30.11.1954
Efri deild: 24. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í C-deild Alþingistíðinda. (2124)

51. mál, menntun kennara

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Mál það, sem hér liggur fyrir, var allmikið deiluefni í hv. Nd., eins og um það var deilt í þessari hv. d. á síðasta þingi. Ég játa það, að ástæða kann að vera til þess að flytja þennan skóla til Akureyrar og þá einkum sú ástæða, að þar er nú autt húsnæði, sem ætlað hefur verið fyrir kvennaskóla, en þessi skóli verður bráðlega — eða eftir tæp tvö ár húsnæðislaus hér í Rvík. Það er því engan veginn að ófyrirsynju, að Alþingi láti þetta mál til sín taka. Hitt tel ég alveg fráleitt og fyrir neðan allar hellur, að þingið geri það með þeim hætti, sem þetta frv. leggur til. Nú er ákveðið í lögum, að þessi skóli skuli vera í Rvík, að því er ég hygg, en ætlunin er að breyta lögunum með þessu frv. á þann veg, að fræðslumálastjórnin að undangenginni rannsókn á aðstæðum til skólahaldsins skuli ákveða skólanum stað. Með þessu er Alþingi að skjóta sér undan þeirri ábyrgð og því valdi, sem Alþingi einu ber. Það er Alþingi eitt, sem hefur í hendi sér að leysa þann vanda, sem hér er á höndum.

Það er auðvitað fyrst og fremst og eingöngu fjárhagsmál, hvort hægt er að byggja yfir skólann hér í Rvík, og ég hygg, að það þurfi ekki langa athugun, heldur liggi það í augum uppi, að ef sæmilegur húsakostur er fyrir hendi fyrir skólann hér í Rvík, þá er miklu hentugra að hafa skólann hér. Eina ástæðan, sem getur réttlætt flutninginn, og eina ástæðan, sem hefur verið færð fyrir flutningnum, er það, að um sinn sé skólahús autt fyrir norðan, sem hægt sé að nota. Þessi ástæða fellur gersamlega um sjálfa sig, ef Alþingi vill veita fé til þess að koma upp viðeigandi og viðunandi húsi hér eða veita fé til þess að leigja undir skólann hér í Rvík eða nágrenni. Hér er því eingöngu — ég legg áherzlu á það — um fjárhagsatriði að ræða, sem Alþingi verður að skera úr, og Alþingi er gersamlega ósamboðið að ætla að leggja það í hendur fræðslumálastjórnarinnar, sem hefur ekki fjárveitingavaldið, að leysa þann vanda.

Nú er lagt til í fjárlagafrv. ríkisstj., að nokkru fé verði varið til þess að hefja byggingu fyrir þennan skóla og þá að sjálfsögðu hér í Rvík. Ef Alþingi ætlast til þess, að skólinn sé fluttur norður, þá skilst mér, að sú fjárveiting sé óþörf, nema að svo miklu leyti sem ef til vill kynnu að koma til fyrirmæli hér í 2. gr. um það, að koma eigi upp heimavistum fyrir norðan, en till. ríkisstj. um fjárveitingu í þessu skyni var ekki miðuð við slíkar ráðstafanir, heldur við byggingu fyrir skólann sjálfan. Alþingi kemst þess vegna ekki hjá því nú þegar á þessu þingi að taka ákvörðun um það, hvort það vilji veita fé til þess að búa sæmilega að skólanum hér. Ef það fæst ekki til þess, þá er eðlilegt, að Alþingi sjálft taki ákvörðun um það, að skólinn skuli fluttur. En það væri auðvitað hámark óheilindanna að ætla að samþ. samtímis frv. eins og þetta og leggja svo í fjárlögum fé til þess að byggja skólann í Rvík. Með slíkri aðferð væri ljóst, að um hreinan leikaraskap er að ræða, en ekki leit að lausn ákveðins vandamáls, sem allir hlutaðeigendur hljóta að vilja að leysist á einhvern happasælan hátt.

Ég tel, að það væri mjög til athugunar fyrir þingheim að gera sér þess grein: Vilja menn flytja skólann til Akureyrar og þá semja um yfirtöku á húsmæðraskólanum þar í þessu skyni, en það er fjárhagsatriði líka, eða vilja menn veita fé til þess að láta skólann vera hér í Rvík? Hvor leiðin sem farin verður, þá er það fyrst og fremst eðli málsins samkv. og réttum stjórnarreglum einum samkv., að Alþingi sjálft taki um þetta ákvörðun, en skjóti sér ekki frá málinu með þeim hætti, sem gert er í þessu frv., sem ég tel vera verri en ekki til að leysa það vandamál, sem hér liggur fyrir.

Ég vildi láta þessa skoðun mína á meginefni málsins koma fram strax við 1. umr. og biðja hv. n., ef hún á annað borð telur málið þess vert, að því sé sinnt, að þá hugsi hún um það á þann veg að gera sér grein fyrir: Telur hún rétt og verjanlegt að flytja skólann til Akureyrar og gera þá ákveðna till. um það, sem Alþingi taki síðan afstöðu til? Ef hún treystir sér ekki til þess, þá ber að vinda sér að því að veita fé til þess að koma skólanum upp hér í Rvík, eins og ríkisstj. leggur til í fjárlagafrv., en þá er líka sjálfsagt að fella eða eyða því frv., sem hér liggur fyrir.