03.12.1954
Neðri deild: 26. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í C-deild Alþingistíðinda. (1977)

48. mál, kosningar til Alþingis

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem hv. frsm. n. sagði hér, að á síðasta A1þ. var skipuð n. til þess að endurskoða kosningalögin, bæði lög um alþingiskosningar og bæjar- og sveitarstjórnarkosningar. Sú nefndarskipun var afleiðing af þáltill., sem við fluttum þá nokkrir þm., þar sem lagt var til, að sérstaklega skyldi athugað, hvernig hægt væri að takmarka fjáraustur stjórnmálaflokka í sambandi við kosningar og kosningaundirbúning. Sú þáltill. var flutt í Sþ. og vísað til allshn. sameinaðs þings. Hv. allshn. tók þessu máli vel og lagði til samhljóða, ef ég man rétt, að slík n. væri skipuð fimm mönnum og allir þingflokkar ættu þar sinn fulltrúann hver. Form. þeirrar n., hv. 1. þm. Eyf., gerði glögga grein fyrir því hér í fyrra, hvað fyrir n. vekti, m. a. með þeirri tilhögun um nefndarskipan, sem n. lagði til; það vekti fyrir n., að við undirbúning slíkra mála sem þessara væri eðlilegt og raunar sjálfsagt, að allir flokkar hefðu aðstöðu til þess að koma á framfæri sjónarmiðum sínum og skoðunum, það væri ekki aðalatriði við slíka nefndarskipun, sem á að undirbúa mál eins og þessi, að einhverjir ákveðnir aðilar hefðu meiri hl. í slíkri n., heldur ætti hitt að ráða, að sem flestar raddir mættu heyrast, sem flest sjónarmið koma fram. Það virtist svo sem hæstv. ríkisstj. þætti þetta allt of mikið frjálslyndi hjá allshn. Sþ. í fyrra. Þegar nál. hafði verið lagt fram, komu brátt fram á sjónarsviðið fjórir hv. þm. úr stjórnarflokkunum, tveir úr hvorum flokki, og fluttu nýja till. í þessu máli, sem virtist fyrst og fremst fela það í sér að útiloka Þjóðvfl. frá því að eiga fulltrúa í þessari mþn., sem ætlað var að fjalla um kosningalöggjöfina. Þar var lagt til, að sjö manna n. yrði kjörin, en með þeim hætti, að Þjóðvfl. hafði ekki tök á að koma manni í nefndina. Þetta var síðan samþ. af meiri hluta hv. Alþ. Frjálslyndið var ekki meira en svo.

Þó var það nú þannig, að á síðasta þingi var Þjóðvfl. hinn eini flokkur, eða þm. hans hinir einu, sem höfðu lagt fram veigamiklar tillögur um breytingar á kosningalöggjöfinni. Ég verð því að segja, að eftir þessa afgreiðslu hv. Alþ. á þessu máli á síðasta þingi, þar sem virtist lagt töluvert kapp á að útiloka Þjóðvfl. frá því að hafa aðstöðu til að leggja sínar till. fram í þessari mþn., sé ég ekki sérstaka ástæðu til að fallast á að vísa þessu máli frá vegna þeirrar nefndarskipunar, sem hér um ræðir. Hv. frsm. skýrði frá því, að þessi mþn. væri nú eitthvað byrjuð að starfa, hún væri farin að leita gagna og upplýsinga. En af orðum hans mátti skilja, að enn ætti það langt í land, að n. lyki störfum, enda er það mjög trúlegt, því að eigi að endurskoða þessi lög öll frá grunni, þá er það að sjálfsögðu töluvert verk og þarf að leita til ýmissa umsagnaraðila og afla margvíslegra gagna. Þess er því vafalaust ekki að vænta, að neinar till. eða neitt frv. komi frá n. á þessu þingi og óvíst jafnvel, að það verði á næsta þingi, svo að enginn er kominn til með að segja um það, hvort till. hennar liggja fyrir í tæka tíð, áður en gengið verður til næstu kosninga.

Þar sem ég tel, að mikil bót sé að því, ef samþykkt yrðu meginákvæði þess frv., sem hér liggur fyrir, þótt ég dragi það ekki í efa, að gera þurfi einhverjar fleiri og róttækari breytingar á kosningalöggjöfinni, ef vel á að vera, þá mun ég greiða atkv. gegn þeirri rökstuddu dagskrá, sem hv. n. hefur lagt fram.

Mér þótti vænt um að heyra það, að hv. frsm. sagði, að mþn. ætti, að hans dómi, að taka þetta frv. eða þær till., sem í þessu frv. felast, fyrir og taka afstöðu til þeirra. Ég vænti þess, að það verði gert, því að það virðist augljóst, hver verða örlög þessa frv. að þessu sinni.