04.11.1954
Sameinað þing: 11. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í D-deild Alþingistíðinda. (2701)

58. mál, vantraust á menntamálaráðherra

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Þessi vantrauststill. á menntmrh., sem hér er til umr., er borin fram vegna misferlis hans og hlutdrægni í embættaveitingum. Fátt varðar meira almenningsheill en réttlæti og ábyrgðartilfinning í embættaveitingum. Það fylgir því mikil ábyrgð að fara með veitingarvaldið, og Alþ. tekur á sig þunga ábyrgð með því að fá veitingarvaldið í hendur óhlutvöndum mönnum,

En hvað er réttlæti í embættaveitingum? Hvaða meginreglu ber samvizkusömum ráðh. að fylgja í þessu efni? Ber honum kannske að skipta embættunum milli stjórnmálaflokkanna í sem réttustu hlutfalli við atkvæðamagn þeirra? Eftir umr. um þessi mál að dæma virðist sú regla eiga mjög almennu fylgi að fagna meðal stjórnmálaflokkanna, með þeim fyrirvara þó, að „kommúnistum“ á aldrei að veita nein embætti eða trúnaðarstöður, hversu hæfir sem þeir eru til að gegna þeim. En „kommúnistar“ eru allir þeir kallaðir, sem eru á móti amerísku auðvaldi og hernámi Íslands, svo og allir þeir, sem neita að taka þátt í haturs- og stríðsáróðrinum gegn sósíalismanum.

Þetta er sú regla, sem er opinberlega viðurkennd í Bandaríkjunum, og það er, eins og kunnugt er, helgasta hugsjón þeirra, sem nú fara með stjórn á Íslandi, að taka upp ameríska lífshætti í þessum efnum sem öðrum. Þið heyrðuð t. d., að hæstv. menntmrh. harmaði það í ræðu sinni hér áðan, að hann hefði ekki aðstöðu til þess að fækka róttækum mönnum í kennarastétt eins og hann teldi þörf á.

Ég lít hins vegar svo á, að þessi regla beri vott um dýpstu siðferðislega niðurlægingu og að hvert það stjórnarfar, sem fylgir henni, beri dauðann í brjóstinu.

Ef embættaveitingar eru miðaðar við almannaheill, þá er reglan, sem ber að fylgja, ofur einföld. Það á að velja menn í stöður eingöngu eftir hæfileikum þeirra til að gegna starfinu. Meðan ég hafði menntamálin með höndum, reyndi ég eftir bezta viti að fylgja þessari reglu út í æsar og undantekningarlaust. Þegar um kennarastöður er að ræða, álít ég, að yfirleitt sé happadrýgst að fara eftir till. þess fólks, sem á að njóta starfskrafta þeirra. Ráðh. verður að hafa mjög góð og gild rök, ef hann skipar í kennaraembætti gegn vilja meiri hl. skólanefndar. Ég var svo lánsamur, að samstarf mitt við fræðslumálastjóra var með þeim ágætum, að það kom aðeins tvisvar sinnum fyrir á mínum starfsferli, að ég gat ekki fallizt á till. hans, í annað skiptið við veitingu skólastjóraembættisins við Austurbæjarbarnaskólann í Reykjavík. Í það skipti var það þó álit bæði fræðslumálastjóra og meiri hl. skólanefndar, að sá, sem skipaður var í embættið, væri hæfastur umsækjenda í þeim efnum, sem ég taldi mestu máli skipta, en hitt reið þó baggamuninn, að meiri hl. kennaranna við skólann taldi, að enginn annar umsækjandi gæti komið til greina. Hitt dæmið var veiting skólastjóraembættisins við barnaskólann í Neskaupstað. Þar fór ég eftir mjög eindregnum till. skólanefndar.

Við skipun formanna skólanefnda var einnig hið bezta og ákjósanlegasta samstarf milli mín og fræðslumálastjóra.

Það er föst regla hjá þjóðvarnarmönnum að taka upp róg afturhaldsins um Sósfl. Hv. 8. þm. Reykv., Gils Guðmundsson, brá ekki heldur þeim vana í þetta sinn, þegar hann tuggði upp róg afturhaldsblaðanna um embættaveitingar mínar, sem er svo marghrakinn og rækilega hrakinn, að enginn annar heimskaði sig á því að taka hann upp í þessum umr. Slíkur málflutningur, slíkt manndómsleysi, slíkt algert virðingarleysi fyrir sannleikanum ber ekki vott um mikla alvöru eða heilindi, hvorki í þessu máli né öðrum.

Vantrauststill., sem nú er til umr., er fram borin vegna flokkspólitískra embættaveitinga núverandi menntmrh., Bjarna Benediktssonar. Hann hefur þó ekki gert annað en fylgja fordæmi fyrirrennara sinna í Framsfl. og Sjálfstfl. Flokkspólitískar embættaveitingar hafa verið regla þessara flokka. Þeirri stefnu held ég að Bjarni Benediktsson hafi trúlega fylgt, svo sem aðstæður frekast leyfðu, með því offorsi og purkunarleysi, sem honum er lagið. En þessum vinnubrögðum hefur hann ekki aðeins beitt sem menntmrh., heldur engu síður og kannske miklu fremur sem dómsmrh. Gamlir nazistar hafa verið sérstakt eftirlæti hans við veitingu embætta, sem heyra undir dómsmrn. Ferill hans sem dómsmrh. hefur verið enn hneykslanlegri en í menntamálunum, svo að maður minnist nú ekki á utanríkismálin, en á því sviði mun skömm hans uppi, meðan íslenzk saga er skráð.

Bjarni Benediktsson er einingartákn núverandi ríkisstj. Hann hefur átt manna ríkastan þátt í því að koma þessari ríkisstj. á fót, og í persónu hans og starfi krystallast stefna þeirra amerísku leikbrúðustjórna, sem nú hafa farið með völd í landinu um 8 ára skeið. Mynd Bjarna Benediktssonar er mynd núverandi ríkisstjórnar.

En nú bregður svo kynlega við, að einmitt Framsfl. hefur farið hörðustum orðum um hlutdrægni hæstv. menntmrh. í embættaveitingum. Á flokksþingi Framsóknar, sem haldið var fyrir síðustu kosningar, var samþ. harðort vantraust á Bjarna Benediktsson fyrir freklega misbeitingu á valdi sínu sem dómsmrh. Ekki voru þeir síður óánægðir með ýmsar aðgerðir hans í embætti utanrrh., sem varð tilefni mannaskiptanna þar eftir kosningar.

Hvernig stendur á því, að Framsfl. skuli þá taka ábyrgð á þessum ráðh.? Hvers konar heilindi eru fólgin í því að bera menn hinum þyngstu sökum og taka síðan fulla ábyrgð á óhappaverkum þeirra?

Ástæðan er sú, að það eru engin pólitísk ágreiningsmál milli Bjarna Benediktssonar og forsprakkanna í Framsókn. Öll sú misbeiting á valdi, sem einkennir starfsferil Bjarna Benediktssonar, endurspeglar spillingareðli ríkisstj. En gremja framsóknarforkólfanna er sprottin af því, að í áfergju sinni að hlaða undir flokksmenn sína hefur Bjarni Benediktsson stundum gleymt heilögu boðorði, sem allt samstarf núverandi stjórnarflokka byggist á, og þetta heilaga boðorð er: Helmingaskipti. Helmingaskipti milli Sjálfstfl. og Framsfl. um öll völd og auð á Íslandi, hvers konar gróða, hvers konar fríðindi, hvers konar bitlinga.

Í utanríkisverzluninni er þessari reglu fylgt af mikilli nákvæmni. Miklu starfsmannabákni er haldið uppi af ríkinu með ærnum kostnaði til þess að gæta hennar. Meðan þessum leikreglum er fylgt í skiptingu leyfanna milli heildsalanna og Sambandsins, ríkir friður og sátt, og það er ekki minnzt á falsaðar faktúrur og slíka hluti. En ef út af ber, fer allt í bál og brand, og kemur þá ýmislegt upp, þegar hjúin deila.

Gróðanum af útflutningsverzluninni er skipt bróðurlega milli Sambandsins og gæðinga íhaldsins. Hvorir um sig hafa ákveðna markaði að léni, og eftir að sættir tókust í þeim efnum, er aldrei minnzt á saltfiskshneyksli í Suðurlöndum eða gruggug viðskipti í Esbjerg. Olíuverzlunin er seld á leigu olíufélögum íhalds og Framsóknar. Ríkið kaupir olíuna og afhendir olíufélögunum gróðann. Þessar vinargjafir, sem íslenzkur almenningur er látinn borga, nema nú um 40 millj. íslenzkra króna á ári. Þegar íslenzkir atvinnuvegir rísa ekki lengur undir þessum álögum, kemur samt ekki til mála að skerða þennan gróða, heldur er togaraflotinn látinn liggja í höfn mánuðum saman og tugmilljóna verðmætum kastað á glæ.

Þegar þarf að veita 50 millj. kr. ríkisábyrgð til kaupa á olíuflutningaskipi fyrir olíufélög Sjálfstfl., þá er ekki að sökum að spyrja, að olíufélag Framsfl. kemur á eftir og heimtar sömu fríðindi, aðrar 50 millj. sér til handa.

En ef minnzt er á gjaldeyrisbrask og ólöglegar auðgunaraðferðir, þá er segin saga, að einhver snurða hefur fallið á þráðinn í helmingaskiptafélaginu, og óðar eru gefnar upplýsingar um ólöglegar auðgunaraðferðir hins aðilans, svo að ekki sé hallað á neinn í samræmi við helmingaskiptaregluna.

Þær eru nú orðnar ærið margar milljónirnar, sem uppvíst hefur orðið um, að aflað hefur verið með slíkum ólöglegum aðferðum. Hvað skyldu þær milljónir þá vera margar, sem aldrei hefur orðið uppvíst um?

Þegar lánum til smáíbúða er úthlutað, verða báðir aðilar, íhald og Framsókn, að skipta þeim, svo að ekki hallist á. Sama gildir um úthlutun bifreiðaleyfa. Þar verður að gæta helmingaskiptareglunnar af ýtrustu varkárni og samvizkusemi. Við úthlutun atvinnubótafjár til bæjar- og sveitarfélaga verður að fylgja helmingaskiptareglunni út í yztu æsar til þess að fullnægja öllu réttlæti. Ef íhaldið raðar einhverjum gæðinga sinna á ríkisjötuna, verður Framsókn að fá annan og svo á hinn veginn.

Kórónan á öllu þessu er þó skipting stríðsgróðans í sambandi við hernám landsins. Það er nú orðið ljóst, að erindi Kristins Guðmundssonar í embætti utanríkisráðherra var fyrst og fremst að tryggja helmingaskipti milli íhalds og Framsóknar einnig á þessu sviði. Í þessu skyni var stofnað sérstakt félag til þess að taka að sér framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli, og til þess að treysta þetta fyrirkomulag sem bezt og gefa því opinbert innsigli, var ríkið látið vera þátttakandi. Aldrei hafa nokkur stjórnarvöld lagzt svo lágt í allri sögu Íslands í þúsund ár. Með framkvæmdunum á Keflavíkurflugvelli er verið að grafa grunninn undan íslenzkum atvinnuvegum og efnahagslegu og pólitísku sjálfstæði landsins. Nú þegar hefur lífshamingja ótalinna íslenzkra heimila verið lögð í rústir af völdum hernámsins.

Þó eru þetta allt smámunir í samanburði við þá hættu, sem vofir yfir landi og þjóð. Það getur nú ekki lengur verið neitt ágreiningsmál, að ef til styrjaldar kemur, geta herstöðvar á Íslandi, sem notaðar verða til þess að sá dauða og tortímingu yfir aðrar þjóðir, orðið þess valdandi, að öllu lífi á þessu landi verði gereytt og landið gert óbyggilegt um langan aldur. Með framkvæmdunum á Keflavíkurflugvelli er verið að grafa íslenzku þjóðinni gröfina. Þessar framkvæmdir gerir ríkisstj. að féþúfu fyrir gæðinga sína og virðist ekki hafa áhyggjur af neinu nema því einu, að reglu helmingaskiptanna sé vel gætt við úthlutun blóðpeninganna. Þetta er slægvitrasta bragðið, sem Bandaríkin hafa enn beitt gegn íslenzku þjóðinni: að tengja gróða íslenzkra manna við hernámið, að gera óhamingju Íslands að féþúfu fyrir íslenzka menn, að gera íslenzka menn með sjálfa ríkisstj. í broddi fylkingar að þátttakendum í hinum alþjóðlega heimshring kaupmanna dauðans.

Nú gera framsóknarmenn kröfu til þess, að helmingaskiptareglunni verði einnig trúlega fylgt við úthlutun þeirra embætta, sem menntmrh. veitir. Þeir eru hjartanlega sammála hæstv. menntmrh. um það, að það eigi að fylgja, svo sem kostur er, þeirri reglu að útiloka andstæðinga ríkisstj. og bandaríska hernámsins. Um það er enginn ágreiningur, að þá beri að beita pólitískri hlutdrægni. En pörupiltar hafa líka sínar siðareglur og gera oft allra manna strangastar kröfur um, að ekki sé út af brugðið.

Hæstv. menntmrh. Bjarni Benediktsson lítur bersýnilega svo á hlutaskiptin, að þegar honum voru afhent menntamálin, þá hafi honum um leið verið afhentur eignar- og umráðaréttur yfir allri kennarastéttinni, allar embættaveitingar, sem heyra undir hans ráðuneyti, skuli falla í hans hlut.

Þessi skoðun er skýrt og greinilega túlkuð í málgagni hans, Morgunblaðinu, þar sem á það er bent, að Framsókn hafi að sjálfsögðu fengið sinn skerf, meðan hún hafði menntamálin, en nú sé komin röðin að Sjálfstfl., nú verði að jafna metin. Framsókn vill aftur á móti fá sín 50% og engar refjar á þessu sviði sem öðrum.

En þetta eru heimiliserjur, en ekki ágreiningur um stefnumál, og slíkt er ekki látið valda samvinnuslitum. Þess vegna mun Framsókn nú lýsa trausti sínu á hæstv. menntmrh. þrátt fyrir allt og taka þar með á sig fulla ábyrgð á gerðum hans og kingja öllum sínum fyrri stóryrðum.

Þegar við sósíalistar greiðum atkv. með þessari till. um vantraust á menntmrh., þá lítum við á það sem vantraust á ríkisstj. alla og stefnu hennar, jafnt í menntamálum sem öðrum. Okkur finnst það í meira lagi andkannalegt, að vantraustið skuli vera borið fram á menntmrh. einan. Við hefðum heldur kosið, að þessi till. hefði verið vantrauststill. gegn allri ríkisstj. og hefði þá verið borin fram af stjórnarandstöðunni í sameiningu. Það hefði í alla staði verið rökréttara. Að sjálfsögðu greiðum við því atkvæði með brtt. hv. 4. þm. Reykv. (HG). En enda þótt till. kæmi til atkv. í því formi, sem hún er fram borin, þá mundi samþykkt hennar jafngilda vantrausti á stefnu ríkisstj., og þar með væri stjórnin fallin. En slíkan manndóm á meiri hl. Alþ. því miður ekki. Dómurinn yfir ríkisstj. verður ekki felldur á þessu þingi. Þann dóm verður að fella á öðrum vettvangi, af æðra dómstóli.

Atkvæðagreiðslan um vantraustið verður að fara fram utan þingsalanna. Ein slík atkvgr. fer nú fram í verkalýðsfélögunum í kosningunum til Alþýðusambandsþings og önnur í undirskriftasöfnuninni gegn hernáminu. Ég veit, að þessar atkvgr. munu báðar verða á einn veg. Á þingi Alþýðusambandsins, sem háð verður í þessum mánuði, mun verða ljóst, að yfirgnæfandi meiri hl. verkalýðsins hefur þegar tekið afstöðu gegn stefnu ríkisstj. og mun nú taka höndum saman í baráttunni fyrir hagsmunum sínum, fyrir sjálfstæði landsins, fyrir velferð þjóðarinnar. Verkalýðsstéttin býður öllum öðrum vinnandi stéttum og öllum föðurlandsvinum, hvar í flokki sem þeir standa, þátttöku í því samstarfi, einnig Hermanni Jónassyni, ef hann vill í fullri alvöru hætta að styðja íhaldið og yfirgang ameríska auðvaldsins á Íslandi og taka upp þjóðholla stefnu. Takist slíkt samstarf, eru nú mikil umskipti fram undan. Þá munu skapast skilyrði til þess að létta martröð óttans af þjóðinni og hefja nýja sókn á braut íslenzks sjálfstæðis, stórhuga framkvæmda og framfara.

Lokadóminn yfir ríkisstj. verður að fella í almennum alþingiskosningum. Það getur blátt áfram og í bókstaflegri merkingu orðið lífsspursmál fyrir þjóðina, að það dragist ekki að fella þann dóm.