25.10.1954
Neðri deild: 8. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í C-deild Alþingistíðinda. (2130)

57. mál, atvinnuframkvæmdir sveitarfélaga

Flm. (Gunnar Jóhannsson):

Frv. það, er hér er flutt á þskj. 73, um stuðning við bæjar- og sveitarfélög til framleiðslu- og atvinnuaukningar, hefur verið flutt á tveim undanförnum þingum af þingmönnum Sósfl. Frv. hefur í hvorugt skiptið komizt lengra en til 2. umr. og til fjhn.

Þegar frv. var birt almenningi vakti það mikla athygli. Fjölmörg verkalýðsfélög tóku það til umræðna á fundum sínum og lýstu sig sammála því. Sömuleiðis var það rætt á fundum í mörgum bæjar- og sveitarstjórnum, sem lýstu yfir fylgi sínu við frv. Almenningur víðs vegar um allt land sá í frv. hilla undir stórkostlega möguleika á uppbyggingu atvinnuveganna og þar með von um stóraukna atvinnu. En hv. fjhn. hefur sýnilega lítið öðrum augum á þetta mál. Hún hefur í þessu máli sem fjölmörgum öðrum málum, sem flutt hafa verið af Sósíalistaflokksþingmönnum og öðrum stjórnarandstæðingum, viðhaft þá alþekktu aðferð að svæfa málið í nefndinni og þar með komið í veg fyrir, að Alþ. fengi tækifæri til þess að taka afstöðu til frv. Slíkar starfsaðferðir nefnda Alþ. eru óforsvaranlegar og beinlínis vítaverðar og sízt til þess fallnar að auka á virðingu almennings fyrir störfum þess.

1. gr. frv. gerir ráð fyrir, að ríkisstj. taki lán, allt að 50 millj. kr., sem endurlánað verði bæjar- og sveitarfélögum til verklegra framkvæmda, er miði að aukinni framleiðslu landsmanna og jafnframt til að bæta úr atvinnuleysi þeirra byggðarlaga, sem mesta þörf hafa fyrir aukna atvinnu.

2. gr. frv. kveður á um, að atvmrh. skipi n., sem geri tillögur um lánveitingar af fé þessu. Nefndin sé þannig skipuð: Samband bæjar- og sveitarfélaga, Alþýðusamband Íslands, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands og Vinnuveitendasamband Íslands skulu tilnefna sinn manninn hvert til að taka sæti í nefndinni. Ráðh. skipar án tilnefningar einn mann, og er hann formaður nefndarinnar. Ráðherra ákveður lánveitingar að fengnum till. n. Heimilt er ríkisstj. að lána bæjar- og sveitarfélögum fé það, sem um ræðir í 1. gr., til 20 ára með 4% vöxtum, enda komi samþykki n. til. Þá samþykki nefndin tryggingar þær, sem settar verða fyrir lánunum.

4. gr. er um, til hvers lánunum skuli varið, en það er til verklegra framkvæmda í kaupstöðum og kauptúnum, svo sem hafnarframkvæmda, skipasmíða, uppsetningar eða endurbóta á hvers konar verksmiðjum og tækjum til vinnslu og verkunar sjávarafurða og til alls þess, sem verða má til varanlegrar atvinnuaukningar.

5. gr. gerir ráð fyrir, að heimilt sé fyrir bæjar- og sveitarfélög að endurlána einstaklingum eða félögum lán, sem þau hafa fengið. samkv. þessum lögum, enda sé það tryggt, að lánin komi að fullum notum til atvinnuaukningar á staðnum.

6. gr. kveður á um, að ríkisstj. geti með reglugerð sett nánari ákvæði um allt það, sem varðar framkvæmd laganna.

Það má vel vera, að til séu þeir menn og það hér á hv. Alþ., sem telja slík lög og lagasetningu sem þessa algerlega óþarfa, hér á okkar ágæta landi sé nú um næga atvinnu að ræða og á nokkrum stöðum vanti beinlínis vinnukraft, svo að hægt sé að koma framleiðslunni í markaðshæft ástand og til að koma í kring öðrum nauðsynlegum atvinnuframkvæmdum. Sjáanlega er hæstv. fjmrh. á þeirri skoðun; sbr. ummæli hans við 1. umr. fjárl. í Sþ. Þar sagði hæstv. ráðh. orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er sannarlega ástæða til þess að gleðjast yfir því, að allir hafa nú atvinnu.“

Ja, þetta er hraustlega mælt af hæstv. fjmrh., og stórkostlegri hrifningu hljóta þessi ummæli hæstv. ráðh. að hafa valdið meðal atvinnuleysingjanna á Vestfjörðum, í Húnavatnssýslu, á Sauðárkróki, Siglufirði, Ólafsfirði, Húsavík, Raufarhöfn, að ég nú ekki tali um hrifninguna í sumum sjávarþorpunum í hans eigin kjördæmi. Ég hef ekki hér við höndina neinar tölur, sem sýna, hvað margir menn það eru á Íslandi í dag, sem hafa ekki atvinnu,. en ég fullyrði, að hundruð, ef ekki þúsundir manna með fulla starfsorku hafa litla sem enga atvinnu á þessum tíma árs og koma ekki til með að fá neina atvinnu, svo að teljandi sé, á næstu mánuðum í heimasveit sinni, nema til komi bein aðstoð hins opinbera til viðkomandi bæjar- og sveitarfélaga. Að sjálfsögðu neyðist margt af þessu atvinnulausa fólki til að leita sér að atvinnu hingað til Suðvesturlandsins og Vestmannaeyja fyrir vertíðina eins og undanfarin ár. Slíkir fólksflutningar á milli staða í atvinnuleit hafa ótrúlegan kostnað í för með sér fyrir viðkomandi fólk, eins og ég hef áður bent á í ræðum hér á hv. Alþingi, og er hreint og beint vandræðafyrirkomulag, sérstaklega fyrir fjölskyldumenn. Því síður er það nokkur lausn á atvinnuástandi heimasveitarinnar, nema síður sé. Margt af því fólki, sem verður ár eftir ár að sækja atvinnu sina hingað suður á land frá Norður-, Vestur- og Austurlandi, fer að leita sér eftir dvalarstað til langframa þar, sem það sér og veit að fyrir er nóg atvinna. Útkoman verður því sú, að atvinnuleysisplássin tæmast að dugmesta fólkinu, enda ekkert eðlilegra, eins og þessum málum er nú háttað. Það er því hin meta nauðsyn, að Alþ. það, sem nú situr, taki þessi mál til alvarlegrar yfirvegunar og geri þegar á þessu þingi ráðstafanir, sem að gagni koma fyrir þau byggðarlög, sem verst eru á vegi stödd.

Þessu frv., ef að lögum verður, er ætlað að verða einn liður í þeim framkvæmdum, sem nauðsynlegar eru til uppbyggingar atvinnulífsins í þeim bæjum og sjávarþorpum víðs vegar um land, sem búa nú við stórkostlega vöntun framleiðslutækja og stöðugt atvinnuleysi. Til eru sjálfsagt þeir menn,. sem halda því fram, að það borgi sig ekki að vera að leggja fé í atvinnuframkvæmdir á sumum þessum stöðum. Slíkt hlýtur alltaf að vera matsatriði. Hitt er þó staðreynd, að á þessum stöðum býr dugandi fólk, sem gjarnan vill eiga áfram heima á þeim stöðum. Þetta fólk hefur með sinni starfsgetu lagt krafta sína fram til að afla verðmæta. eftir því sem aðstæður hafa leyft, ekkert síður en þeir, sem hafa átt því láni að fagna að búa við sæmilegt atvinnuöryggi. Það eru stórkostlegir möguleikar að afla mikilla verðmæta úr djúpi hafsins í kringum allt Ísland fram yfir það, sem nú er, ef til eru góð og nægilega mörg fiskiskip, vinnslutæki í landi til að: vinna úr aflanum og hafnarskilyrði væru bætt. Menn skyldu varast að gera lítið úr þeim möguleikum, sem til eru víðs vegar í hinni dreifðu byggð meðfram ströndum landsins. Hætt er við, að dómur komandi kynslóða yrði harður um þá ráðsmennsku núverandi kynslóðar, ef við létum okkur henda slíkan voða að leggja í auðn heil byggðarlög vegna þröngsýni og skilningsleysis á því, sem nauðsynlegt er að gera til þess að þar geti haldið áfram að vera byggð.

Mörgum svíður það sárt að sjá sæmileg sveitabýli fram til dala leggjast í auðn, að ég nú ekki tali um, ef jarðir fara í eyði í góðsveitum landsins. Það opinbera hefur á ýmsan hátt sýnt viðleitni í því að halda við byggð í sveitum landsins, og er það sjálfsögð ráðstöfun. En hvað þá um sjávarplássin? Er ekki eins mikil eða jafnvel enn þá meiri nauðsyn á því að tryggja með opinberum aðgerðum, að byggð haldist í hinum dreifðu kaupstöðum og kauptúnum víðs vegar um land og að þar verði ekki auðn, sem áður var blómleg byggð, þar sem möguleikar til góðrar afkomu eru fyrir hendi, væri til fjármagn til uppbyggingar atvinnulífsins? Það gildir þjóðina tugi milljóna krónaárlega í gjaldeyri, að það fólk, sem vill og getur unnið við framleiðslustörf til lands og sjávar, skuli þurfa að ganga auðum höndum vikum og mánuðum saman ár eftir ár, auk þess sem atvinnuleysi er smánarblettur á hverju siðuðu þjóðfélagi.

Það hefur verið mikið rætt um nauðsyn þess að skapa jafnvægi í byggð landsins. Engir hafa verið háværari um þessi mál en einmitt ýmsir þm. stjórnarflokkanna. Sérstaklega hefur þetta verið þeim kærkomið umræðuefni við hátíðleg tækifæri og svo fyrir allar kosningar. Þá hafa loforðin ekki verið spöruð. Svo langt hefur verið gengið í þessum áróðri, að viðkomandi menn og málgögn þeirra hafa sagt berum orðum, að það sé tilgangslaust að kjósa á þing aðra en stuðningsmenn ríkisstjórnarflokkanna, — verði það ekki gert, gæti viðkomandi hérað ekki búizt við neinni opinberri aðstoð fram yfir það, sem lög heimila. Hvað sýnir svo reynslan í þessum málum? Hefur tekizt að halda við jafnvæginu í byggð landsins? Hefur fjármagnið streymt til þeirra staða úti á landi, sem fólu fulltrúum stjórnarflokkanna að fara með umboð sitt á hinu háa Alþingi? Hvað segja staðreyndirnar okkur? Þrátt fyrir hin gullnu loforð, þrátt fyrir það að kjósendurnir hafa illu heilli haldið áfram að senda þm. Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins sem fulltrúa fyrir dreifbýliskjördæmin, hefur stöðugt sigið á ógæfuhliðina, en þó aldrei meira en nú síðustu árin. Hér í höfuðborginni og nágrenni hennar er mestur hluti fjármagnsins saman kominn og þeir, sem því ráða og ráðstafa. Hér eru höfuðstöðvar allra þeirra mörgu hringa og auðmannaklíkna, sem soga til sín arðinn af sjávarútveginum, bankarnir, tryggingarfélögin, olíufélögin, alls konar milliliðir og hagsmunaklíkur, sem einoka útflutningsverzlunina og sölsa undir sig innflutningsverzlunina. Og síðast en ekki sízt: Hér í Reykjavík eru þeir auðmenn og braskarar, sem hafa lagzt svo lágt að gera hið glæpsamlega hernám og allt, sem því fylgir, að meira gróðafyrirtæki en sagan þekkir. Kórónan á allri þessari svívirðingu er svo sú, að sjálf ríkisstj. hefur gert ríkissjóð beinan þátttakanda í hernaðarvinnunni með nýgerðum samningi um hernaðarvinnuna, þar sem hin frægu, en um leið illræmdu helmingaskipti milli stjórnarflokkanna eru að fullu tryggð. Útkoman af þeirri óheillastefnu núverandi ríkisstj. og flokka hennar að veita mestan hluta fjármagnsins til höfuðstöðvanna hér í höfuðborginni og annarra staða við Faxaflóa, en afskipta á sama tíma á hinn herfilegasta hátt aðra landshluta, verður sú, að stöðugur fólksflótti er frá flestum stöðum og byggðarlögum utan Suðvesturlandsins hingað suður.

Hér á hv. Alþ. hefur verið sýnt fram á með skýrum rökum af þingmönnum Sósfl. og hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar, hvernig atvinnuástandið er sums staðar úti á landinu, og til þess hafa verið nefnd mjög skýr og glögg dæmi. Þá hafa nokkrir hv. þm. Sjálfstfl. gert slíkt hið sama. Hv. þm. Barð. (GíslJ) sagði hér sögu frá einu byggðarlagi í sínu kjördæmi, Flatey á Breiðafirði. Sú lýsing var táknræn um það ástand, sem ríkjandi er í fjölmörgum byggðarlögum víðs vegar um land. Þá hafa þeir hv. þm. N-Ísf., A-Húnv., 2. þm. Eyf. og hv. þm. Ak. í umræðum hér á Alþ. lýst atvinnuástandinu og fjárhagsvandræðum og stórkostlegri vöntun á nýjum atvinnufyrirtækjum í sínum kjördæmum. Allir þessir hv. þm. hafa krafizt skjótra aðgerða. Þeir hafa krafizt þess, að keyptir yrðu fleiri togarar, hafnarmannvirki verði reist og endurbætt, fleiri fiskibáta og aukins fjármagns til að reisa nýjar fiskvinnslustöðvar. Þeir hafa lýst á skýran og ótvíræðan hátt, hvert stefnir í málum þessara staða, ef ekkert verður gert og allt látið reka á reiðanum hér eftir sem hingað til.

Manni verður nú á að spyrja: Á hverju stendur með að veita þessum og öðrum bágstöddum byggðarlögum sjálfsagða og aðkallandi aðstoð til aukningar atvinnuveganna? Eru ekki til peningar? Jú, það virðist vera, því að hæstv. fjmrh. hefur upplýst, að ríkissjóður hafi í rekstrarafgang fyrir árið 1953 rúmar 86 milljónir. Sjálfstfl. fer með stjórn landsins ásamt Framsfl. Það ættu því að vera hæg heimatökin fyrir þingflokk Sjálfstfl. að kippa þessu í lag, svo framarlega sem ræður þessara hv. alþm. eiga að skoðast annað og meira en innantóm orð án athafna. En hv. alþm. verða að gera sér það ljóst, að það verður engin breyting á til batnaðar í atvinnumálum þjóðarinnar, nema ríkisstj. og bankarnir séu knúðir til undanhalds, knúðir til þess að breyta um stefnu. Sú óheillastefna, sem hæstv. ríkisstj. hefur framfylgt undanfarin ár og hefur orðið þess valdandi, að við auðn liggur í heilum byggðarlögum víðs vegar vegna atvinnuskorts og sem afleiðing af því hinir stórkostlegu fólksflutningar til annarra staða, verður að fordæmast í eitt skipti fyrir öll. Það er ófrávíkjanleg krafa fólksins um land allt, að í staðinn fyrir kyrrstöðu í uppbyggingu atvinnuveganna, eins og nú er, og í staðinn fyrir þá þjóðhættulegu stefnu hæstv. ríkisstj. að stefna atvinnulausu fólki til hernaðarvinnu suður á Keflavíkurflugvelli, verði nú þegar á þessu þingi gerðar viðeigandi ráðstafanir til uppbyggingar og stóraukningar á þeim atvinnuvegum, sem fyrir eru, og stofnað til nýs atvinnurekstrar, þar sem þess er mest þörf. Flóttann frá hinum ýmsu bæjum og sjávarþorpum hingað suður verður að stöðva. Það verður ekki gert nema með því að auka atvinnuna á slíkum stöðum og skapa fólkinu, sem þar býr, sæmileg lífskjör, miðað við það, sem er annars staðar. Allt vinnufært fólk á Íslandi á að hafa og getur haft vel borgaða vinnu við lífræn framleiðslustörf til lands og sjávar. Það sýndu árin á nýsköpunartímabilinu.

Hér á hv. Alþ. hafa nú þegar verið flutt allmörg frv. og þáltill., sem miða að uppbyggingu atvinnuveganna víðs vegar um land. Það er á valdi hv. Alþ., hvort hér verður aðeins um sýndarfrumvörp að ræða. Er til meiri hl. á hv. Alþ. fyrir því að samþykkja nauðsynlegar aðgerðir til aukningar atvinnuveganna og til þess að koma þeim byggðarlögum til aðstoðar, sem nú eru í yfirvofandi hættu? Úr því sker reynslan. Ég vil þó mega vænta þess, að svo sé. Ég vil svo leggja til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjhn.