10.05.1955
Sameinað þing: 58. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í D-deild Alþingistíðinda. (2679)

204. mál, atvinnuaukning

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Það segir sig sjálft, að n. hefur ekki beinlínis tekið till. hv. þm. N-Þ. (GíslG) til athugunar, þar sem hún er borin fram hér á þessum fundi skriflega, en ég fyrir mitt leyti verð að segja það, að mér finnst hún réttmæt og ekki skemma efni aðaltillögunnar á nokkurn hátt. Skil ég ekki í öðru en að hv. meðnm. mínir fallist á það. Annars verða vitanlega atkv. úr því að skera, og er ég ekki að gera tilraun til að binda þeirra atkv. á neinn hátt um þetta, en mér finnst, að till. megi vel samþykkjast og að þessu verði bætt við þáltill.

Út af ræðu hv. 3.landsk. (HV) vil ég aðeins segja það, að að þessari till. á þskj. 204 stendur öll allshn. Sþ., en í n. eiga sæti fulltrúar frá fjórum flokkum þingsins, öllum nema Þjóðvfl., þ. á m. frá flokki hv. 3. landsk. þm. Í öðru lagi vil ég segja það, að meðflm. hans að þeirri till., sem hann flutti hér snemma á þinginu, á sæti í n. og féllst á þessa afgreiðslu. Í þriðja lagi vil ég taka það fram, að bæði af viðtali við hæstv. forsrh. og á annan hátt er n. fullkunnugt um það, að það er verið að vinna að landhelgismálum Íslands eins og hægt er, og viljayfirlýsing Alþ. getur engu breytt, að því er n. álítur, í því efni.