11.11.1954
Efri deild: 15. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í C-deild Alþingistíðinda. (2282)

14. mál, vistheimili fyrir stúlkur

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hv. menntmn. fyrir afgreiðslu málsins eins og hún hefur gengið frá því á þskj. 127 og vil lýsa því yfir, að ég mun fylgja þeim brtt., sem þar koma fram, svo framarlega sem ekki verður samkomulag um annað eða aðrar breytingar koma fram, sem mér falla betur. Ég vil enn fremur leyfa mér að þakka hæstv. menntmrh. fyrir hans afstöðu til málsins og þær lögfræðilegu skýringar, sem hann hefur gefið hér í sambandi við frv. og ég fellst alveg á. Get ég þar af leiðandi mikið stytt mitt mál, vegna þess að hann tók þar fram allt það, sem þurfti raunverulega að taka fram í því máli.

Eins og ég gat um í upphafi, var það höfuðatriði að fá 1. gr. frv. samþykkta. Hún mælir svo fyrir alveg ótvírætt, — og hjá því verður ekki komizt, ef hún verður samþ., — að það skuli þegar hefja undirbúning að stofnun og rekstri vistheimilis fyrir stúlkur samkv. 31. gr. laga nr. 29 9. apríl 1947. Verði þessi gr. samþ., þá er óhjákvæmilegt fyrir hæstv. ríkisstj. að láta hefja undirbúning og rekstur þegar og setja kostnaðinn af framkvæmdunum á ríkisreikninginn, eins og venja er til, þ. e. á 24. gr., eins og hv. þm. er kunnugt, nema upphæðin verði tekin upp á fjárl. Þar eru m. a. teknar upp nærri 1700 þús. kr. vegna sérstakra laga. Nú má segja, að það hefði verið hægt, eins og hv. frsm. n. tók fram, að afgreiða þetta mál með þál. eða — eins og hann tók einnig fram — með rökstuddri dagskrá. En þá var engin vissa fyrir því, að stjórnin léti hefja framkvæmdir. Ef sá háttur hefði verið á hafður og ekki verið tekið upp á fjárlög fé til þessarar starfsemi, en hæstv. ríkisstj. samt sem áður viljað framkvæma vilja Alþingis, þá hefði hún orðið að setja gjöldin á 24. gr. undir kostnaðarliðinn samkv. „sérstökum lögum“. Ef hins vegar eru sett um þetta ákveðin lög, eins og ég ætlast til hér, þá kemst hæstv. ríkisstj. ekki hjá því að setja það inn á þann lið 24. gr., sem fellur undir sérstök lög, og því er hér reginmunur á því að samþ. frv. eða ályktun — eða afgreiða það með rökstuddri dagskrá eða gera það að heimildarlögum, eins og einnig er hægt að gera.

Ég skal ekki ræða þetta atriði nánar. Hæstv. menntmrh. hefur þegar skýrt þetta og haft þar alveg fullkominn skilning á minni skoðun á málinu, svo að það er alveg óþarft að ræða það nánar.

Að ég bar þetta fram sem sérstakt frv., kom til af því, eins og einmitt hv. þm. V-Sk. benti á, að í sambandi við þetta mál geri ég ábendingar, hvernig hægt er að leysa málið á skömmum tíma án þess að baka ríkissjóði veruleg útgjöld, með því að taka ákveðinn skóla, sem vitað er að er ekki notaður og mundi kosta milljónir í dag að byggja, og nota hann fyrir þessar framkvæmdir. Það var bókstaflega skylda mín sem margra ára formanns fjvn. og sem þingmanns að hafa skilning á því, að það var ekki sanngjarnt að gera kröfu samkv. 1. gr. á ríkissjóð um að setja kannske á skömmum tíma hér upp byggingu, er kostaði 6–8 millj. kr., — við skulum ekki loka augunum fyrir því, að hún kemur til með að kosta það, þegar hún er komin í það horf. sem hún þarf að vera, — án þess að benda jafnframt á aðrar leiðir, sem gætu gert hvort tveggja í senn, flýtt fyrir framkvæmd málsins og kostað ríkissjóð miklu minna fé. Og einmitt ákvæði mín í 4. gr. og að nokkru leyti einnig í 2. gr. eru byggð á því að reyna að fá samkomulag um þetta, samfara því að inna þar af hendi annað verkefni, sem vitanlega átti að vera til mjög mikilla hagsbóta fyrir þá sýslu, sem þessi skóli er í, þ. e. rekstur örorku- og elliheimilisins í sambandi við stúlknaheimilið. Það er vitað, að þess er mikil þörf í sveitum landsins að koma upp örorku- og elliheimilum, og að það hefur ekki verið gert, er af því, að sveitirnar hafa ekki til þess fjármagn, en með minni tillögu mátti leysa þann vanda, eins og ég skal koma síðar að.

Ég hef, eins og ég sagði áðan, náð höfuðtilganginum með frv., ef 1. gr. er samþ. eins og hv. n. leggur til. Ég vil samt strax lýsa því yfir, að ég er fús á að fallast á uppástungu frá hæstv. ráðh. um að fresta umr. í dag — og mun gera það sem forseti — og tel, að það sé alveg rétt, sem hann tók fram hér, að það eigi að ræða málið betur við hæstv. ríkisstj., einkum og sér í lagi þegar felld eru niður nýmælin úr frv. um rekstur elli- og örorkuheimilis og um að taka þann skóla, sem fyrir er og bent hefur verið á. Og ég held. að það sé til bóta fyrir málið sjálft að fá samkomulag um, hvort það sé hægt að setja inn á fjárlagafrv. þá upphæð, sem þarf til þess að koma þessu í framkvæmd, eða hvort ríkisstj. heldur áskar eða hæstv. fjmrh. að taka það inn á 24. gr. fjárl.

Nú vil ég í sambandi við þetta mál leyfa mér að benda á, að samkv. 17. gr. fjárlagafrv., sem nú er í athugun hjá hv. fjvn., 13. tölulið: Til dvalarheimilis fyrir afvegaleidd börn og unglinga — eru ætlaðar 150 þús. kr. til rekstrar. Og í 20. gr. sama frv. stendur einnig, rómv. XXIII: Til byggingar dvalarheimilis fyrir afvegaleidd börn og unglinga 400 þús. kr. — Ef þessar fjárhæðir hefðu verið nægilega miklar til þess að mæta þeim nauðsynlegu útgjöldum, sem annars vegar eru vegna rekstrar og áframhaldandi byggingar við dvalarheimili unglinga í Breiðuvík, þ. e. a. s. fyrir drengina, og einnig nægileg upphæð til þess að fara á stað með stúlknaheimili, þá þurfti ekkert annað. Og það þarf raunverulega enga aðra lausn á málinu en þá, að hæstv. fjmrh., hæstv. ríkisstj. og hv. fjvn. hækki þessar upphæðir á fjárl., því að þá uppfylla þær ákvæði laganna frá 1947. En ég hafði engar vonir um það, að ég gæti fengið viðkomandi aðila til þess að hækka þessar upphæðir þannig, að það væri hægt að leysa þessi tvö verkefni, því að sannleikurinn í málinu er sá, að til þess að stöðvist ekki alveg framkvæmdirnar við drengjaheimilið í Breiðuvík, t. d. þær nauðsynlegu framkvæmdir að byggja fjárhús yfir fé, fjós yfir stórgripi og hlöður yfir hey, sem ekki eru til á staðnum, og til þess að halda áfram nauðsynlegustu byggingum fyrir heimilið sjálft til að geta rekið það eins og ætlazt er til, þarf að hækka a. m. k. um helming báðar þessar tölur aðeins fyrir það heimili. Og þá þyrftu þessar upphæðir báðar samanlagt að fara a. m. k. upp í 2½ millj. kr. En ég er fús til þess að taka alla samvinnu við hæstv. ríkisstj. og fjvn. um það atriði, og þá náttúrlega þarf ekki að samþykkja frv. það, sem hér er til umræðu.

Hvað svo snertir ummæli eða skoðanir hv. menntmn., að það sé rangt að þeirra áliti, eins og hv. frsm. sagði, að hafa saman rekstur telpnaheimilis, eins og hér er gert ráð fyrir, og elli- og örorkuheimilis, þá þykir mér rétt að ræða það atriði dálítið, jafnvel þótt ég fallist á, að þetta verði fellt niður úr frv. Mér þykir samt sem áður rétt að ræða það vegna málsins sjálfs.

Hér er um nýmæli að ræða, eins og þegar hefur verið viðurkennt, — nýmæli, sem ekki hefur verið reynt áður hér á landi. Kemur þetta og fram í nál. Ég er ekkert að ásaka hv. menntmn., þó að hún skilji ekki þetta nýmæli við fyrsta yfirlestur; það er síður en svo. Mér er alveg ljóst, að það eru til menn í þessu landi og í öllum löndum, sem þurfa langan tíma til þess að læra ný ljóð eða ný lög eða hvað annað, sem nýtt er, það er ekkert nýtt. Og það hefur sannarlega ekki verið neitt nýtt fyrir mér í hv. Ed. að sjá, að það hefur verið hvað eftir annað meiri hluti hv. þingmanna, sem hefur ekki skilið nýmæli. Ég er ákaflega vanur því. Það hefur yfirleitt verið hvað eftir annað sagt hér um mig, að sumar af mínum till. væru svo hátt uppi í skýjunum, að þær ættu ekki neitt erindi hér inn í þingsalina, þó að þær hafi orðið að veruleik síðar og allir viðurkennt þær þá og að það hefði verið það eina, sem hefði verið vit í, — svo að það er síður en svo, að ég álasi hvorki hv. n.hv. d., þó að hún þurfi einhvern tíma til þess að átta sig á þessu nýmæli. Og ég ásaka hana heldur ekkert fyrir það, þó að hún fordæmi nýmæli þetta af sömu ástæðum. En ég vil í sambandi við þetta leyfa mér að benda á, að nú eru eftir skýrslum, sem fyrir liggja, yfir 90 stúlkur, sem þurfa víst á slíku heimili, á aldrinum 12–22 ára, og þessi hópur fer vaxandi. Hann fer vaxandi alveg sérstaklega vegna þess, að það er staðreynd eftir þeim skýrslum, sem hafa verið athugaðar, að stúlkurnar, sem byrjuðu fyrst 12 ára og eru komnar á 18 ára aldurinn, hafa alveg sérstaka löngun til þess að draga yngri stúlkurnar inn á sömu braut. Það er ekki nein glæpalöngun, sem þessu veldur. En það er komið inn í þeirra sál, og það er kannske af minnimáttarkennd, að því fleiri sem þær geta fengið inn á þessa braut, því meiri afsökun hafi þær fyrir sig sjálfar. Það er þess vegna alveg nauðsynlegt að gera eitthvað í þessu máli, nú þegar, þótt ekkert annað kæmi til.

Það er einnig vitað af öllum þeim, sem hafa haft með þessi mál að gera áður, að það þykir ekki rétt að hafa nema 30 stúlkur á einu heimili. Og þó að við tækjum ekki nema þriðja partinn af þeim hóp, sem taka þarf, þ. e. 30 stúlkur, þá þyrftum við ekki eitt heimili, heldur þrjú, til þess að fullnægja eftirspurninni í dag. En til þess að geta kennt og stjórnað 30 slíkum stúlkum er talið að þurfi 24 aðra vistmenn. Þetta er ekki eingöngu þannig í Noregi. Þetta er þannig í öllum þeim löndum, þar sem ég hef kynnt mér þessi mál. Þá erum við komnir með heimili upp á 54–60 manns, og það þarf sannarlega ekki lítið verkefni fyrir slíkan fjölda. Þess vegna verður að setja heimilið upp á einhverjum stað, þar sem hægt er að skapa verkefni. Það er líka viðurkennt hjá þeim mönnum, sem eitthvað hafa hugsað um þessi mál, að það er frumskilyrði að geta látið þau verkefni fyrst um sinn í té, sem skapa þessu fólki einhverja löngun til þess að stuðla að einhverju, sem þarf umönnun, svo sem blómarækt, grasrækt, trjárækt eða mannrækt. Það kannske hljómar illa, að einmitt stúlkur, sem eru á þessu stigi, færu að hjálpa til í mannrækt. En það er höfuðskilyrðið, að þetta fólk mæti fyrst og fremst skilningi. Til sönnunar mínu máli vil ég segja hv. d. það, að það, sem vakti langmesta athygli mína í Noregi á þessum heimilum, voru ljósmyndirnar, sem stúlkurnar sendu til stofnunarinnar af öllu því besta, sem hafði komið fyrir þær, eftir að þær fóru frá heimilunum, af brúðkaupi þeirra, af börnunum þeirra, af húsunum þeirra, heimilunum þeirra. af skemmtilegu ferðalagi þeirra, sem þær allar þökkuðu þeim áhrifum, sem þær höfðu fengið í þessum heimilum. Og það var ekki einasta, að þetta væri gleðilegt fyrir forstöðukonur heimilanna, þetta var frumstigið og bezta hjálpin fyrir stofnunina til þess að leiða nýkomnu stúlkurnar á rétta braut, að sýna þeim, að stúlkurnar, sem voru farnar, héldu sí og æ sambandi við heimilin og voru þakklátar stofnuninni fyrir það, sem hún hafði gert fyrir þær. Og þetta er ekki gert nema með mannúðarstarfi og skilningi á málunum.

Ég vil einnig í sambandi við þetta leyfa mér að benda á, að það er ekkert nýmæli að reka vöggustofur og barnaheimili í sambandi við þessar stúlkur. Það var á einni slíkri stofnun í Noregi, að rekið var í einni deildinni stúlknaheimili, eins og hér um ræðir, og í sambandi við það barnaheimili allt frá fæðingu og til 12–14 ára aldurs. Og ég verð að segja, að þau þurfa sannarlega ekki minni umhyggju eða kyrrð en gamalmennin.

Mér hefur skilizt hér, þó að hv. frsm. vildi nú ekki minnast á það og flokkað það undir feimnismál, að það hefðu komið upp um það raddir, að það væri óeðlilegt og óheppilegt að setja hér saman stúlkur, sem hefðu verið á þessari braut, og karlmenn, sem væru komnir yfir einhvern ákveðinn aldur. Ég er ekkert feiminn við að ræða þessi mál. Sannleikurinn er sá, að það er hreinn misskilningur, að kynhvatir þessara telpna séu nokkurn skapaðan hlut meiri en kynhvatir kvenna yfirleitt. Þær hafa aðeins ekki fengið það uppeldi og þá handleiðslu í lífinu, að þær geti gert sér það ljóst, hvað er rétt og rangt í þessu máli. Og ef þetta hefði eingöngu vakað fyrir þeim og ekkert annað, þá hefði þó að minnsta kosti verið hægt að segja, að þetta örorku- og elliheimili skyldi vera fyrir konur eingöngu. Þá hefði einnig átt að fyrirbyggja, að annað þjónustufólk væri í sambandi við þennan rekstur en eintómar konur, eða setja þangað eintóma geldinga, eins og var að fornu hjá ýmsum þjóðhöfðingjum. Þannig hefði þá mátt komast hjá þessum hættum, sem nefndinni eru þyrnir í augum.

Þegar svo rætt er um það atriði, hvar þetta heimili á að vera, og bent hefur verið á tvo staði hér, sem væri kannske rétt að n. ákvæði um, þá er ég sammála hv. frsm., að það getur tæplega verið hægt að ætlast til þess, að n. ákveði um það atriði. Til þess þyrfti hún helzt að ferðast og skoða þessa staði og kynna sér málið miklu meira. En ég get upplýst í sambandi við þetta mál, að þáverandi hæstv. landbrh., núverandi hv. þm. Str., gerði tilraun til þess á sínum tíma að fá samkomulag við viðkomandi aðila um að taka húsmæðraskólann á Staðarfelli. Þetta voru ekki till. frá barnaverndarráði eða okkur, sem hafði verið falið að framkvæma þessi atriði, heldur var það beinlínis till. frá hæstv. þáverandi landbrh., vegna þess að hann vildi sameina þetta tvennt þá, sem ég er að reyna að sameina í dag, að nota skóla, þar sem nemendurnir voru færri en kennararnir. En undireins þá reis upp alda í héraði og mótmælti þessari tillögu og það svo, að ráðherra og barnaverndarnefndin og Alþingi voru borin alls konar dylgjum um það, að þegar dreifbýlið ætti í hlut, þá væru þessir höfðingjar ekki að hugsa mikið um þeirra menningu eða þeirra mál, og var því mótmælt, að þessi skóli væri tekinn. Þetta er staðreynd í málinu.

Nú get ég upplýst, að þessi skóli er mörgum sinnum óheppilegri en Reykjaskóli, og það er m. a. vegna þess, að þar er enginn hiti til. En það er frumskilyrði þess að geta látið reka heimilið eins hagkvæmt og verða má og alveg sérstaklega til þess að geta rekið þar gróðurhús til að skapa nægilega vinnu, sem væri hentug fyrir þessar stúlkur, að þar væru gróðurhús og það í stórum stíl, og það verður ekki rekið nema með jarðhita.

Þá er annað í sambandi við þennan skóla, að þangað er tæplega hægt að komast nema á sjó allan veturinn. Og yfir sumarið, eða meðan íslaust er, er þó svo erfitt að komast að honum á sjó með alla flutninga, að það mundi gera reksturinn tvöfalt dýrari. Það er tæplega hægt að komast að honum allan veturinn fyrir snjóalögum og vegna þess að vegirnir þangað eru svo lélegir. Þar er ekkert jarðnæði til þess að reka í sambandi við skólann, því að það er búið að leigja jörðina ákveðnum manni, svo lengi sem hann vill eða lifir, svo að það er ekki hægt að skapa þar nein verkefni fyrir þessar stúlkur, annað en það, sem hægt er að gera innanhúss, og það teldi ég mjög óhentugt.

Hvað snertir Hallormsstaðarskóla, þá eru þar sömu ókostirnir að því leyti til, að þar er enginn jarðhiti, þar er sjálfsagt ekki heldur neitt jarðnæði, flutningskostnaðurinn mjög miklu meiri en ef heimilið væri t. d. staðsett í Hrútafirði, svo að ég tel, að báðir þessir staðir séu mun óheppilegri til þessarar starfsemi heldur en skólinn í Hrútafirðinum. Hins vegar ef á að velja nýjan stað og ekki hugsa um þær byggingar, sem fyrir eru, þá get ég einnig upplýst það, að okkur, sem sitjum í framkvæmdanefndinni, hefur boðizt ágætur staður austur í Biskupstungum. Þar eru nóg húsakynni til þess að byrja með, þar er nógur hiti, og sá staður er nógu langt frá fjölbýli. En það kostar fé að kaupa það. (Gripið fram í: Er það ræktunarstöð?) Það er garðræktunarstöð, sem einstaklingur á. Hefur hann margsinnis boðið okkur hana, en helzt til leigu um ákveðinn tíma. Við höfum hins vegar ekki getað sinnt þessu, vegna þess að til þess hefur ekki verið fé. Þetta þótti mér rétt að láta koma fram vegna þeirra ummæla, sem hér hafa fallið.

Hv. frsm. sagði, að það væri miklu eðlilegra, að þessi starfsemi yrði sett í samband við hjúkrun sjúkra heldur en í samband við gamalt fólk. Ja, hver er nú munurinn á því? Hver er munurinn á gömlum sjúklingum, sem liggja í kör og þurfa umönnun, eða t. d. sjúklingum á aldrinum 10 til 20 ára? Ég sé ekki neinn mun á því. Hinir yngri sjúklingar, sem eru kannske enn veikari, þurfa sjálfsagt ekkert minni kyrrð en aðrir sjúklingar eða heldur en gamalmenni.

Ég vil þá í sambandi við það, sem hv. þm. ræddi um þingmannabústaðinn, skýra frá því — og vænti, að hæstv. forseti leyfi mér það með aðeins örfáum orðum, að það er alveg rétt, sem hann sagði, að það hefur verið þrássazt við öll þessi ár að leggja fram féð og hefja framkvæmdir í sambandi við þetta mál. Og það er m. a. ein af ástæðunum fyrir því, að ég sá mér ekki annað fært en að bera fram þetta frv., svo að stúlknaheimilið yrði ekki tafið á sama hátt.

Nú var ákveðið á síðasta þingi með lögum, að öllum undirbúningi skyldi lokið undir byggingu þingmannabústaðar á þessu ári. Og það varð til þess, að hæstv. ríkisstjórn hefur skipað þrjá menn samkv. fyrirmælum laganna til þess að annast þennan undirbúning í samráði við húsameistara ríkisins, og í þá nefnd hafa verið skipaðir allir forsetar þingsins, forseti sameinaðs þings, forseti neðri deildar og forseti efri deildar. Er nú verið að undirbúa þetta mál samkvæmt fyrirmælum laganna, og strandar raunverulega langmest á því, að það þarf að gera út um það, áður en valinn er staður fyrir þingmannabústaðinn, hvort alþingishúsið á að vera hér á sama stað í framtíðinni eða hvort á að flytja það á annan stað. Það er vitanlegt, að alþingishúsið í dag er engan veginn nægilega stórt fyrir þá starfsemi, sem hér á fram að fara. Það er vitað, að einn flokkur þingsins verður að hafa fundi sína fyrir utan þinghúsið og greiða verður leigu af því húsnæði af þeim kostnaði, sem ætlaður er til þinghalds, þar sem aðrir flokkar hér hafa starfsherbergi í þinghúsinu endurgjaldslaust. Það er einnig vitað, að menn geta ekki haldið hér neina fundi í þessu húsi án þess að rekast hver á annan. Það eru engin fundarherbergi til fyrir allar þær nefndir, sem hér eiga að vera. Það eru engin sérstök herbergi til fyrir forsetana, nema eitt fyrir alla forsetana nú í seinni tíð. Hvorki formenn funda, formenn nefnda, forsetar né ráðherrar geta nokkurs staðar hér talað við nokkurn mann í næði. Þess vegna er það nú í athugun, hvort ekki sé unnt að bæta við þinghúsið og byggja jafnframt þingmannabústaðinn hér fyrir vestan húsið. En þetta þarf að ræða, — skipulagið, sem menn hugsa sér um þetta svæði. Og fyrr en það liggur fyrir, verður ekki hægt að hefja framkvæmdirnar. En þar sem mér hefur verið falið formennska í nefndinni, skal ég lofa hv. 1. þm. Eyf. því, að hann fái að fylgjast með þessu máli og að það verði rekið á eftir þessu máli eins og frekast er unnt.

Ég skal ekki segja meira að þessu sinni, en ég fellst á till. hæstv. ráðh. og tel, að það sé rétt að fresta umr. nú, og ég mun þá ekki taka málið á dagskrá fyrr en reynt hefur verið til hlítar samkomulag bæði við nefndina, þessa hv. d., þingið allt og hæstv. ríkisstjórn.