20.04.1955
Sameinað þing: 53. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í D-deild Alþingistíðinda. (2585)

148. mál, nýjar atvinnugreinar

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að bæta neinu við þá glöggu framsöguræðu, sem flutt hefur verið hér um þetta mál. Það voru tekin þar fram rækilega þau atriði, sem eðlilegt var að minnast á í sambandi við þessa till. Ég vildi aðeins þakka fjvn. fyrir afgreiðslu þessa máls, og ég álít, að sú breyting, sem hefur verið gerð á till. í fjvn., sé frekar til bóta. Það mundi margur segja, að þótt ekki hefði verið bætt við till., hefði n. getað tekið þau atriði til athugunar, sem viðbótin nú leggur fyrir n. að gera, en það er a. m. k. til bóta, að þetta er skýrt og ákveðið, og læt ég í ljós ánægju mína yfir því.

Hér er um að ræða samræmingu á þeim rannsóknum, sem núna fara fram í landinu. Við vitum, að það fara fram rannsóknir og tilraunir á fjöldamörgum stöðum á Íslandi, og er það ekki sízt í landbúnaði og sjávarútvegi. Þessar rannsóknir eða tilraunir hafa aldrei verið samræmdar. Það hefur verið gerð tilraun til þess að gera það, en það hefur ekki tekizt, og þegar sú ákvörðun var tekin að gefa út dagbók bænda á sínum tíma, sem er að margra áliti mjög nauðsynleg bók og horfir að mörgu leyti til meiri framfara í landbúnaði en menn gera sér ef til vill grein fyrir, þá var gert ráð fyrir því að samræma þessar tilraunir og rannsóknir í þágu landbúnaðarins og gefa út í heild árlega þær niðurstöður, sem fást af þessum tilraunum og rannsóknum, í aðgengilegu formi fyrir landsmenn. Það hafa verið tekin einstök atriði, ekki aðeins í landbúnaðinum, heldur á öðrum sviðum, sem sérstakir menn hafa verið fengnir til þess að taka til rannsóknar, t. d. þararannsóknirnar. Það hefur verið látin fara fram ýtarleg rannsókn á möguleikum til þess að vinna efni úr þara og af ágætum manni. Og þannig mætti lengi telja, en ég álít, að það sé eitt af því nauðsynlega að samræma þessar rannsóknir og gefa út niðurstöður þessara rannsókna og tilrauna árlega í aðgengilegu formi fyrir landsmenn. Þetta yrði stór umbót frá því, sem nú er, þar sem þessar rannsóknir eru gerðar og þeim síðan stungið ofan í skúffu, án þess að aðrir en þeir, sem að þessum rannsóknum standa, og nokkrir embættismenn viti um niðurstöðurnar.

Það er ekki þörf á að orðlengja um þessa till. eftir hina glöggu framsöguræðu. Ég endurtek þakklæti mitt fyrir undirtektir fjvn. undir þetta mál, og ég er ekki í neinum vafa um það, að ef okkur tekst sæmilega vel að velja í þessa nefnd, getur hún orðið að verulegu gagni fyrir þjóð okkar.