19.04.1955
Efri deild: 71. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í B-deild Alþingistíðinda. (639)

120. mál, ríkisreikningar fyrir árið 1952

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég sé nú, að hæstv. ráðh. hefur gengið af fundi, og vildi ég því biðja um að hinkra við, þangað til hann kemur inn aftur, því að annars mun ég óska eftir því, að málið sé tekið út af dagskrá. Ég tel, að hér sé um svo þýðingarmikið mál að ræða, að það sé æskilegt, að ráðh. sé við.

Mér þykir rétt, úr því að hæstv. ráðh. er kominn hér aftur — (Fjmrh.: Má maður ekki einu sinni sækja blek í pennann sinn?) — ja, ég álít, að hér sé um miklu alvarlegra mál að ræða en það, að ráðh. þurfi að vera að hafa það nokkuð í flimtingum, því að hér er um að ræða milljónagreiðslur úr ríkissjóði, svo að mér finnst nú, að hæstv. ráðh. ætti að geta varið nokkrum tíma hér í hv. d. til þess að ræða þetta mál. Og ef það er einhver þraut fyrir hæstv. ráðh., þá ætti hann að æskja þess við forseta, að hann taki það út af dagskrá, þangað til hann hefur tíma til þess að vera hér og ræða um málið, því að það er þó áreiðanlega hans skylda sem ráðherra að vera hér við umr. um ríkisreikningana, hvað sem öðru líður. (Fjmrh.: Ég held, að hv. þm. ætti ekki að vera með neinn dónaskap í sambandi við þetta.)

Ég vil benda hv. d. á hér, að nú hefur hæstv. ráðh. alveg snúið við blaðinu. Hann sagði í sinni fyrri ræðu, að það væri skylda yfirskoðunarmannanna að fylgjast með því, að þetta yrði framkvæmt og þeirra athugasemdir yrðu teknar til greina. Í sinni seinni ræðu segir hann, að þetta sé alls ekki þeirra skylda, það sé ekki eðlilegt, að þeim sé gefið það vald. Ég veit því ekki, hvaða afstöðu hæstv. ráðh. ætlar að taka til þessara mála. Ég vil því gjarnan leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh. um, hvað ráðuneytin hafa — ekki einasta hans rn., heldur hin ráðuneytin yfirleitt — gert til þess að gera umbætur í þeim málum, sem yfirskoðunarmenn Ríkisreikninganna ár eftir ár hafa bent á að ætti að gera umbætur í. Því verður þó ekki neitað, að yfirskoðunarmenn ríkisreikninganna hafa tillögurétt í málinu og þeir hafa gert sínar till. En það er alveg sýnilegt, þegar ríkisreikningarnir eru lesnir frá ári til árs, að viðkomandi hæstv. ráðuneyti taka ekkert tillit til þessara tillagna, bókstaflega ekkert, bókstaflega hunza alveg tillögur yfirskoðunarmannanna, sem Alþ. hefur valið til þess að líta eftir ríkisreikningunum og benda á veilur, sem hafa komið fram í rekstrinum. Þetta er kjarni málsins. Og ef því er lýst yfir af hæstv. ráðh., að það sé ekki að vænta neinna umbóta í þessum málum, eftir að búíð er að ræða þessi mál hér ár eftir ár í þessari hv. d., þá er vitanlega ekki hægt að gera neitt annað en að reyna það hér í Alþ., hvort meiri hl. alþm. vill taka upp aðra skipan, því að eins og málin eru nú, þá er þetta ástand ekki þolandi.

Það hafa hér af endurskoðendum verið sett fram fjöldamörg rök fyrir því, að það væri hægt, ef það væri nokkur vilji á bak við, að koma á heppilegri rekstri í ýmsum stofnunum ríkisins og ráðuneytum, ef það væri farið eftir þeirra tillögum. Því er ekki svarað á neinn annan hátt heldur en að viðkomandi aðilar, sem stjórna þessum stofnunum, eru látnir svara tillögunum og þeir eru látnir verja sjálfa sig, án þess að það hafi komið nokkuð fram hjá sjálfri hæstv. ríkisstj. eða þeim viðkomandi ráðh., sem fer með þau mál, að hann hafi persónulega látið rannsaka þau mál. Og það hefur aldrei komið fram, svo að mér sé kunnugt um, í neinum af þeim Ríkisreikningum, sem hafa verið hér til umr. Og þegar þetta er rætt við hæstv. ráðh., þá annaðhvort svarar hann hér hálfgerðum skætingi eða hann hlær, eins og honum komi þetta ekkert við, eins og þetta sé alveg óviðkomandi mál, og vill helzt ekkert ræða þessi mál. En það er allt annað hljóð í hæstv. ráðh., þegar hann við afgreiðslu hverra fjárlaga er að kvarta undan því, að ekki megi setja inn þessa hluti og þessa till. og ekki megi samþykkja þessa till. og þessar tillögur, af því að ríkisreikningarnir þoll það ekki. En honum er alveg sama um það, þó að hann átölulaust láti eiga sér stað alls konar sukk í rekstrinum, eins og yfirskoðunarmenn ríkisreikninganna hafa bent á og hann hefur alveg virt að vettugi ár eftir ár.

Ég held, að ef hæstv. ráðh. hugsar sér að halda þessu þannig áfram, þá væri bezt fyrir hann að fá stjórnarskrárbreytingu um, að það þyrfti ekkert að vera að athuga neina ríkisreikninga. Það væri það heppilegasta fyrir hann.

Ég hafði nú satt að segja búizt við því, að þegar hv. fjhn. þessarar d. hefur hvað eftir annað óskað eftir samvinnu við hæstv. fjmrh., sem meiri hl. n. styður, til þess að fá lagað hér ýmislegt, sem miður fer, þá ætti það að takast með öðrum svörum en hér hafa verið gefin í dag og miklu heppilegri, því að þau verða ekki til þess að hjálpa honum sem ráðh. til þess að halda niðri útgjöldum ríkissjóðs. Það væri miklu betra fyrir hann að taka þar upp allt aðra vinnuaðferð.