16.12.1954
Sameinað þing: 29. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í B-deild Alþingistíðinda. (333)

1. mál, fjárlög 1955

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég flyt litla brtt. á þskj. 297, undir XIX. lið þar. Þessi till. mín er smávægileg að því er fjárgreiðslur úr ríkissjóði snertir og mun engu raska um niðurstöðu fjárlaganna.

Till. fjallar um það að hækka lítillega laun Björgvins Guðmundssonar tónskálds, eða úr 10350 kr., sem nú er ákveðið í frv., í 15 þús. kr.

Þau laun, sem þessi maður hefur haft á fjárlögum undanfarið, eru nú orðið langsamlega mestur hluti af tekjum hans. Munu allir sjá, að rúmlega 10 þús. kr. eru ekki mikið til að lifa af nú á dögum, og enn fremur, að ekki muni veita af þeirri viðbót, sem ég sting upp á. En vitanlega má spyrja, þó að þetta sé játað: Er ástæða til fyrir ríkið að bæta hér úr? Ber ríkissjóði nokkur skylda til þess?

Björgvini Guðmundssyni tónskáldi þarf ekki að lýsa hér eða kynna hann, því að um hann sjálfan og starf hans mun öllum hv. þm. kunnugt. Það munu allir vita, að hann er og hefur verið eitt mikilvirkasta tónskáld landsins, og eftir því sem ég bezt veit, þá munu liggja eftir hann um 504 tónverk, stærri og smærri, en mörg þeirra stórverk. Og að margra dómi er þessi maður einnig eitt hið bezta tónskáld, sem þjóðin á. Ég skal játa, að ég hef litla söngþekkingu og get ekki dæmt um þetta eins og sá, sem vald hefur, en þetta er álit margra. Ég hygg því, að það sé ekki ofmælt, þó að ég segi, að þjóðin standi í þakkarskuld við þennan mann og hann ætti það skilið, ekki síður en ýmsir aðrir, sem allvel er séð fyrir á fjárlögum, að honum væri séð fyrir nægilegu fé til að lifa á á efri árunum, en þau fara nú mjög að nálgast.

Till. mín um, að þessi laun verði hækkuð upp í 15 þús. kr., nægir auðvitað ekki í þessu efni, en hún er þó ofur lítið í áttina og ofur lítil viðurkenning, ef hún yrði samþ., og mundi, þótt um litla upphæð sé að ræða, nokkuð bæta úr þörf þessa manns. Ég vona því fastlega, að þessi litla till. verði samþ. af hv. Alþ., því að eins og ég sagði í upphafi sé ég ekki, að hún mundi nokkuð raska sem teljandi væri um niðurstöðu fjárlfrv.

Fleiri brtt. hef ég ekki flutt við frv. og enga við 2. umr. málsins. Ég skal þó taka það fram, að ég er vitanlega ekki að öllu leyti ánægður með úthlutun fjvn. á því fé, sem veitt er til ýmissa framkvæmda í landinu, þannig að mér finnst, að mítt kjördæmi hafi frekar verið sett hjá nú, eins og reyndar á undanförnum þingum, að því er snertir fé til vega, og það því fremur sem ekkert fé er veitt í það kjördæmi til brúarbygginga, sem mjög mörg kjördæmi önnur fá allálitlegar upphæðir til, og það er ekki sökum þess, að ekki sé enn þörf að byggja brýr í Eyjafirði. En það er þó ekki svo brýn nauðsyn, að við þm. Eyf. bærum fram neinar kröfur um það. En þrátt fyrir þetta, þó að ég líti svona á, þá hef ég fyrir mitt leyti sætt mig við till. fjvn. í þessu efni. Mér er það ákaflega vel ljóst, að hv. fjvn. hefur úr vöndu að ráða að því er úthlutun ríkisfjárins snertir til hinna einstöku staða og hinna einstöku framkvæmda, og það er vitanlega alveg ómögulegt fyrir hana að gera svo að öllum líki. Ég hygg, að segja megi um hv. fjvn., að hún hafi reynt að koma eins langt til móts við óskir og kröfur um fjárframlög til þarflegra framkvæmda og fjárhagur ríkissjóðs frekast leyfði, og mér finnst, að það sé í sjálfu sér stefnt á fremstu nöf og því hreint ábyrgðarleysi að bera fram fjárkröfur, sem skipta verulegu máli, nú eftir að fjvn. hefur gengið frá sínum till.

Um afgreiðslu fjárl. almennt skal ég ekki fjölyrða, þó að slíkt ætti að vera leyfilegt við 3. umr. málsins, en ég verð að segja það, að mér virðist bæði fjárlfrv., eins og það liggur fyrir, og till. hv. fjvn. draga dám af þeirri kröfupólitík, sem nú er yfirleitt rekin í landinu af öllum stéttum, af öllum héruðum, af öllum stjórnmálaflokkum og yfirleitt öllum. En þó mun svo í hóf stillt, að verði frv. í aðalatriðum afgr. eins og hv. n. leggur til, þá er ekki enn stefnt í beinan voða. En þessi kröfupólitík, sem farið er almennt að reka í landinu, hlýtur fyrr eða síðar að leiða til þess, að allt fer í strand. Það hlýtur að koma að því, að lífið sjálft segi: Hingað og ekki lengra. Hvernig þá verður við snúizt, skal ég ekki um segja. En áreiðanlega verður ekki skemmtilegt, þegar sá tími er kominn, að standa að afgreiðslu fjárlaga eða stýra fjármálum þjóðarinnar, ef ekkert lát verður á þeim kröfum, sem nú eru gerðar, og hugsunarhátturinn getur ekki breytzt neitt; þegar svo er komið, að það má ekkert á bjáta á nokkurn hátt eða neins staðar, þá eru þegar í stað gerðar kröfur til ríkisins um úrbætur. Þegar ég kom fyrst á þing, þá þekktust yfirleitt ekki þær kröfur, sem nú eru gerðar á mörgum sviðum. Menn höfðu þá enn þann hugsunarhátt, að þeir ættu sem mest að bjarga sér sjálfir og t.d. þó að hallaðist fyrir atvinnuvegi, þá væri það þeirra, sem hann stunduðu, að leita úrræða til þess að fá atvinnuveginum komið á réttan kjöl upp aftur. Nú er þetta allt saman gerbreytt. Og það er kannske íhaldssemi, sem leiðir af aldrinum, en ég verð við það að kannast, að mér lízt ekki á blikuna, mér lízt ekki á þá stefnu, sem þjóðin yfirleitt hefur tekið í þessu efni. Þegar svo er komið, að svo til allir atvinnuvegir landsmanna eru reknir með einhvers konar styrkjum, þá er ég nú hættur að skilja, hvaða gagn er af slíkum styrkjum, því að mér skilst, að þegar svo er komið, að allir landsmenn fá styrk með einhverju móti, þá lendir það þar við, að þeir verða að borga þennan styrk sjálfir. Það kann að vera, að það sé hægt að láta ríkissjóð fá allar tekjur landsmanna í sköttum og sjá síðan fyrir öllum landsmönnum; hann fái þjóðartekjurnar og sjái fyrir þegnunum. En ef slíka aðferð ætti að hafa, þá mundi það þó ekki til lengdar geta verið á þann veg, að hver fengi eins og hann óskaði og teldi sig þurfa. Það mundi þá væntanlega verða að miða við þjóðartekjurnar.

Mér er það ákaflega ljóst, að á þessu stigi þessara mála er það mjög þýðingarlitið að láta svona skoðanir í ljós. En úr því að þessi litla brtt., sem ég ber fram, gaf mér sérstakt tilefni til þess að taka hér til máls, þá gat ég þó ekki stillt mig um að láta í ljós þá skoðun, sem ég hef á því, hvert nú stefnir. Þrátt fyrir viðleitni fjármálastjórnarinnar og fjvn. til þess að spyrna við fótum eins og hægt er, þá er straumurinn það sterkur, að hann er auðsjáanlega ofviða þeim aðilum.