14.03.1955
Neðri deild: 59. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 715 í B-deild Alþingistíðinda. (888)

94. mál, iðnskólar

Eggert Þorsteinsson:

Herra forseti. Í upphafi þessarar umr. eða nánar til tekið, er ég hafði lokið mjög hógværlegri framsöguræðu um nokkrar brtt., er við hv. þm. V-Húnv. og hv. 8. landsk. höfum leyft okkur að bera fram á þskj. 415 við frv. þetta, brá svo við, að hæstv. iðnmrh. sá ástæðu til að ráðast með nokkrum þjósti að okkur flm. þessara till., en þó sérstaklega að mér sem fyrsta flm. Ég tel af þessum ástæðum nauðsynlegt að svara þessum ummælum ráðherrans.

Ráðh. taldi í fyrsta lagi, að áðurnefndar brtt. væru soðnar upp úr brtt. hv. 2. þm. Reykv. Ég þóttist hins vegar hafa frá því skýrt í framsöguræðu minni fyrir tillögunum, að um brtt. hv. 2. þm. Reykv. hefði ekki getað orðið samkomulag í hv. iðnn., þar sem þær röskuðu í meginatriðum því frv., sem hér er til umr. Í till. sínum gerir hv. 2. þm. Reykv. m.a. ráð fyrir að iðnskólarnir verði ekki nema tveir, en gerðir mun fullkomnari en verið hefur og eingöngu ríkisskólar. Ég tel slíkar till. vissulega þess verðar, að þeim sé veitt athygli, þótt hins vegar sé vart mögulegt að koma slíkri gerbreytingu fram nú. Till., sem ég legg að vísu mesta áherzlu á af brtt. okkar þremenninganna, að iðnskólarnir verði gerðir að dagskólum, þ.e.a.s., að bóklega námið fari fram að deginum til, en ekki, eins og nú er um hluta iðnskólans hér í Reykjavík, að lokinni 6–8 stunda erfiðisvinnu, er að vísu ein till. hv. 2. þm. Reykv., en ég vona, að hv. meðnm. mínir í iðnn. geti vottað, að á þetta mál hafi ég minnzt áður en þær till. lágu fyrir. Að sjálfsögðu er þetta mál ekki upp fundið af mér eða hv. 2. þm. Reykv. Það á sér langa sögu og var eitt þeirra mála meðal iðnnema hér í bæ, sem hæst bar, þegar ég hóf iðnnám mitt fyrir um 12 árum í árdögum iðnnemasamtakanna.

Hæstv. ráðh. taldi, að brtt. okkar mundu hafa ófyrirsjáanlegan kostnað í för með sér og vafasamt væri því, hvort hæstv. fjmrh. kærði sig um slíkar breytingar á frv.

Með þeirri reynslu, sem þegar er fengin af rekstri iðnskólans í Reykjavík, þar sem 1. og 2. bekkur skólans hafa um nálega 15 ára skeið verið starfræktir í dagskólaformi, þá álít ég, að fljótlegt muni að sjá þann kostnaðarauka, sem af þessari skipulagsbreytingu hlytist. Hins vegar er ég þess fullviss, að einmitt hinar virðingarverðu tilraunir forráðamanna iðnskólans hér í Reykjavík hafa orðið til þess að opna augu margra, er áður voru vantrúaðir á þessa skipulagsbreytingu og fylgja henni nú með tilliti til bættra nytja iðnnemanna sjálfra af hinu bóklega námi. Iðnmeistararnir sjálfir hafa ekki heldur farið dult með þá skoðun sína, að þeim kæmi betur dagskólafyrirkomulagið, þar sem ekki væri þá um að ræða nein frátök iðnnemanna frá hinu verklega námi, meðan þeir stunduðu það, og svo hins vegar, að ekki þyrfti að gera ráð fyrir þeim til vinnu þann tíma, sem þeir stunduðu hið bóklega nám.

Með þessum skýringum tel ég einnig svarað þeim aðdróttunum hæstv. iðnmrh., að tilgangurinn með flutningi þessara brtt. væri m.a. sá að reka fleyg inn í framgang málsins til þess að stöðva það, enda var í áliti n. áskilinn réttur til þess að fylgja brtt., sem fram kynnu að koma, og flytja brtt. Því til sönnunar er mér ljúft að endurtaka fyrri ummæli mín frá umræðunum um þetta mál í hv. iðnn., að ég tel, að frv. sé gott spor í rétta átt, en ég og hv. meðflm. mínir teljum, að bæta mætti frv. að mun með því að samþykkja sérstaklega brtt. okkar á þskj. 415, sem lýtur að dagskólakennslunni.

Í lok ræðu sinnar lýsti hæstv. iðnmrh. undrun sinni á því, að við flm. þessara till. skyldum ekki hafa flutt þessar till. fyrr, þar sem frv. hefði legið svo lengi fyrir n. og dregizt hefði óhæfilega lengi að ljúka afgreiðslu þess. Ég leyfi mér í þessu tilefni að vísa öllum ummælum um seinagang þessa máls til föðurhúsanna, föðurhúsa ráðherrans, því að mér er ekki kunnugt um, að flm. þessara till. eigi þar nokkra sök á.

Með þessum orðum tel ég að fullnægt hafi verið því, sem hæstv. iðnmrh. gaf tilefni til í fyrri hluta umr. um þetta mál.

Til viðbótar því, sem ég tók fram í framsöguræðu minni, tel ég ástæðu til að fara nokkrum orðum frekar um brtt. okkar á þskj. 415. Önnur atriði í brtt. okkar en ákvæðið um dagskólakennsluna skal ég fúslega viðurkenna að mætti deila um, hvort setja ætti í lögin sjálf eða reglugerð, þegar tekið er tillit til þess, að óhægara er um vik að gera breytingar á lögum en reglugerð, en jafnframt ekki vitað, hve mikið reynslan kann að leiða í ljós, að nauðsynlegt verði að fella inn í slíkan kafla um kennslu og kennsluaðferðir. Er eðlilegt, að um þessi atriði verði höfð náin samvinna og samráð við samtök iðnaðarmanna og iðnnema.

Frá því að fyrri hluti þessarar umr. fór fram hér í hv. þd., hafa iðnn. borizt umsagnir Landssambands iðnaðarmanna og skólanefndar iðnskólans hér í Reykjavík um þessar till. okkar til breytinga. Þessir aðilar fallast á veigamestu till., eins og hv. frsm. n. hefur þegar getið um, að iðnskólar og iðnnámsdeildir gagnfræðaskóla verði dagskólar, þar sem húsnæðisskilyrði og kennslukraftar leyfa. Með þessari breyt. er persónulega hvað mig snertir fullnægt því atriði tillagna okkar, sem ég lagði höfuðáherzlu á og verið hefur höfuðbaráttumál iðnnemasamtakanna frá stofnun þeirra.

Ég vil fyrri ummælum mínum til stuðnings lesa þann kaflann úr umsögn skólanefndar og Landssambandsins, sem fjallar um brtt. okkar á þskj. 415, með leyfi hæstv. forseta, þ.e.a.s. þann hlutann, sem hv. 7. þm. Reykv., frsm. nefndarinnar, las ekki áðan, en hann hljóðar svo:

„Kafli um kennsluna var í eldri frumvörpum um iðnskóla, sem legið hafa fyrir Alþingi. Á síðasta iðnþingi var samkomulag um að fella þennan kafla niður og setja ákvæði hans í reglugerð, því að þá er hægara að gera breytingar á þeim, eftir því sem iðnaðurinn þróast og reynslan sýnir að hagkvæmt er og nauðsynlegt að breyta. Í hinum eldri frumvörpum var einnig rætt um verklega kennslu, og vér gerum ráð fyrir, að þróunin fari í þá átt, að verkleg kennsla í iðnaði verði falin skólunum að einhverju leyti, og nú þegar hafa einstakar iðngreinar hafið undirbúning og samninga um verkleg námskeið við iðnskólann í Reykjavík. En vinnustofur kosta mikið fé, og meistarakennsla mun enn um langan tíma eiga mestu fylgi að fagna víða um heim og þá eins hér á landi. Vér teljum því ekki tímabært að lögbjóða verklega kennslu í skólunum og heldur ekki að slást fyrir fjárveitingum til verkstæða, á meðan fé vantar til þess að koma upp húsnæði yfir hina fræðilegu kennslu. Það er heldur ekki tímabært og ekki rétt að fyrirskipa með lögum, að skólarnir skuli halda verkleg námskeið til þess að bæta fyrir vanrækslu meistaranna í verklegri kennslu. Hitt er annað mál, hvað skólarnir gera með frjálsum samningum við meistarana og á þeirra kostnað.“

Eftir að hafa athugað umsögn þessa í hv. iðnn. og athugað rökstuðning þessara aðila, þar sem, eins og augljóst er af framansögðu, gengið hefur verið til móts við veigamestu breytinguna, höfum við tveir flm. fyrrnefndra brtt., ég og hv. þm. V-Húnv., fallizt á að draga fyrrnefndar brtt. okkar til baka og styðja hina nýju brtt. nefndarinnar á þskj. 445 hvað þessu viðkemur. 3. flm. tillagnanna, hv. 8. landsk., átti þess ekki kost að mæta á fundi n. og mun því væntanlega skýra afstöðu sína til málsins hér við þessa umr.

Veigamestu rökin til þess, að við höfum fallizt á að taka að þessu sinni fyrrnefndar brtt. okkar aftur að öðru leyti en hvað viðkemur dagskólakennslunni, er sú staðreynd í fyrsta lagi, að brýna nauðsyn ber til, að samþykkt verði á þessu þingi lög um iðnskóla, vegna fjárhagsörðugleika þeirra fyrst og fremst. Í öðru lagi sú vitneskja, að vinnustofur og aukning verklegrar kennslu í skólunum sjálfum kostar að sjálfsögðu eitthvert fé, en ekki hefur verið séð fyrir nægilegu fé til starfrækslu skólanna með núverandi skipulagi, hvað þá til aukinna útgjalda, sem vinnustofur við skólana mundu að sjálfsögðu útheimta. Í þriðja lagi, að aukið eftirlit iðnfræðsluráðs, sem nú er í undirbúningi og þegar komið að nokkru leyti í framkvæmd, með verklegu kennslunni, að lærimeistararnir uppfylli betur skyldur sínar við iðnnemana, mun bæta þar verulega úr, sem áfátt er í dag.

Í áliti fyrrnefndra aðila er hins vegar staðfest það álit, sem ég lét í ljós í framsöguræðu minni fyrir þeirri breytingu, sem veigamest er, þ.e. dagskólakennslunni. Persónulega er ég þess fullviss, að framþróun þessara mála, iðnfræðslunnar allrar, bæði bóklegu og verklegu, eigi fyrir höndum ýmsar breytingar, t.d. með fullkomnun á hæfniprófum, sem í 2. gr. frv., 3. ,tölulið, eru heimiluð, svo og hvers konar framhaldsnámi, eins og iðnskólinn í Reykjavík hefur þegar hafið byrjunartilraunir með. Vonandi ríkir það víðsýni hér á hv. Alþ. við afgreiðslu næstu fjárlaga, að takast megi að gera heimildarákvæði þessa frv. að veruleika. Þá verður enn eitt sporið stigið í áttina til raunhæfrar undirstöðu og betri menntunar íslenzkra iðnaðarmanna, en það ætti að vera hv. Alþ. til aukinnar sæmdar og alþjóð til varanlegs velfarnaðar. — Ég ítreka því fyrri ummæli mín um það, að ég og hv. þm. V-Húnv. höfum fallizt á að draga aðrar brtt. okkar á fyrrnefndu þskj. en þegar hefur verið gengið til móts við til baka, en 3. flm., sem átti þess ekki kost að mæta á fundinum, mun að sjálfsögðu gera grein fyrir sinni afstöðu til málsins.