09.05.1955
Sameinað þing: 57. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1658 í B-deild Alþingistíðinda. (3130)

Almennar stjórnmálaumræður

Eggert Þorsteinsson:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Það er nú venju seinna, að hinar gamalkunnu eldhúsdagsumræður eru viðhafðar hér á Alþ. Við afgreiðslu fjárl. rétt fyrir jólin þótti lítið að gert og þó sérstaklega í þeim málum, sem hæstv. ríkisstj. hafði lýst yfir að hún mundi bera fram á yfirstandandi þingi. Af þessum ástæðum var ekki unnt að taka afstöðu til hinna einstöku mála, sem ríkisstj. hugðist þó gera að skrautfjöðrinni í hatti sínum. Eftir áramótin og þó sérstaklega tvo s.l. mánuði hafa þessi afkvæmi hæstv. ríkisstj. séð dagsins ljós og því eðlilegt, að þau séu tekin til umr. í áheyrn þjóðarinnar allrar.

Í eldhúsdagsumræðum héðan frá Alþ. í fyrra fór ég nokkrum orðum um það neyðarástand, sem ríkti í atvinnumálum einstakra bæja og kauptúna, þó sérstaklega á Austur-, Norður- og Vesturlandi, og þá óheillaþróun, að fólkið þyrptist allt á suðvesturhorn landsins. Enn þá verður að telja, að ríkisstj. hafi lítið sem ekkert aðhafzt til raunhæfra úrbóta í þessum málum, og till. stjórnarandstöðunnar þar að lútandi hafa verið kolfelldar hér á Alþ. eða svæfðar í nefndum.

Á Austurlandi hafði almenningur byggt framtíðarvonir sínar um aukið öryggi á beizlun vatnsorkunnar til aukinnar raforku. Ríkisstj. hafði ýtt undir þessar vonir manna með orðunum: Rafvæðing landsins alls. Hér var því að sjálfsögðu á ferðinni mál, sem varðaði hag og heill þeirra, sem Austurland byggja, um ófyrirsjáanlegan tíma. Íbúar þessa landshluta, sem mest allra höfðu farið á mis við þá öru þróun í atvinnumálum, sem annars hefur farið fram hér sunnan- og suðvestanlands frá styrjaldarlokum, sáu nú rofa til fyrir bjartari framtið. Það er því ekki óeðlilegt, að staldrað sé við og athugað, hvernig ríkisstj. uppfyllír þessar frómu framtíðaróskir Austfirðinga.

Á undanförnum fjórðungsþingum fjórðungssambands Austurlands hafa verið margítrekaðar áskoranir um fullkomna rafveltu Austurlands, og óskum þessum hefur verið örugglega fylgt eftir af forustumönnum sambandsins. Á s.l. sumri boðaði hæstv. raforkumálaráðherra til fundar að Egilsstöðum til umræðna um þessi mál. Á fundi þessum voru mættir fulltrúar allra hreppa og bæja þar austur frá, sem mögulegt var talið að fengju rafmagn frá væntanlegri virkjun. Á þessum fundi voru einnig mættir raforkumálastjóri og rafmagnsveitustjóri ríkisins, auk alþingismanna.

Það var einróma álit þessa fundar, að virkja bæri Lagarfoss, sem talin var öruggasta leiðin til að tryggja næga orku fjórðungsins í framtíðinni, með tilliti til staðsetningar nýrra atvinnutækja og möguleika á að koma á fót iðnaði og endurnýjunar þeirra atvinnutækja, sem lagzt höfðu niður. Þessari skoðun sinni fylgdu Austfirðingar eftir með áliti sendinefndar þeirrar, er kom hingað í september s.l. haust, og studdu þingmenn einnig einróma þetta álit nefndarinnar. Þeir möguleikar aðrir, sem til mála gátu komið um virkjanir, voru við Fjarðará í Seyðisfirði, Grímsá á Völlum og línutenging við Laxárvirkjun norðanlands.

Eftir ýtarlegar athuganir og að fengnum upplýsingum tæknilegra aðila sameinuðust Austfirðingar allir í kröfunni um, að virkja bæri Lagarfoss, þar sem sýnt þótti, að á annan hátt yrði vart tryggt, að endurreisa mætti blómlegt atvinnulíf á Austfjörðum og stöðva fólksflóttann þaðan. Til tryggingar framgangi málsins voru einnig samþykkt heimildarlög frá Alþ. 8. apríl 1954 um, að virkja mætti Lagarfoss í allt að 5300 hestafla orkuveri.

Við brottför sendinefndar þeirra Austfirðinga voru menn bjartsýnir á, að hér yrði nú loks lagður grundvöllur að betri og bjartari framtíð og varanlegri uppbyggingu. En sólskinið í þessum málum varaði þó ekki lengi. Rétt fyrir jólin birti ríkisstj. svo niðurstöður sínar, og skyldi Grímsárfoss í Grímsá á Völlum virkjaður, sem talið er að í hæsta lagi megi ná úr um 3500 hestafla orku.

Það er almannarómur, að ekki hafi verið mögulegt að ganga öllu frekara gegn vilja og baráttu allra Austfirðinga en hér var gert, og svipaða sögu geta Vestfirðingar einnig sagt.

Þetta er svar hæstv. ríkisstj. við þeim áróðri, sem Morgunblaðið var látið hafa í frammi fyrir síðustu alþingiskosningar um, að nauðsyn bæri til að kjósa einungis frambjóðendur stuðningsflokka ríkisstjórnarinnar. Tillitsleysi hæstv. ríkisstj. um afkomuöryggi og framtíð fólksins, sem enn hefur ekki flúið þessi olnbogalandssvæði, virðast lítil takmörk sett.

Almenningur í dreifbýli og fámennari kaupstöðum landsins gerir sig ekki til lengdar ánægðan með að fá endrum og eins smáskammta af atvinnubótafé eða það eitt, að kosin sé tveggja manna jafnvægisnefnd til þess að gera tillögur til úrbóta í málum þessara staða. Krafan er raunhæfar og varanlegar úrbætur, byggðar á tillögum fólksins, sem staði þessa byggir og veit, hvar skórinn kreppir að. Stefnuleysi ríkisvaldsins í þessum málum veldur ekki aðeins neyðarástandi á þeim stöðum, sem fólkið flyzt frá, heldur einnig hér á suðvesturhluta landsins, þangað sem fólksstraumnum er beint. Hér kemur þessi upplausn fram í gífurlegum húsnæðisskorti, á sama tíma sem ágæt hús standa auð og tóm í öðrum landshlutum. Það er þess vegna ekki um það eitt að ræða að skapa viðunanleg lífsskilyrði á Austur-, Norður- og Vesturlandi. En væri skipulega að því unnið, væri einnig leyst stærsta vandamál almennings hér í Reykjavík og nærliggjandi bæjum, þ.e. húsnæðisskorturinn, sem nú þjakar þúsundir manna, sem neyðast til að búa í nánd við atvinnutækin og þurfa að hírast í hriplekum hermannabröggum og slagafullum kjöllurum.

Slík vinnubrögð mundu útheimta skipulag, en það er algert bannorð í öllum framkvæmdum hæstv. núverandi ríkisstjórnar. Það, sem hér ber að gera, er einfaldlega það eitt, að komið sé á fót og stuðlað að með aðstoð ríkisins, að staðsetningu nýrra atvinnutækja, svo sem fiskiðjuvera og hvers konar iðnaðar, sé hagað svo sem staðhættir viðkomandi staðar sanna að eigi framtíð fyrir sér. Hér hefur til þessa engin skipuleg rannsókn farið fram á því, hvar helzt sé hægt að hefjast handa um slíkar framkvæmdir. Þing eftir þing hefur ríkisstj. látið svæfa frv. Alþfl. um togaraútgerð til atvinnujöfnunar, sem er raunhæft spor í þessa átt. Eftir háværar kröfur fólksins, sem þessa staði byggir, hefur ríkisstj. þó verið knúin til að svelgja til móts við þetta réttlætismál með því að stuðla að því, að hin stærri kauptún og bæir gætu átt þess kost að eignast saman togara og skiptast á um móttöku og vinnslu aflans. Það eina frumkvæði, sem stjórnarstefna hæstv. núverandi ríkisstj. hefur boðað í þessum málum almennt, er það eitt að kjósa nefnd tveggja manna til þess að gera tillögur um jafnvægi í byggð landsins, — síðan ekki söguna meir — engar tillögur, ekkert starf í þá átt. Þegar svo almenningur eygir einhverja glætu með t.d. aukinni raforku, þá er stefna ríkisstj. helzt ekkert. En verði ekki hjá einhverju komizt, þá skal halda sig við algert lágmark. Þannig eru naktar efndirnar á gylliloforðum síðustu kosninga.

Öllum þeim, sem um stjórnmál hugsa, dylst ekki, að eitt af frumskilyrðum fyrir starfi hverrar ríkisstjórnar er að hafa sem nánast samstarf við félagsleg hagsmunasamtök fólksins og þó einkum og sér í lagi við verkalýðssamtökin, sem hafa innan sinna vébanda nálega allt fólk hinna ýmsu starfsgreina í landinu.

Í nágrannalöndum okkar leggja allir ábyrgir stjórnmálamenn áherzlu á að hafa sem nánasta samvinnu við samtök hinna vinnandi stétta. Við þessar staðreyndir stangast öll framkoma og stefna hæstv. núverandi ríkisstjórnar. Hún miðar velflest sín störf við að framkalla árekstra við alþýðusamtökin og hefur markað slóð sína frá árinu 1950 til dagsins í dag hverjum stórárekstrinum á fætur öðrum. Auk allra þeirra smærri átaka, sem einstök verkalýðsfélög hafa verið knúin til að heyja vegna rangrar þjóðmálastefnu, sem virðist hafa það eitt að leiðarljósi að vernda hag hinna fáu og ríku á kostnað þeirra mörgu og fátæku, þá hafa verkalýðsfélögin neyðzt til þess að beita hópsamtökum sínum til þess að spyrna gegn sírýrnandi lífskjörum með stórkostlegum vinnudeilum. Afnumin hafa verið þau fáu ákvæði í viðskiptamálum, sem gátu gefið almenningi nokkra tryggingu um löglega álagningu nauðsynjavarnings, að ekki sé minnzt á olíueinkasölu. Sett hafa verið lög um gengislækkun í flestum þeim myndum, sem í mannlegri hugsun rúmast, yfirleitt uppfylltar allar óskir, sem gerðar eru til íhaldssamrar stjórnmálastefnu, án tillits til þeirra afleiðinga, sem í kjölfar þess hljóta ávallt að sigla.

Alþfl. hefur oftlega varað við þessu tillitsleysi við verkalýðssamtökin og bent á nauðsyn þess, að sveigt væri frá þessari óheillastefnu, sem virðist einungis geta leitt af sér bætt starfsskilyrði fyrir öfgastefnu, sem kommúnisminn er í íslenzkum stjórnmálum.

Verkalýðssamtökin íslenzku kjósa ekki skyndiupphlaup eða ævintýri. Þau vilja geta unnið að framgangi mála sinna án slíks. En svo er hægt að þeim að sverfa með tillitsleysi og sífellt vaxandi öryggisleysi, að jafnvel kommúnisminn nái verulegri fótfestu, en að svo yrði, verður að skrifast á syndareikning þeirrar stjórnarstefnu, er nú ríkir.

Þegar þannig er unnið, er einnig óhugsandi að rægja verkalýðsfélögin í sundur með því að kalla allar aðgerðir þeirra kommúnistískt ofbeldi o.s.frv. Með því er vísvitandi verið að telja almenningi trú um, að enginn vilji réttlátan hlut sinn nema kommúnistar. Slíkar öfgar eru einungis vatn á myllu öfgastefnunnar á hinu leitinu, nefnilega kommúnistanna. Sannast þar, að öfgar bjóða öfgum heim.

Í maí 1951 ákváðu um 15 verkalýðsfélög að leggja til baráttu fyrir leiðréttingu vísitöluppbótarinnar, þar sem forsendunum fyrir vísitölubindingunni hafði verið svipt burt með setningu gengislækkunarlaganna. í des. 1952 lögðu yfir 20 verkalýðsfélög til baráttu á ný gegn ört vaxandi dýrtíð og rýrnandi launagildi, sem þá sigldi í kjölfar hinnar nýtilkomnu stjórnarstefnu. Verkalýðsfélögin kröfðust hækkaðra launa eða lækkaðs verðlags á nauðsynjavarningi. Ríkisstj. var neydd til þess að ábyrgjast lækkun á nokkrum helztu nauðsynjavörum, að tillögu Alþýðuflokksmanna. Það bil, sem þá var eftir milli launþega og vinnuveitenda, var brúað með auknum tryggingum í formi aukins barnalífeyris og aukinna mæðralauna.

Þrátt fyrir þessa tvo stórfelldu árekstra var af hálfu ríkisstj. haldið áfram á sömu braut. Áfram héldu vinnulaunin að rýrna. Verkamönnum hér sunnanlands skýldi það eitt, að atvinna var næg, og með síaukinni eftir- og næturvinnu tókst að halda í horfinu. Svo var komið þessum málum, þegar síðasta Alþýðusambandsþing kom saman, og þar var af á fjórða hundrað fulltrúum í umboði 28 þús. vinnandi karla og kvenna samþykkt einróma og mótatkvæðalaust, að lagt skyldi til kaupgjaldsbaráttu svo fljótt sem auðið yrði, til baráttu fyrir því, að átta stunda vinnudagur nægði til að framfleyta meðalfjölskyldu. Á þessu þingi samtakanna áttu sæti karlar og konur úr öllum stjórnmálaflokkum í landinu og þá að sjálfsögðu einnig menn úr hópi stuðningsmanna hæstv. núverandi ríkisstjórnar. Í Morgunhlaðinu er svo ekki skirrzt við að kalla alla þessa menn kommúnista. Þetta sama blað lýsti svo kunnáttu sinni í hinni nýloknu vinnudeilu með því að fræða lesendur sína á því, að samninganefnd og verkfallsstjórn væri eitt og það sama. Um svipað leyti og þessi ákvörðun var tekin á þingi Alþýðusambandsins, eða í nóv. s.l., ákvað þingflokkur Alþfl. að bera fram þáltill. um lækkað verðlag. Samþykkt þessarar till. og raunhæfar aðgerðir í þá átt að færa verðlag niður hefðu áreiðanlega stytt hina langvinnu vinnudeilu að mun og því orðið auðveldara að brúa það bil, sem á hefði vantað til lausnar.

Alþýðuflokknum hefur verið það ljóst, að með núverandi stjórnarstefnu er vægast sagt haldlítið að fá kjarabætur í hækkaðri krónutölu, þar sem ríkisvaldinu í krafti þingmeirihluta síns er í lófa lagið að eyðileggja þann árangur á örskömmum tíma. Af þessum ástæðum hefur af okkar hálfu, Alþýðuflokksmanna, verið lögð áherzla á að fá kjarabætur fyrst og fremst í auknu verðgildi peninganna, þ.e. í lækkaðri dýrtíð og auknum tryggingum þeim til handa, sem verst eru staddir og hinir óheillavænlegu hnúar íhaldsstefnunnar knýja harðast á hverju sinni. Í þessu sambandi er þó bæði rétt og skylt að taka það fram, að samkv. 17. gr. vinnulöggjafarinnar svonefndu er verkalýðsfélögunum ákveðið, hvert innihald krafna þeirra megi vera, ef til vinnustöðvunar komi, og er þar einungis ákveðið, að knýja megi fram breytingar um kaup og kjör. Það er því skýlaus skylda ríkisvaldsins með afskiptum sínum af þessum málum að mæta kröfum verkalýðsfélaganna með tilboði um lækkun dýrtíðar, og verkalýðsfélaganna er siðan að meta þau tilboð til kauphækkunar. Ekkert slíkt tilboð barst frá hæstv. núverandi ríkisstj. í hinni nýloknu deilu. Verðlækkunartill. Alþfl. mátti heldur ekki ná fram að ganga. Henni var nú að loknu verkfalli vísað til ríkisstj., en hér í þingsölunum er það kallað, að mál fái hægan dauðdaga.

Verkalýðsfélögunum var því nauðugur einn kostur að knýja fram hækkuð laun í krónutölu. Öðrum leiðum lokaði ríkisvaldið sjálft. Að frumkvæði Emils Jónssonar, sem sæti átti í hinni ríkisskipuðu sáttanefnd, komu atvinnuleysistryggingar til umræðu til lausnar vinnudeilunni, en þó fyrst og fremst til þess að brúa það mikla bil, sem þá var milli deiluaðila og ekkert hafði minnkað, þegar liðið var á fjórðu viku verkfallsins. Um niðurstöður þessara till. Emils er óþarft að fjölyrða. Það er nú orðið staðreynd, að atvinnuleysistryggingum verður komið á. Persónulega fer ég ekki dult með það, að þann árangur tel ég beztan ásamt lengingu orlofstímans við lausn deilunnar. Og innan skamms munu verkalýðsfélögin úti um land einnig njóta ávaxtanna af þessum árangri verkalýðsfélaganna hér í bæ.

Meðal þeirra mála, sem Alþfl. hefur ár eftir ár beitt sér fyrir hér á Alþ. og sérstaklega snúa að verkalýðshreyfingunni, hafa verið atvinnuleysistryggingar ásamt atvinnustofnun ríkisins. Máli þessu hefur aldrei verið sinnt eða nokkur gaumur gefinn. Sömu söguna er að segja um orlofslögin, hvíldartíma togaraháseta, sömu laun fyrir sömu vinnu, félagsheimili verkalýðsfélaganna, svo að nokkur séu nefnd. Frv. um öryggisráðstafanir á vinnustöðum er það eina, sem komizt hefur áleiðis af málum verkalýðsfélaganna, og er nú komið til Ed., en þó óvíst um endanlega afgreiðslu þess.

Þetta er hinn ískaldi sannleikur um samvinnu ríkisstj. við verkalýðssamtökin. Svo stórfurðar Morgunblaðið á því, að verkalýðssamtökin skuli krefjast leiðréttingar sinna mála. Þær staðreyndir, sem því blasa við íslenzkri alþýðu, eru, að vegna innbyrðis skiptingar, vegna þess að hún er ekki jafneinhuga og djörf á kjördegi við alþingiskosningar og í hinum stéttarlegu átökum, þá er hægt að sýna málum hennar hér á löggjafarsamkomunni slíkt tómlæti. Þeim blekkingum, að baráttan á stéttarlegum grundvelli og átökin um mál alþýðunnar á vettvangi stjórnmálanna sé eitthvað óskylt, var í hinni harðvítugu vinnudeilu svipt svo rækilega í burtu, að það er blindur maður, sem ekki sér staðreyndirnar.

Væri hér á Alþ. fjölmennur þingflokkur, sem starfaði á grundvelli jafnaðarstefnunnar, væri hægt að komast hjá þeim átökum, sem sífellt eiga sér stað í nauðvörn alþýðunnar gegn ágengni íhaldsstefnunnar. Vinnudeilan var ávöxtur þess, að íhaldið ræður í öllum höfuðatriðum þeirri þjóðmálastefnu, sem harðast kemur niður á þeim, sem minnst mega sín í þjóðfélaginu. Sé einhver í vafa um, að svo sé, er nægjanlegt að benda á málflutning Morgunblaðsins og þau svigurmæli, sem það lét falla í garð þeirra verkamanna og iðnaðarmanna, sem í deilunni stóðu. Mér þykir þó rétt að taka það fram, að í tillögum einstakra þingmanna stjórnarliðsins hafa tillögur ýmissa framsóknarmanna sýnt mun meiri skilning á málum atvinnulífsins og launastéttanna á þessu yfirstandandi þingi, eins og þingsályktanir þeirra bera með sér, t.d. um nýjar atvinnugreinar, sem samþ. var 20. apríl s.l., og um kosningu samvinnunefndar um kaupgjaldsgrundvöll, sem var samþ. sama dag, og vissulega miða í rétta átt. Þess er því að vænta, að framhald verði þar á.

Íslenzk alþýða til sjávar og sveita. Í dag standa dæmin ljósari en nokkru sinni fyrr um nauðsyn þess, að kraftar ykkar verði sameinaðir. Það hafa oftlega verið gerðar tilraunir til þess að sundra röðum okkar með hagsmunastríði. Þetta hefur því miður tekizt, fáum til góðs, en flestum til ills. Skoðanahópum okkar fjölgar, raðir okkar hafa sundrazt fyrir tilverknað örfárra ævintýramanna. Ágóðinn af þessu er sá einn, að þingmönnum íhaldsins fjölgar. Alþýðuflokkurinn einn hefur aðstöðu til þess að sameina þessa krafta á ný. Það sannar forsaga hans í íslenzkum stjórnmálum og afskipti hans af málum íslenzkrar alþýðu. Undir merkjum hans mun brotið á bak aftur hið misnotaða vald, sem nú er beitt í krafti síaukins fjármagns. Undir merkjum jafnaðarstefnunnar getur íslenzk alþýða aftur fundið mátt sinn og kraft gegn sundrungarmönnum og íhaldsstefnu.