20.10.1954
Sameinað þing: 4. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í D-deild Alþingistíðinda. (2822)

22. mál, rányrkja á fiskimiðum fyrir Vestfjörðum

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er síður en svo, að ég sé andvígur þeirri till., sem hér liggur fyrir um ráðstafanir vegna vaxandi rányrkju á fiskimiðum Vestfirðinga. Hins vegar held ég þó, að það bæti lítið úr þessu stóra vandamáli, þó að ríkisstj. yrði falið að skipa 5 manna nefnd til þess að athuga og finna úrræði til að koma í veg fyrir, að vélbátaútgerð og fiskiðnaður á Vestfjörðum bíði áframhaldandi tjón af vaxandi rányrkju vestfirzkra fiskimiða vegna stóraukinnar ásóknar botnvörpuskipa.

Ég get ekki ímyndað mér, að verkefni þessarar n. verði annað en að komast að þeirri niðurstöðu, að það sé tvennt til, sem geti dregið úr rányrkju af völdum togara á vestfirzkum fiskimiðum, og það sé: Bætt landhelgisgæzla, þannig að togararnir séu ekki að skarka innan landhelgi á fiskimiðum Vestfirðinga sýknt og heilagt. En landhelgisgæzlan er léleg fyrir Vestfjörðum. Það vita allir vestfirzkir sjómenn, og þarf ekki að fara í grafgötur um það, en nauðsynlegt er að segja hæstv. ríkisstj. það, ef hún skyldi ekki vita um það. Til þess þarf varla nefndarskipun; þar er þörf betri framkvæmdar. Í annan stað er verkefnið það að komast að niðurstöðu um, hvort íslenzk stjórnarvöld treysta sér til að framkvæma ákvæði laga frá 5. apríl 1948, um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins, en þar er sjútvmrn. heimilað „að ákvarða með reglugerð takmörk verndarsvæðis við strendur landsins innan endimarka landgrunnsins, þar sem allar veiðar skuli háðar íslenzkum reglum og eftirliti, enda verði friðun á landgrunninu á engan hátt rýrð frá því sem verið hefur“. Þetta er orðrétt svo í gildandi lögum frá 1948. Það er sem sé heimilað sjútvmrn. að ákveða með reglugerð um aukna friðun meðfram ströndum landsins. Ef íslenzk stjórnarvöld treysta sér ekki til að framkvæma þetta, þá er það rétt, sem hv. þm. N-Ísf. sagði hér áðan, að það sé ekki fær leið að færa út friðunarsvæðið. En ég trúi því ekki, að ríkisstjórnin sjái sér ekki fært að gera þetta. Það yrði þá a. m. k. að útkljást fyrir alþjóðadómi út af fyrir sig, hvort með slíkri stækkun hefði verið stígið óréttmætt skref. Teldi ég það alveg óháð því, sem nú kann að vera deilt um í brezku fiskveiðadeilunni við okkur, ef friðunarlínan væri færð út fyrir Vestfjörðum, t. d. 12 sjómílur frá því, sem nú er, eða 16 sjómílur út frá grunnlínupunktum á því svæði. Ég get persónulega ekki meint, að það stangist við nokkurt ákvæði í alþjóðalögum. Að vísu skal ég játa, að ég er enginn fræðimaður á því sviði. En mig minnir, að í Haag-dómstólnum væru ákveðnar dómsniðurstöður um það, að mjög bæri að taka tillit til lífsnauðsynja þess fólks, sem strandlengjuna byggi. Og ef til er nokkurs staðar í veröldinni alveg sérstaklega „týpiskt“ dæmi um það, að líf fólksins á strandlengjunni sé háð friðun fyrir ströndinni, þá er það einmitt á strandlengjunni fyrir Vestfjörðum. Líf fólksins þar er algerlega háð því, að fiskimiðin þar úti fyrir séu friðuð. Alveg sérstaklega stendur þarna á. Einhver auðugustu fiskimið heimsins fyrir togara eru þar 50–60 sjómílur undan ströndinni, Halamiðin. Þangað sækja togararnir. Þar girða þeir af fyrir fiskigöngunum, svo að þær komast ekki upp á grunnmiðin. Og önnur sérstaðan, sem Vestfirðingarnir hafa, er þessi, að hin hefðbundnu vélbátamið þeirra ná að öllu leyti út fyrir núverandi friðunarlínu. En af því leiðir, að bátarnir hafa oft engan frið við veiðar sínar, vegna þess að togararnir geta allt í einu komið yfir veiðarfæri þeirra, þó að þeir séu þar að veiðum utan friðunarlínunnar og geti þannig talizt í fullum rétti. Geta þeir þá tekið allt saman með sér. Vegna þessa sambýlis togara og vélbáta er heldur ekki orðin nein aflavon á bilinu milli Halamiða og vélbátamiðanna. Úr þessu er ekki hægt að bæta nema á einn hátt, þann að færa friðunarlínuna út, svo að vélbátaflotinn sé friðaður að veiðum sínum á þessu svæði og möguleikar aukist á því, að fiskigöngur komist inn á grunnmiðin.

Ef till. hv. þm. N-Ísf., hv. þm. Barð. og hv. þm. Ísaf. á þskj. 22 hefði gefið einhverja bendingu um það, að væntanleg nefnd, sem ríkisstj. er beðin að skipa, gæti komizt að einhverjum öðrum niðurstöðum en þessum, þá hefði ég talið það hafa nokkra þýðingu að skipa slíka n. En í tillögunni er ekki drepið á neitt það, sem leitt geti til aukinnar friðunar á miðum Vestfirðinga. Og í grg. hennar er aðeins bent á þær staðreyndir, sem áður hafa verið raktar í grg. á síðasta þingi fyrir till. minni og hv. þm. V-Ísf. um stækkun friðunarsvæðis fyrir Vestfjörðum. Hér er enn bent á þær staðreyndir, að aflamagnið gengur áframhaldandi til þurrðar á Vestfjörðum, þrátt fyrir það að friðunarlínan hafi verið færð þar út um eina sjómílu. Þetta er afleiðing af því, að ágengni togara hefur aukizt stórkostlega á svæðunum þarna fyrir utan, en hins vegar sýnir það sig, að á þeim fiskimiðum hér suðvestanlands, þar sem aflamagnið var einnig að ganga til þurrðar, áður en Faxaflóa- og Breiðafjarðarsvæðin voru lokuð og friðuð, er nú komið vaxandi fiskimagn frá ári til árs. Er það staðfest bæði af reynslu sjómanna og niðurstöðum vísindamanna. Þetta gefur, eins og ég sagði hér í þingræðu fyrir tveimur eða þremur dögum, ótvíræða bendingu um það, að við séum á réttri leið með hverju því skrefi, sem við stígum til aukinnar friðunar. Og einasta leiðin, sem þarna er fær til þess að vernda fiskimið Vestfirðinga fyrir auknum ágangi togara, er, að ríkisstj. sjái sér fært að auka friðunina þar, færa friðunarlínuna út, hvað sem aðrar þjóðir segja um það. Það yrði þá að prófast fyrir alþjóðadómstóli, hvort við með því værum að brjóta alþjóðalög.

Nú hafa fræðimenn okkar frætt okkur um, hvað aðrar þjóðir hafa þegar gert í sínum friðunar- og landhelgismálum. Sumar hafa fært landhelgi sína út til 16 mílna, og því hefur ekki verið hnekkt. Aðrar hafa fært hana út til 50 sjómílna svæðis í kringum sín lönd, og því hefur ekki heldur verið hnekkt; og í þeim hópi er eitt af samveldislöndum Breta. Þá hafa margar þjóðir farið fram á 200 sjómílna friðunarsvæði og landhelgi, og alþjóðadómstólar hafa ekki enn þá hnekkt þessum aðgerðum þeirra. Ég held því, að sú niðurstaða hv. þm. N-Ísf. sé röng, að leiðin til aukinnar friðunar með útfærslu friðunarlínunnar fyrir Vestfjörðum sé ekki fær. Ég álít, að hann hafi a. m. k. tekið fulldjúpt í árinni með þeirri staðhæfingu. Ég fæ ekki séð, að hann hafi skotið neinum rökum undir þá fullyrðingu sína, og það er vissulega engin ástæða til að varpa slíku fram, sízt af Vestfjarðaþingmanni. Nógu illt er, ef hæstv. ríkisstj. treystir sér ekki til að nota heimildir laganna frá 1948 um aukna friðun, þar sem sérstök friðunarþörf er fyrir hendi, eins og í þessu tilfelli.

Hitt, sem hv. þm. N-Ísf. sagði að kæmi næst til greina, var í fyrsta lagi að styrkja Vestfirðinga til kaupa á stærri skipum. — Slík ráðstöfun stendur bara að engu leyti í neinu sambandi við ráðstafanir til aukinnar friðunar á fiskimiðum Vestfirðinga vegna aukinnar ágengni togara. Það er úrræði til að bæta þeim fjárhagslegt áfall, sem þeir hafa orðið fyrir af þessum völdum, og væri sjálfsagt þörf á því. En eins og þegar hefur verið sagt af öðrum hv. þm., þá er sjálfsagt viðar þörf á, að sjómenn og útgerðarmenn séu styrktir til að afla sér góðs skipakosts.

Það er rétt, að hv. þm. N-Ísf. og nokkrir þm. aðrir báru fram till. í sambandi við afgreiðslu fjárlaga fyrir 1 eða 2 árum um, að Ísafjarðarkaupstaður og Bolungavíkurkauptún væru styrkt til þess að eignast lítil botnvörpuskip. En þá kom í ljós, eins og hv. ræðumaður sagði, að það voru einir 7 eða 8 staðir aðrir, sem töldu sig þá hafa þörf fyrir það sama, og þetta var áður en varði orðin svo mikil halarófa, að hæstv. ríkisstj. taldi sig ekki valda svo löngu skotti og klippti það af. Þetta sýndi ljóslega, að það voru mjög margir staðir, sem töldu sig þurfa að fá eignarhald á skipum, sem flyttu aukið hráefni til fiskvinnslustöðva, sem vantaði verkefni, og sæju þar með fyrir verkefni handa fólki, sem væri atvinnulaust á þessum stöðum. Þetta ástand hefur ekki breytzt. Þrátt fyrir það að menn telji nú, að hér í Reykjavík og nágrenni sé of mikið framboð vinnuafls, þá er atvinnuleysi ríkjandi í mörgum landshlutum, norðanlands, austan og vestan, og margir taka svo djúpt í árinni að segja, að þar liggi við landauðn. Og það er ekki mikið ýkt. Þörfin fyrir að fá aukin hráefni til fiskvinnslustöðva víða um land og fá aukin verkefni handa iðjulausum höndum að vinna er sem sé jafnbrýn nú og þá var.

Löngu áður en hv. þm. N-Ísf. og hv. meðflm. hans að þeirri till., sem hér er til umræðu, hafði ég flutt í hv. Ed. frv. til laga um togaraútgerð ríkisins til atvinnujöfnunar, þar sem farið var fram á, að ríkinu væri heimilað að byggja allt að fjórum litlum dieseltogurum til þess að afla hráefnis fyrir innlendar fiskvinnslu- og fiskverkunarstöðvar og til þess að bæta úr atvinnuleysi, þar sem það gerði vart við sig. Þetta frv. hefur verið flutt þing eftir þing siðan. Í n. í hv. Ed. fékk málið strax í fyrsta sinn sem það var flutt þær undirtektir, að einn af hv. þm. Sjálfstfl., sem er mjög reyndur í útgerðarmálum, Jóhann Þ. Jósefsson, en hann var þá form. þeirrar n., sem um málið fjallaði, sagði: Það er ekki hægt að neita því, að það er mikil þörf fyrir aðgerðir sem þær, er frv. fer fram á. Og hann sagði enn fremur: Þó að ég sé samkeppnismaður, þá játa ég það, að í þessu tilfelli er það ríkisrekstrarfyrirkomulagið eitt, sem hentar hlutverkinu, af því að það gerir mögulegt, að slík skip þjóni mörgum smærri stöðum, sem ekki hafa mannafla til að vinna úr heilum togarafarmi, ekki hafa fiskvinnslumannvirki til þess að verka heila togarafarma og hafa jafnvel ekki hafnarmannvirki til þess að taka á móti togara. Það er þannig unnt með ríkisrekstri að láta skipin þjóna mörgum stöðum í senn, leggja upp á einum staðnum, þar sem hafnarmannvirki henta bezt og aðalfiskvinnslustöðvarnar eru, og láta síðan flytja hráefnið til ýmissa smærri staða þar í nágrenninu. Þetta er aðeins hægt að gera, án þess að nokkur krytur skapist um þetta, ef þetta eru ríkisrekin skip. En þetta fæst ekki gert, og þessi tilfærsla skipanna er óframkvæmanleg, ef einstaklingar eru eigendur eða eitt bæjarfélag er eigandi að skipinu. Þá telst skipið alltaf verða að þjóna atvinnuþörfinni á þeim eina stað.

Það er alveg augljóst mál, að þessi brýna þörf, sem margir hafa nú komið hér inn á auk hv. þm. Vestm., sem hefur mikið vit á þessum málum, er fyrir hendi. Og sannast að segja er það jafnaugljóst mál, að staður, sem þarf aðstoðar í ár, getur verið með allt sitt vinnuafl notað að ári. Og vissa hluta ársins getur líka staðið þannig á í atvinnulífinu, að hver hönd sé vinnandi, en þá sé annars staðar brýnni þörf á að hjálpa. Bæri þá að beina ríkisreknu skipi þangað. Við skulum t. d. segja, að Dalvík og Ólafsfjörður hefðu togararekstur með höndum. Þar gæti vissan tíma ársins verið þörf fyrir að vinna úr farmi þessa skips og nægur vinnukraftur fáanlegur til þess að taka við heilum togarafarmi og vinna hann, en það gæti líka verið svo á öðrum tíma árs, að það væri líf í tuskunum á Dalvík og Ólafsfirði, vélbátaflotinn í fullum gangi, allir sjómenn þessara staða væru þar í arðvænlegri atvinnu og fólkið í landi hefði ekki undan, ynni nótt og dag, eins og sums staðar gerist, sem betur fer, við að vinna aflann af bátaflotanum, hinn dýrmætasta, ferskasta og verðmætasta fisk, sem hægt er að hugsa sér. Og þá væri miklu betra, að togara ríkisins væri beint á aðra staði, þar sem iðjulausar hendur væru og ónotuð mannvirki. Menn eiga ekki og mega ekki hengja sig svo í fordóma kenninga og rekstrarforma, að þeir neiti þeirri staðreynd, að hér er aðeins ein leið, sem ber höfuð og herðar yfir önnur möguleg úrræði í þessum efnum, og það er ríkisrekstur togara til atvinnujöfnunar. Slíkum ríkisreknum skipum, hvort sem þau væru þrjú, fjögur eða fimm, væri hægt að beina á þá staði, þar sem þörfin væri mest hverju sinni, en skipum, sem hefðu verið fengin í hendur einstökum stað, væri haldið þar, hvort sem þörfin væri þar mikil eða lítil. Jafnvel gæti þá farið svo, að ekki væru notaðir hinir miklu möguleikar bátaflotans þá hluta ársins, sem miklu hagkvæmara væri fyrir viðkomandi staði og þjóðfélagið í heild að sinna þeim möguleikum, sem þá hefðu borizt þar að til nýtingar.

Hv. þm. N-Ísf. og meðflm. hans, hv. þm. Barð. og hv. þm. Ísaf., hafa þarna búið úr garði þáltill., sem að efni, anda og formi í öllum aðalatriðum fjallar um úrlausn máls, sem ég hef þegar flutt fyrir mörgum árum. Ég á þar við ríkisútgerð togara. En það mál hef ég nú endurflutt tvisvar síðan ásamt hv. þm. V-Ísf. Tillagan, sem við hv. þm. V-Ísf. fluttum í fyrra um stækkun friðunarsvæðis fyrir Vestfjörðum, virðist líka hafa verið höfð til fyrirmyndar. Er hún raunar ekkert lakari fyrir það, þó að hún sé í raun og veru endursögn eða útþynning á þessu áður flutta frv. og þáltill. En hún sýnir, og það gleður mig, að nú er vaknaður áhugi fyrir því að leysa þessi mál að svipuðum leiðum, a. m. k. efnislega, hvað sem formshliðina snertir, og áður hefur verið lagt til. Það þýðir, að þessi mál ættu nú að eiga vísan stórkostlega aukinn þingstuðning frá því, sem áður hefur verið. Nú er spurningin þó sú, hvort málinu sjálfu er betri þjónusta gjör með flutningi slíkrar endursagnartill. sem hér um ræðir, um skipun n., sem eigi að athuga þetta mál og reyna að finna leiðir til úrbóta, eða með því blátt áfram að veita áður fram komnum þingmálum þinglegan stuðning og fá þau samþ. Og ég er þeirrar skoðunar, að það hefði verið öllu viðkunnanlegra, að hin áður fluttu mál um þetta efni hefðu fengið stuðning þessara mætu manna, sem nú láta í ljós með flutningi þessarar till., að þeir standi með efni hinna áður fluttu þingmála um þessi efni.

Ég skal þó fúslega rétta upp höndina til þess að greiða þessari till. götu til nefndar og þannig stuðla að því, að hún komist sem allra fyrst til hæstv. ríkisstj., svo að hún geti skipað n. til þess að athuga þessi mál, því að það ætti þá að vera tryggt, að það yrði loksins farið að hugsa um þessi mál, líka innan hæstv. ríkisstjórnar. Og betra er seint en aldrei.