08.11.1954
Neðri deild: 14. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í C-deild Alþingistíðinda. (2168)

81. mál, útsvör

Flm. (Einar Ingimundarson):

Herra forseti. Ég flyt ásamt fjórum öðrum hv. þdm. frv. til l. um breyt. á l. um útsvör, nr. 66 12. apríl 1945, þess efnis, að síldarsöltun og síldarverzlun skuli vera útsvarsskyld á þeim stöðum, þar sem hún er rekin, án tillits til þess, hvort hún er þar skrásett eða ekki. Frv. svipaðs efnis hafa áður verið flutt hér á hinu háa Alþ., en ekki náð fram að ganga.

Eins og ég sagði, felur þetta frv. þá breytingu frá gildandi lögum í sér, að síldarsöltun skuli vera útsvarsskyld á þeim stöðum, þar sem hún er rekin, eða a. m. k. megi leggja á hana þar útsvar, hvort sem sá, sem það gerir, er þar heimilisfastur eða ekki og hvort sem atvinnureksturinn er þar skrásettur eða ekki. Ef atvinnurekstur, t. d. síldarsöltun, er skrásettur þar, sem hann er rekinn, hvort sem sá, sem það gerir, á þar lögheimili eða ekki, er hann samkv. gildandi lögum útsvarsskyldur þar, og hefur því þetta frv., ef að lögum yrði, engin áhrif á álagningu útsvara á slíkan atvinnurekstur.

Það gæti að vísu farið svo og hlýtur raunar að fara svo, ef þetta frv. öðlast lagagildi, að þeir aðilar, sem átt er við í frv. þessu, verði útsvarsskyldir eða a. m. k. megi leggja á þá útsvar á fleiri stöðum en einum. Þó má að sjálfsögðu ekki leggja á sömu tekjur þeirra nema á einum stað. Ég viðurkenni það, að aðalregla útsvarslaganna er, að útsvar megi aðeins leggja á gjaldanda á einum stað og þá þar, sem hann á lögheimili, en frá þessari aðalreglu eru gerðar nokkrar undantekningar í útsvarslögunum eins og þau eru nú, og eru þær undantekningar taldar upp í stafliðum a–e í 8. gr. útsvarslaganna. Með breyt. þeirri, sem hér liggur fyrir, er því aðeins lagt til, að bætt verði inn í lögin einu undantekningarákvæði í viðbót, og á það við síldarsöltun og síldarsölu, þ. e. a. s., að sá atvinnurekstur verði útsvarsskyldur þar, sem hann er rekinn, og er þetta nýja tilvik mjög svipað þeim tilvikum, sem fyrir eru þegar í lögunum.

Á síldarsöltunarstöðunum á Norður- og Austurlandi eru margar síldarsöltunarstöðvar reknar af mönnum, sem þar eiga ekki lögheimili og dvelja þar stuttan tíma hvers árs, og er vitanlega mest um þetta á Siglufirði, enda eru síldarsöltunarstöðvarnar þar langsamlega flestar saman komnar á einum stað á landinu. Sumir þessara aðila og kannske flestir þeirra hafa skrásett atvinnurekstur sinn á þeim stöðum, þar sem hann er rekinn, og greiða þar af honum skatta og skyldur, eins og vera ber. Þarf ekki að taka það fram, að að sjálfsögðu greiða þessir aðilar skatta og skyldur af öðrum atvinnurekstri sínum og öðrum atvinnutekjum þar, sem þeir eiga lögheimili. En aðrir, sem reka nákvæmlega sömu starfsemi á sömu stöðum, greiða ekki eyri í útsvar til þeirra staða, sem atvinnurekstur þeirra er stundaður á, aðeins vegna þess, að hann er skrásettur sem fyrirtæki eða á nafn gjaldandans, þar sem hann á lögheimili. Sé ég ekki, að neitt samræmi eða réttlæti sé í þessum mismunandi útsvarsálagningarreglum á nákvæmlega sömu starfsemi, sem rekin er á sömu stöðum.

Til að leggja áherzlu á, að það hafi verið ætlun löggjafans, að atvinnusveitir nytu a. m. k. einhvers hluta útsvara þeirra, sem reka atvinnu utan heimilissveitar sinnar, eru í 9. gr. gildandi útsvarslaga sett ákvæði um skiptingu útsvara slíkra aðila milli atvinnusveitar og heimilissveitar, og er þá gangurinn í álagningunni sá, að útsvarið er lagt á þar, sem gjaldandinn á lögheimili, en síðan gerir það sveitarfélag, þar sem atvinnureksturinn er stundaður, kröfu um skiptingu til þess sveitarfélags, sem hefur lagt útsvarið á. Og í 2. tölul. þessarar greinar, þ. e. a. s. 9. gr., er einmitt síldarverkun og síldarsala nefnd sem einn af þeim atvinnurekstri, sem skipta má útsvari á milli atvinnusveitar og heimilissveitar.

Um þessar skiptingarreglur má í stuttu máli segja, að þær hafa gefizt illa, og þykir forráðamönnum þeirra sveitarfélaga, sem mestra hagsmuna eiga að gæta í þessum málum, lítt við þær unandi. Er framkvæmd þeirra vafsturssöm og seinvirk og nær þar að auki ekki til nema tekjuútsvars gjaldanda. Og ég veit um, að af þessum sökum, þ. e. a. s. vegna þess, hvað þessi aðferð er vafsturssöm og seinvirk, hafa atvinnusveitir með öllu látið undir höfuð leggjast að gera kröfu um skiptingu útsvara til heimilissveita, þó að þær að öðru leyti gætu það og öll skilyrði væru fyrir hendi til, að þær kynnu að bera eitthvað úr býtum eftir þeirri kröfu sinni. Auk þess er þess að gæta, að útsvör eru lögð á, eins og allir vita, eftir talsvert ólíkum útsvarsstigum eftir því, hvar er á landinu, og með slíkri skiptingu getur útkoman orðið sú, að atvinnusveit fær hluta af útsvari, sem er lagt á eftir talsvert öðrum reglum en notaðar eru þar, sem atvinnureksturinn er stundaður. Eftir gildandi útsvarslögum getur því svo farið og hefur þráfaldlega komið fyrir, að aðilar, sem hafa e. t. v. aðalatvinnu sína og aðaltekjur sínar af síldarsöltun slíkri sem hér er átt við, greiði ekki einn einasta eyri í útsvar til þeirra staða, þar sem atvinnureksturinn er stundaður. Er vitanlega engin sanngirni og réttlæti í því.

Ég tel svo ekki ástæðu á þessu stigi málsins til að fara fleiri orðum um þetta mál, en óska þess, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. allshn.