinnukaupenda, séu meiri líkur til þess, að hægt sé að koma með góðri samvinnu og samkomulagi þessum málum í viðunandi horf og betra horf en þau eru í nú, og ef sú verður reynslan, þegar þar að kemur, ef þetta frv. verður gert að lögum, þá mætti auðveldlega færa þessa skipun mála á viðari vettvang.

Ég skal ekki hafa þessa framsöguræðu hér mjög langa. Ég tel sem sagt, að þetta tvennt sé aðalefni frv., að fá inn í lög nokkur atriði, sem gert var ráð fyrir að yrðu sett í reglugerð, en hefur ekki verið gert, og annars vegar að gera hér nýja tilhögun í tilraunaskyni um að láta fulltrúa vinnuveitenda annars vegar og launþega — verkamanna — hins vegar bera ábyrgð á því, að öryggismál séu í lagi á vinnustöðum.

Þegar málið var tekið til meðferðar í gærmorgun í iðnn. hv. deildar, náðist ekki um það fullt samkomulag. Nál. meiri hl. er hér komið fram, en hv. þm. Barð. (GíslJ) var ekki sammála meiri hl. í þessu, og eins og fram hefur komið hér, var ætlunin að skila séráliti, sem hefur því miður ekki unnizt tími til vegna naums tíma að koma fram.