24.02.1955
Neðri deild: 52. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í C-deild Alþingistíðinda. (2219)

155. mál, lækkun verðlags

Flm., (Bergur Sigurbjörnsson):

Herra forseti. Núverandi stjórnarflokkar, Sjálfstfl. og Framsfl., hafa um langa hríð farið með pólitískt vald hér á landi, oftast báðir saman og studdir öruggum og yfirgnæfandi meiri hluta á Alþingi. Stefna þessara flokka beggja hefur því mótað efnahagsþróunina innanlands allt þetta tímabil, og hefur áhrifa annarra flokka á þá þróun lítið gætt, einkum hin síðari ár, þar sem það hefur sífellt farið í vöxt, að hinn öruggi þingmeirihluti stjórnarflokkanna virti að vettugi allar till. þingminnihlutans. sem áhrif gátu haft á þróun efnahagsmálanna. Með þeim vinnubrögðum, sem ýmsum hafa að vonum fundizt allólýðræðisleg, hafa núverandi stjórnarflokkar tekið á sig ábyrgð af þessari þróun og firrt sig því að geta skotið sér undan þeirri ábyrgð. Þróuninni sjálfri þarf ekki að lýsa, til þess er hún landslýð öllum of kunn og átakanlega áþreifanleg. Árið 1950 leiddi þessi þróun til þess, að fella þurfti gengi íslenzks gjaldmiðils gagnvart erlendum um 74.3%, eða meira en dæmi eru til áður í sögu þjóðarinnar. Það var stærsta skipbrot, sem stefna núverandi stjórnarflokka í efnahagsmálum hafði til þess tíma beðið. Í hagfræðilegri álitsgerð, sem prentuð var með gengisfellingarfrumv. og er því til í þingskjölum, var m. a. svo að orði komizt á bls. 50, með leyfi hæstv. forseta:

„Afleiðingarnar af gengisfellingunni verða ekki til að rýra afkomu þjóðarinnar. Má segja, að hún (þ. e. gengisfellingin) sé skref í þá átt að bæta afkomu manna, en ekki gera hana lakari. Framleiðsluöflin verða þá nýtt betur, og fleira fólk fær þá atvinnu í útflutningsframleiðslunni. Gengislækkunina teljum við óhjákvæmilegt skref á þá átt að koma meira jafnvægi á þjóðarbúskapinn.“

Þegar þessi spádómsorð svonefndra ráðunauta ríkisstj. eru athuguð nú, aðeins fimm árum síðar, verður mönnum það fyrst fyrir í ljósi þess, sem síðan hefur gerzt, að álita, að þau hafi verið í háði mælt, en ekki alvöru. Stafar það af því, að nú er öllum ljóst og var reyndar þá þegar, að með þeirri framkvæmd, sem á var höfð, þegar gengið var fellt 1950, hlutu brimöldur nær óbærilegrar kjaraskerðingar að skella á herðum almennings, en ávinningur sá, sem sjávarútveginum var ætlaður, að hverfa á mjög skömmum tíma. Þessi varð og raunin, eins og mönnum er kunnugt. Og tæpu ári eftir að gengið var fellt, þurfti að grípa til þess að setja á tvöfalt gengi til þess að bjarga bátaflotanum, og var þá á ný fellt stórlega gengi á krónunni gagnvart verulegum hluta af gjaldeyristekjunum eða um 25% af þeim. Og rúmu ári eftir hina miklu allsherjar læknisaðgerð, sem gengislækkunin 1950 átti að verða, við þeirri meinsemd, sem stefna núverandi stjórnarflokka hafði til þess tíma verið þjóðfélaginu, var svo komið, að í maí 1951 sáu þessir sömu flokkar sig neydda til að fórna landsréttindum og skerða sjálfstæði þjóðarinnar fyrir atvinnu og brauð. Var það gert, svo sem kunnugt er, með því að leyfa erlendum her dvöl og bækistöðvar í landinu og nýtingu innlends vinnuafls, sem hafði í för með sér síaukin vandkvæði fyrir landbúnað og sjávarútveg og fleiri atvinnugreinar landsmanna sjálfra. Spádómsorð hinna svonefndu ráðunauta ríkisstj. um betri nýtingu framleiðsluaflanna og að fleira fólk fengi atvinnu í útflutningsframleiðslunni hafa því rætzt á þann veg, að framleiðsluatvinnuvegirnir hafa dregizt saman, vegna þess að fólk streymdi frá þeim, en ekki til þeirra eins og spámennirnir höfðu sagt. Og nú á árinu 1955 hefði meginþorri fiskiflotans íslenzka legið í höfn, hefði það ólán ekki að borið hjá einni frændþjóð okkar og hinni minnstu á Norðurlöndum, að efnahagslíf hennar og atvinnumöguleikar voru lamaðir og í kaldakoli, svo að þegnar hennar voru neyddir til að leita sér atvinnu utan heimalandsins, m. a. við að koma úr höfn fiskiflotanum íslenzka.

Á árinu 1954 var svo komið, að svonefndir nýsköpunartogarar, stórvirkustu framleiðslutæki landsmanna, þurftu að leita á náðir ríkisstj. um styrk, þar sem talið var, að rekstur þeirra bæri sig ekki lengur þrátt fyrir það hagræði, sem gengisfellingin 1950 átti að verða togaraútgerðinni. Nefnd, sem fjallaði um þessi mál á s. l. ári, taldi sannað, að árlegt tap nýsköpunartogaranna næmi að meðaltali nær einni millj. króna á skip á ári. Hæstv. ríkisstj. varð tiltölulega vel við neyðarkalli togaraeigenda og felldi stórlega gengi krónunnar gagnvart gjaldeyri, sem varið skyldi til kaupa m. a. á atvinnutækjum bifreiðastjóra. Ekki var þessi ráðstöfun þó í fullu samræmi við það hagræði, sem svonefndir ráðunautar hæstv. ríkisstj. töldu að togararnir hefðu af gengisfellingunni 1950.

Í 11. gr. gengisfellingarlaganna frá 1950 segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Framleiðslugjald skal lagt á verðmæti þeirra sjávarafurða, sem nýju togararnir afla, hvort sem þeir leggja afla sinn hér á land eða selja hann erlendis. Gjaldið skal nema 25% af því, sem er umfram 8500 £ sölu. Af brúttóverðmæti sjávarafurða nýju togaranna, annarra en ísfisks og síldar. skal greiða 10%.“

Og í grg. ríkisstj. með frv. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hætt er við, að óeðlilegur gróði í þessum atvinnugreinum (þ. e. hjá togurunum og síldveiðiflotanum) leiði til kauphækkana í þeim, er svo aftur kalla á kauphækkanir hjá bátaflotanum. Með þessu er stefnt í nýjan voða. Er leitazt við að girða fyrir það með því að skattleggja aðrar atvinnugreinar, sbr. 11. gr. frv. Má vera, að skattur sá þyki allþungbær, en í þessum efnum hafa hagfræðingarnir stuðzt við ýmsar öruggar heimildir, en stjórnin farið eftir till. þeirra.“

Þannig voru þau merku spádómsorð 1950. Má vera, að ýmsum finnist þau nú fremur háð en vizka.

Ég hef áður vitnað til þeirra ummæla, er greindu frá því, að gengisfellingin væri óhjákvæmilegt skref til að koma meira jafnvægi á þjóðarbúskapinn. Um þetta jafnvægi segir svo í skýrslu Landsbankans 1953, með leyfi hæstv. forseta:

„Er það ljóst, að ný verðbólguskrúfa, sem á einkum rót sína að rekja til varnarliðsframkvæmdanna og mikillar fjárfestingar samfara ónógum sparnaði, mun ná æ fastari tökum á efnahagskerfinu, áður en langt liður, ef ekki er spyrnt við fæti.“

Og í Fjármálatíðindum, sem gefin eru út af hagfræðideild Landsbankans í september 1954, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar litið er á þróun peningamála undanfarin tvö ár, er augljóst, að hér hefur átt sér stað gífurleg peningaþensla, en hún hefur ásamt framkvæmdum varnarliðsins og mikilli fjárfestingu verið höfuðorsök vaxandi verðbólgu.“

Og í desemberhefti Fjármálatíðinda 1954 segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Gífurleg þensla hefur verið í efnahagskerfinu síðustu tvö árin.“

Þannig var því jafnvægið í þjóðarbúskapnum í reynd, sem sérfræðingar ríkisstj. sáu fyrir árið 1950 sem afleiðingu af gengisfellingunni.

Ég hef í þessum orðum ekki kveðið upp neinn dóm frá sjálfum mér um þróun efnahagsmálanna í valdatíð núverandi stjórnarflokka síðan 1950, heldur aðeins drepið á örfáar af mýmörgum staðreyndum og lesið nokkur dómsorð, upp kveðin af stuðnings- og samstarfsmönnum hæstv. ríkisstj. um þessa þróun.

Þau atriði, sem ég hef hér rakið, vita eingöngu að öðrum þáttum efnahagslífsins en kjörum almennings. Stafar það af því, að stuðningsmenn núverandi stjórnarflokka hafa vendilega þagað um þá þróun, svo að ég get ekki vitnað til ummæla þeirra í því efni. Er þögn þeirra um þau mál mjög skiljanleg og í sjálfu sér allhávær, þegar þess er gætt, að annar meginþáttur gengislækkunarfrv. frá 1950 var í því fólginn að binda vísitöluna og falsa og koma í veg fyrir, að tekjur almennings hækkuðu til samræmis við gengislækkunina, skattleggja framleiðslu togaranna, til þess að kaupgjald gæti ekki hækkað þar, en þyngja jafnframt tollabyrðina á almenningi að krónutölu í hlutfalli við hækkunina á erlendum gjaldeyri. Og af því mætti ef til vill nokkurn lærdóm draga, hvernig gengisfellingin, sem var ekki gerð til að auka kaupmátt launanna, muni hafa leikið verkamenn, launþega og bændur, þegar hún hefur komið hinum á vonarvöl, sem hún átti að bjarga, og rekið togaraútgerðina í strand, sem átti að hafa slíkan ofsagróða af gengisfellingunni, að talið var nauðsynlegt að skattleggja hana sérstaklega.

Óþarft er að fjölyrða um þá kjaraskerðingu, sem almenningur hefur beðið af gengisfellingunni 1950 og þeirri gífurlegu verðbólguþróun, sem síðan hefur stöðugt færzt í aukana, eins og framangreind ummæli úr Landsbankaskýrslunni og Fjármálatíðindum staðfesta óumdeilanlega. Þó hafa þau athyglisverðu tíðindi gerzt með okkar þjóð á þessu tímabili, að hin skipulögðu verkalýðssamtök hafa ekki enn þá beitt samtakamætti sínum til að knýja fram kauphækkanir og gera á þann hátt tilraun til að létta af herðum almennings því oki, sem gengisfellingin 1950 varð og þróun efnahagsmálanna allar götur síðan. Síðla árs 1952 var að vísu svo komið, að verkamenn gátu með engu móti framfleytt skylduliði sínu á mannsæmandi hátt vegna óhemju hækkana á vöruverði, sem að nokkru leyti stöfuðu af gengisfellingunni 1950, en að sumu leyti af því, að núverandi valdhafar gáfu álagningu á flestar vörutegundir frjálsa. En þá gerðust þau tíðindi, sem sýndu það óumdeilanlega, hvaða öfl það eru í íslenzku þjóðfélagi, sem hafa nægilegt siðferðisþrek og skilning á vandamálum og viðfangsefnum íslenzkrar þjóðar til að geta farið með hið viðkvæma og vandmeðfarna pólitíska vald í þjóðfélaginu. Í stað þess að fara troðnar slóðir og krefjast kauphækkana að krónutölu án tillits til þess, hverjar afleiðingar slíkt hefði í för með sér fyrir verðbólguskrúfuna og framtíð íslenzkrar efnahagsþróunar, braut verkalýðshreyfingin sér nýja leið gegn hinum ábyrgðarlausu afturhaldsöflum í valdastólunum og krafðist lækkunar á verzlunarokri og þar með lækkunar á verðbólgu og dýrtíð. Þetta var vandrötuð leið og villugjörn, enda reyndist það svo, að þrátt fyrir mjög mikilvægan sigur treysti verkalýðshreyfingin um of á loforð og samninga valdhafanna og krafðist ekki þess eftirlits um, að samningunum væri framfylgt, sem reynslan hefur leitt í ljós að nauðsynlegt var. Og nú, þegar hefur enn dregið að því, að verkalýðshreyfingunni er nauðugur einn kostur að hefja á ný kjarabaráttu, til þess að íslenzk alþýðuheimili búi ekki við beinan skort, hafa þau merku og óvæntu tíðindi gerzt, að verkalýðsfélögin hafa frestað þeim verkföllum, sem boðuð höfðu verið, ef takast mætti að ná raunhæfum kjarabótum verkalýðnum til handa, án þess að þjóðarbúið þyrfti að bíða framleiðslutjón af þeirri sjálfsögðu og óhjákvæmilegu ráðstöfun, sem það er, að alþýðustéttir landsins fái raunhæfar kjarabætur.

Ég tel vafasamt, að skipulögð verkalýðssamtök, sem ekki fóru með pólitískt vald í þjóðfélagi, hafi nokkru sinni fyrr sýnt það siðferðisþrek og þá ábyrgðartilfinningu fyrir hag og velferð þjóðarheildarinnar, sem íslenzk verkalýðshreyfing hefur gert með þeim dæmum, sem ég hef nú nefnt.

En hver er afstaða þeirra afturhaldsafla, sem nú fara með pólitískt vald í okkar þjóðfélagi og ábyrgust ættu að vera um afkomu alþýðu landsins og þróun efnahagsmálanna? Þeirri staðreynd, að aðalatvinnuvegir þjóðarinnar eru nú komnir á vonarvöl vegna vinnuaflsskorts og vaxandi verðbólgu, þeirri staðreynd, að kjör alþýðustéttanna eru nú óbærileg orðin vegna vaxandi verðbólgu og dýrtíðar, þeirri staðreynd, að sparifjársöfnun er alls ónóg fyrir þarfir atvinnulífsins vegna vantrausts á gjaldmiðlinum, sem stafar fyrst og fremst af vaxandi verðbólgu, þeirri staðreynd, að færustu sérfræðingar hafa eindregið og á mjög áberandi hátt ráðlagt og talið óumflýjanlega þjóðarnauðsyn að lækka verðlag á innlendum markaði og draga á þann hátt úr verðbólgunni og skapa traustan og heilbrigðan gjaldmiðil, sbr. Fjármálatíðindi Landsbankans, — öllum þessum staðreyndum hefur hæstv. núverandi ríkisstj. svarað með hótunum um og undirbúningi að nýrri gengisfellingu. Þessi boðskapur kom svo ljóslega fram í áramótaræðu hæstv. forsrh., að enginn gat né hefur um hann efazt, enda hafa þau öfl, sem græða á gengisfellingu, starfað linnulaust að því að búa sig undir gengisfellingu síðan. Með nýrri gengisfellingu og aukinni kjaraskerðingu almennings og skefjalausri verðbólguþróun hyggjast núverandi valdhafar skapa gjaldmiðlinum aukið traust og örva þá sparifjársöfnun almennings, sem atvinnulífi og framförum þjóðarinnar er lífsnauðsyn og gott og framsækið þjóðfélag getur ekki án verið. Öllum hugsandi mönnum er ljós sú staðreynd, og einkum eftir reynsluna frá 1950, að ný gengisfelling er ekki til hagsbóta fyrir atvinnuvegi eða alþýðu þessa lands. Allir skilja þá augljósu staðreynd, að endurteknar gengisfellingar skapa glundroða og efnahagsöngþveiti og gera þá ríku ríkari og þá fátæku sífellt fátækari. Þeir, sem hafa aðstöðu til að sölsa undir sig fasteignir og framleiðslutæki fyrir gengisfellingu með því að taka sparifé almennings að láni í peningastofnunum og endurgreiða það með verðfelldum krónum eftir gengisfellinguna, græða á gengisfellingunni, en þjóðin tapar að öðru leyti. Vandamál þau, sem þjóðfélagið á við að stríða, yrðu torleysanleg eða óleysanleg með öllu. Það er nú af öllum talið mjög æskilegt að hraða sem mest má verða rafvæðingu landsins. Þetta viðfangsefni er nú talið mjög torleysanlegt vegna þess. hve kostnaðarsamt það er, miðað við eftirtekjurnar og það atvinnulíf, sem bera verður uppi höfuðþungann af kostnaði við slíkar framkvæmdir, ef vel á að vera. Þetta vandamál yrði a. m. k. fyrir hinar dreifðu byggðir landsins með öllu óleysanlegt sökum gífurlega aukins kostnaðar eftir nýja gengisfellingu eða gengisfellingar, því að hætta er á, að ekki yrði staðnæmzt á braut gengisfellinganna, ef út á hana yrði lagt að nýju, og er það sjónarmið staðfest af hæstv. forsrh. í áramótaræðu þeirri, er ég áðan vitnaði til.

Allir virðast þó skilja, að þjóðinni sé lífsnauðsyn að koma upp nýjum, stórvirkum atvinnu- og framleiðslutækjum til að auka velmegun þjóðarinnar og sjá vaxandi þjóðfélagi fyrir lífvænlegum atvinnuskilyrðum. Hingað til hafa þó framkvæmdir í þessa átt strandað á fjárskorti og því, hve kostnaðarsöm slík framleiðslufyrirtæki voru í stofnun, miðað við það fjármagn, sem til umráða var í landinu sjálfu eða utan þess. Má þar til nefna sérstaklega sementsverksmiðjuna, en öllum mönnum er jafnljóst, að þetta viðfangsefni yrði enn þá torleystara eða óleysanlegra eftir nýja gengisfellingu eða gengisfellingar sökum þess, hve hröðum skrefum stofnkostnaður slíkra framkvæmda yxi með gengisfellingum, þar sem mestallt efni og vélar verður að kaupa erlendis. Enn er öllum ljóst, hve geigvænlegt ástand í húsnæðismálum mikill hluti þjóðarinnar á við að búa. Þetta vandamál verður ekki leyst nema með því að byggja meira en nú er gert og tök eru á að gera. Það, hve mikið íbúðarhúsnæði er byggt, fer m. a. eftir því, hve dýrt er að byggja. Það er öllum ljóst, að byggingarkostnaður er nú svo hár, að efnalitlu fólki er nær algerlega ofviða að eignast þak yfir höfuðið nema með sérstökum ráðstöfunum hins opinbera, og þess vegna er það vandamál jafnátakanlegt og raun ber vitni. En einnig þetta vandamál verður alþýðu landsins nær óleysanlegt eða óleysanlegt með öllu eftir nýja gengisfellingu eða gengisfellingar vegna hins mikla kostnaðarauka, sem slíkri þróun yrði samfara. Lausn húsnæðisvandamálsins yrði við þær kringumstæður einkamál hinna ríkustu, sem mundu að sjálfsögðu leysa það á þann hátt, að samanlagður gróði þeirra af húsaleiguokri yrði sem mestur. Sama er að segja um öll framleiðslutæki. Menn vita, hve auðvelt það er frumbýlingum og efnalitlu fólki í sveit að eignast bú og bústofn í dag, en eftir nýjar stórfelldar verðhækkanir, sem fylgja mundu eins og skuggi í kjölfar endurtekinna gengisfellinga, yrði þetta ókleift með öllu. Um önnur framleiðslu- og atvinnutæki og fasteignir gegnir sama máli. Þannig er það lögmál endurtekinna gengisfellinga að gera þá fátæku sífellt fátækari og þá ríku ríkari.

En ný gengisfelling mundi bera fleira í skauti sér en það, sem nú hefur verið hér greint frá. Óhjákvæmileg afleiðing af slíkri þróun er sívaxandi kjarabarátta og síharðnandi. Þó að verkalýðshreyfingin hafi sýnt það nær ofurmannlega siðferðisþrek að þola stærstu gengisfellingu í sögu þjóðarinnar án þess að grípa til gagnráðstafana, eingöngu í þeim tilgangi að reyna að forða efnahagslegu hruni þjóðarbúsins, má að sjálfsögðu ekki gera ráð fyrir, að hún gæti gert slíkt til langframa, hversu fegin sem hún vildi. Við endurteknar gengisfellingar ætti verkalýðshreyfingin enga aðra nauðvörn til en harðnandi kjarabaráttu, sem leiða mundi til nýrra gengisfellinga, og þannig áfram. Endalokin ættu öllum sjáandi mönnum að vera ljós. Afturhaldsöflin mundu afsala sjálfstæði landsins í hendur þess erlenda valds, sem aðgangsharðast hefur verið hér á landi að undanförnu. Það er því þjóðinni lífsnauðsyn að leita sér einhverra þeirra ráða til að afla alþýðustéttum landsins raunhæfra kjarabóta, er tiltæk væru og jafnframt gætu komið í veg fyrir þá þróun, sem ég hef hér lýst.

Með hliðsjón af því og þeim viðhorfum í efnahags- og atvinnumálum, sem ég hef hér í fáum dráttum rakið, höfum við þm. Þjóðvfl. flutt frv. það, sem hér er til umr., um lækkun verðlags, og prentað er á þskj. 384. Hér er um að ræða heildarlöggjöf, þar sem ýmsum atriðum hálfsundurtættrar löggjafar, sem nú er í gildi, eins og lögum um dýrtíðarráðstafanir og lögum um verðlagsdóm, er steypt saman í eitt frv. og breytt í samræmi við eðli máls og samræmt þeim meginatriðum, sem eru nýmæli í frv., en síðan lagt til. að eldri lagaákvæði yrðu úr gildi felld við samþykkt frv. Að þessu leyti ætti meginmál frv. að vera hv. þm. kunnugt, þar sem það hefur verið til umræðu hér á þingi síðan á árinu 1943, ýmist í lög tekið eða úr gildi fellt. Má telja það frv. til gildis, að þar er á einn stað safnað ýmsum löggjafaratriðum og þau felld í ljóst og auðskilið form, lögum, sem nú eru á mörgum stöðum og lítt aðgengileg eða skiljanleg þingmönnum, hvað þá almenningi. Þar að auki var nauðsynlegt að hafa þennan hátt á, til þess að afgreiðsla málsins geti gengið fljótar fyrir sig hér á þingi en ella hefði orðið, en það er höfuðnauðsyn að hraða afgreiðslu þessa máls svo sem föng eru á, ef það á að geta komið í veg fyrir þá þróun, sem ég lýsti hér áðan.

Eins og nafn frv. ber með sér, er megintilgangurinn með flutningi þess sá að lækka verðlag til mikilla muna í landinu og afla alþýðu landsins á þann hátt raunhæfa kjarabóta með auknum kaupmætti launa, jafnframt því sem dregið yrði verulega úr verðbólguþróuninni og tekið fyrir eina af höfuðorsökum hennar, en slíkar ráðstafanir miða einnig að því marki að auka traust og heilbrigði gjaldmiðilsins. sem hinir færustu sérfræðingar telja höfuðnauðsyn, eins og sakir standa, til þess að koma efnahagskerfinu á heilbrigðan grundvöll. Að þessu leyti er frv. því í fullu samræmi við skoðanir þeirra sérfræðinga, er láta álit sitt um þróun íslenzkra efnahagsmála í ljós í desemberhefti Fjármálatíðinda. Það er einnig að því leyti í samræmi við skoðanir þessara sérfræðinga, að það miðar að því að lækka verðlag í landinu, sem þeir telja frumskilyrði þess, að unnt sé að gera innflutning frjálsan, en það telja þeir nauðsynlegt, ef Íslendingar eiga ekki að reyrast æ fastar í fjötra hafta og vöruskiptaverzlunar, eins og dr. Jóhannes Nordal orðar það í grein sinni í Fjármálatíðindum. Mun ég víkja nánar að því atriði síðar.

Þrjú meginatriði frv. þykir mér ástæða til að ræða hér nokkru nánar en gert er í grg. þeirri, sem fylgir frv., enda þótt hún sé allýtarleg.

Hið fyrsta er, að í I. kafla frv. er lagt til, að söluskattur verði lækkaður mjög verulega frá því, sem nú er. Er lagt til, að hann falli .alveg niður í smásölu og af þjónustu og innlendum iðnaðarvörum, en verði auk þess lækkaður á innfluttum vörum í heildsölu. Nú er söluskattur lagður á fob-verð að viðbættum aðflutningsgjöldum og 10% áætlaðri heildsöluálagningu, en í frv. okkar er gert ráð fyrir, að álagsgrundvöllurinn lækki sem nemur þessari 10% áætluðu álagningu. Hvað mikilli heildarlækkun á innheimtum söluskatti þessar lækkunartill. nema, get ég ekki upplýst nákvæmlega á þessu stigi málsins, en gera má ráð fyrir, að það séu um 50–60 millj. kr. á ári. Ef hæstv. ríkisstj. skyldi halda því fram, að þessum tekjumissi gæti ríkissjóður ekki fórnað til að draga úr verðbólguþróuninni, auka kaupmátt launa verkamanna og annarra alþýðustétta og stuðla að heilbrigði og trausti gjaldmiðilsins og æskilegri efnahagsþróun innanlands, þá vil ég leyfa mér að benda á það nú þegar, að það væri röng skoðun. Ríkissjóður hefur engan hag til langframa af efnahagsöngþveiti, verðbólguþróun og almennu vantrausti á gjaldmiðlinum, og þess vegna hefur ríkissjóður efni á því einu, sem miðar að því að stöðva eða koma í veg fyrir þá þróun. Þar að auki mundi ávinningur ríkisins af almennum verðhækkunum svo mikill, að hann mundi vega að verulegu leyti upp þann tekjumissi, sem sú lækkun á söluskattinum, sem frv. okkar felur í sér, hefði í för með sér. Auk þess vil ég leyfa mér að benda á, að ríkissjóður hefur að undaförnu haft um 100 millj. kr. tekjur umfram fjárl. árlega og mundi enn þá hafa að óbreyttu ástandi og hefði því mjög rífleg fjárráð, þó að þessar umframtekjur lækkuðu nokkuð.

Ég vil og benda á, að þó að tekjur ríkissjóðs lækkuðu ekki nema um 50–60 millj. kr. árlega við þá lækkun á söluskattinum, sem hér um ræðir. mundi mun þyngri byrðum velt af herðum almennings með þessu móti. Enginn mótmælir því, að hér á landi sé um að ræða mjög mikinn undandrátt á tekjum til skattgreiðslu og þá einkum hjá þeim aðilum. sem innheimta eiga söluskatt fyrir ríkissjóð. Af því leiðir, að þessir sömu aðilar geta ekki. þó að þeir vildu, greitt allan þann söluskatt, sem þeir innheimta af almenningi, í ríkissjóð. Ef þeir gerðu það, kæmist von um skattsvik þeirra að öðru leyti og allt yrði uppvíst. Þess vegna eru þeir beinlínis neyddir til að gera innheimtu söluskattsins að tekjulind fyrir sjálfa sig, og eru það ótaldar upphæðir, sem þannig renna úr vasa almennings til gróðastéttanna í skjóli ranglátra og óskynsamlegrar löggjafar. Er mér nær að halda, að þær upphæðir, sem þannig gætu komið fram, mundu verða svipaðar og þær 50–60 millj. kr., sem ég geri ráð fyrir að söluskatturinn lækki um.

Annað meginatriði í frv. okkar er það, að við leggjum til, að verðlagseftirlit verði tekið upp að nýju á öllum innfluttum vörum og innlendum iðnaðarvörum, en auk þess sé heimilt að ákveða verð á hverju því, er máli skiptir fyrir verðlag í landinu, ef þurfa þykir. Er þetta gert fyrst og fremst til að lækka vöruverð og draga úr verðbólgunni og afla almenningi raunhæfra kjarabóta. En í sambandi við niðurfellingu söluskatts er verðlagseftirlit þar að auki nauðsynlegt til að tryggja, að verðlag lækkaði til samræmis við niðurfellingu söluskattsins. Reynslan af því verzlunarokri, sem átt hefur sér stað síðan álagningin var gefin frjáls að mestu af núverandi valdhöfum, hefur sýnt, svo að ekki verður um villzt, að ef söluskattur yrði felldur niður, án þess að jafnframt yrði tekið upp verðlagseftirlit, mundi verzlunarstéttin hugsa á þann veg, að vörurnar hefði verið unnt að selja á núverandi verði með söluskatti og það mundi enn unnt, þó að lögin væru fallin úr gildi, og því væri nú fundin auðveld leið til að auka gróðamöguleikana með því að lækka ekki verðlagið, heldur breyta söluskattinum í hreina verzlunarálagningu.

En auk þessa hefur reynslan frá verkföllunum í desember 1952 sýnt það ómótmælanlega, að eigi verkalýðsstéttirnar að öðlast raunhæfar kjarabætur með lækkun verzlunarálagningar, þá verður að taka upp verðlagseftirlit, því að ef enn væru gerðir frjálsir samningar um lækkun verzlunarálagningar eins og 1952, mundi verzlunarstéttin ná upp þeirri lækkun á hinni svokölluðu álagningarprósentu með því að hækka aðra kostnaðarliði í verðlagsútreikningunum, eins og gert var eftir samningana 1952. Þetta útilokar það, að verkalýðssamtökin geti aftur gengið að frjálsum samningum um þetta atriði, og gerir verðlagseftirlit óhjákvæmilegt.

Þeirri spurningu, hve miklar kjarabætur alþýða landsins gæti öðlazt með því, að verðlagseftirlit yrði upp tekið, er erfitt að svara á þessu stigi málsins. Stafar það af því, að engar heildarskýrslur eða gögn um söluverð vöru og verðlag eru fyrir hendi. Óefað yrðu þær kjarabætur þó mjög verulegar. Síðustu aðgengilegu upplýsingar, sem fyrir hendi eru um álagningu, er að finna í skýrslu verðgæzlustjóra frá des. 1953, en sú skýrsla er byggð á örfáum dæmum, völdum af handahófi, og veitir því mjög ófullnægjandi upplýsingar. Af þessari skýrslu má þó sjá, að heildsöluálagning á 46 sendingar af algengri vefnaðarvöru var frá 8.4–77.1%, og voru aðeins þrjár sendingar af 46 með 8.4–9.3% álagningu, og ein með 77.1%. Heildsöluálagning á algengustu tegundir vefnaðarvöru, sem leyfð var samkv. síðustu verðlagsákvæðum, áður en þau voru afnumin, var hins vegar aðeins 6½%, en meðalheildsöluálagningin á þær 46 sendingar, sem frá greinir í skýrslu verðgæzlustjóra, reyndist hins vegar 17.7%, eða nær þrefalt hærri en verðlagseftirlitið hafði heimilað. Álagning á vefnaðarvöru, ef smásali flutti inn beint, var heimiluð 26% samkv. síðustu verðlagsákvæðum, en reyndist á 13 sendingum, sem greint er frá í skýrslu verðgæzlustjóra, að meðaltali um 50%, eða frá 35.3% upp í 89.3%. Samanlögð heildsölu- og smásöluálagning á bómullarefni var samkv. verðlagsákvæðum, er í gildi voru, heimiluð 31%, en reyndist að meðaltali 55.8% á nokkrum sendingum, sem greint er frá í skýrslu verðgæzlustjóra í des. 1953. Álagning á rafmagnsheimilistæki var samkv. síðustu verðlagsákvæðum heimiluð 15%, en reyndist að meðaltali 51% á nokkrum sendingum, sem greint er frá í skýrslu verðgæzlustjóra, en hér er, eins og kunnugt er, um bátagjaldeyrisvörur að ræða. Hafði þessi álagning því meira en þrefaldazt.

Þetta eru aðeins örfá sýnishorn af því, hve álagning hefur hækkað, síðan hún var gefin frjáls, og því, hvernig lækka mætti hana á ný með því að taka upp verðlagseftirlit. Hér ber þess einnig að gæta, að skýrsla verðgæzlustjóra sýnir aðeins, hvað sá liður, sem kallaður er álagning, hefur hækkað mikið í nokkrum tilfellum, frá því að verðlagseftirlit var afnumið. Hitt sýnir skýrslan ekki, hve mikið aðrir kostnaðarliðir í verðútreikningunum hafa hækkað frá því, sem verðlagseftirlitið heimilaði, en víst er, að þeir liðir hafa sízt hækkað minna hlutfallslega en sjálf álagningarprósentan.

Samanburður á álagningarprósentunni gefur því aðeins mjög óljósa hugmynd um það, hve mikið vöruverðið gæti lækkað, ef verðlagseftirlit yrði tekið upp að nýju, eins og lagt er til í frv. okkar. Enn ber þess að gæta, að álagning hefur farið hækkandi síðan í des. 1953, og eru okurlánin þar ljósast vitni, sem nú eru orðin ómótmælt og opinbert leyndarmál, og þó að öll verzlun hér á landi gangi ekki fyrir okurlánum í dag, hefur verðlagið hækkað til samræmis við þau kjör, sem slík viðskipti leiddu til. A. m. k. hefur ekki orðið vart við neinn verulegan verðmismun hjá þeim, sem ekki ráku fyrirtæki sín með okurlánum, og hinum, sem gerðu það. Því miður get ég ekki á þessu stigi málsins gefið fyllri upplýsingar en þessar ábendingar um það, hve miklum raunhæfum kjarabótum fyrir verkamenn verðlagseftirlit fengi til vegar komið.

Eitt atriði er það enn í þessu sambandi, sem mér þykir hlýða að minnast á. Ef einhverjum af hv. þm. stjórnarflokkanna skyldi detta í hug að halda því fram, að við flm. þessa frv. stefndum að nýjum eða auknum höftum með flutningi þess, þá vil ég vinsamlegast benda þeim á að gera sig ekki að athlægi með því að halda slíkri firru fram.

Það vantaði svo sem ekki í gengislækkunarfrv. ríkisstj. 1950, að þar væri lofað afnámi hafta, frjálsum innflutningi og frjálsri verzlun. En hver hefur reyndin orðið í því efni? Hafa spámennirnir frá 1950 reynzt sannspárri um þessi atriði en önnur, sem ég ræddi í upphafi máls míns. Það er bezt að leiða samstarfs- og stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. til vitnis um það efni.

Í desemberhefti Fjármálatíðinda farast dr. Jóhannesi Nordal svo orð um þetta atriði, með leyfi hæstv. forseta:

„Loks er þess að minnast, að flestar lýðfrjálsar þjóðir stefna nú að því að koma á frjálsum gjaldeyrisviðskiptum, og verður þess ef til vill ekki langt að bíða, að því marki verði náð. Hætt er við, að hver sú þjóð, sem þá dregst aftur úr og getur ekki staðizt samkeppnina á hinum frjálsu mörkuðum, reyrist æ fastar í viðjar hafta og vöruskiptaverzlunar. — Íslendingar hljóta að spyrja sig þeirrar spurningar, hvort þeir séu ekki að verða eftirlegukindur í þróuninni í átt til frjálsari viðskipta. — Ef Íslendingar vilja forðast það hlutskipti og njóta í stað þess þeirra gæða, er frjálsari viðskipti mundu færa þeim, verða þeir að gera það að höfuðmarkmiði fjármálastefnu sinnar á næstunni að draga úr þenslunni í efnahagskerfinu og skapa sér traustan og heilbrigðan gjaldmiðil. — Það á áreiðanlega við um Ísland eins og önnur lönd, að frumskilyrði fyrir því að koma á jafnvægi út á við er að draga úr þenslunni innanlands, og einnig þarf að lækka verðlag til samræmis við það, sem er í öðrum löndum.“

Þeir, sem telja frjálsan innflutning mikilsvirði fyrir heilbrigði efnahagslífsins, ættu þess vegna að gera sér grein fyrir því, að því aðeins getur innflutningur þjóðar, sem hefur takmarkaðar gjaldeyristekjur, orðið frjáls, að gjaldeyriseftirspurn, sem stafar af óhóflegu verðlagi á innanlandsmarkaði, leiði ekki til gjaldeyrisskorts, en aldrei með því að flytja höftin frá Skólavörðustig og niður í Austurstræti.

Einnig má í þessu sambandi benda á það, að Norðmenn og Svíar hafa að undanförnu verið að undirbúa og athuga möguleika á því að herða á verðlagseftirliti og taka það upp að nýju til þess að draga úr verðbólguhættu og til þess að geta gefið innflutning frjálsan.

Þriðja meginatriðið í frv. okkar er það, að við leggjum til, að Alþýðusambandi Íslands sem umbjóðanda verkalýðssamtakanna verði fengið í hendur vald og skylda til að hafa með höndum verðlagsákvarðanir og framkvæma verðlagseftirlit í samræmi við ákvæði frv. Vera má, að afturhaldsöflunum kunni að finnast þetta of róttæk ráðstöfun. En á það má benda, sem ég hef áður bent á í ræðu minni, að verkalýðssamtökin hafa síðustu fimm ár og með frestun verkfallanna nú sýnt slíkt siðferðisþrek og svo ríka umhyggju fyrir velfarnaði þjóðfélagsins, að það réttlætir þessa ráðstöfun fyllilega, ekki sízt ef það er haft í huga, að aðrir aðilar hafa a. m. k. ekki sýnt meiri ábyrgðartilfinningu og þó sízt þeir, er helzt skyldu, sem sé núverandi valdhafar. Einnig má benda á, að það er staðreynd, að alþýðu landsins er lífsnauðsyn, að vörur séu fluttar til landsins og dreift gegnum verzlanir til almennings. Af þeim sökum hlytu verkalýðssamtökin að ákveða verðlag á þann hátt, að einhverjir fengjust til að annast það þjóðnytjastarf að taka að sér heilbrigða verzlun og heilbrigð viðskipti og teldu það ekki lakari atvinnuveg og ekki verri lífsbjargarmöguleika en önnur þau störf, sem í boði væru. Slíkt væri fullkomlega heilbrigður verzlunargrundvöllur. Það er því vandséð, að annar aðili en verkalýðssamtökin teldi sér skyldara og nauðsynlegra að koma verðlagsmálum í það horf, að hagur alls þorra þjóðarinnar yrði sem bezt tryggður, og að sjálfsögðu verður hagur meiri hlutans að sitja í fyrirrúmi fyrir möguleikum tiltölulega lítils minni hluta til skefjalítilla gróðamöguleika og ranglátrar tekjuskiptingar í þjóðfélaginu. Það er því algerlega ástæðulaust að álíta, að verkalýðssamtökin mundu ekki tryggja fleirum meira réttlæti en nú á sér stað í þessum efnum. Á það má einnig benda, að á meðan verðlagseftirlit var í gildi og ríkið valdi tiltölulega hæfa menn til að skipuleggja innflutning og ákveða verðlag, græddu allir sem við verzlun og viðskipti fengust, þó að sumum virðist nú ætla að verða skipulagslaus innflutningur og álagningarfrelsi að fótakefli. Væri rétt fyrir spámenn núverandi stjórnarflokka að gefa því atriði nokkurn gaum.

Ég hef nú fært fram veigamestu röksemdir fyrir því, hvern hag alþýðustéttir landsins og þróun efnahagsmála þjóðarinnar gætu af því haft, að frv. það, sem hér liggur fyrir, yrði gert að lögum eða hliðstæðar ráðstafanir þeim, sem hér er farið fram á að gerðar verði. Óþarft er að taka það fram, að ég vænti mér ekki stuðnings Sjálfstfl. í þessu efni, svo nátengdur og háður sem sá flokkur er óheilbrigðum verzlunarháttum og öfugþróun efnahagsmálanna, miðað við hag alls almennings. Til hins mætti fremur líta, að ef nokkuð er nokkurn tíma að marka það, sem sagt er í aðalmálgagni Framsfl., Tímanum, ætti að mega vænta þess, að sá flokkur vildi ljá þessu máli lið, vegna þess að að því hefur verið látið liggja í Tímanum að undanförnu, að Framsfl. væri hlynntur því að fá verkalýðshreyfingunni verðlagsákvarðanir og verðlagseftirlit í hendur. Með flutningi þessa frv. er Framsfl. í þann vanda settur að gera hreint fyrir sínum dyrum í því efni, hvort hann metur meira hag alls almennings í landinu eða gróðamöguleika braskaranna, hvort hann metur meira að draga úr verðbólgunni og skapa traustan og heilbrigðan gjaldmiðil eða stefna efnahagsmálum þjóðarinnar út í vísan voða, því að á hans valdi gæti það verið, hvort þetta frv. næði fram að ganga eða ekki. Með því að leggja samþykkt frv. lið gæti Framsfl. einnig sýnt í verki, hver alvara honum er með því tali um vinstri samvinnu, sem verið hefur ein helzta iðja flokksins síðan um áramót, og á þann hátt flýtt fyrir því, að sú samvinna gæti tekizt, ef eitthvað meiri alvara býr að baki skrifanna um vinstri samvinnuna en skrifa Tímans um hæstv. menntmrh. s. l. haust. Og það gagnar Framsfl. ekki að reyna að skjóta sér undan því að sýna raunhæfa vinstri samvinnu með því að tefja fyrir framgöngu þessa máls hér á Alþ. Verkalýðsfélögin hafa nú frestað verkföllunum um óákveðinn tíma, og það er því nægur tími til að afgreiða þetta mál áður en til verkfalla þyrfti að koma, og vil ég í því sambandi minna á, að ýmis stórmál hafa áður verið afgreidd hér á þingi með slíkum hraða, að nota hefur þurft margföld afbrigði til að koma þeim í gegnum þingið.

Vil ég mega vænta þess, að þetta mál hljóti röggsamlega afgreiðslu og verði ekki tafið að þarflausu í meðförum þingsins. Að svo mæltu legg ég til, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjhn.