02.11.1954
Sameinað þing: 8. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1930 í B-deild Alþingistíðinda. (3181)

Varnarmálin, skýrsla utanríkisráðherra

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og hæstv. utanrrh. gerði grein fyrir í skýrslu þeirri, sem hann flutti hv. Alþingi hér áðan, hófust ofanverðan síðasta vetur samningaumleitanir milli ríkisstjórna Íslands og Bandaríkjanna um breytingar á framkvæmdareglum herverndarsamningsins svokallaða frá 1951. Þessir samningar gengu, eins og hv. 4. þm. Reykv. lýsti allrækilega í ræðu sinni hér áðan, í miklu þófi og urðu næsta síðbúnir. Hæstv. utanrrh. hafði gert ráð fyrir því að geta skýrt Alþ. frá niðurstöðum þessara viðræðna, áður en þingi lyki s. l. vor, en úr því gat ekki orðið vegna þess, hve treglega gekk samningagerðin. Það var loks í endaðan maímánuð í vor, eftir um það bil fjögurra mánaða strit við samningaborðið, að birt var niðurstaða viðræðnanna eða eitthvað um þær niðurstöður sem áttu að hafa fengizt af þessum viðræðum. Í útvarpsræðu, sem hæstv. utanrrh. hélt þá, þar sem hann skýrði alþjóð frá þessu samkomulagi, lét hann í ljós mikla ánægju yfir þeim árangri, sem náðst hafði. Þetta sama gerði hann einnig nú í skýrslu þeirri, sem hann flutti hér áðan, og komst þó nokkru vægar að orði í síðara skiptið heldur en í hið fyrra, hvort sem það er nú vegna þess, að reynslan hefur kennt honum eitthvað svolítið þessa mánuði, sem liðnir eru.

En það mun sannast sagna, að það er ekki yfir ákaflega miklu að státa fyrir hæstv. ráðherra í þessu sambandi. Ég held, að það sé flestra manna mál, annarra en hæstv. ráðherra sjálfs og nokkurra flokksbræðra hans, að miklu fátæklegri hefði árangurinn af fjögurra mánaða samningsþófi tæplega getað verið. Það var fátt í samkomulagi þessu, sem íslenzk stjórnarvöld virtust ekki hafa fullkomlega í hendi sinni að gera breytingar á samkv. ótvíræðum ákvæðum í sjálfum herstöðvasamningnum, nema þá — og á það vil ég leggja áherzlu — að einhverjir leynisamningar hafi verið gerðir í sambandi við herstöðvasamninginn, samningar, sem aldrei hafa verið birtir. Sá tími, sem liðinn er síðan þetta samkomulag birtist í endaðan maímánuð í vor, held ég að hafi sannað það ótvírætt, að breytingarnar, sem orðið hafa til bóta, eru helzt til litlar.

Í skýrslu þeirri, sem hæstv. utanrrh. gaf Alþ. áðan, var ekki ákaflega margt nýtt. Hann rifjaði upp aðalatriðið úr skýrslunni frá því í vor og fór síðan nokkrum orðum um framkvæmdina. Hann reyndi, svo sem vonlegt var, að bera í bætifláka fyrir þau atriði í framkvæmd varnarmálanna svonefndu, sem hafa sætt mestri gagnrýni undanfarna mánuði. En þetta var allt með heldur óákveðnum orðum hjá hæstv. ráðh., kryddað fáeinum fullyrðingum um það, að einhver vond blöð hefðu rangtúlkað mjög margt í sambandi við hina ágætu framkvæmd á þessu samkomulagi.

Hæstv. ráðh. minntist á Hamilton-félagið og hina umsömdu brottför þess og lét fyllilega í það skína, — ég held, að hann hafi sagt það alveg berum orðum, — að störfum þess hér á landi muni lokið um næstu áramót og þá væri ekki annað eftir fyrir þetta félag en að pakka saman, eins og það er kallað, og hverfa af landi brott. Mér virðist nú að vísu, að eitt og annað bendi til þess, að þetta félag kunni að verða nokkuð lengi að því að taka saman skóflur sínar og önnur áhöld og hverfa úr landi. En tíminn mun að sjálfsögðu leiða það í ljós, eins og hann verður vafalaust hinn réttláti dómari um þessar sem aðrar fullyrðingar hæstv. ráðherra.

Í skýrslu hæstv. utanrrh. um samkomulagið við Bandaríkjastjórn frá því í maímánuði í vor er kafli, sem hv. 4. þm. Reykv. vitnaði að vísu lítils háttar til, en sá kafli er það mikilvægur í sambandi við það, sem hér um ræðir, að mig langar til að lesa hann hér í heild, með leyfi hæstv. forseta. Í þessu samkomulagi eða réttara sagt í skýringum hæstv. ráðherra við samkomulagið segir svo:

„Samtímis hefur verið gert samkomulag milli íslenzku ríkisstj. og yfirmanns varnarliðsins um, á hvern hátt ferðir varnarliðsmanna út af samningssvæðum og ferðir Íslendinga inn á samningssvæði skuli takmarkaðar eftirleiðis, og gengur það samkomulag í gildi nú þegar (þ. e. a. s. í maímánuði 1954). Er þess að vænta, að hinar nýju reglur leysi á viðunandi hátt þau vandamál, sem uppi hafa verið í samskiptum Íslendinga og varnarliðsmanna á samningssvæðunum og utan þeirra. Hafa íslenzk yfirvöld aðstöðu til að sjá svo um, að ettir þessum reglum sé farið.“

Þannig hljóða þessi orð. Það vakti ekki alllitla athygli, þegar hæstv. utanrrh. forðaðist vendilega að minnast á það einu orði, hvernig samkomulag þetta væri, en það gerði hann í skýrslu sinni í vor. Síðan hefur, eins og upplýstist hér í umr. áðan, þrásinnis verið um það spurt, hvernig hinar nýju reglur hljóðuðu, en það hefur jafnan staðið á svörunum. Einhverju sinni gat Tíminn, blað hæstv. utanrrh., um það eða gaf þá næsta frumlegu skýringu á þögninni um reglurnar, að þær mundu mælast illa fyrir hjá varnarliðsmönnum, ef þær væru birtar. Mátti helzt af því orðalagi ráða, að reglurnar væru hulinn leyndardómur ekki aðeins Íslendingum, heldur einnig varnarliðsmönnum, og er það mikil ráðgáta, hvernig til þess er ætlazt, að aðilar hlíti reglum, sem þeir vita ekki hverjar eru.

Fyrir fullum þrem vikum, ef ég man rétt, lagði ég fram hér í hv. Alþingi fyrirspurn til hæstv. utanrrh. um það, hvernig reglur þessar hljóða. Hæstv. ráðherra hefur ekki svarað þeirri fyrirspurn. Hann vék að reglum þessum í skýrslu sinni nú og aftur í svari sínu til hv. 4. þm. Reykv., og ég var satt að segja töluvert hissa á þeim svörum, sem ráðherrann gaf, og ætla að koma lítillega að þeim svörum síðar. En skömmu eftir að þessi fyrirspurn mín var lögð fram hér á hv. Alþingi, birti hæstv. ráðherra reglur varðandi umferðarmál í sambandi við herstöðvarnar, ekki að því er snerti ferðir herliðsins um landið eða út fyrir herstöðvarnar, heldur eingöngu varðandi ferðir Íslendinga inn á þau svæði, sem herliðinu hafa verið fengin til umráða. Hæstv. ráðherra hefur nú einnig skýrt Alþingi frá þessari reglugerð. Ég mun ekki fara langt út í þá sálma að ræða þessar reglur í einstökum atriðum. Ég sé enga ástæðu til að amast við því, að leitazt sé við að stemma stigu við óþörfum ferðum Íslendinga inn á þessi svæði, síður en svo. Ég og minn flokkur höfum jafnan haldið því fram, að öll ónauðsynleg samskipti hersins og Íslendinga eigi að hindra með hverjum þeim ráðum, sem tiltækileg eru. Þess vegna ber að mínum dómi miklu fremur að fagna því heldur en hitt, ef hæstv. ráðherra sýnir einhverja alvarlega tilburði til að stemma stigu við þessum samskiptum. Því er þó ekki að leyna, að sum ákvæði þessarar reglugerðar koma dálítið kynlega fyrir sjónir, a. m. k. finnst manni orðalagið á stöku stað nokkuð einkennilegt, t. d., svo að ég nefni aðeins eitt atriði, þar sem svo er að orði kveðið, að heimsóknir Íslendinga til varnarliðsmanna skuli ekki leyfðar, nema sérstaklega standi á. Mér virðist þetta vera nokkuð teygjanlegt orðalag, ekki sízt ef þeir, sem framkvæmdirnar eiga að annast, líta kannske töluvert á það, hvenær sérstaklega þykir standa á frá sjónarmiði hermanna. Annars verður reynslan að sjálfsögðu að skera úr því, hvort eitthvert gagn og þá hve mikið gagn verður af þessum reglum. Og eins og ég áðan sagði, sé það staðfastleg ætlun þeirra, sem með framkvæmdina fara, að stemma sem mest stigu við þarflausum og skaðvænum samskiptum herliðsins og Íslendinga, þá er ekki nema allt gott um það að segja. Sé hins vegar fyrst og fremst um pappírsgagn að ræða, kemur það fljótlega í ljós, og þá verður tæplega yfir því þagað.

En það var sérstaklega eitt atriði í sambandi við setningu þessarar reglugerðar, sem ég tel ástæðu til að gera nokkru frekar að umtalsefni. Í upphafi reglugerðarinnar nýju er skírskotað til þeirra samningaumleitana við Bandaríkjastjórn, sem fóru fram á s. l. vetri og voru um breytingar á framkvæmdareglum herstöðvasamningsins, og af skýrslu þeirri, sem hæstv. utanrrh. flutti hér áðan, virtist vera hægt að ráða það, þó að það kæmi ekki fram alveg berum orðum, að um þetta atriði einnig hafi verið gert samkomulag við Bandaríkjamenn. Ég vil nú beina því til hæstv. ráðherra að skýra frá því ótvírætt, hvort sú málsmeðferð hefur verið viðhöfð í þessu tilfelli. Sé svo, að um þetta hafi verið samið við aðra þjóð, tel ég það mjög vítaverða málsmeðferð. Í varnarsamningnum frá 5. maí 1951 segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Ekkert ákvæði þessa samnings skal skýrt þannig, að það raski úrslitayfirráðum Íslands yfir íslenzkum málefnum.“ Jafnframt hinum svonefnda varnarsamningi var, eins og kunnugt er, gerður samningur um réttarstöðu Bandaríkjahers á Íslandi. Er þar svo að orði kveðið, með leyfi hæstv. forseta: „Gefnar verða út rækilegar leiðbeiningar um íslenzka umferðarlöggjöf og reglur og lagt fyrir Bandaríkjamenn að hlýða þeim í einu og öllu.“ Þetta er eitt af þeim ákvæðum, sem íslenzk stjórnarvöld áskilja sér rétt til að gera og framkvæma. Samkvæmt þessum og öðrum samningsákvæðum virðist mér það jafnvel vera mjög hæpið, svo að ekki sé fastara að orði kveðið, að um það þurfi að semja við Bandaríkjamenn, hvaða umferðarreglur herliðinu eru settar. Það er a. m. k. mjög hæpið, að þess sé nokkur þörf, en hitt hlýtur hver maður með óbrjálaðan íslenzkan hugsunarhátt að sjá, að ekki kemur til nokkurra mála að fara að semja um það við aðra þjóð, hverjar reglur eru látnar gilda um ferðir Íslendinga í eigin landi. Því vil ég endurtaka það og leggja á það áherzlu, að hafi sú málsmeðferð verið viðhöfð að leita um þetta efni samninga við aðra þjóð, þá eru það vinnubrögð, sem Alþingi Íslendinga á og hlýtur að mótmæla. Ég hygg, að þetta atriði hafi ekki komið skýrt fram í ræðum hæstv. utanrrh., þeim sem hann hefur haldið hér áður, en ýmislegt virðist mér þó benda til þess, að einmitt þetta hafi verið gert. Ég vil vænta þess, að hæstv. ráðherra veiti við þessu skýr og ákveðin svör.

Fyrst hæstv. ráðherra hefur gert samningagerð sína við Bandaríkjastjórn að umtalsefni hér í dag, vil ég að lokum víkja örfáum orðum að þeim umferðarreglum, sem hafa ekki enn þá verið birtar opinberlega, ákvæðunum um ferðir svonefndra varnarliðsmanna út af samningssvæðunum.

Blað hæstv. utanrrh. hefur ekki alls fyrir löngu gefið á því fyrirbæri, að reglurnar eru ekki birtar, þá skýringu, að herstjórnin hafi óskað eftir því, að reglur þessar væru ekki birtar, þar sem slíkt heyrði til hernaðarlegra leyndarmála, eins og blaðið komst að orði. Og nú í svari sínu hér áðan til hv. 4. þm. Reykv. endurtók hæstv. ráðherra þessi sömu orð. Þrátt fyrir það að hæstv. ráðherra gerði þetta — mér og trúlega mörgum alþm. öðrum til mikillar undrunar, þá á ég ákaflega bágt með að taka þessa skýringu á leynd reglnanna alvarlega, jafnvel þótt hæstv. ráðherra beri hana fram. Ég er meira að segja hræddur um, að einhverjir galgopar í hópi yfirmanna varnarliðsins hafi bókstaflega verið að gera að gamni sínu við hæstv. ráðherra, þegar þeir voru að segja honum, að það væri nauðsynlegt að halda þessum reglum leyndum vegna orlofsferða –ja, fáeinna pilta, að eigin sögn ráðherrans, sem fá að skreppa út fyrir völlinn stöku sinnum.

Nú hygg ég, að það sé svo um Reykvíkinga marga og ýmsa aðra landsmenn, að þeir hafi orðið þess nokkuð greinilega varir, hvað sem hæstv. ráðherra segir, að ferðalög hermanna utan samningssvæða hafa ekki minnkað ákaflega mikið við tilkomu þessara reglna, sem sagt er að gerðar hafi verið, þó að ekki hafi verið frá þeim skýrt. Hæstv. ráðherra fullyrðir raunar hér áðan, að úr þessu hafi mikið dregið. Ég hef að sjálfsögðu engin skilríki í höndum til þess að sanna hið gagnstæða, en það er margra manna mál, að þess hafi harla lítið orðið vart, að úr þessum ferðum hafi dregið.

Það, sem ég vildi svo að síðustu leggja áherzlu á, er þetta: Hæstv. ráðherra hefur tilkynnt, að samdar hafi verið reglur um ferðir varnarliðsmanna út fyrir samningssvæðin. Það virðist liggja nokkuð í augum uppi, að eigi Íslendingar að fylgjast eitthvað með því, hvort þessar reglur séu haldnar eða ekki, þá beri almenningi að fá vitneskju um það, í hverju þessar reglur eru fólgnar. Frá mínu sjónarmiði virðist það og næsta torvelt fyrir hina amerísku hermenn að fylgjast með reglunum, ef þeir hafa hvorki heyrt reglugerðarákvæðin né séð. Ég get, eins og ég sagði áðan, tæplega tekið alvarlega þá fullyrðingu hæstv. ráðherra, að þessar reglur séu hernaðarleyndarmál og að birting þeirra stofni, að mér skilst, öryggi vestrænna þjóða í vísan voða. Ég vil því eindregið taka undir það, sem hv. 4. þm. Reykv. fór fram á hér áðan og ég hef þegar óskað eftir, að hæstv. ráðherra láti nú ekki líða langt þangað til hann birtir þessar reglur. Ég held, að það sé ekki stætt á öðru fyrir hæstv. ráðherra. Enn fremur vænti ég þess, að hann svari ákveðið þeirri fyrirspurn, sem ég beindi til hans hér áðan, hvort um það hefur verið samið við Bandaríkjamenn að setja umferðarreglur, sem Íslendingum er ætlað að hlíta í eigin landi.