29.04.1955
Neðri deild: 81. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 795 í B-deild Alþingistíðinda. (934)

191. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Frsm. meiri hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Frv., sem hér liggur fyrir, er um breyt. á l. um Ræktunarsjóð Íslands. Efni þess er, að vextir af lánum úr sjóðnum skuli hækka úr 21/2% í 4%.

Ræktunarsjóðurinn er 55 ára gamall, stofnaður með l. 2. marz árið 1900. Lögum sjóðsins hefur verið breytt nokkrum sinnum, sem eðlilegt er, til samræmis við breyttar aðstæður. Breytingar voru gerðar á lögunum árin 1905 og 1917. Ný lög um sjóðinn voru sett árið 1925, aftur 1935 og síðast árið 1947.

Ræktunarsjóðurinn hefur gegnt mjög þýðingarmiklu hlutverki í þágu landbúnaðarins. Þær miklu umbætur, sem orðið hafa í sveitunum á síðari árum, hefðu ekki verið framkvæmanlegar án lánsfjár. Jarðræktin hefur aukizt mjög, síðan nýju ræktunarvélarnar komu til sögunnar, og fer vaxandi með ári hverju. Árlega eru þurrkuð stór svæði af mýrlendi og túnin stækkuð. Einnig er mikið byggt af útihúsum í sveitunum á þessum árum, og verkefnin, sem fram undan eru á sviði landbúnaðarins, munu seint þrjóta.

Þeir fjármunir, sem lagðir eru í ræktun landsins, eru örugglega geymdir og munu skila góðum arði á komandi tímum, en mikill gróði er þar ekki gripinn upp í einu vetfangi. Því þurfa lánin, sem veitt eru til þessara framkvæmda, að vera til nokkuð margra ára. Að sjálfsögðu hefur það verulega þýðingu, hvað háa vexti þarf að borga af lánsfénu. Hitt er þó aðalatriðið, að lánin séu fáanleg og til hæfilega langs tíma. Á því veltur það algerlega, hvort ræktun landsins getur haldið áfram með eðlilegum hætti eða ekki.

Vöxtum af lánum úr ræktunarsjóði var síðast breytt í nóvember 1947. Áður voru þeir 41/2% á ári, en hafa síðan verið 21/2%.

Ég vek athygli á því, sem bent er á í athugasemdum með frv. og einnig í nál. meiri hl., að síðan 1947, þegar vextirnir af lánum úr ræktunarsjóði voru ákveðnir 21/2%, hefur orðið mikil hækkun á vöxtum yfirleitt, bæði innláns- og útlánsvöxtum, svo að fé er nú ekki fáanlegt nema gegn miklu hærri vöxtum en þá voru reiknaðir. Árið 1947 voru innlánsvextir í bönkunum ekki nema 2%, en eru nú 5–7%, og síðan hafa útlánsvextir bankanna hækkað um 2%. Af þessu sést, að þó að vextir af lánum úr sjóðum Búnaðarbankans verði nú hækkaðir um 11/2%, verða þeir sízt óhagstæðari fyrir lántakendur í samanburði við vaxtagreiðslur yfirleitt heldur en þeir voru 1947.

Eins og tekið er fram í nál., kemur vaxtahækkunin ekki á ógreiddar eftirstöðvar þeirra lána, sem áður hafa verið veitt, heldur aðeins á þau lán, sem veitt verða, eftir að frv. þetta er orðið að lögum.

Samhliða þessu frv. var lagt fyrir þingið annað frv. um jafnmikla hækkun á vöxtum af lánum úr byggingarsjóði sveitanna, og mun það nú hafa verið afgreitt héðan frá þessari d. til hv. Ed.

Í nál. okkar í meiri hluta fjhn. um það frv., sem hér er til umr., er skýrt frá útreikningum, sem gerðir hafa verið um vaxtahalla sjóðanna, og sést á því, að í ófæru er stefnt, ef vextirnir haldast óbreyttir af lánunum. Í þessum útreikningum kemur fram, að af þeim 38 millj. kr., sem fyrir skömmu voru teknar að láni hjá Alþjóðabankanum og lánaðar út aftur frá ræktunarsjóði og byggingarsjóði, verður tap sjóðanna fast að 10 millj. kr. vegna vaxtamunar, og vextir hafa hækkað síðan þessi lán voru tekin. Eftirspurn lána úr sjóðunum fer stöðugt vaxandi, og til þess að geta fullnægt henni þurfa þeir aukið lánsfé. Ef fé sjóðanna eyðist framvegis í vaxtahalla í líkingu við það, sem hér hefur verið nefnt dæmi um, hlýtur það að verða starfsemi þeirra til hnekkis og leiða til stöðvunar, þegar fram líða stundir, en slíkt má ekki verða.

Þá veldur líka erfiðleikum við rekstur þessara sjóða, að lánin, sem þeir veita, einkum byggingarsjóðurinn, eru til miklu lengri tíma en þau lán, sem sjóðirnir geta fengið. Af þeim sökum er verulegur greiðsluhalli hjá sjóðunum vegna lánanna, meðan þeir eru að endurgreiða þau.

Fjhn. varð ekki alveg sammála um afgreiðslu frv. Minni hlutinn, hv. 1. landsk. þm. (GÞG) og hv. 9. landsk. þm. (KGuðj), mælir gegn frv. í sérstökum nál.

Sú skoðun hefur skotið upp kolli hér í hv. þd., að með samþykkt þessara tveggja frv. varðandi sjóði Búnaðarbankans væri unnið gegn hagsmunum bænda og þeim gert erfiðara fyrir með búreksturinn. Þetta er ekki rétt. Það er þvert á móti hagsmunamál bændastéttarinnar, að gerðar séu þær ráðstafanir, sem óhjákvæmilegar eru til þess, að sjóðirnir geti haldið áfram að taka fé að láni og veita það til landbúnaðarins, svo að framfarirnar í sveitunum þurfi ekki að stöðvast. Þetta er eitt af mestu hagsmunamálum bændastéttarinnar og raunar má segja þjóðarinnar yfirleitt.

Vaxtahalli ræktunarsjóðs verður allmikill, þó að þessi breyting verði gerð, en að sjálfsögðu miklu minni en nú er. Og það er von manna, að sjóðurinn geti að minnsta kosti fyrst um sinn tekið á sig þennan vaxtamun, án þess að starfsemi hans þurfi að dragast saman af þeim sökum.

Ég vil að öðru leyti vísa til nál. meiri hl. á þskj. 623, en eins og þar kemur fram, er það till. meiri hluta fjhn., að frv. þetta verði samþ. eins og það liggur fyrir.

Ein brtt. liggur hér fyrir frá hv. 11. landsk. þm. (LJós). Ég skal geta þess strax, að meiri hluti n. telur ekki hægt á hana að fallast. Ég get gjarnan í því sambandi skýrt frá því, að mér er kunnugt um það, að það hefur verið til athugunar hjá hæstv. ríkisstj., hvort hægt mundi að auka eitthvað fjárframlög þess opinbera til sjóða Búnaðarbankans, en jafnvel þó að fært þætti að gera það, áður en langt líður, þá breytir það ekki því, að við teljum óhjákvæmilegt að hækka vextina eins og nú er lagt til hér á Alþ., því þó að hægt væri að fá hækkun á opinberum framlögum til sjóðanna, þá er full þörf fyrir það fé til útlána, en það getur að sjálfsögðu ekki farið til lánveitinga handa bændum, ef það eyðist jafnóðum í sívaxandi vaxtahalla hjá sjóðunum.