05.11.1954
Efri deild: 12. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í B-deild Alþingistíðinda. (223)

10. mál, verðlagsuppbót á laun opinberra starfsmanna

Haraldur Guðmundsson:

Herra, forseti. Um brtt. n. á þskj. 115 vísa ég algerlega til þess, sem hv. frsm. sagði. Þetta er nauðsynleg breyting og sjálfsagt að gera hana, enda að langmestu leyti tekin upp úr gildandi lögum. Ég vil líka undirstrika það, sem hv. frsm. sagði um, hversu torvelt það er orðið eða torratað að finna leiðina frá gengislækkunarlögunum 1950 og til þessa frv. Ég hygg þó, að eins og hv. frsm. tók fram, þá hafi honum lánazt að rekja nokkurn veginn þennan feril, þannig að það megi ljóst vera, að óhætt sé að fella úr gildi 6. gr. laga frá 1950, annað en það, sem tekið er í þetta frv.

Um brtt. mínar á þskj. 119 skal ég vera stuttorður. Það er rétt, sem hv. frsm. tók fram, að ég gat ekki um efni þeirra brtt., sem ég mundi bera fram við frv. Hins vegar mun ég hafa nefnt það við n., að brtt. mínar yrðu við 2. gr., og taldi líklegt, að þá mundi þá renna nokkurn grun í, við hvað væri átt.

Till. mín er þess efnis, að í staðinn fyrir, að verðlagsuppbótargreiðslan skuli haldast óbreytt í 3 mánuði, þó að vísitalan breytist, þá verði upp tekin hin eldri regla, að uppbótin breytist mánaðarlega með breyttri vísitölu. Það, sem veldur því, að ég ber þessa till. fram, er það, að nokkur uggur er í mönnum um, að enn kunni að vera að vænta breytinga á vísitölunni, og færi betur að það sýndi sig að vera ástæðulaust. Annað er hitt, að nokkuð hefur örlað á því, að þó að verðlag hafi hækkað fyrsta eða annan mánuð þess tímabils, sem uppbótin ekki breytist á, þá hafa á þriðja mánuðinum, áður en sú vísitala, sem ákveður uppbótina, kemur í ljós, verið gerðar ráðstafanir til að greiða niður ákveðnar vörutegundir til þess að koma vísitölunni nokkuð niður. Á þann hátt er hægt að rugla vísitöluna með því að hafa vísitöluna nokkru hærri, tvo fyrstu mánuði hvers tímabils, en greiða svo aftur niður á hinum þriðja mánuði. Það er að sjálfsögðu dálítið óheppilegt, að slík ákvæði skuli vera til í lögum — slík framkvæmd skuli vera möguleg, og ber að sjálfsögðu að stemma stigu við því.

Aðalmótbáran gegn þessari till. hygg ég að sé sú, ekki að hún muni auka glundroða og öryggisleysi, eins og hv. frsm. sagði, því að —það er nú bitamunur en ekki fjár, hvort uppbótin breytist á hverjum mánuði eða þremur mánuðum, ef um stórar sveiflur er að ræða á annað borð, heldur er mótbáran hin, að kaupgjald meðlima verkalýðsfélaga og almennt kaupgjald í landinu breytist nú á þriggja mánaða fresti eins og laun opinberra starfsmanna. Mér hefur því þótt vissara, ef aðaltill. yrði ekki samþ., að bera fram brtt. í þá átt, að ef samningar takast um það milli atvinnurekenda og verkamanna, að uppbót á kaup breytist mánaðarlega með breyttri vísitölu, þá skuli einnig hið sama gilda um verðlagsuppbót á laun opinberra starfsmanna. Ef sú till. er samþ., þá er ekki hægt að segja, að ríkissjóður gangi á undan í þessu efni með því að ákveða mánaðarlegar breytingar hjá sínu starfsfólki, heldur færi það þá eftir því, sem samningar tækjust um milli atvinnurekenda og verkamanna.

Ég fellst fullkomlega á það, að rétt sé og eðlilegt, að atkvæðagreiðsla um þessar till. bíði 3. umr., ef hv. n. vildi segja álit sitt um þær, og get ég fallizt á það að taka till. aftur að þessu sinni til 3. umr.