25.11.1954
Efri deild: 21. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í B-deild Alþingistíðinda. (526)

25. mál, læknaskipunarlög

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls gerði ég ljósa grein fyrir því, að það væri ofvaxið einum manni að gegna héraðslæknisembættinu á Akureyri, eins fjölmennt og erfitt og læknishéraðið er, og bar fram till. um að létta að nokkru störfum af honum. En ég mun hafa talað fyrir daufum eyrum, því að þessi till. var felld. Ég gat þess þá, að yrði þessi till. mín felld, þá mundi ég mjög taka það til athugunar að bera fram till. við 3. umr. um það að skipta þessu erfiðasta og fjölmennasta læknishéraði landsins í tvö læknishéruð. Ég hef ekki gert þetta og ætla ekki að gera það að þessu sinni. Og það er í trausti þess, að heilbrigðisstjórnin muni sjá svo um samkv. 5. gr. frv., að séð verði fyrir aðstoðarmanni héraðslæknisins á Akureyri. Það er í trausti þess, að ég ber ekki fram brtt. nú. En vitanlega, verði misbrestur á því, að þar verði séð fyrir aðstoðarlækni, a.m.k. tíma úr árinu, er það auðvitað mál, að krafa kemur fram um að skipta héraðinu og hafa þar tvo lækna.