22.04.1955
Neðri deild: 76. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 616 í B-deild Alþingistíðinda. (775)

188. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls hér í þessari hv. d. ræddi ég nokkuð frv. það, sem hér er til umr., í sambandi við þrjú önnur stjfrv., sem líka liggja fyrir þessari hv. d. Þá benti ég hæstv. ríkisstj. á leið, sem hún gæti farið til þess að losna við það að gera fólki til sjávar og sveita erfiðara fyrir en nauðsynlegt er að byggja þak yfir höfuð sér og rækta landið, og ekki aðeins fyrir sjálfa sig, heldur miklu fremur fyrir komandi kynslóðir í þessu landi. En þar sem mér þykir nú sýnilegt, að hæstv. ríkisstj. muni hafa þessa vinsamlegu ábendingu að engu og meta það meira að koma til liðs við helztu auðfélög landsins, þá höfum við þm. Þjóðvfl. flutt hér brtt. við þetta frv. um skatteftirgjöf gróðafélaga, sem prentuð er á þskj. 620.

Í þessari brtt. er fylgt fram þessu sjónarmiði, sem ég benti á við 1. umr. málsins, og lagt til, að gróðafélögunum verði ekki gefin eftir 20% af þeim skatti, sem þau vilja sjálf borga í opinbera sjóði til almenningsþarfa, heldur fái þau að borga þennan skatt og honum verði svo varið eða hluta af honum til þess að borga vaxtatöp þau,sem hafa orðið og kunna að verða hjá byggingarsjóði verkamanna, Ræktunarsjóði Íslands og byggingarsjóði á árunum 1954 og 1955.

Það er í sjálfu sér ástæðulaust að fara mörgum orðum um þetta mál. Ég geri fastlega ráð fyrir því, að ef skynsemi manna, sanngirni og réttsýni réði gerðum þeirra, en ekkert annað, þá mundi þessi till. ná fram að ganga. En ef einhverjar aðrar hvatir ráða gerðum manna, þá efast ég mjög um, að tillagan nái fram að ganga, og það enda þótt mælt væri fyrir henni mjög ýtarlega.

Till. er mjög ljós og auðvelt að átta sig á eðli hennar, svo að af þeim sökum þarf ekki að ræða mjög mikið um hana.

Það er öllum hv. þm. kunnugt, að gróðafélög í þessu landi, þ. á m. flestallar verzlanir, öll þau félög, sem hingað til hafa verið í háði nefnd fjölskyldufyrirtæki, þar sem aðalfundurinn væri haldinn í hjónarúminu, — öll þessi félög hafa þá sérstöðu að þurfa ekki að gefa meira upp til skatts en þeim sjálfum sýnist. Þau hafa m.ö.o. sjálfdæmi um það, hve mikið þau vilja borga af tekjum sínum í sjóð landsmanna, ríkissjóð, til almenningsþarfa, og það vita allir, að þessi fyrirtæki hafa engan áhuga á því að borga meira af tekjum sínum en þau með góðu móti geta gert og hafa ekki sýnt það á undanförnum árum.

Allir, sem þekkja íslenzka skattalöggjöf, vita, að hún reisir ekki neinar skorður við því, hve mikið þessi félög draga undan skatti. Hins vegar eru mjög rammbyggilegar skorður fyrir því í íslenzkri skattalöggjöf, hvernig einstaklingar skuli telja fram. Því er raunar þannig fyrir komið, að einstaklingar í þessu landi þurfa alls ekki að telja fram til skatts. Það er gert fyrir þá. Það gera atvinnurekendurnir, sem þeir vinna hjá. Það, sem knýr einstaklinga til að semja skattaskýrslu, er það, að ef þeir ekki gerðu það, þá mundu þeir ekki fá dregin frá tekjum sínum ýmis gjöld, sem heimilt er að draga frá, eins og sjúkrasamlagsgjöld, tryggingagjöld og þess konar, vegna þess að hið opinbera telur sig enga skyldu hafa til að sjá til þess, að þessi lögboðnu frádráttargjöld séu dregin frá, þó að það hafi sett l. um það, að ýmiss konar aðilar skuli telja fram tekjur manna og gæta þess, að það sé rétt gert.

En þegar skattalöggjöfin er svona í pottinn búin, þá er það raunar alveg óskiljanlegt, að nokkrum — mér liggur við að segja: heilvita manni, skuli detta í hug að bera það á borð á þingi þjóðarinnar, að einmitt þeir aðilar, sem sjálfir ákveða sjálfum sér skattinn, skuli fá 20% hans eftir gefin, án þess að þeir hafi beðið um það. En það er einmitt það, sem núverandi stjórnarflokkar hafa framkvæmt í fyrra og hyggjast framkvæma nú.

Út af ræðu hv. þm. V-Húnv. (SkG) hafði ég hugsað mér að segja nokkur orð, en hv. 9. landsk. þm. (KGuðj) tók eiginlega það ómak af mér. Mér virtist á hv. þm. V-Húnv., þegar hann kom hér í ræðustólinn, að hann stæði í þeirri meiningu, að Kópavogsmálið svo nefnda væri enn á dagskrá, því að hann byrjaði á því að þylja hér yfir okkur langan kafla um það, hvernig Danir hefðu unnið að breytingum á sínum skattalögum og hve langan tíma það hefði tekið.

Hann vildi með þessum orðum vefengja það, sem ég og hv. 1. landsk. þm. (GÞG) höfðum mælt við 1. umr. þessa máls, að hæstv. ríkisstj. hefði lofað frv. um skattgreiðslu félaga á þessu þingi. Nú vil ég minna hv. þm. V-Húnv. á það, að þegar hæstv. fjmrh. hóf hér framsöguræðu sína fyrir þessu frv., þá gerði hann það með þessum orðum: Það er nú augljóst, að ekki muni reynast unnt að leggja fram frv. á þessu þingi um skattgreiðslu félaga. — Á þessum ummælum hæstv. fjmrh. getur hver maður séð, að þetta var einmitt það, sem hann hafði búizt við og gert ráð fyrir og ætlazt til að yrði, og þessi ummæli hans voru í fullu samræmi við það, sem hæstv. ríkisstj. boðaði í fyrra, þegar frv. um skattalögin var til umr. hér í þinginu, að þetta frv. skyldi lagt fram hér. Og með því afsakaði hæstv. ríkisstj. einmitt þá 20% eftirgjöf, sem hér er um að ræða, á síðasta þingi. Hún kom með þennan slumpareikning sinn hér vegna þess, að hún sagði, eins og satt var þá, að frv. væri þá ekki tilbúið, en það mundi verða lagt fyrir það þing, sem nú situr. Þetta hefur nú ekki orðið, af hverju sem það stafar, en ég vil ekkert taka aftur af því, sem ég sagði um það atriði við 1. umr. þessa máls.

Þá er aðeins eitt atriði enn úr ræðu hv. þm. V-Húnv., sem ég vildi mega minnast á og mér er farið að leiðast að heyra þá hv. framsóknarþingmenn endurtaka hér sí og æ, en þetta atriði er, að hann hélt því enn fram, að með breytingunum á skattalögunum í fyrra hefði skattur einstaklinga lækkað um 28–29%. Miðað við raunveruleikann er þetta alger og fullkomin blekking.

Þessi tala er frá einu sjónarmiði og aðeins einu sjónarmiði rétt. Hún er reikningslega rétt. Hún er rétt sem reikningsdæmi. Og þessi tala er þannig fundin, að skattstofan reiknaði út ákveðið dæmi, sem hún bjó til sjálf. Hún ákvað einhverjar miðlungstekjur, sem hún gekk út frá, síðan fór hún í gegnum skattalagafrv. og tók alla frádráttarliði, sem þar er gert ráð fyrir. Í fyrsta lagi, að þessi maður með 35 eða 40 þús. árstekjur keypti lífeyri fyrir 7 þús. kr. iðgjald og fengi það dregið frá, að hann keypti einnig lífsábyrgð fyrir 2 þús. kr. iðgjald og fengi það dregið frá, að hann gifti sig á árinu og fengi dreginn frá stofnkostnað vegna hjónabands, að hann hefði aðstöðu til þess að gefa upp, að hann borgaði hærri húsaleigu í leiguíbúð en honum hefði verið reiknað til skatts, ef hann hefði átt íbúðina sjálfur, og fengi þann mismun, sem frv. þá gerir ráð fyrir, líka dreginn frá.

Einhverja fleiri smáliði tók skattstofan inn í þessa útreikninga sína, og eftir þessa útreikninga, allan þennan frádrátt, kom út, að skatturinn hefði lækkað um 28–29%. En það sjá allir, að þetta er reikningsdæmi og annað ekki. Þetta getur aldrei orðið raunverulegt dæmi, vegna þess að fjölskyldumaður með 35–40 þús. kr. tekjur getur ekki hagnýtt sér þessa frádráttarliði, enda eru þeir ekki inn í frv. settir fyrir þess konar menn. Þeir eru settir inn í frv. fyrir mjög ríka menn, — menn, sem geta veitt sér þann munað að kaupa svo háan lífeyri, að hann kosti þá 7 þús. kr. á ári, — menn, sem geta veitt sér þann munað að kaupa sér lífsábyrgð, sem er svo há, að iðgjald af henni verði 2000 kr. á ári, o.s.frv., en það geta ekki fjölskyldumenn með 35–40 þús. kr. tekjur í okkar þjóðfélagi í dag. Þeir geta ekki leyft sér þetta, og þess vegna er þessi fullyrðing þeirra hv. framsóknarþm. um það, að skattar einstaklinga hafi lækkað við skattalögin í fyrra um 28–29%, alger og vísvitandi blekking.

Þær upplýsingar, sem ég hef hér tekið fram um þetta, hef ég frá skattstjóranum í Reykjavík, svo að það fer ekkert á milli mála um það, að þær eru réttar. Og ég endurtek það, að mér er farið að leiðast það að heyra bæði hæstv. fjmrh. og hv. þm. V-Húnv. endurtaka þessa blekkingu æ eftir æ.