10.03.1955
Neðri deild: 57. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 836 í B-deild Alþingistíðinda. (974)

143. mál, almenningsbókasöfn

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Frv. þetta hefur nú þegar verið afgreitt í hv. Ed. og var samþ. þar með tiltölulega litlum breytingum. Frv., eins og ég lagði það fyrir hv. Alþ., var samið af nefnd fróðra manna um þessi efni, er ég kvaddi til þess starfs á s.l. ári, en það voru þeir Guðmundur Hagalín rithöfundur, sem er gamall bókavörður og gerþekkir þessi mál, séra Helgi Konráðsson prófastur, sem stendur fyrir bókasafni í Skagafirði, sem er talið eitt mesta fyrirmyndar héraðsbókasafn hér á landi, og loksins dr. Þorkell Jóhannesson, sem um skeið var landsbókavörður og þekkir mjög vel til bókavörzlu og bókasafnsmála. Ég hygg því, að til undirbúnings frv. hafi verið vandað eftir föngum, og frá þessum mönnum kom ýtarleg grg. með frv., þar sem bæði var gerð grein fyrir málinu í heild og einstökum greinum, og sé ég ekki ástæðu til þess að rekja það hér, enda hefur það ýtarlega verið gert í hv. Ed.

Ætlunin er að koma starfi almenningsbókasafna um land allt í betra horf en verið hefur og eina samfellda heild og verja til þess nokkuð auknu fé úr ríkissjóði annars vegar og eins að fá til þess meiri framlög úr héruðum en verið hefur. Þ.e.a.s. þau héruð, sem bezt hafa búið að þessum málum, þurfa sum ekkert, önnur lítið að borga til viðbótar, einungis þau, sem verulega hafa verið aftur úr, þurfa að greiða fjárhæðir slíkar, að muni nokkuð um. Það er ekki aðeins aukið fé, sem á að koma til þessarar starfrækslu, heldur einnig betri skipun að öðru leyti og aukið samstarf safnanna sín á milli og leiðbeiningar frá heildarmiðstöð þeirra, sem yrði í Reykjavík í skrifstofu fræðslumálastjóra.

Ég tel ekki ástæðu að fjölyrða meir um málið á þessu stigi, en legg til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn. þessarar d. og það fái hér greiðan framgang.