13.10.1954
Efri deild: 3. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í B-deild Alþingistíðinda. (503)

25. mál, læknaskipunarlög

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja umræðurnar á þessu stigi, enda er þess nú ekki beint þörf. En það, hvort Rangæingahéraði er skipt eða ekki og hvort það er sett nýtt hérað í Kópavogi, það var ég ekkert að tala um. Ég var bara að tala um málið almennt, enda mun ætlazt til þess í þingsköpum, að það sé talað um málið almennt við 1. umr., en ekki um einstakar brtt. Það er þess vegna allt annað mál.

Ég vil benda á, að það er fjarri því, að það sé rétt, sem hæstv. ráðh. heldur fram, að þingið hafi alltaf verið með því að fjölga læknum. Þegar málið er rætt seinast almennt hér og þau læknalög samþykkt, sem nú eru í gildi í aðalatriðunum, þá voru ákaflega skiptar skoðanir um þetta, og endaði með því, ef ég man rétt, eftir till. frá 4. þm. Reykv. (HG), að það var skipuð n. í málinu. Sú n. hefur aldrei skilað áliti. Og allar ríkisstjórnir og allir heilbrigðis- og félagsmálaráðherrar, sem síðan hafa starfað, hafa ekki verið menn til að fá álit frá mönnunum, sem í henni sátu, en það voru Vilmundur Jónsson, Gunnar Thoroddsen og Magnús Pétursson, — og þeim var ætlað að gera till. um það, hvernig læknaskipunin yrði í framtíðinni og hvernig sjúkrahús í framtíðinni yrðu tengd við læknana. Þeir hafa alltaf setið síðan í nefndinni, en aldrei hefur fengizt hjá þeim álit. Og á siðasta þingi er skipuð ný nefnd í part af því, sem þeir áttu að vinna. Á þessu sama þingi sem Gunnars Thoroddsensnefndin var skipuð voru búin til tvö ný læknishéruð. Annað var kallað Borðeyrarlæknishérað og hitt var kallað Suður-Snæfellsnesslæknishérað. Eftir tvö ár voru þau bæði lögð niður aftur, og hvorugt þeirra hefur komið fram síðan, svo

Alþ. hefur svo sem huklað sitt á hvað í málunum. Það hefur aldrei komið fram neinn ákveðinn, einlægur vilji hjá Alþ. í málinu sem heild. Það er öðru nær en að það hafi gert það.

Ég er ákaflega ánægður yfir því, að ráðh. núna, þegar ég minnist á þetta, hafi opin augu fyrir því, að það á að tengja þetta tvennt saman. Það hefur hann vitanlega ekki haft, því að ef hann hefði haft það, þá hefði hann ekki komið með þetta frv. núna. Þá hefði hann beðið eftir að fá nál. og reynt að tengja það saman við álit nefndarinnar. En það gleður mig, að nú sér hann, að það þarf að tengja það saman, og ætlar að láta okkur fá nál. og lofa n. að athuga það. Og ég treysti því, að n. athugi þetta saman, því að það er óforsvaranlegt að setja upp sjúkrahús, t.d. á Blönduósi, fyrir 30–40 sjúklinga og ætla einum manni að vera við það og jafnframt héraðslæknir. Það er líka óforsvaranlegt að ætlast til þess, að það sé til sjúkrahús á Suðurlandsundirlendinu, hvar sem það er, og ætla einum lækni að vera við það jafnframt héraðslæknisstarfi. Í blöðunum í dag er sagt frá slysi, sem varð í fyrradag uppi í Biskupstungum. Þá var þannig ástatt, að það náðist ekki í neinn lækni, hvorki á Selfossi né í Laugarási, — þeir komu ekki fyrr en eftir dúk og disk. Það var enginn við. Þetta getur iðulega komið fyrir. Og í sjúkrahúsi er ekki hægt að láta bara einn lækni starfa. Þess vegna verður að taka slíkt saman, hvar við viljum hafa stór sjúkrahús og hvar við viljum láta ríkið styrkja þau og hvernig, og þar eiga að vera tveir læknar. Hitt er svo aftur annað mál og kemur til álita þar á eftir, hvað við þurfum þá að hafa lækna nálægt þessum sjúkrahúsum, hvort við þurfum að hafa eitt stórt sjúkrahús með tveim læknum uppi á Selfossi og samt sem áður lækni á Eyrarbakka o.s.frv. Það er annað mál. Það kemur aftur í aðra linu. Fyrst er að gera hreint um það, hvort þingið vill fara inn á þá stefnu að hafa sjúkrahús hér og þar styrkt af ríkinu, — og það hefur það nú viljað, þó að það hafi verið dálítið óljóst, hvar þau ættu að vera, — og tvo lækna þar. Og þegar búið er að ákveða það, þá kemur, hvað við þurfum að hafa læknana í kringum þau þétta. Þess vegna þarf allt málið að leysa saman í einni heild, og ég er ánægður yfir því að fá að sjá nál. og vona, að n. athugi það gaumgæfilega, áður en hún tekur heildarafstöðu til læknaskipunarinnar.