19.10.1954
Neðri deild: 6. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 634 í D-deild Alþingistíðinda. (2978)

35. mál, aðstoð við togaraútgerðina

Flm. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Málefni það, sem hér liggur fyrir, þ. e. a. s. um aðstoð við togaraútgerðina, hefur nú verið til umr. hér í þessari hv. d. fyrir stuttu, aðeins fyrir nokkrum dögum, þegar frv. hæstv. ríkisstj. um aðstoð við togaraútgerðina 1954 var lagt hér fram til 1. umr. En mér þykir þó hlýða í sambandi við þetta mál, sem ég hef leyft mér að bera hér fram, að rifja nokkuð upp aðalatriði þess.

Þegar leið á árið 1953, sáu útgerðarmenn flestir og líklega allir, að togaraútgerðin var rekin með mjög miklu tapi og að það mundi ekki vera fært að halda þessum rekstri áfram á sama hátt til lengdar. Samtök togaraeigenda munu þá hafa gert út menn á fund ríkisstjórnarinnar til þess að ræða við hana um þennan vanda og hvaða möguleikar væru til þess að ráða þar bót á. Það er þó ekki vitað um önnur viðbrögð þá af hálfu ríkisstj. en þau, að þegar kom út á vetur 1954, var að hennar tilhlutan skipuð n, til þess að athuga um hag togaraútgerðarinnar í heild og til þess að gera till. til úrbóta, ef svo sýndist.

N. tók til starfa í aprílmánuði og hafði lokið störfum í júlímánuði s.l. Hún gaf ríkisstj. skýrslu um hag útgerðarinnar, en hún gerði ekki till. um úrbætur, og var því lýst í umr. hér um daginn, þegar frv. ríkisstjórnarinnar var til umr., hvernig á því hefði staðið, þ. e. a. s. þannig, að ríkisstj. óskaði ekki eftir því, að n. legði þessar till. fram, þó að hún hins vegar hefði rætt ýmsar till. og ýmsar leiðir, sem mættu verða að gagni í þessu máli. Niðurstöður n. um hag togaraútgerðarinnar voru þær, að n. taldist til, að meðaltap á 21 togara af eldri gerð, sem hún hafði reikninga fyrir, væri um 404 þús. kr. á árinu 1953, og var þá ekki reiknað með neinum fyrningarafskriftum. Við nánari athugun kom þó í ljós, að þessi tala mundi vera frekar of lág en of há, ef hreinn rekstur ársins 1953 er lagður til grundvallar, en inn í rekstrarreikning þess árs hafði blandazt uppbót á sölu afla frá fyrra ári, og gerði það þess vegna töluna nokkru lægri en ella mundi hafa verið, ef eingöngu hefði verið reiknað með hreinum rekstri ársins 1953.

Ástæðurnar til þess, að svo hafði sigið á ógæfuhlið, voru að áliti n. einkum tvær: Í fyrsta lagi vegna minni afla á árinu en að undanförnu og í öðru lagi vegna lakari sölu á afurðunum en áður hafði verið. Þar við bættist svo, að þegar tók að líða á árið 1953 og á árinu 1954 fór mjög að bera á því, að erfitt væri að fá vana og góða menn á skipin, vegna þess að launakjör togarasjómanna voru þá þannig, að þau voru engan veginn samkeppnisfær við ýmsa atvinnu aðra, sem þessir menn áttu kost á, bæði í landi og á sjó. Þess má t. d. geta, að afkoma sjómanna á vélbátum var sýnu betri en þetta, og átti það vitanlega rót sína að rekja til þess, að afurðir vélbátanna eru greiddar með miklu hærra verði en afurðir togaranna. Þar kemur til greina hið svokallaða bátagjaldeyrisálag, sem vélbátaútgerðin fær, en togararnir ekki, og hefur það orðið til þess, að afli vélbátanna hefur verið greiddur með talsvert hærra verði en afli togaranna, þó að um mikið til sams konar afla sé að ræða. Það getur náttúrlega ekki gengið til lengdar, að sams konar eða svipuð vara sé greidd í landinu með mjög ólíku verði, — svo ólíku, að skeikar í sumum tilfellum allt upp í 50 af hundraði.

Þetta eru sem sagt að dómi n. aðalástæðurnar fyrir því, að svo hefur sigið á ógæfuhlið sem gert hefur hjá togurunum, að aflinn hefur verið minni, að salan hefur verið lélegri og að erfiðara hefur verið að fá góða menn til starfa, vegna þess að ekki hefur verið unnt að greiða þeim sambærilegt kaup við aðra menn í hliðstæðri atvinnu, þannig að togarasjómenn hafa getað flutt sig af þeim og yfir í aðra vinnu, sem hefur gefið þeim betri fjárhagsafkomu. Þessi útkoma, sem ég nú nefndi, er miðuð við gömlu togarana, sem nú eru kallaðir svo, þ. e. togarana, sem komu hingað fyrir gengisfellinguna og kostuðu ekki nema rúmar 3 millj. kr. hver togari. En afkoma nýjustu togaranna, sem hafa verið keyptir hingað fyrir um 9 millj. kr., þó að enn þá liggi ekki nákvæmlega fyrir endanlegt verð þeirra, hefur orðið sýnu verri, sem svarar vöxtum og vátryggingu af þessu aukna verðmæti, sem er meira en helmingi og allt upp í þrefalt á við það, sem hinir fyrri togarar kostuðu.

Nú hefur þetta lagazt nokkuð hvað snertir hásetana eða togarasjómennina, þar sem nýir samningar hafa verið gerðir, sem hafa bætt kjör togarahásetanna það verulega, að ætla má, að menn fáist nú ekki síður til að starfa á þeim en á öðrum skipum eða við aðra vinnu. Enn hafa með auknum hagkvæmum sölum á hraðfrystum fiski opnazt möguleikar til lítils háttar hagkvæmari rekstrar fyrir togarana en áður var, svo að gera má ráð fyrir, þó að það muni kannske ekki mjög miklu, að afkoman sé nú síðan í sumar, hjá sumum eða flestum togurunum, nokkru betri en hún var á vertíðinni s.l. Þó er það svo enn, að endarnir ná ekkert líkt því saman, og veldur þar náttúrlega líka miklu um sú hækkun, sem orðið hefur að gera á launagreiðslum til skipverja og talið er að muni nema, þegar öll kurl koma til grafar, hátt í 400 þús. kr. Útkoman verður þá sú, að ef miðað er við 400 þús. kr. meðaltap án afskrifta, 250 þús. kr. í afskriftir og 400 þús. kr. hækkun á launagreiðslum, að hallinn, að öðru óbreyttu frá 1953, mundi verða í kringum 1050 þús., eða rúm ein millj. kr. á ári.

Nú hefur ríkisstj. gengið nokkuð til móts við togaraeigendur með því að ákveða, að skattgjald skuli lagt á innflutta bíla og af því gjaldi skuli greiddar 2000 kr. á dag til hvers togara þá daga, sem hann er gerður út. En þessi aðstoð, þó að mikilsverð sé, nægir ekki til þess, að endarnir geti náð saman. Þess vegna hef ég leyft mér að bera hér fram þessa þáltill., sem liggur hér fyrir á þskj. 35, um aðstoð við togaraútgerðina. Í þeirri till. er minnzt á fjögur atriði, sem ég held ég megi fullyrða að togaranefndin á sínum tíma væri sammála um, að æskilegt væri, að ríkisstj. tæki til meðferðar og greiddi úr. Þessi fjögur atriði eru:

Í fyrsta lagi, að stofnlán togaranna verði lengd um tvö ár og falli niður afborganir annaðhvort fyrir árin 1953 og 1954 eða fyrir árin 1954 og 1955. Um þetta er það að segja, að allmargir togaranna munu enn eiga eftir að greiða afborgun af stofnlánum sínum, þ. e. afborgun til stofnlánadeildar sjávarútvegsins, fyrir árið 1953. Ef ég man rétt, þá var tala þeirra, þegar n. starfaði, 11. Kemur þetta til af því, að tap undanfarinna ára hefur gert þeim með öllu ókleift að standa í skilum með þessar afborganir. Árleg afborgun hvers skips er um 150 þús. kr. Næsta afborgun fellur í gjalddaga í nóvembermánuði í haust, og togararnir hafa átt erfitt með flestir og ómögulegt sumir að standa í skilum með þessar greiðslur. Þetta mundi vera sérstaklega ódýr aðstoð fyrir ríkissjóðinn, en vel þegin af hálfu togaraeigenda. Hún er ódýr fyrir ríkissjóðinn, því að hún kostar hann nákvæmlega ekki neitt, eingöngu að ákveða — með lögum verður það víst að vera — að framlengja skuli lánstíma stofnlánanna um tvö ár og að greiðslufrestur á afborgunum sé gefinn annaðhvort fyrir árin 1953 og 1954 eða fyrir árin 1954 og 1955.

Vextir af þessum lánum eru hagstæðir, eins og öllum er kunnugt, og það mundi þess vegna ekki einasta létta á togaraútgerðarmönnunum við það að þurfa ekki að snara út afborgunum, heldur mundi það líka hjálpa þeim, að þeir fengju þarna að halda 300 þús. kr. með lægri vöxtum en þeir mundu annars hafa möguleika til að fá nokkurs staðar annars staðar.

Í öðru lagi er lagt til, að ríkisstj. hlutist til um útvegun bráðabirgðalána handa þeim útgerðarfélögum, sem þess þurfa með, til þess að geta haldið uppi eðlilegum rekstri. Nokkur fyrirtæki, — þau voru talin, þegar n. starfaði, hafa til umráða um 7.2–15 skip, — eru þannig á vegi stödd, að þau geta tæpast haldið áfram rekstri á nokkurn veginn heilbrigðum grundvelli; nema því aðeins að þau fái eitthvert innskotsfé eða aukið rekstrarfé frá því, sem þau nú hafa. Var áætlað, að þetta þyrfti að vera 4–6 millj. kr. í heild, sem þyrfti að útvega skipunum, og getur það varla talizt mjög há upphæð.

Í þriðja lagi er lagt til, að togaraútgerðarfélögunum verði tryggð stofnlán til þess að koma á fót fiskverkunarstöðvum og fiskiðjuverum eða eignast þau, sem þegar eru fyrir hendi, svo að togaraútgerðarfélögin hafi sjálf aðstöðu til þess að vinna úr öllum sínum afla án kostnaðar til milliliða. Það kom nefnilega mjög greinilega í ljós við athugun reikninga þessara togarafélaga, að þau félög, sem höfðu aðstöðu til þess að verka afla sinn sjálf, skiluðu yfirleitt betri afkomu en hin, sem urðu að selja aflann úr skipi. Mörg togaraútgerðarfélög hafa þegar fiskvinnslustöðvar, bæði möguleika til þess að verka saltfisk og til þess að herða fisk, en mjög fá hafa hins vegar yfir frystihúsum að ráða, en það er mjög þýðingarmikið atriði, eins og nú er komið verkun aflans, þar sem mikill meiri hl. hans um skeið hefur farið til frystihúsanna. Það verður því að teljast mjög mikið nauðsynjamál og hagsmunamál fyrir togaraútgerðina, að hún fái aðstöðu til þess að byggja eða kaupa fiskiðjuver af ýmsu tagi og halda uppi verkun sjálf, til þess að geta náð sem mestu út úr fiskinum og dregið þannig úr hallanum, sem á rekstrinum er.

Þá er loks síðasta atriðið, sem ég hef leyft mér að bera hér fram. Það er um, að söluverð nýjustu togaranna verði lækkað með hliðsjón af því, að ekki hefur tekizt að hagnýta fiskimjölsvélar þeirra. Eins og kunnugt er, voru nýju togararnir keyptir með fiskimjölsvélum, og var gert ráð fyrir því, að þessar fiskimjölsvélar mundu að verulegu leyti nægja til að standa undir þeim verðmismun, sem væri á nýju togurunum og þeim eldri. Þetta hefur nú svo gersamlega brugðizt, að fiskimjölsvélarnar munu hafa verið teknar úr flestum eða öllum þessum togurum og þær ekkert notaðar, því að þær hafa reynzt á ýmsan hátt óstarfhæfar. Þetta er, eins og skiljanlegt er, mjög mikið áfall fyrir þá, sem nýju togarana keyptu, en við því er ekkert að gera, úr því sem komið er, annað en á einhvern hátt að færa niður það verð, sem um hefur verið talað að selja þá á, og gera eigendunum þannig kleift að lækka sína vaxta- og vátryggingabyrði, svo að þeir geti komizt niður eitthvað í nánd við það, sem önnur sambærileg skip þurfa að greiða til þessara hluta. Það hefur verið talað um, að ríkisstj. beitti sér fyrir málarekstri við þá, sem seldu skipin og þessar vélar, og reyndi á þann hátt að fá verðið lækkað, en hvort það tekst eða ekki, skal ég ekki um dæma, en hitt er víst, að á einhvern hátt verður að fá þessa upphæð lækkaða. Eigendur geta engir — það er sama, hver það verður — staðið undir því verði, sem minnzt hefur verið á í þessu .sambandi, 9–10 millj. kr.; það er alveg útilokað.

Þetta eru þær till., sem ég hef leyft mér að koma hér á framfæri, og ég vildi vænta, að þeim yrði tekið með vinsemd og skilningi af hv. dm. Ég hef valið þá leiðina að flytja þetta sem þáltill. hér í hv. Nd., til þess að málið mætti fá fljótari afgreiðslu en ef það væri borið fram í Sþ. En sá galli er þá á, að þessi flutningur málsins felur ekki í sér möguleika til fjárstuðnings, svo að þetta verður eingöngu að orðast sem tilmæli til ríkisstj. um að taka þessi mál upp til afgreiðslu á þann hátt, sem hún telur hyggilegast. Samþykkt þessarar till. verður því ekki annað og ber ekki að skoða öðruvísi en sem viljayfirlýsingu d. til hæstv. ríkisstj. um, að hún taki málin upp á þeim grundvelli, sem hún kynni að telja heppilegastan.

Hæstv. sjútvmrh. sagði að vísu hér í umr. um daginn, þegar hans frv. var hér til umræðu, að hann vænti þess, að það þyrfti ekki að mata togaraeigendur eins og hvítvoðunga eða sjá þeim fyrir öllum þeirra þörfum, leggja allt upp í hendur þeirra. Ég hygg, að það skorti enn svo mikið á, að þetta verði sagt með réttu um afstöðu ríkisstj. til þeirra, að það væri vel óhætt að fara út í lausn þessara atriða, sem hér eru nefnd, án þess að hægt yrði að kalla það því nafni.

Togaranefndin hafði enn fremur til umr. ýmsar aðrar till. og þá fyrst og fremst um lækkun á rekstrarkostnaði skipanna. Hún hafði til athugunar lækkun á vátryggingargjöldum, hún hafði til athugunar lækkun á olíuverði og lækkun á vöxtum rekstrarlána bankanna til samræmis við það, sem bátaútvegurinn nú greiðir. Hún hafði líka til athugunar, að flutningaskipaeigendur lækkuðu flutningagjöldin á hraðfrystum fiski nokkuð til þess að auðvelda frystihúsunum að borga togaraeigendum þeim mun hærra verð. Hún hafði enn fremur til athugunar möguleikana á því, að frystihúsin greiddu hærra verð fyrir fiskinn en þau nú gera vegna miklu betri nýtingar en nokkurn tíma áður hefur átt sér stað. Þessi atriði öll hafa verið flutt hér áður af öðrum en mér, og ég hef þess vegna ekki tekið þau upp í mína till., en fari svo, að þau komi hér ekki fram á ný, þá mundi ég vilja leyfa mér að flytja þau sem viðaukatill., því að þau eru alveg jafnsjálfsögð og hinir liðirnir, sem ég hef tekið hér upp, og kannske sum þeirra enn sjálfsagðari.

Togaranefndin reyndi að mynda sér skoðun um það, hvað þessar ráðstafanir mundu þýða í bættri afkomu togaranna, og hún komst oð þeirri niðurstöðu, að tekjuaukning vegna lækkunar trygginga eins og hún gerði ráð fyrir mundi nema um 20 þús. kr. á skip á ári, vegna lækkunar á olíuverði 55 þús. kr., vegna lækkunar vaxta 20 þús. kr., vegna lækkunar farmgjalda 60 þús. kr. og vegna hækkaðs fiskverðs, sem hún miðaði þá við, ef ég man rétt, í kringum 7 aura, um 165 þús. kr., eða samtals um 320 þús. kr. Ef þessar 320 þús. kr. kæmu til viðbótar við þær ráðstafanir, sem þegar hafa verið gerðar, mundi mjög fara að nálgast, að endarnir næðu saman fyrir útgerðina, sérstaklega ef útgerðarmönnum væri hjálpað til þess að eignast sínar fiskvinnslustöðvar og gefinn frestur á stofnlánunum, eins og gert er ráð fyrir í þessum till., sem ég hef nú leyft mér hér að bera fram.

Það hagar nú svo til, að margir af þessum togurum, sem keyptir hafa verið til landsins upp á síðkastið, eru keyptir að einhverju leyti — og sums staðar alveg — af bæjarfélögum og beinlínis til þeirrar útgerðar stofnað til þess að ráða bót á atvinnuleysi á viðkomandi stað eða a. m. k. til að bæta úr atvinnuástandinu á viðkomandi stað. Það er því alls ekki hér um nein einkafyrirtæki að ræða í venjulegum skilningi. Það eru miklu fleiri hagsmunir tengdir togaraútgerðinni en einungis eigenda togaranna. Þetta gefur aukið tilefni til þess, að Alþingi geri sér far um það, að þessar ráðstafanir, sem þegar hafa verið gerðar með kaupum togaranna og með útgerð þeirra til þess að bæta hag fólksins, verði studdar og þeim komið á þann rekspöl, að þær geti gengið sem bezt og komið að sem beztum notum fyrir viðkomandi stað og fyrir það fólk, sem þar býr og á að njóta atvinnunnar af þeim.

Ég vænti svo, að hv. d. taki þessu máli með skilningi og vinsemd og afgreiði það fyrst í því formi, sem það hér er borið fram í, og að ríkisstj, síðan taki það til athugunar og leysi þau atriði, sem bent hefur verið á. Ég hefði talið ekki óeðlilegt, af því að mér skilst, að ein umr. hafi verið ákveðin um málið, að umr. yrði frestað á þessu stigi, þegar menn hafa látið í ljós skoðanir sínar á því nú, eftir því sem þeir óska, og málinu vísað til sjútvn., sem einnig fengi þá tækifæri til þess að segja sitt álit á því.