03.12.1954
Neðri deild: 26. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í C-deild Alþingistíðinda. (1976)

48. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. (Einar Ingimundarson):

Herra forseti. Allshn. hefur athugað frv. til l. um breyt. á l. nr. 80 1942, um kosningar til Alþ., á þskj. 53, og er n. sammála um að leggja til, að það verði afgr. með rökstuddri dagskrá, sem prentuð er á þskj. 224.

Eins og kunnugt er, kaus sameinað Alþingi á síðasta þingi sjö manna n. til að endurskoða lög um kosningar til Alþ. og sveitarstjórnarkosningar. Þessi n. er nú setzt á rökstóla og vinnur nú m. a. að því að safna gögnum um það efni, sem henni var falið að rannsaka. Ég er einn þeirra sjö manna, sem eiga sæti í þessari n., og ég fyrir mitt leyti tel það eðlilegast, að n. taki til sérstakrar athugunar það, sem í þessum brtt. felst, sem hér eru til umr. Um hitt verður vitanlega engu spáð á þessu stigi málsins, hvaða afstöðu n. kann að taka til þeirra uppástungna, sem í þessum brtt. felast. — Það er sem sagt álit n. og hún er sammála um að leggja til, að frv. þetta verði afgr. með rökstuddri dagskrá, sem prentuð er á þskj. 224.