02.03.1956
Efri deild: 79. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1294 í B-deild Alþingistíðinda. (1266)

105. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Frsm. minni hl. (Finnbogi R. Valdimarsson):

Hv. frsm. meiri hl. hefur nú fengið málið aftur í þessu máli, og vona ég, að það verði framhald á því, svo að það verði hægt að ræða við hann nánar um þetta mál. Hann sagði, að ég hefði farið með gróusögur af götunni um þetta mál. Það er langt frá því. Ég spurði hann um ákveðin atriði, sem ég áleit að væru alls ekki þýðingarlaus og væri fróðlegt að fá upplýst. Hann forðaðist að upplýsa þau. Ég get sagt honum, að ég veit um það, sem ég fór með. Ég veit um stríð grænmetisverzlunar ríkisins við matið, sem á að fara fram á kartöflunum, og ég veit, hvað það er mikils virði fyrir neytendur, að það sé strangt mat á þessum vörum og vel haldið á því, og það er í höndum framleiðsluráðs. Það ber ábyrgð á því. Í þessu frv. er svo gert ráð fyrir því, að þetta verði ekki eins og það hefur verið, heldur verði framleiðsluráðið einnig einkaseljandi þessarar vöru í landinu, og það tel ég óhæft. Ég veit líka um þá leigu, sem grænmetisverzlun ríkisins hefur verið skipað að greiða framleiðsluráði. Ég veit um það. Hv. frsm. vill auðvitað ekki fara út í að upplýsa hv. þdm. um þessa hluti, hve mörg hundruð þúsunda hafa verið greidd fyrir þetta til framleiðsluráðs og hvernig þau mörg hundruð þúsunda eða jafnvel milljónir hafa verið greiddar framleiðsluráði fyrir þessi hálfónýtu blikkhús, sem það hefur tekið á leigu fyrir mörgum árum.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að hann teldi eðlilegt, að ríkið hefði einkasölu. Veit þá hv. frsm. meiri hl. ekki, hvað stendur í þessu frv. og um hvað er deilt? Í þessu frv. er einmitt gert ráð fyrir því, að ríkið hafi ekki einkasölu. Ríkið hefur haft einkasölu um 20 ára skeið, en með þessu frv. er gert ráð fyrir, að hún verði lögð niður, ríkið láti einkasöluna úr sínum höndum í hendur eins stéttarsambands. Ef hv. frsm. er á því, að ríkið eigi að hafa einkasölu á þeim vörum, sem það bannar borgurum sínum innflutningsrétt á, þá ætti hann að vera á móti þessu frumvarpi.

Ég lagði einmitt höfuðáherzlu á það í minni framsöguræðu í gær, að það, sem breytt væri með þessu frv., væri ekki einkasalan sjálf, það væri haldið áfram einkasölurétti til innflutnings á kartöflum og grænmeti, en hún færðist úr höndum ríkisins í hendur lítils hóps manna, og það er það, sem ég tel óhæfu, þess vegna hefði hæstv. dómsmrh. getað alveg sparað sér að fara mörgum orðum um það, að ef menn væru á móti einkasölum yfirleitt, þá hlytu þeir að vera jafnt á móti einkasölu grænmetisverzlunar ríkisins eins og einkasölu framleiðsluráðsins. Á því er mikill munur, vegna þess að framleiðsluráðið er bundið við hagsmuni nokkurs hluta framleiðenda. Það er bundið við hagsmuni, en það er ríkið ekki. Ríkið hefur byggt alla sína löggjöf um þessi mál á því, að sá aðili, sem fer með einkasölu núna, er samkvæmt lögum skyldugur til þess að líta jafnt á hag neytenda sem framleiðenda. Framleiðsluráð landbúnaðarins hlýtur af eðlilegum ástæðum að líta fremur á hag framleiðenda, sinna framleiðenda, það eru því miður ekki allir framleiðendur í landinu, það er minni hluti þeirra.

Ef svo er rætt annars vegar um grænmetisverzlun ríkisins sem einkasölu, einokun eða hvað sem hv. þm. vilja kalla það, þá er það ekki nema sjálfsagt. Grænmetisverzlun ríkisins hefur farið með þennan einkasölurétt í nær 20 ár. Sömu menn hafa veitt þessari einkasölu forstöðu í 13 ár, ef ég man rétt. Hefur þá þessu mikla valdi, sem hæstv. dómsmrh. útbreiddi sig svo mikið nm, verið misbeitt? Það væri eðlilegt, að það væri rætt hér í sölum hv. Alþ., þegar á að leggja þessa stofnun niður, en það fæst ekki. Hér eru ekki bornar fram neinar ásakanir á þá menn, sem hafa farið með þessa einkasölu, þessa einokun, þessa einræðisherra, sem hæstv. dómsmrh. kallar svo. Ekki ein einasta, sem menn vilja standa við. Því hefur verið fleygt fram hér af yfirmanni þessarar einkasölu, að hún hafi brotið lögin um sölu á kartöflum 1943 með því að styrkja ekki ræktun. Þetta hefur verið hrakið og er staðleysa. En ef grænmetisverzlun ríkisins og forstöðumenn hennar hafa brotið af sér í 13 ára starfi, hví hefur þá ekki komið fram, í hverju það er? En þá mætti líka spyrja: Af hverju hefur þá ekki hæstv. landbrh. eða þeir landbrh., sem verið hafa yfirmenn þessarar stofnunar, skorizt í leikinn? Af hverju hafa þeir ekki tekið í taumana? Og þegar hæstv. dómsmrh. segir: Ef ég yrði alveg sannfærður um það, að hlutur neytenda yrði verri, eftir að þetta frv. verður samþ., en hann hefur verið undanfarið — væri þá ekki eðlilegast að ætlast til þess af honum, að hann sýndi fram á, að hann hefði ekki verið góður? Hefur grænmetisverzlun ríkisins í starfi sínu brotið rétt á neytendum? Hefur hún leikið neytendur grátt? Mér þykir það ótrúlegt, af því að það hafa ekki komið fram ásakanir í þá átt, svo að mér sé kunnugt. Svo má auðvitað lengi deila um það, hver hlutur neytenda verður að samþykktu þessu lagafrv. Reynslan ein getur skorið úr því, en það má að vísu færa að því ýmsar líkur, hver hann verður. Einkasölurétturinn er hinn sami, en hann er í höndum framleiðenda, hann er í höndum þeirra manna, sem hafa hag af því, að verð á kartöflum sé sem hæst og að það sé sem minnst flutt inn af kartöflum. Ákvörðunarréttur um hvort tveggja, verðið og innflutninginn, er í höndum þessara sömu manna. Þess vegna eru líkur til þess og engin móðgun við þessa menn, sem líta á hagsmuni sinna umbjóðenda fyrst og fremst, að gera ráð fyrir því, að hagur neytenda verði ekki betri, heldur verri. Svona er mín röksemdafærsla í þessu máli, og ef hæstv. dómsmrh. segir, að þetta séu engin rök, af því að það sé engin reynsla fyrir um það, að hlutur neytenda verði verri með þessari löggjöf, þá hann um það.

Það eru einmitt þau neytendasamtök, sem eru til, sem hafa mótmælt frv. Vegna hvers? Ekki eru þau pólitísk, ekki eru þau að berjast fyrir vinstri samvinnu og vinstri stefnu í landinu, eins og hæstv. dómsmrh. var að væna okkur um að væri nú aðalatriðið fyrir okkur, sem andmælum þessu frv. Neytendasamtökin í Reykjavík hafa mótmælt þessu frv. með rökum, vegna þess að þau telja líklegt, að hlutur neytenda verði verri. Flokksbræður hæstv. ráðh. hér á hv. Alþ. og í bæjarstjórn Reykjavíkur hafa mótmælt þessu frv., vegna þess að þeir óttast, að hlutur neytenda í Reykjavík verði verri.

Ég hafði með tilliti til hv. meðnm. minna í landbn. og þá fyrst og fremst hv. formanns mælzt til þess, hvort hann vildi ekki fallast á eða þeir, að þessari 2. umr. málsins yrði frestað og n. tæki málið til athugunar í því hléi og þar með mínar brtt. Hann gaf engin svör um þetta, lofaði hins vegar að taka brtt. til athugunar fyrir 3. umr. að þessari 2. umr. lokinni. Ef þess er ekki neinn kostur, að þessari umr. verði frestað og n. snúi sér að því að athuga till., mun ég taka till. aftur til 3. umr., sérstaklega eftir yfirlýsingu hæstv. dómsmrh. um það, að hann og þá væntanlega líka hans flokksmenn, flokksbræður, vildu líta á þær gaumgæfilega og athuga, hvort þeir gætu fylgt þeim.

Ég mun svo ekki tefja umr. um þetta mál lengur að þessu sinni. Ég held ekki uppi umr. hér í hv. d. til þess að tefja framgang mála. Ég vil fá tíma til þess að gera grein fyrir minni afstöðu til mála, og það hef ég gert í höfuðatriðum til þessa máls, og verður svo að ráðast, hvað verður um minar till., sem fyrir liggja.