26.03.1956
Neðri deild: 96. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1342 í B-deild Alþingistíðinda. (1327)

162. mál, sala jarðeigna í opinberri eigu

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég tók eftir því í sambandi við þetta mál, að hreppsnefnd annars hreppsins a.m.k. setti það sem skilyrði, að hreppsnefndin a.m.k. vissi af því, ef jörðin væri seld. Nú er það ekki ljóst í grg. þessa máls, hvort það er aðeins átt við þá sölu, sem þarna er verið að heimila, eða hvort þetta á að vera kvöð áfram, og ég verð nú að segja, að mér finnst það almennt séð rétt, að sú kvöð sé lögð á, ef verið er að selja ríkisjarðir, að viðkomandi hreppsnefnd hafi forkaupsrétt, þegar jarðirnar séu seldar aftur. Ef það á endilega að gera, sem ég er nú fyrir mitt leyti búinn að tala á móti, ef það á að vera að selja jarðir, þá ætti þó a.m.k. að tryggja, að þegar þessar jarðir fari að ganga kaupum og sölum, þá hafi þó viðkomandi hreppsnefnd forkaupsrétt til þeirra, ef jörðin er aftur seld. Það má vel vera, að í því sambandi, sem hér er um að ræða, komi þetta ekki eins. mikið að sök, af því að þetta er í allafskekktri byggð, en alls staðar þar sem þéttbýll er mundi þessi regla a.m.k. vera mjög þýðingarmikil.

Ég sé, að það þýðir ekki að reyna að feila þetta frv., og vil þess vegna leyfa mér að hera fram svo hljóðandi brtt., að aftan við 1. gr. bætist:

Sú kvöð skal fylgja þessum jörðum við sölu framvegis, að hreppsnefnd viðkomandi hrepps hafi forkaupsrétt, ef jörðin verður aftur seld.

Ég vil leyfa mér að biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir þessari brtt.