22.11.1954
Neðri deild: 21. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í C-deild Alþingistíðinda. (2109)

51. mál, menntun kennara

Frsm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Frv. þetta fjallar um staðsetningu húsmæðrakennaraskólans. Nú segir í lögum frá 1947 um menntun kennara, að húsmæðrakennaraskólinn skuli starfa í Reykjavík eða nágrenni hennar, en í frv. er gert ráð fyrir að breyta þessu á þá lund, að skólinn skuli starfa í Reykjavík eða á þeim stað öðrum, er fræðslumálastjórnin að undangenginni rannsókn á aðstæðum til skólahaldsins kann að telja hentugri.

Nú er það ýmist í lögum um skóla, að staðsetning er ákveðin eða hún er frjáls. Þannig er t. d. í þessum sömu lögum frá 1947, um menntun kennara, að um sjálfan Kennaraskóla Íslands er ekkert ákveðið, hvar í landinu hann skuli vera. Varðandi Handíðakennaraskóla Íslands, sem einnig er fjallað um í sömu lögum, er ekki heldur ákveðið, hvar hann skuli staðsettur. Í lögum um sjálfan Háskóla Íslands er hvergi tekið fram, hvar hann skuli vera. Þannig er þetta víðar, en um aðra skóla er ákveðið, hvar þeir skuli staðsettir. Í lögum um menntaskóla segir, að menntaskóli skuli vera í Reykjavík og annar á Akureyri, en hinn þriðji í sveit, án þess að það sé nánar tilgreint.

Þessi skóli, húsmæðrakennaraskólinn í Reykjavík, sem nú er, hefur starfað hér frá stofnun, en verður húsnæðislaus eftir tvo vetur. Þá liggur fyrir að ákveða, hvort unnt sé að nota einhver húsakynni, sem til eru, til starfseminnar eða hvort byggja þurfi að nýju. Fyrir menntmn. eða fyrir Alþingi liggja mér vitanlega engin gögn til þess að kveða endanlega á um þetta, en n. virðist sjálfsagt, að sú ákvörðun sé falin fræðslumálastjórninni á hendur, eftir að hún hefur kynnt sér allar aðstæður. Skólanefnd og skólastjóri húsmæðrakennaraskólans hafa fært fyrir því ýmis rök, að heppilegast sé að hafa skólann hér í Rvík, og þótti n. rétt að láta prenta sem fylgiskjal með nál. álit skólanefndar og skólastjóra.

Ég skal ekki fara um þetta mál fleiri orðum, en n. mælir með því, að frv. sé samþykkt, og telur sig ekki hafa aðstöðu til að dæma um það, hvar skólinn skuli staðsettur, en rétt sé að hafa þá þann háttinn á hér, eins og er í lögum um marga aðra skóla, að fræðslumálastjórninni sé falið ákvörðunarvaldið að athuguðum öllum aðstæðum, hvar skólinn skuli staðsettur.