28.04.1955
Neðri deild: 80. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í B-deild Alþingistíðinda. (675)

139. mál, lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Jón Pálmason:

Herra forseti. Eins og hv. þm. V-Húnv. (SkG), frsm. fjhn., gat um, þá get ég ekki fallizt á 3. brtt. n. á þskj. 666 og er í því efni á sama máli og hv. Ed., sem er á þá leið, að þessar lífeyrisgreiðslur eigi ekki að hafa nein sérréttindi umfram aðrar tekjur eða fé varðandi það, að það sé eins heimilt að innheimta skuldir og gjöld í þeim tekjum og hverjum öðrum. Þessi skoðun byggist á því, að það eru mörg dæmi til þess, að margir, sem eru á eftirlaunum eða hafa lífeyri, hafa hærri tekjur en ýmsir láglaunamenn í landinu, sem hafa engin sérréttindi að þessu leyti.

Ég mun þess vegna greiða atkv. gegn þessari till. hv. fjhn.