14.10.1954
Efri deild: 4. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í C-deild Alþingistíðinda. (2273)

14. mál, vistheimili fyrir stúlkur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vildi einungis taka fram, að hv. þm. Barð. hafði haft samband við mig um þetta mál, áður en frv. var flutt, og er ég honum mjög þakklátur fyrir framtak hans í þessu efni. Ef hann hefði ekki hafizt handa um þessa tillögu, hefði ríkisstj. að sjálfsögðu ekki komizt hjá því að taka málið upp, svo aðkallandi sem það er orðið. En ég taldi einmitt eðlilegt, að hann, sem er í stjórnarnefnd drengjaheimilisins í Breiðuvík og hefur manna mest kynnt sér þetta efni, hefði forustu um það hér á Alþingi. Ég kom lítillega á þetta drengjaheimili í Breiðuvík í vor, og þó að ég ætti þess kost að dvelja þar mjög skamma stund og á óvenjulegum tíma sólarhrings, þá sannfærðist ég um, að þar er verið að gera mjög merkilegt og gott starf, og er viss um, að í rétta átt horfir. Eins er enginn efi á því, að það er aðkallandi að koma upp slíkri stofnun sem hv. þm. leggur til í þessu frv. Hitt er svo sjálfsagt, að einstök atriði frv. verði betur athuguð hér á Alþingi. Það þarf ekki að horfa fram hjá því, að það verður vafalaust deilumál, hvort eigi að taka þennan héraðsskóla í þessu skyni eða ekki. Ég hef ekki sjálfur tekið neina afstöðu til þess enn þá. Við, ég og hv. þm., höfum rætt það mál. En ef menn treysta sér ekki til þess að taka hann í þessu skyni, þá verður að gera tvennt, bæði að ákveða, til hvers þær miklu byggingar, sem þar eru, eigi að nota með skynsamlegu móti, og ákveða það í sameiningu af ríkisstj. og forráðamönnum skólans í héraði, og svo að finna annan stað, sem sé þá heppilegri til þeirrar starfrækslu, sem þetta frv. fjallar um. Ég tel, að það muni ekki sízt verða verkefni þeirrar n., sem frv. fær, að ráða fram úr þessu eftir athugun málsins og viðræður við alla þá aðila, sem hér eiga um að fjalla. En þetta vildi ég taka fram nú þegar, um leið og ég þakka hv. þm. fyrir bæði hans dugnað í sambandi við drengjaheimilið og að hafa hafizt handa um undirbúning þess máls, sem hann nú flytur.