22.10.1954
Sameinað þing: 6. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í D-deild Alþingistíðinda. (2378)

43. mál, jarðboranir

Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þessi þáltill. er þess efnis að skora á ríkisstj. að hraða undirbúningi löggjafar um eftirlit með jarðborunum og leggja fyrir Alþ. eigi síðar en á næsta þingi frv. um það efni.

Till. sama efnis flutti ég á þingi 1952, og var hún samþ. 10. des. Samkv. henni var ríkisstj. falið að undirbúa löggjöf um eftirlit með jarðborunum og leggja fyrir næsta þing frv. um það efni. Því miður hefur af hendi þess ráðuneytis, sem málið heyrir undir, ekki komið fram neitt frv., og ég ætla, að því miður hafi lítill undirbúningur undir það verið gerður, og þess vegna er till. flutt að nýju.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um nauðsyn þessa máls til viðbótar því, sem greinir í grg. Hitaveitur eru orðnar nokkrar hér á landi, í Reykjavík, Ólafsfirði, Selfossi og Sauðárkróki, og hitaveitur víðar í undirbúningi. Auk þess má nefna margvíslega hagnýtingu jarðhitans til gróðurhúsaræktar og á aðra lund.

Lagaákvæði eru því miður harla ófullkomin um þessi efni, um jarðboranir og hagnýtingu jarðhita. Að vísu eru til lög frá 1940 um eignar- og notkunarrétt jarðhita með nokkrum breytingum frá 1943. Þar er nokkuð getið um heimildir landeiganda í þessu sambandi, en þar vantar ýmiss konar ákvæði um eftirlit með jarðborunum, viðurlög o. s. frv. En það er ljóst, að þegar lagðir hafa verið tugir millj. í mannvirki eins og hitaveiturnar, sem þegar eru til, þá er nauðsynlegt að hafa vakandi auga á því, að ekki sé unnt að eyðileggja að meira eða minna leyti þessi dýru mannvirki með jarðborunum annars staðar af hendi annarra aðila. Það er að sjálfsögðu mikið í húfi fyrir þá íbúa, sem njóta þægindanna og hlunnindanna af hitaveitunum, en það er einnig stórkostlegt þjóðhagslegt vandamál, því að hér væri unnið mikið tjón, ef með jarðborunum í grennd við þessi mannvirki væri stofnað í hættu þessum mannvirkjum og virkjuðum lindum, sem fyrir eru.

Ég veit, að hér er um mikið vandamál að ræða, þegar setja skal löggjöf um þetta efni, og í allýtarlegu bréfi, sem raforkumálastjóri skrifaði allshn. á þinginu 1952 út af þessari till., bendir hann á mörg erfið atriði, sem þurfi að glíma við við setningu þessarar löggjafar. En vitanlega mega þeir erfiðleikar ekki verða þess valdandi, að ár eftir ár dragist úr hömlu að setja jafnnauðsynlega löggjöf og þessa. Það var vissulega erfitt verk á sínum tíma að setja vatnalög. Það tók allmikinn undirbúning, og voru mikil átök um ýmis atriði í þeim efnum. Að lokum tókst þó að setja lagabálk 1923, vatnalögin, sem síðan hafa staðið mikið til óbreytt, enda vel til þeirra vandað. Með þeim er að vísu í ýmsum efnum gengið nokkuð á rétt landeigenda, þann rétt, sem menn töldu sig hafa yfir vatni í sinni landareign, en samt sem áður var þjóðfélagsnauðsyn talin á því að setja um þetta sérstaka löggjöf. Þar var m. a. sett hið þýðingarmikla ákvæði, sem stendur í 7. gr. vatnalaganna: „Vötn öll skulu renna sem að fornu hafa runnið.“ Þar segir enn fremur: „Óheimilt er manni, nema sérstök heimild eða lagaleyfi sé til þess: a) að breyta vatnsbotni, straumstefnu eða vatnsmagni, hvort sem það verður að fullu eða öllu eða um ákveðinn tíma, svo og að hækka eða lækka vatnsborð, b) að gerstífla straumvatn eða gera mannvirki í vatni eða yfir því, c) að veita vatni úr landi sínu í annarra land, ef tjón eða hætta er af því búin eign annars manns eða réttindum, óhæfilegar tálmanir almennri umferð eða tjón eða hætta að nokkru ráði fyrir hagsmuni ríkis eða almennings.“

Eins og löggjöfunum þótti nauðsyn að setja vissar takmarkanir, vissar hömlur á hinn frjálsa umráðarétt landeigenda yfir rennandi, köldu vatni, þá er ekki síður nauðsyn á að setja slíkar reglur, slíkar hömlur um hagnýtingu jarðhitans, þar sem, eins og ég gat um, hér eru einnig í húfi mjög þýðingarmikil verðmæti og mannvirki.

Ég vænti þess, að hv. Alþ. sjái nauðsynina á því, að hafizt sé handa í þessum efnum. Það má vera, að við athugun á málinu komist menn að niðurstöðu um. að enn sé það langt í land að undirbúa heildarlöggjöf um þetta efni, að bráðabirgðaráðstafanir séu nauðsynlegar, og hugsanlegt væri að setja, meðan málið er í frekari undirbúningi, löggjöf um það eitt, að leyfi stjórnvalda, ráðuneytisins, raforkumálastjórnar eða annarra þeirra aðila, sem til þess eru valdir, þyrfti til þess að hefja jarðboranir eftir heitu vatni.

Ég skal ekki fara frekar út í efni þessarar væntanlegu löggjafar, en vænti þess, að Alþ. samþ. nú þessa till. að nýju, og þá um leið, að hæstv. rn., sem málið fellur undir, láti ekki lengur undir höfuð leggjast að sinna þessu nauðsynjamáli. Því miður er sá ráðh., sem málið fellur undir, ekki viðstaddur hér, en æskilegt hefði náttúrlega verið að fá ástæður fyrir því, hvers vegna lítið sem ekkert hefur verið í þessu máli gert. En það kemur þá væntanlega fram í þeirri n., sem fær málið til meðferðar.

Um þetta mál er ákveðin ein umr., og vildi ég leggja til, að umr. væri frestað og málinu vísað til allshn.