24.02.1955
Neðri deild: 52. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 531 í B-deild Alþingistíðinda. (625)

120. mál, ríkisreikningar fyrir árið 1952

Jón Pálmason:

Herra forseti. Það er nú í sjálfu sér ekkert undarlegt, þó að það komi fram einhver rödd í sambandi við afgreiðslu ríkisreikningsins á hverju ári og að nokkuð sé að því vikið, hvernig með þessi mál er ástatt.

Ég hef nokkrum sinnum rætt um þessi mál hér á Alþ. og sem yfirskoðunarmaður bent á, hvað það er, sem ég og við yfirskoðunarmenn teljum fyrst og fremst athugavert. Nú hefur það jafnan gengið svo, að þó að við vísum einstökum aths. til aðgerða Alþ., þá hefur ekki verið neitt úr því gert, og við höfum því heldur tekið þá aðferðina að miða okkar tillögur til úrskurðar við það, að athugasemdin sé til athugunar framvegis, til eftirbreytni og í þriðja lagi, að þetta og þetta atriði, sem við finnum að, sé til viðvörunar.

Varðandi það atriði, sem hv. 1. landsk. nefndi, að reikningarnir væru mjög á eftir áætlun, þá er það að vísu satt. En það hefur mikið áunnizt í því efni frá því, sem var á tímabili, því að það er þó ekki hægt að segja um þennan reikning, að hann sé nema ári á eftir. Athugasemdirnar eru undirskrifaðar 1. maí s.l., og þetta er reikningur fyrir 1952, og mætti segja, að það hefði um það bil átt að geta verið afgreiddur í hæsta lagi reikningur fyrir 1953. En því er nú þannig varið, eins og flestum hv. alþm. er kunnugt, að ríkisreikningnum er haldið opnum langt fram á næsta ár, eftir að hann á að vera afgreiddur; það er haldið opnum reikningum fyrir hinar og þessar stofnanir mjög langt fram á næsta ár, og reikningshaldið er af þeim sökum og fleiri seinna á ferð en ella. Hér er um ákaflega flókin mál að ræða, og því er reikningshaldið venjulega ári seinna en er hjá hinum einstöku stofnunum.

Nú skal ég ekki hér í þessu sambandi fara mikið inn á þær aths., sem við yfirskoðunarmenn höfum gert, enda þótt ræða hv. 1. landsk. gæfi nokkurt tilefni til að fara nánar út í það mál, en við í fjhn. höfum vikið að tveimur höfuðatriðum, sem ber mjög mikið á í þessum reikningi og að sumu leyti fara versnandi frá því, sem verið hefur.

Annað atriðið er það, sem er mjög athyglisvert við þennan reikning, að það eru vaxandi útistandandi tekjur, ekki einasta hjá innheimtumönnum ríkisins sjálfum, heldur og hjá hinum og þessum ríkisstofnunum, og það virðist vera versnandi ástand með að innheimta þær tekjur, sem stofnanirnar eiga að fá, og eru sumar stofnanir mjög illa settar að þessu leyti. Þetta á sér víða stað, og við höfum fundið að því oft áður og eins nú. Það er að vísu lofað bót og betrun af hálfu forstjóranna og hæstv. ríkisstj., en árangurinn hefur ekki verið betri en þetta á þessu sviði.

Hitt atriðið, sem er mjög einkennandi og hefur verið á undanförnum árum, er það, að sumar stofnanir ríkisins virðast ekki fara neitt að kalla má eftir fjárl. Sumar þeirra skara þar alveg fram úr um að virða fjárl. lítils, aðrar fara eftir fjárl., eftir því sem þeim er mögulegt, og einstök atriði eru það, sem farið er eftir fjárl. í, eins og t.d. um framlög til vegamála og annað slíkt, að svo miklu leyti sem það er ekki viðhaldskostnaður. En ein stofnun er það t.d., sem við höfum gert aths. um æ ofan í æ, og það er Ríkisútvarpið, sem hefur skarað fram úr í því að fara fram úr áætlun með sín gjöld langt umfram það, sem til er ætlazt. Þessu höfum við hvað eftir annað vísað til aðgerða Alþ., sem ekkert hefur fengizt til að gera. Fleiri stofnanir er hér um að ræða, og eitt er, eins og hv. 1. landsk. benti á, varðandi uppeldisstyrkinn og snertir aðallega Austurland og hefur verið ákveðið, án þess að fjárlagaheimild væri fyrir.

Ég skal ekki að þessu sinni fara miklu nánar út í þetta, því að það er þetta tvennt, sem er aðallega um að ræða fyrir utan einstök smærri atriði, sem við höfum gert atbs. við í sambandi við þennan reikning, og fjhn. leggur til í sínu nál., að hæstv. ríkisstj. geri ráðstafanir til, að á þessu fáist bætur. Að öðru leyti er það frjálst hverjum og einum hv. þm. að bera fram till. um einstök atriði, sem í þessu sambandi koma fram og aths. gefa fullt tilefni til.