04.04.1955
Efri deild: 67. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í B-deild Alþingistíðinda. (662)

139. mál, lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Þegar hv. 4. þm. Reykv. (HG) var kjörinn frsm. að máli því, sem hér er til umræðu, og tveimur öðrum málum á dagskránni, þá tók hann það skýrt fram, að það væri óeðlilegt, að hann væri látinn hafa framsögu, þar sem hann væri andvígur tveimur þeim brtt., sem fjhn. ber fram. Hann gerði hér einnig fullkomlega grein fyrir sinni afstöðu, og hef ég ekkert við það að athuga. En mér finnst þó nauðsynlegt að skýra nokkru nánar frá hlið meiri hl. í n. en hann hefur gert og því, hvers vegna hún leggur til, að þessar breytingar verði gerðar, og það er vegna þess, að mér þótti rétt að segja hér nokkur orð.

Eins og hv. þm. gat um, þá er lagt til, að í 7. gr. falli niður 1. efnismálsgr., þ.e., að sjóðfélagar skuli hætta að greiða gjöld, þegar þeir hafa greitt í 30 ár. Í þessu sambandi vil ég leyfa mér að benda þessari hv. d. á, að þegar sams konar frv. var til umr. hér á s.l. ári, þá var það einmitt um þetta atriði, hvort sjóðfélagar skyldu hætta að greiða eftir 30 ár, og þá vildi ekki þessi hv. d. fallast á það mál og setti því inn í það frv., sem þá var samþ. hér, að lögin skyldu endurskoðuð og m.a. með tilliti til þessa ákvæðis. Það var þá mjög fast sótt af hv. 4. þm. Reykv. að fá það ákvæði samþ., einmitt vegna þess, — og því vil ég biðja hv. dm. að taka eftir, — að það hefur verið greitt allan tímann af þessum mönnum, þó að þeir hafi verið búnir að greiða lengur en 30 ár. Það hefur engin heimild verið til í l. um að hætta að greiða iðgjaldið. En vegna óánægju, sem hefur risið upp frá þessum mönnum, var þetta borið fram af hv. 4. þm. Reykv., en d. vildi þá ekki fallast á þessa breyt. frekar en hv. fjhn. á þeim tíma. Og ástæðan fyrir því, að ekki var fallizt á breyt. þá, er sú sama og nú, að með því móti að sleppa þessum sjóðfélögum við að greiða gjöldin, ef þeir hafa greitt í 30 ár, eru þeir fyrst og fremst á hærri launum en greidd eru fyrir sams konar starf öðrum þeim sjóðfélögum eða embættismönnum, sem greiða 4% af sinum launum í lífeyrissjóð. Það er m.ö.o. 4% hækkun á þeirra launum, eftir að þeir hafa greitt í 30 ár. Þetta er ein ástæðan.

Önnur ástæðan er sú og kannske veigameiri, að þeir hafa greitt iðgjöld um langan aldur af miklu lægri launum en lífeyririnn er miðaður við, þegar þeir hætta, og það er veigamikið atriði í málinu. Þess vegna telur ekki fjhn. eða meiri hl. fjhn., að það sé rétt að láta iðgjöld þeirra falla niður.

Í þriðja lagi er upplýst, að sjóðurinn þarf raunverulega mjög á þessari greiðslu að halda. Ríkissjóður stendur í ábyrgð fyrir sjóðnum, og einmitt vegna þess, að laun þessara manna eru miðuð við miklu hærri laun en á meðan þeir greiddu sjálfir á sínum fyrstu árum, verður alltaf að koma til kasta ríkissjóðs, ef ekki er nægilega mikið í sjóðnum, og hv. fjhn. lítur svo á, að sjóðurinn þurfi að fá þessar greiðslur og að það sé eðlilegt, að þessir menn greiði svo lengi sem þeir eru í starfi og taka sín laun hjá ríkinu.

Þetta þótti mér rétt að láta koma fram í sambandi við þetta atriði.

Um hina aðra brtt., sem er nr. 4, að sú gr. falli niður, hefur hv. frsm. skýrt það atriði. Ég sé ekki ástæðu til þess að bæta miklu þar við, en vil þó leyfa mér að benda á, að meiri hl. hv. fjhn. þykir jafnmikil ástæða til þess, að þessi atvinnurekandi hafi heimild til þess að draga það af launum, sem hann greiðir, þó að hann greiði þau í þessu formi, eins og hver annar atvinnurekandi í landinu. Það er komin sú regla á nú, að bæjarsjóðir og sveitarsjóðir gera sérhverjum atvinnurekanda að skyldu að halda eftir af launum þeirra manna, sem hjá þeim vinna, og það er án þess að það sé nokkuð greitt fyrir það, og hvers vegna ætti þá ekki þessi aðili, sem greiðir í lífeyri oft og tíðum miklu hærri upphæð til viðkomandi aðila en almennir verkamenn fá, að hafa sama rétt eða bera sömu skyldu til þess að halda laununum eftir? Ef um það væri að ræða, að viðkomandi aðilar hefðu engar aðrar fjárgreiðslur, engin önnur verðmæti til þess að greiða sína skatta með en lífeyrissjóðinn, þá yrði það að fara þannig, að síðar, et ekki mætti halda því eftir, yrði að krefja viðkomandi aðila um að greiða af þessu sama fé, og ef hann ekki verður við þeirri kröfu, þá að fá dóm fyrir því, að honum beri að greiða upphæðina. Hv. meiri hl. n. sér ekki ástæðu til þess að skapa slíkt ástand og leggur því til, að frv. sé breytt í það horf, sem lagt er til hér í þskj. 533.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða frekar um þetta mál og mun þar af leiðandi ekki taka aftur til máls um þessi atriði. Og þessi rök gilda einnig um næstu tvö mál á dagskránni, því að þau eru um nákvæmlega sama efni og ég hér hef rætt um.