19.11.1954
Sameinað þing: 18. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í D-deild Alþingistíðinda. (2401)

105. mál, atkvæðagreiðsla að hálfu Íslands

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Þetta mál er að öllu leyti þannig vaxið, að mér virðist full ástæða til að ræða það rólega. Það má raunar segja að hæstv. fjmrh. hafi gert, — sá ráðherrann, sem síðast talaði hér á undan, en sumir hæstv. ráðh. virðast hafa verið á annarri skoðun, og þá alveg sérstaklega hæstv. forsrh., sem talaði hér í kvöld og viðhafði, að mér fannst, ólíkt meiri hávaða en röksemdir í ræðu sinni. En það hefur nú að vísu stundum komið fyrir áður.

Ég verð að segja það, að mér finnst sú till., sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt hér fyrir, ekki sérstaklega stórmannleg. Þetta mál hefur þegar verið skýrt allmikið, svo að það liggur nú nokkuð ljóst fyrir þm., og mér virðist það þannig vaxið, að vel sé hægt að taka afstöðu með eða móti, — vel sé hægt fyrir Alþ. og ríkisstj. að mæla svo fyrir við fulltrúa ríkisins hjá Sameinuðu þjóðunum að gera annað tveggja, viðurkenna það, sem Danir fara fram á, eða neita að viðurkenna það.

Hæstv. utanrrh. hefur lýst því yfir, að sú afstaða, sem ríkisstj. leggur til, að sitja hjá án allra fyrirvara eða grg. muni verða túlkuð sem stuðningur við málið, og það hefur komið allmjög fram í ræðum hæstv. ráðh., að þeir telji, að það sé eðlilegt og rétt, að Íslendingar fallist á þann skilning, sem Danir halda fram. En þó á nú ekki að gera það á þann hátt að greiða atkv. með þeim, heldur með því að sitja hjá, þar sem það verði þó skoðað sem óbein samstaða eða samþykki. Mér fannst þess vegna, þegar tekið er tillit til þessa, að hæstv. utanrrh. hefði ekki þurft að vera að tala um skort á hugrekki. Hann virtist beina þeim orðum alveg sérstaklega til hv. þm. Borgf. (PO). Ég held, að þau orð hafi ekki komið í réttan stað niður.

Verði sú till. samþ., sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt hér fram, að fela fulltrúum okkar á þingi Sameinuðu þjóðanna að sitja hjá við atkvgr. um það, hvort eftirlit með Grænlandi skuli ekki lengur haft með höndum af verndargæzlunefnd Sameinuðu þjóðanna, þá er þar með af Íslands hálfu stigið mjög mikilvægt spor og að mínum dómi ærið varhugavert.

Slík afstaða, án allrar grg. eða fyrirvara, mundi verða skoðuð sem viðurkenning á eftirfarandi atriðum:

1) Að Íslendingar telji sig ekkert tilkall hafa til Grænlands og einskis réttar að gæta í sambandi við þjóðréttarlega stöðu þess.

2) Að Íslendingar viðurkenni rétt Dana til að innlima Grænland í danska ríkið og fallist á, að það hafi verið gert með lýðræðislegum og eðlilegum hætti.

3) Að Íslendingar leggi með þessu móti eins konar blessun yfir stjórn Dana á Grænlandi og telji ástæðulaust, að með henni sé lengur haft nokkurt alþjóðlegt eftirlit.

Ég vil nú fara örfáum orðum um þessi atriði hvert um sig, en skal þó takmarka mál mitt. Flokkur minn lítur þannig á, að tímar nýlenduvelda séu nú liðnir eða að minnsta kosti að verða liðnir hjá. Stefnan hlýtur því að verða sú og á að verða sú, að hver einasta þjóð ráði sjálf sínu landi, á sama hátt og við Íslendingar viljum ráða okkar landi. Þess vegna ber að stefna að því að okkar dómi, og við Íslendingar eigum áð leggja ekkar lóð á vogarskál til þess, hvenær sem færi gefst, að Grænlendingar geti eflzt svo, að þeir verði færir um að stjórna sjálfir landi sínu, og það á ekkert að gera, sem torveldar þeim þetta.

Þó að ég sé þannig þeirrar skoðunar, að við Íslendingar eigum ekki að hefja nýlendupólitík, þá finnst mér engin ástæða til þess að hrapa að því nú, þegar þetta mál liggur fyrir á alþjóðavettvangi, að afsala okkur og niðjum okkar um aldur og ævi öllum hugsanlegum rétti í sambandi við Grænland. Þó að við teljum, að tímar nýlendupólitíkur séu liðnir, þá er ekki þar með sagt, að við eigum að afsala okkur þessum hugsanlega rétti, því að við þurfum að sjálfsögðu ekki að hagnýta okkur þann rétt, þótt við ættum hann, til þess að gera Grænland að nýlendu okkar.

Varðandi annað atriðið, sem ég minntist á, vil ég segja þetta, og leggja á það verulega áherzlu: Það er engin ástæða til að viðurkenna innlimun Grænlands í danska ríkið og þar með lokun landsins. Sízt af öllu er það skynsamlegt, þegar þess er gætt, að þessi innlimun hefur engan veginn farið fram með þeim hætti, sem yfirleitt mun nú talið sjálfsagt að sé á hafður, þegar slíkar mikilvægar ákvarðanir eru teknar um breytingu á réttarstöðu heilla landa.

Grænlenzka þjóðin hefur aldrei verið að því spurð með almennri þjóðaratkvgr., hvað hún vilji í þessum efnum. Þetta atriði hefur ekki legið fyllilega skýrt fyrir, og ég vissi ekki nákvæmlega um það, fyrr en nú síðdegis í dag. að ég fékk glöggar upplýsingar um þetta. Það kom fram, strax þegar Danir fóru fram á það í verndargæzluráðinu fyrir einum 10–11 dögum að fá samþykki þess fyrir því, að það væri ekki lengur á Grænland litið sem nýlendu, að það var vefengt af nokkrum ríkjum, einum fjórum eða fimm, að Danir hefðu gengið þannig frá þessu máli, að Grænlendingar hefðu fengið að segja um það sitt álit með allsherjaratkvgr., hvort þeir vildu sjálfir þessa breytingu á stöðu sinni, hvort þeir vildu einhverja aðra breytingu, hvort þeir vildu verða sjálfstæðir o. s. frv. Um þetta hef ég nú aflað mér upplýsinga, og þær eru á þá leið, að það er langur vegur frá því, að þetta hafi verið lagt fyrir grænlenzku þjóðina á fullkomlega lýðræðislegan hátt, svo sem gera verður þá kröfu til, þegar slík meginbreyting er gerð.

Breytingin á stöðu Grænlands, sem gerð var með samþykkt hinna nýju grundvallarlaga Dana 5. júní 1953, var aldrei borin undir þjóðaratkv. í Grænlandi. Hins vegar var grundvallarlagafrv. borið undir stofnun, sem kallast grænlenzka landsráðið eða „landsraad“ og í þessari stofnun var breytingin samþ. einróma. En hvernig er nú þessi stofnun upp byggð? Við vitum það, að hér er ekki um löggjafarþing að ræða. En er hér um að ræða fulltrúaþing, kosið með almennum kosningum, og hefur verið kosið til þessa þings til þess að taka ákvarðanir um þetta stóra mál?

Þessu mun vera þannig háttað, og ég hygg, að þær upplýsingar séu algerlega réttar, að þessi stofnun, landsráðið, sé þannig upp byggð eða hafi verið, þegar þessi ákvörðun var tekin í því, að hver hreppsnefnd í Grænlandi hafi kosið úr sínum hópi einn fulltrúa í þetta landsráð, en landfógetinn hafi verið formaður ráðsins. Landfógetinn var skipaður af dönsku ríkisstj. Þetta landsráð var aðeins ráðgefandi, og þess munu mjög mörg dæmi, að ekki hefur verið gert meira með álit þess og tillögur en það, að danska stjórnin og Grænlandsstjórnin danska hafa ekki virt þau að neinu í rumum tilfellum.

Varðandi þriðja atriðið, sem ég nefndi hér áðan, er það að segja í sem allra stytztu máli, að nýlendusaga Dana er ekki á þann veg, svo að maður hafi ekki sterk orð, né stjórn Dana á Grænlandi á liðnum tímum, að það sé ástæða til að leggja sérstaka blessun yfir þá frammistöðu. Hv. 6. landsk. þm., sem talaði hér áðan, lýsti þessum atriðum allrækilega, og skal ég ekki fara lengra út í það.

Hér eru fram komnar tvær brtt. við till. frá hæstv. ríkisstj., till. frá hv. þm. Borgf. og till. frá hv. 6. landsk. þm. Ég get fyrir mitt leyti fallizt á þessar till. hvora um sig, svo langt sem þær ná, en okkur þjóðvarnarmönnum þykir þó það á vanta, að hvorugri þessari till. fylgir rökstuðningur fyrir því, hvers vegna fulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum skuli samkv. till. greiða atkv. gegn því að viðurkenna innlimun Grænlands í Danmörku. Hæstv. fjmrh. sagði að vísu í ræðu sinni hér áðan, að það væri í raun og veru ekki nema einn rökstuðningur til fyrir því að vilja greiða atkv. gegn vilja Dana í þessu máli hjá Sameinuðu þjóðunum, og sá rökstuðningur væri sá, að við Íslendingar lýstum því jafnframt yfir, að við gerðum landakröfur til Grænlands, við teldum það nýlendu Íslands. En ég lít þannig á, að þessu sé alls ekki svo varið, heldur megi og eigi að rökstyðja þá afstöðu að greiða atkv. gegn till. Dana með öðrum hætti. Ég vil því leyfa mér fyrir hönd okkar þjóðvarnarmanna að leggja hér fram brtt. við þáltill. hæstv. ríkisstj. Þessi till. er skrifleg og hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

Tillgr. orðist svo:

Alþingi samþ., að utanrrh. gefi sendinefnd Íslands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna fyrirmæli um að greiða atkv. gegn því að viðurkenna innlimun Grænlands í danska ríkið með því að leysa Dani undan þeirri skyldu að gera gæzluverndarnefnd Sameinuðu þjóðanna grein fyrir stjórn sinni á Grænlandi.

Ályktar Alþingi að fela sendinefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum að rökstyðja þessa afstöðu með því að lýsa yfir:

1) Að Íslendingar viðurkenni ekki rétt neinnar þjóðar til að gera aðra þjóð að hluta af sinni þjóð og land hennar að hluta af sínu landi.

2) Að Íslendingar vefengi, að við innlimun Grænlands í danska ríkið hafi Grænlendingar verið spurðir um vilja sinn á fullkomlega lýðræðislegan hátt.

3) Að ekkert hafi komið fram í þessu máli, sem réttlæti það, að Danir séu leystir undan þeirri skyldu að gera gæzluverndarnefnd Sameinuðu þjóðanna grein fyrir stjórn sinni á Grænlandi, sízt af öllu ef tillit er tekið til þess, að Grænland er enn raunverulega lokað land.“