22.10.1954
Sameinað þing: 6. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í D-deild Alþingistíðinda. (2610)

55. mál, atvinnumál í Flateyjarhreppi

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Það er nú hvort tveggja allmikið liðið hér á fundartímann í dag og fáir hér til þess að hlusta, en hins vegar mjög mikil þörf á því, að þetta mál fái sem skjótasta afgreiðslu, og mun ég því stytta nokkuð mál mitt frekar en ég hefði gert annars, enda allmiklar upplýsingar um þetta mál í þeirri grg., sem fylgir með till. En till. sú, sem hér um ræðir, er um að aðstoða Flateyjarhrepp vegna atvinnumála á þann hátt að heimila ríkisstj. að afhenda nú þegar hraðfrystihúsið í Flatey í rekstrarhæfu ásigkomulagi hreppnum kvaðalaust með öllum áhöldum og öðru því, sem húsinu tilheyrir.

Eins og kunnugt er, hafa Flateyingar hafið harða baráttu undanfarin ár til þess að reyna að koma upp hjá sér öruggum atvinnurekstri, lögðu í það af mikilli fátækt svo að skipti hundruðum þúsunda, sem allt er glatað fé, keyptu m. a. tvo mótorbáta til þess að hafa þar atvinnurekstur og komu þar einnig upp frystihúsi, sem kostaði um 2 millj. kr.

Á s.l. ári var svo hafizt handa um að taka þessi atvinnutæki af Flateyingum, vegna þess að þeir höfðu komizt í greiðsluþrot; bátarnir voru seldir í burtu, húsið hefur ekki verið starfrækt og atvinnureksturinn þar af leiðandi í molum. Á s. l. vetri, þegar vitað var, að búið var að selja bátana í burtu og hugsað var að selja einnig húsið, þá ritaði ég f. h. þessara manna hæstv. ríkisstj. bréf, sem birt er með þáltill. sem fylgiskjal. Sé ég ekki ástæðu til að lesa það hér upp. Fór ég þar fram á, að hún veitti Flateyjarhreppi allt að 1 millj. kr. fjárhagslegan styrk af atvinnubótafé til þess að forða því, að húsið yrði selt á opinberu uppboði og vélar kannske teknar úr því og fluttar til annarra staða og þannig lagt algerlega í rúst þeirra atvinnulíf. Hæstv. ríkisstj. hefur ekki séð sér fært að verða við þessum tilmælum.

Þegar ég svo flutti þetta mál í sumar við ríkisstj., eftir að frystihúsið hafði verið selt og ríkisstj. orðin eigandi þess, án þess þó að það væri starfrækt, þá sá hún sér ekki heldur fært að verða við þessari beiðni, en hefur nú talið rétt, að þessu yrði hreyft hér á Alþingi, þegar svo stendur á, að það situr hér, svo að Alþingi geti tekið ákvarðanir um það, hvort Flateyingum skuli hjálpað á þennan hátt eða sveitin skuli látin fara í auðn, eins og virðist verða, ef ekkert verður að gert. Og m. a. er þess vegna þessi till. borin hér fram.

Mér þykir rétt að upplýsa hér, að um síðustu aldamót eða skömmu eftir síðustu aldamót voru um 400 manns í Flatey einni. Þá voru eyjarnar umhverfis, eins og Hergilsey og Bjarnareyjar, byggðar, tví- og þríbýli í hvorri um sig. Nú eru þær komnar báðar í eyði, m. a. vegna atvinnuhnignunar í Flatey, og á síðustu áramótum mun fólksfjöldinn í Flatey vera kominn niður í 110 manns, svo að það sýnir, á hvaða leið þetta er, ef ekkert er að gert. Ég vil því vænta þess, að hv. Alþingi sjái nauðsyn til að bjarga þessum málum og það verði ekki gert á annan eða betri hátt en lagt er til í þessari tillögu.

Það er vitanlegt, að það atvinnufyrirtæki, sem hér um ræðir, hraðfrystihúsið, hefur kostað, eins og ég sagði áðan, um 2 millj. kr. Það stendur undir skemmdum, bæði vélar og hús, ef ekkert er að gert. Og það væri að sjálfsögðu enginn hagur fyrir þjóðfélagið að láta það grotna þannig niður í stað þess að hjálpa til að koma því á starfsgrundvöll, eins og farið er fram á, enda eru fordæmi um það frá öðrum tímum. Ég vil í þessu sambandi m. a. minnast á Drangsnes í Strandasýslu. Var ríkisstj. ekki fyrir alllöngu heimilað að afhenda ákveðnu félagi í hreppnum eignirnar með mjög vægum kjörum eða án verulegrar greiðslu. Þar að auki vitum við, að það hefur verið hvað eftir annað hlaupið undir bagga með síldarútvegsmönnum og öðrum, sem orðið hafa fyrir stórkostlegu tjóni vegna aflabrests, en það tjón, sem hefur komið hér á Flateyinga, stafar einnig af þeirri sömu ástæðu, því að mikið af þeim töpum, sem hér hafa átt sér stað, var einmitt í sambandi við síldveiðar. Auk þess má benda á, að veitt var allmikið fé til bænda á Norðausturlandi, þegar þeir urðu fyrir miklum skakkaföllum af óblíðri veðráttu o. s. frv., svo að hér er ekki farið inn á neina nýja braut, heldur haldið áfram á þeirri leið, sem þegar hefur verið mörkuð víða annars staðar á landinu. Ég vil því mega vænta þess, að þessu verði tekið með fullum skilningi, bæði af hv. Alþingi og hæstv. ríkisstjórn.

Ég hef einnig í 2.lið till. farið fram á það, að gefin sé heimild til þess að greiða fólkinu ógreidd vinnulaun, sem verða ekki greidd frá þessum fyrirtækjum, sem þegar eru komin í greiðsluþrot og sum hver þeirra hafa verið gerð upp, en hér mun vera um rúmar 90 þús. kr. að ræða, sem fólkið hefur tapað í vinnulaunum, auk þess fjár, sem það hefur lagt fram til að starfrækja eða koma upp þessum fyrirtækjum. En að ég hef óskað þess, kemur m. a. til af því, að fólkið hefur orðið að vísa hreppnum á þessar upphæðir til þess að greiða með þeim sveitargjöldin, og án þess að það fáist að þessum leiðum, sem ég hef þegar lagt til, þá er vitanlegt, að hreppurinn tapar þessu fé, vegna þess að hann á ekki möguleika til þess að taka það á annan hátt af fólkinu. Það væri því sama sem að íþyngja hreppnum sjálfum enn, ofan á allt annað, ef ekki yrði orðið við þessari till., sem ég ber hér fram.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða þetta mál nánar, vil aðeins leyfa mér að benda á til athugunar fyrir þá hv. n., sem kemur til með að fjalla um þetta mál, að í hinu mikla áliti og till. atvinnumálanefndar, þar sem einn af hv. fjvn.-mönnum átti sæti, hv. 3. landsk., er gerð ýtarleg grein á bls. 57 fyrir atvinnumálum Flateyinga og þeim möguleikum, sem séu fyrir hendi til þess að bæta þar úr, og einnig bent á ákveðnar till. í sambandi við þau mál, og væri að sjálfsögðu æskilegt, að hv. fjvn. kynnti sér þetta, þegar hún afgr. þessa till., sem hér um ræðir.

Ég vil að endingu leyfa mér að æskja þess, að þessu máli verði vísað til síðari umr. að þessari umr. lokinni og til hv. fjvn., og vænti þess, að hún hraði málinu svo sem unnt er, vegna þess að þetta mál má á engan hátt tefjast, og þótt illt sé að fá neikvætt svar, þá er þó neikvætt svar skjótt betra en ekkert svar eða neikvætt svar, sem dregið yrði um margar vikur eða mánuði.