19.11.1954
Sameinað þing: 18. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í D-deild Alþingistíðinda. (2398)

105. mál, atkvæðagreiðsla að hálfu Íslands

Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. ræddi þetta mál í nokkuð öðrum tón en hefur verið í umr. hingað til, en þetta er nú stundum hans vandi. Hann kom hér með yfirlýsingar, sem ganga miklu lengra í því máli, sem hér er til umr., heldur en mig hefði órað fyrir að hæstv. ríkisstj. væri tilbúin að gera, og ég vil spyrja, hvort hæstv. ríkisstj. stendur öll á bak við þær yfirlýsingar, sem hæstv. forsrh. hefur gefið um engan rétt Íslendinga o. s. frv. í þessu máli.

Hæstv. forsrh. kvaðst ætla að leita skjóls hjá alþjóðadómstólnum í Haag í lífsnauðsynjamáli íslenzku þjóðarinnar, landhelgismálinu. Hann hefur sjálfur sagt í opinberum ræðum, að undir úrslitum þessa máls eigi íslenzka þjóðin líf sitt. Hann ætlar með öðrum orðum að leggja líf íslenzku þjóðarinnar undir dóm þessa dómstóls og eiga það á hættu, að hún verði þá dæmd til dauða af þessum dómstóli. Hæstv. forsrh. sagði, að þetta væri sami dómstóllinn og hefði í apríl 1933 kveðið upp dóm í deilumáli Norðmanna og Dana um Grænland. Ég er hissa á, að hæstv. forsrh. skuli ekki vita betur. Alþjóðadómstóllinn í Haag er annar dómstóll og allt öðruvísi skipaður en alþjóðadómstóll Þjóðabandalagsins, sem sat í Haag 1933, og þetta ætti hæstv. forsrh. landsins að vita. En hann hefur komizt áfram hingað til, sá hái, hæstv. herra, án þess að kynna sér nokkuð málin, sem hann talar um.

Þetta mál var rætt hér á hv. Alþingi í dag fyrir luktum dyrum, og það hefur áður verið rætt hér, síðan ég kom á hv. Alþingi, einnig fyrir luktum dyrum, en í bæði skiptin án þess, að nokkur ákvörðun væri tekin. Ég hef jafnan, þegar lokaðir fundir hafa verið haldnir í Alþingi, — ef svo á að segja, að það séu fundir í Alþingi, — lýst því yfir og tekið þátt í umr. með þeim fyrirvara, að ég tel, að það geti að vísu verið full nauðsyn á því, að boðað sé til lokaðra funda innan veggja Alþingis, t. d. ef svo stendur á, að ríkisstj. vill kynna þingheimi sérstök mál eða málsatriði, t. d. í utanríkismálum, sem eru þannig vaxin, að það er ekki tímabært að gera þau heyrinkunn með opinberum umr. á Alþingi. En þrátt fyrir ákvæði stjórnarskrár og þingskapa um, að það sé formlega leyfilegt, tel ég ekki rétt nema í ýtrustu nauðsyn, að það sé nokkurn tíma tekin ákvörðun á Alþingi í stórmálum fyrir luktum dyrum. Ég byggi þetta fyrst og fremst á því, að á slíkum fundum eru engar skrifaðar heimildir um afstöðu flokka og manna til þeirra mála, sem ákvörðun er tekin um, en það hefur sýnt sig, að eftir á geta risið deilur um það jafnvel, hver hafi verið afstaða flokka og manna til þeirra stórmála, sem rædd hafa verið og ákvörðun hefur verið tekin um á lokuðum fundum Alþingis, og get ég nefnt dæmi ekki mjög gamalt því til sönnunar. Ég vil því fagna því, að hæstv. forseti Sþ. ákvað í dag á hinum lokaða fundi að boða til opins fundar hér í Sþ. til þess að taka ákvörðun í þessu máli, sem hér er rætt, og vil ég lýsa því yfir, að ég vona, að það verði framvegis regla á hv. Alþingi, að ákvarðanir í stórmálum verði helzt aldrei teknar fyrir luktum dyrum.

Ég verð að láta í ljós undrun mína og fullkomna vanþóknun á meðferð þessa máls, sem hér er rætt. Hæstv. utanrrh. upplýsti hér áðan, að utanríkisráðherrar Norðurlanda hefðu í ágúst í sumar átt fund með sér hér í Rvík og á þeim fundi hefði utanríkisráðherra Danmerkur skýrt svo frá, að danska stjórnin ætlaði sér að leggja fyrir allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna nú í haust — það þing, sem nú stendur yfir — ósk eða kröfu um, að réttarstöðu Grænlands yrði breytt, þannig að það yrði tekið af skrá Sameinuðu þjóðanna um þær nýlendur, sem gæzluverndarnefnd Sameinuðu þjóðanna á að hafa eftirlit með, hvernig stjórnað sé. En slík ákvörðun af hálfu Sameinuðu þjóðanna, að strika Grænland út af skrá um nýlendur, þýðir viðurkenningu Sameinuðu þjóðanna á því, sem Danir hafa ákveðið heima fyrir, að innlima Grænland í Danmörku, gera það að einu amti eða héraði í Danmörku, þó að það sé mörgum sinnum stærra en Danmörk og þó að það sé raunar um leið ekki upplýst, hvort það eigi þá eins og önnur héruð Danmerkur að lúta dönskum lögum, það hefur ekki komið fram enn þá af hálfu Dana.

Hæstv. utanrrh. vildi á fundi utanríkisráðherranna hér í Rvík í ágústmánuði ekki taka afstöðu í þessu máli. Hann hefur vafalaust haft samráð við hæstv. ríkisstj., sem hann á sæti í, um þessa afstöðu. Hvorki ég né neinn annar þm. hefur veitzt að hæstv. utanrrh. fyrir þetta, fyrir það að vera ekki reiðubúinn til þess að taka afstöðu í þessu máli án samráðs við Alþingi. Ég tel, að hæstv. utanrrh. hafi gert rétt í því, og ég tel, að hæstv. ríkisstj., ef hún hefur átt þar hlut að máli, hafi líka gert rétt í því að heita Dönum engu um fulltingi sitt í þessu máli á þingi Sameinuðu þjóðanna. En ég spyr: Ef hæstv. utanrrh. og hæstv. ríkisstj. vildi í ágúst í sumar ekki taka afstöðu í þessu máli og hefur þá væntanlega ætlað að leggja það fyrir Alþingi til ákvörðunar eins og nú hefur verið gert í dag, hvers vegna hefur það ekki verið gert fyrr? Ég spyr hæstv. utanrrh.: Ef það hefur verið meining hans að leggja þetta mál fyrir hv. Alþingi, hvers vegna hefur hann ekki gert það fyrr en í dag, um leið og hann upplýsir hér, að þetta mál verði tekið til endanlegrar afgreiðslu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna á mánudaginn? Nú er það föst venja hér á Alþingi, að á laugardögum og sunnudögum eru ekki haldnir reglulegir fundir í Alþ. Hæstv. utanrrh. hefur ekki gert neina grein fyrir því, hvers vegna Alþingi fær ekki meira ráðrúm til þess að hafa umr. og taka ákvörðun um þetta mál, þó að það væri alveg augljóst í ágúst í sumar, að einhverja afstöðu hlyti fulltrúi eða sendinefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum að verða að taka í þessu máli, þar sem Danir tilkynntu þá, að þeir mundu leggja það fyrir.

Ég vil ekki gefa í skyn, að það hafi verið meining hæstv. ríkisstj. og hæstv. utanrrh. að leggja þetta mál alls ekki fyrir Alþingi. Það er alkunnugt, að málið hefur oftar en einu sinni verið rætt á Alþingi, og Alþingi hefur einu sinni samþykkt ályktun í því, og ríkisstj. Íslands hefur samkv. þeirri ályktun tilkynnt ríkisstjórn Danmerkur og Noregs og fasta alþjóðadómstólnum í Haag 1931, að Ísland teldi sig samkv. ályktun Alþingis hafa hagsmuna að gæta í þessu máli. Ég vil þess vegna ekki, eins og ég sagði áðan, ætla hæstv. ríkisstj. það, að hún hefði alls ekki viljað bera sig saman við Alþingi í þessu máli, en hitt veit ég, að Danir hefðu helzt kosið að koma þessu máli í gegnum þing Sameinuðu þjóðanna í sem mestum kyrrþey, og ef til vill hefur það verið meiningin, að þetta mál gæti farið gegnum hv. Alþ. hljóðalítið eða hljóðalaust, á lokuðum fundi, þar sem ef til vill færi aðeins fram lausleg skoðanakönnun meðal þingmanna, eins og til stóð hér í dag.

Það er vitað af blaðafregnum, bæði sem birzt hafa í íslenzkum blöðum og í erlendum blöðum, sem hingað hafa borizt, hvaða afgreiðslu þetta mál hefur hlotið hjá fjórðu nefnd Sameinuðu þjóðanna, þar sem það hefur verið tekið til afgreiðslu og rætt. Og það er því miður svo, að þær blaðafregnir eru miklu ljósari og nákvæmari en sú skýrsla, sem hæstv. utanrrh. hefur getað gefið hv. Alþ. um afgreiðslu málsins. Í fjórðu nefnd allsherjarþingsins, svokallaðri verndargæzlunefnd, komu, þegar Danir fluttu sitt mál þar, þegar fram raddir margra og áhrifamikilla ríkja um, að það væri algerlega óviðeigandi að samþykkja óbreytta þá till., sem Danir lögðu fram, og þá ósk, sem þeir báru fram, að málið yrði aðeins afgreitt í þessari verndargæzlunefnd. Málið væri þess eðlis, svo þýðingarmikið mál, að það ætti að koma fyrir fullskipaðan fund á allsherjarþinginu, því að eins og nú háttar, er það næsta óvenjulegt, að land, sem til þessa dags hefur verið nýlenda, hætti allt í einu að vera nýlenda með þeim hætti, að hún sé gerð að héraði í móðurlandinu, sem kallað er. Hitt er miklu algengara nú á dögum, að nýlendurnar fái aukna sjálfstjórn og jafnvel fullkomið sjálfstæði. En það, sem hér liggur bak við, og opinber rök Dana fyrir þessu eru þau, að nýlendustjórn Dana á Grænlandi hafi verið til slíkrar fyrirmyndar öllum þjóðum, að þetta sé sjálfsagt mál og þurfi ekki að ræða á þingi Sameinuðu þjóðanna sjálfu, heldur aðeins í nefnd þar. Og til þess að sanna þetta mæta Danir með tvo grænlenzka þingmenn með dönsku nafni, sem báðir heita sama nafni og bera þar vitni, að Grænlendingum liði ágætlega undir stjórn Dana og þess vegna þurfi ekki að ræða það mál meir. En það voru mjög margir fulltrúar ríkja hjá Sameinuðu þjóðunum, sem spurðu: Hefur grænlenzka þjóðin verið spurð? Hefur farið fram þjóðaratkvæðagreiðsla með grænlenzku þjóðinni um þetta mál? Sýnir sú þjóðaratkvæðagreiðsla, að grænlenzka þjóðin óski t. d. alls ekki eftir auknu sjálfstæði eða fullu sjálfstæði? Eru færðar sönnur á, að það séu engar óskir uppi með grænlenzku þjóðinni um að losna undan stjórn Dana? Og það er vegna þessara spurninga, sem málið hlýtur að koma fyrir og á að koma fyrir fund allsherjarþingsins á mánudaginn eða þriðjudaginn.

Um hvað snýst svo þetta mál? Það snýst, eins og ég sagði áðan, um það, hvort stjórn Dana á Grænlandi, sem hefur staðið í margar aldir, hafi verið til slíkrar fyrirmyndar, að það sé sjálfsagt mál að gera landið nú að héraði í Danmörku. Þess vegna er það, að samþykkt þessarar kröfu Dana þýðir alveg sérstaka viðurkenningu á nýlendustjórn Dana. En nú stendur svo á, að Íslendingar eru einmitt eina þjóðin á þingi Sameinuðu þjóðanna, sem hefur nokkra þekkingu og reynslu af nýlendustjórn Dana. Það á engin þjóð fulltrúa hjá Sameinuðu þjóðunum, sem veit betur um nýlendustjórn Dana en Íslendingar. Við höfum notið þessarar ágætu nýlendustjórnar um margar aldir eins og Grænlendingar. Og ef til vill hefur engin þjóð heldur betri aðstöðu utan Dana til þess að vita um nýlendustjórn Dana á Grænlandi nú síðustu áratugina eða síðan við Íslendingar hættum að njóta þessara ágætu forráða Dana. Íslendingar gætu líka sagt frá því, að um eitt skeið var það tillaga og krafa Dana einmitt að inniima Ísland með stjórnarskrárbreytingu í Danmörku. Og þá hefðu áreiðanlega fundizt einhverjir hálfdanskir embættismenn, jafnvel íslenzkir embættismenn, jafnvel íslenzkir þingmenn, til þess að samþykkja það og bera um það vitni, að það væri Íslendingum fyrir beztu.

Stjórn Dana á Grænlandi er í dag byggð á nákvæmlega sömu stjórnarfarslegum reglum og stjórn Dana á Íslandi var um margar aldir. Grænlandi er stjórnað samkvæmt tilskipunum frá 18. öld, og í skjóli þeirra tilskipana, t. d. einnar tilskipunar frá 1776, er einokunarverzlun á Grænlandi, og það er sú einokunarverzlun, sem raunverulega stjórnar öllum fjárhagsmálum grænlenzku þjóðarinnar. Við höfum sorglega reynslu af þess konar stofnun. En þessi einokunarverzlun Dana á Grænlandi er nákvæmlega sams konar stofnun og einokunarverzlun Dana var á Íslandi. Auk þessa er eitt atriði um stjórn Dana á Grænlandi, sem ég held að eigi sér engin dæmi um nokkra nýlendu annars staðar í heiminum. Það er það, að Grænland er lokað land. Samkvæmt gömlum tilskipunum og samkv. einni tilskipuninni, sem var síðast endurnýjuð 10. maí 1921, er þegnum allra þjóða bannað að sigla til Grænlands og athafna sig í grænlenzkum höfnum. Við þekkjum líka þessa skipun mála úr sögu okkar. Ég held, að það megi fullyrða, að þessi tilskipun Dana sé þvert ofan í allan þjóðarétt, sem nú ríkir. Og ég efast um, að þing Sameinuðu þjóðanna hafi verið upplýst um slíka lokun svo stórs lands sem Grænlands, sem er í raun og veru varla hægt að tala um sem land, heldur er nær því að vera meginland eða álfa, að það er lokað borgurum allra ríkja, nema með sérstöku leyfi einokunarverzlunar Dana á Grænlandi. Íslenzkum fiskiskipum, sem eins og allir vita hafa stundað veiðar undan Grænlandi, bæði austan og vestan, er óheimilt að leita hafnar, jafnvel í lífsnauðsyn, þar sem þau eru stödd. Íslenzkir þegnar mega ekki stíga upp á klappirnar á Grænlandi vegna þessarar tilskipunar.

Þessi lokun Grænlands hefur af hálfu Dana verið varin með því, að það þurfi að einangra Grænlendinga frá umheiminum, þeir sem frumstæð þjóð þoli ekki að komast í snertingu við menninguna, þeir mundu hrynja niður úr sjúkdómum, ef það væru almennar samgöngur við Grænland. En í sambandi við heimsókn konungs Dana og ýmiss stórmennis til Grænlands nú fyrir skömmu var nokkuð upplýst af dönskum blaðamönnum um heilbrigðisástandið eins og það er nú í dag á Grænlandi. Um það er ekki öðrum til að dreifa en Dönum. Þeir bera ábyrgð á því. Það er þannig, að helmingur þjóðarinnar er haldinn af berklaveiki og er að hrynja niður úr berklaveiki, stór hluti þjóðarinnar er haldinn kynsjúkdómum og danskir blaðamenn lýsa ástandinu í Grænlandi í þessum efnum og mörgum öðrum svo, að þær taka nærri því út yfir allar lýsingar, sem maður hefur lesið um ástandið í landinu. Það er þetta ástand, sem á nú að ákveða hjá Sameinuðu þjóðunum að sé svo gott og til svo mikillar fyrirmyndar, að nú þurfi ekki einu sinni að telja Grænland nýlendu lengur.

Ég vil nú spyrja: Hafa Íslendingar nokkra ástæðu til þess að láta þetta mál til sín taka á þingi Sameinuðu þjóðanna?

Það er augljóst, hygg ég, fyrir öllum, að lokun Grænlands snertir hagsmuni Íslendinga. Ef íslenzkir útgerðarmenn og sjómenn væru spurðir um lokun Grænlands, bann dönsku stjórnarinnar við því, að íslenzk fiskiskip megi athafna sig samkv. alþjóðareglum við Grænland, þá hygg ég, að þeir mundu segja, að það skipti allmiklu fyrir íslenzku þjóðina. Má þetta koma fram á þingi Sameinuðu þjóðanna samkv. till. hæstv. ríkisstjórnar? Nei, það má ekki vekja athygli á því á þingi Sameinuðu þjóðanna. Fulltrúi Íslands má ekki vekja athygli á því, að þetta ástand, lokun Grænlands fyrir öllum þjóðum, sé einsdæmi, sem ekki ætti að eiga sér stað, það sé stórkostlegt brot á alþjóðareglum, eins og auðvelt er að sýna fram á, og það sé alþjóðlegt hneyksli, sem það er. Má fulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum vekja athygli á því? Ég spyr hæstv. utanrrh.: Mætti fulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, sá valinkunni maður, — við vitum öll, að á hans orð mundi verða hlustað, — vekja athygli á þeirri staðreynd, að íslenzk skip mega ekki athafna sig við grænlenzkar hafnir, jafnvel í lífsnauðsyn? Má hann láta í ljós ósk íslenzku ríkisstj. um það, að þetta ástand hætti? Nei, segir hæstv. ríkisstj. Það er augljóst mál. — Mér þykir það mjög leitt, að hæstv. utanrrh. hefur ekki getað komið því við að hlusta á mál mitt, og vil ég þess vegna endurtaka fyrir hann, það sem ég sagði hér síðast, áður en hann kom inn, en það var það, að ég spurði, hvort það væri á móti vilja hæstv. ríkisstjórnar Íslands, að fulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum vekti athygli allsherjarþingsins á þeirri staðreynd, að íslenzk fiskiskip mega ekki á nokkurn hátt athafna sig við Grænland, jafnvel í lífsnauðsyn, vegna þess banns, sem dönsk stjórnarvöld hafa sett við þessu. Mætti fulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum vekja athygli á því, að þetta er einsdæmi í heiminum, að þetta er brot á þjóðarétti, á meginreglu þjóðaréttarins, á öllum góðum venjum, sem tíðkast milli þjóða? Og mætti hann vekja athygli á því, að hér er um stórkostlegt hagsmunamál íslenzku þjóðarinnar að ræða?

Ég sé, að það er ekki meiningin samkv. till. hæstv. ríkisstj., sem hér liggur fyrir, að fulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum megi segja nokkurt orð um þetta mál. Ég skil hana svo. En þá spurði ég hér áðan hæstv. utanrrh., hvort t. d. íslenzkir útgerðarmenn og sjómenn mættu láta í ljós skoðun sína um það, hvort það sé hagsmunamál íslenzku þjóðarinnar, að þetta eindæma og hneykslanlega ástand hætti.

Það er augljóst mál, að með viðurkenningu Sameinuðu þjóðanna á því, að Grænland sé ekki lengur nýlenda Dana, heldur hérað, ein af eyjum Danmerkur, þá verður mikil breyting á réttarstöðu Grænlands. Og það er mál, sem mjög margir Íslendingar hafa hugsað um áratugum saman, kynnt sér mikið og rætt og ritað um.

Hv. þm. Borgf. minnti á það, að síðan 1920 a. m. k. hafa margir mætustu menn Íslendinga viljað vekja athygli þjóðar sinnar á því, að það er ekki alveg víst, að Danir eigi Grænland, að þeir eigi yfirráðarétt yfir Grænlandi. Þjóðskáldið Einar Benediktsson, hinn nýlátni ágæti þingskörungur Benedikt Sveinsson, Magnús heitinn Sigurðsson bankastjóri og síðast en ekki sízt dr. Jón Dúason hafa fært rök að því, að það kynni að vera svo, að Ísland ætti nokkurt réttartilkall til Grænlands. Þeir hafa byggt það allir á þeirri staðreynd, sem verður ekki mælt í móti, að Grænland var numið af Íslendingum, af mönnum frá Íslandi.

Það eru til menn, sem vilja skopast að þeim kenningum, sem þessir menn hafa haldið fram, viljað leitast við að færa rök fyrir og a. m. k. einn þeirra, dr. Jón Dúason, hefur fórnað hálfri ævi sinni til þess að safna gögnum og rökum að. Maður hefur heyrt hæstv. ráðh. spotta mikið þá menn, sem halda þessu fram, og segja: Þeir vilja leggja undir sig Grænland. Þeir eru að krefjast þess, að við leggjum undir okkur Grænland sem nýlendu. — Það geta verið skoðanir þessara hæstv. ráðh., ekki vil ég vefengja það, eins og hæstv. forsrh. lýsti hér af miklum fjálgleik áðan, og sannfæring þeirra, að Íslendingar eigi engan — alls engan rétt til Grænlands. En hann hefði þá ekki átt að vera að samþykkja það 1931, hæstv. forsrh., að Íslendingar kæmu á framfæri þeirri skoðun sinni, að þeir ættu einhvern rétt til Grænlands. En honum er auðvitað leyfilegt að skipta um skoðun.

Nú er mjög haft á móti þeim kenningum, að Íslendingar eigi vegna landnáms Íslendinga að fornu á Grænlandi nokkurn rétt til Grænlands. En ég vil benda þeim ágætu mönnum á, að ekki skopaðist alþjóðadómstóllinn í Haag, fasti dómstóllinn í Haag 1933, að sams konar kenningum. Hann byggði þann rétt, sem hann gaf Dönum, fyrst og fremst á landnámi Íslendinga á Grænlandi að fornu. Hann hafði að vísu engar upplýsingar um sögulega stöðu Grænlands gegnum aldirnar nema frá Dönum, því að það fór svo, að Norðmenn vildu ekkert leggja upp úr þeim sögulega rétti. Þeir héldu því fram fyrir dómstólnum, að hinn sögulegi réttur hefði fallið niður við það, að byggðir Íslendinga þar hefðu eyðzt, og síðan hefði Grænland verið „terra nullius“, þ. e. a. s. engra manna eða einskis ríkis land, þangað til það fannst aftur. En þeir héldu því fram, að Danir hefðu þrátt fyrir það ekki fært sönnur á yfirráðarétt sinn til Grænlands, og færðu að því rök, sem voru mjög sterk í augum margra manna, sem vel bera skyn á þjóðarétt, þ. á m. í augum nokkurra af dómendunum sjálfum í dómstólnum, eins og fram kemur í dómnum, ef menn vilja kynna sér hann. Og ég verð að segja, að í mínum augum hafa Danir enn í dag það á tilfinningunni, að þeir hafi ekki alveg fest yfirráðarétt sinn til Grænlands. Og það er einmitt þess vegna, að þeir vilja nú leggja svo mikla áherzlu á að fá það samþykkt í kyrrþey á þingi Sameinuðu þjóðanna, að Grænland sé ekki lengur nýlenda, heldur hluti af Danmörku.

Það er mjög auðvelt að sýna fram á það, að Danir hafa ekki, a. m. k. síðustu þrjá áratugina, verið alveg vissir í sinni sök um yfirráð sín yfir Grænlandi að alþjóðarétti. Þeir hafa í opinberum skjölum viðurkennt, að þeir hafi ekki haft bolmagn til þess að fara með yfirráðarétt um allt Grænland, en það var að þjóðarétti nokkuð fram á þessa öld talið ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir því, að ríki hefði rétt yfir nýlendu. Skilyrðið var það, að ríkið hefði lagt nýlenduna undir sig, þ. e. a. s. venjulega rænt henni bókstaflega með vopnavaldi, og sýnt vald sitt yfir henni um alllanga hríð. Það var „occupation“, eins og það var kallað og er kallað. Þetta gátu Danir ekki sannað, að þeir hefðu þannig lagt allt Grænland undir sig. Þess vegna gripu þeir til þess ráðs fyrir dómstólnum í Haag að leiða sinn rétt til Grænlands alla leið til landnemanna, sem námu Grænland frá Íslandi, og til þess, eins og kemur fram í forsendum dómsins, sem Sturla Þórðarson segir í Hákonarsögu, að Grænlendingar hafi játað Hákoni gamla skatt. Þetta er frumforsenda og aðalforsenda þessa dóms, sem hæstv. forsrh. og fleiri tala um sem hámark vísdómsins og alveg óvefengjanlegan, endanlegan úrskurð í þessu máli.

En látum nú vera, að þetta sé svo. En við vitum vel, allir Íslendingar, eða ættum a. m. k. að vita, að nákvæmlega sama gerðu Íslendingar á 13. öld, milli 1260 og 1264. Þeir játuðu Hákoni gamla skatt. En Jón Sigurðsson og allir forvígismenn Íslendinga í sjálfstæðisbaráttu þeirra héldu fram þeirri kenningu, sem kannske er nú farið að fyrnast yfir í augum hæstvirtra ráðherra, eftir því sem maður heyrir þá tala, að Íslendingar hefðu aðeins samið við persónuna Hákon gamla og alla tíð síðan verið í persónusambandi samkv. frjálsum samningi við konunga Danmerkur og Noregs og síðan Danmerkur. Að þessum kenningum, sem hefur ekki verið hlegið að á Íslandi enn þá, byggðist öll sjálfstæðisbarátta Íslendinga. Og mér hefur skilizt, að þessi kenning Jóns Sigurðssonar og þeirra, sem tóku við af honum, hafi einmitt haft mestu þýðinguna í sjálfstæðisbaráttunni, að við trúðum því, að þjóðin mundi skilja það, að hún hefði sögulegan rétt, sem væri viðurkenndur að alþjóðalögum, hún væri í raun og veru enn þá fullvalda þjóð og hún þyrfti aðeins að lýsa yfir fullveldi sínu. Og það var vegna þessarar kenningar, að Íslendingar tóku aldrei við því góða boði Dana að verða innlimaðir sem hérað í Danmörku og eiga setu á ríkisþingi Dana, eins og Grænlendingum stendur nú til boða. En nú heyri ég menn spotta allar slíkar kenningar um sögulegan rétt.

Ég játa, að það kann að vera, að það hafi ekki verið færð óyggjandi lögfræðileg rök og söguleg rök fyrir því, að þessi réttur, réttur Grænlendinga hinna fornu, hafi nú hafnað hjá Íslendingum, eins og dr. Jón Dúason vill halda fram. En ef hann er ekki hjá Íslendingum, þá er hann hjá Grænlendingum sjálfum. Ef Íslendingar eiga ekki Grænland samkv. sögulegum rétti, þá eiga Grænlendingar hann. Og fyrir því má líka færa önnur rök en þau sögulegu rök, því að grænlenzk þjóð, grænlenzkt fólk er til enn í dag, þó að einhverjir vilji kannske hártoga það, að það sé þjóð. Og að vísu er það vitað, að það er orðin mjög blönduð þjóð.

Þetta er sem sagt mín niðurstaða: Með fullri tilvísun til niðurstöðu alþjóðadómsins, sem felldur var í apríl 1933 af fasta alþjóðadómstólnum í Haag, sem byggist á sögulegum rétti, séu það samkv. kenningum Íslendinga um sín sjálfstæðismál annaðhvort Íslendingar eða þá Grænlendingar, sem eigi Grænland, en alls ekki Danir. En þetta sjónarmið Íslendinga fékk aldrei að koma fram fyrir alþjóðadómstólinn í Haag á árunum 1931–33, þegar málið var sótt og varið þar, hvernig sem á því hefur nú staðið. Þrátt fyrir það að Alþ. hefði samþ. einróma, að íslenzka ríkisstj. skyldi koma sjónarmiðum Íslendinga og þá vitanlega fyrst og fremst þessum sögulegu sjónarmiðum á framfæri við alþjóðadómstólinn, þá var það ekki gert. En þessi sjónarmið eru til fyrir því. Og ég álít, að það megi vel enn þá á alþjóðavettvangi vekja athygli á því, að á Íslandi séu frammi skoðanir um það, að Íslendingar eigi rétt til Grænlands, um leið og vakin er athygli á því ástandi, sem er á Grænlandi eftir rúmlega tveggja alda stjórn Dana, og á þeim hagsmunum, sem Íslendingar alveg óvefengjanlega eiga að gæta í sambandi við Grænland.

Ég veit, að í þessu máli eins og öðrum utanríkismálum fá hvorki að ráða rök né heldur skoðanir þingmanna. Mér kemur það ekkert á óvænt, þó að maður sjái hæstvirta ráðherra reyna að gera sig mjög fyndna, þegar talað er um réttindi Íslendinga til Grænlands, og spotta það. Ég get vel skilið það, að sumir hæstv. ráðh. fara hjá sér yfirleitt, ef minnzt er á landsréttindi, og roðna. En það er nú svo, að það er til mikill fjöldi, stór hópur Íslendinga, sem veit vel af hinum fræðilegu kenningum, sem eru til og hafa verið settar fram um þetta, og það er engin ástæða til að segja, að við Íslendingar þurfum í dag að afneita þessum kenningum á alþjóðavettvangi og afsala okkur öllum rétti og fullyrða, eins og hæstv. forsrh., að við eigum alls engan rétt, það hafi okkar eigin sérfræðingar sýnt fram á. Það er engin ástæða til þess.

Það má segja: Það þarf að færa fram skýrari og meiri rök. Það þarf að leggja þessa kenningu betur fyrir. — Og það má segja: Við geymum okkur allan hugsanlegan rétt. — Það mætti segja, að um leið og fulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum gæti gert grein fyrir því, að hann treysti sér ekki til að greiða atkvæði með ósk Dana um, að Grænland verði innlimað í Danmörku, þá er honum hægurinn hjá að færa skynsamleg rök fyrir því, án þess að færa fram neina kröfu til Grænlands sem nýlendu.

En þó að það yrði ekki gert í dag, þá skulu menn vita, að þjóðaréttur breytist, sem betur fer. Réttarhugmyndirnar þróast líka og breytast. Þær eru ekki þær sömu nú, 1954, eins og þær voru fyrir 20–30 árum. Ég vil meira að segja, segja, að ég efast ekki um, að Danir hefðu fyrir 1918 getað fengið sams konar dóm um Ísland og þeir fengu um Grænland. Vald alþjóðadómstólsins var að vísu ekki til þá, en þeir hefðu getað fengið þjóðréttarfræðinga til þess að kveða upp þann dóm, samkvæmt skilningi manna þá á þjóðaréttinum, að Ísland væri ævinleg nýlenda Danmerkur eins og var slegið föstu um Grænland. En þessar hugmyndir breytast. Og það getur vel komið sá tími, að það verði litið öðruvísi á réttinn til nýlendna heldur en er gert í dag.

Það hefur verið bent á það í þessum umræðum, að hæstv. menntmrh., sem nú er, hafi skipað nefnd þriggja sérfróðustu Íslendinga til þess að kveða upp úrskurð um rétt Íslands til Grænlands. Það gefst ekki tími til að fara út í það mál. En ég vil aðeins vekja athygli á því, að svo undarlega brá við, að þó að allir þeir, sem hafa haldið fram þessum rétti Íslands til Grænlands, hafi byggt hann á sögulegum rökum, þá forðaðist þessi hæstv. ráðh. að skipa í þessa sérfræðinganefnd sérfræðing í Íslandssögu. Hann hafði ekki í henni einu sinni einn einasta sögufróðan mann, hann varaðist það. Það eru að vísu valinkunnir lögfræðingar, en það veit enginn til þess, að þeir séu neinir sérfræðingar í sögu Íslands eða Grænlands. Þess vegna verð ég að segja, að þetta sérfræðingaálit hefur ekki sannfært mig og mun ekki sannfæra þá, sem byggja mest á hinum sögulegu rökum, því að þar er svo lélega á haldið, að mig undraði, og er ég þó ekki sérstaklega fróður í Íslandssögunni. En þrátt fyrir þá afstöðu, sem hv. stjórnarflokkar taka nú í dag til þess að láta fulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum leggja fullkomna blessun sína yfir innlimun Grænlands í Danmörku, þá mun verða haldið áfram með íslenzku þjóðinni að rannsaka og hugsa um sögu Íslands og Grænlands og sögulegan rétt þjóða yfir landi sínu.

Ég ætla ekki að hafa þetta mál mitt öllu lengra, en ég vil að lokum leyfa mér að bera fram brtt. við till. hæstv. ríkisstj., sem er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að gefa fulltrúum Íslands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna nú þegar fyrirmæli um að greiða atkvæði gegn viðurkenningu Sameinuðu þjóðanna á innlimun Grænlands í danska ríkið og bera fram ákveðin mótmæli Íslands gegn þeirri innlimun og lokun Grænlands.“

Þessa till. leyfi ég mér að afhenda forseta.