10.12.1955
Neðri deild: 30. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í B-deild Alþingistíðinda. (139)

86. mál, laun starfsmanna ríkisins

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég get ekki látið vera að minnast á fáein atriði enn út af málflutningi sumra hv. þm. Ég vil þá fyrst taka fram út af því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að ríkisstj. samdi ekki við verkfræðingana fyrr en bæði atvinnurekendur og Reykjavíkurbær voru búnir að semja við þá um kauphækkun, og þá var ekki um annað að ræða fyrir ríkið en annaðhvort að vera verkfræðingalaust, með þeim afleiðingum, sem það hafði fyrir allar opinberar framkvæmdir, eða semja eins og hinir höfðu áður gert. Ríkið var búið að vera svo að segja verkfræðingalaust um langan tíma, meira en heilt sumar, með þeim afleiðingum, að ýmsar opinberar framkvæmdir höfðu stöðvazt, áður en samið var. En þegar ríkisstj. sá, að bæði Reykjavíkurbær og atvinnurekendur voru búnir að semja, sýndist ekki vera til neins að halda þessari baráttu áfram. Annars er fróðlegt að taka það fram, einmitt í sambandi við þetta mál um verkfræðingana, að við urðum fyrir þungu ámæli frá ýmsum hv. þm. fyrir það, hve við drógum lengi að semja við verkfræðingana, og sumir af þeim mönnum, sem nú eru hér að tala um, að það eigi ekki og hafi ekki átt að hækka laun opinberra starfsmanna nema þeirra, sem lægst eru launaðir, voru ákafastir í því að ámæla ríkisstj. fyrir að semja ekki tafarlaust við verkfræðingana. Og þar var fremstur í flokki hv. 2. þm. Reykv. (EOl), sem ámælti ríkisstj. þunglega fyrir það hér á hv. Alþ. og lýsti yfir því, að það væri að hans dómi gersamlega ósæmilegt af ríkisstj. að hafa látið undir höfuð leggjast svo lengi að taka undir sanngjarnar kröfur verkfræðinganna um launahækkanir. Þó voru kröfur verkfræðinganna um launahækkanir miklu stórfelldari en nokkrar aðrar hækkanir, sem hefur komið til mála að lögfesta, og laun þeirra miklu hærri en laun nokkurra þeirra manna, sem á launalög eru settir. Þannig er samræmið hjá hv. 2. þm. Reykv. — eða hitt þó heldur. Þessi ummæli hans, sem hann hafði um þetta mál, voru lesin fyrir honum hér ekki fyrir löngu á hv. Alþ., og ég hirði því ekki um að lesa þau hér enn, líka fyrir þá sök, að ég gleymdi í sæti mínu ummælunum. En ef hv. þm. vill vefengja þetta, þá mun ég sjá um, að þau verði lesin upp enn þá einu sinni til þess að sýna heilindin.

Hv. 2. þm. Reykv. þorði nú ekki að standa við það, sem hann sagði í vor um launamál opinberra starfsmanna, þegar verkfallið var. Þá sagði hann að efni til hreint og klárt, að það væri árás á verkalýðssamtökin að halda því fram, að það yrði að hækka laun opinberra starfsmanna í hlutfalli við þá hækkun, sem yrði á almennum launum, það væri árás að halda þessu fram og lítil vinsemd í garð verkalýðsins að halda því fram, að það væri sjálfsagður hlutur að hækka laun opinberra starfsmanna, sem þyrftu ekki að hafa fyrir neinu í sambandi við verkfallið, þó að verkalýður og félagsbundnir menn fengju framgengt nokkrum hækkunarkröfum. Þetta sagði hann þá. En núna segir hann auðvitað allt annað, eins og ég sagði fyrir í vor.

Hv. 11. landsk. þm. (LJós) var að reyna að klóra eitthvað í þetta líka með því að segja, að þetta ætti við lægst launuðu starfsmennina, það væri sanngjarnt, að þeir fengju einhverjar hækkanir, vegna þess að lágt launaðir starfsmenn hefðu fengið hækkanir í vor í verkfallinu. Veit ekki hv. þm., að opinberir starfsmenn eru sízt betur launaðir en margir af þeim, er fengu hækkanir fram knúnar í vor, t. d. iðnaðarmennirnir? Því fer alls fjarri, að opinberir starfsmenn yfirleitt og það jafnvel upp í hæstu launaflokka séu betur launaðir en iðnaðarmennirnir, sem knúin var fram kauphækkun fyrir. Þvert á móti er hinu gagnstæða til að dreifa. Þess vegna fellur þetta tal um það, að þá hafi verið teknir út úr þeir lægst launuðu, og því sé óþarfi að hreyfa laun annarra en þeirra lægst launuðu, dautt niður. Það var nefnilega alls ekki viðhöfð sú aðferð að taka þá lægst launuðu og reyna að bæta þeirra kjör, og þess vegna fór sem fór m. a., að úr verður engin bót.

Minni ég svo aftur á viðhorf hv. 2. þm. Reykv. til verkfræðingadeilunnar. Það þarf ekki frekar vitnanna við en að vísa til þess viðhorfs hans til þess að sýna heilindin og hvað meint er með þessu tali um há og lág laun. Mér blöskrar málflutningurinn um þetta frv. Hvað felst í frv.? Sumir tala um, að í því felist 30–40% kauphækkanir fyrir suma opinbera starfsmenn. Þetta er auðvitað alveg rangt. Eins og málið stendur í dag, hafa allir opinberir starfsmenn laun samkv. gömlu launalögunum og 20% uppbót, sem samþykkt hefur verið hér á hv. Alþ., og fulla vísitöluuppbót, sem einnig hefur verið samþykkt hér á hv. Alþ. Ég hef ekki orðið var við, að kommúnistar hafi barizt hér á hv. Alþ. gegn því, að grunnlaunauppbótin væri gerð jöfn, og ég hef ekki heldur orðið var við það hér á hv. Alþ., að þeir hafi barizt á móti því, að vísitöluskerðingin væri afnumin. Og núna fyrir nokkrum dögum var afgr. frv. um afnám vísitöluskerðingarinnar, án þess að kommúnistar væru á móti. Þeir hafa þess vegna átt þátt í því að samþ. þær launahækkanir, sem þeir hér þykjast vera að berjast á móti, með því að jafna grunnlaunauppbótina og með því að afnema vísitöluskerðinguna. Í þessu frv. felst ekkert annað en staðfesting á því ástandi, sem nú er að þessu leyti.

Ég mun sýna fram á það við 3. umr., hvað raunverulega felst í þessu frv., með því að bera saman hækkanirnar á laununum frá gildandi launalögum. Það er sá samanburður, sem einn gefur rétta mynd af því, hver hlutur opinberum starfsmönnum var ætlaður í launalögunum frá 1945 og hver hlutur þeim er ætlaður eftir þessu frumvarpi.

En það, sem þessir menn berjast fyrir, að svo miklu leyti sem hægt er að taka alvarlega þetta skraf þeirra, er ekkert annað en að halda launum opinberra starfsmanna niðri, hafa þau tiltölulega lægri, miðað við annað kaupgjald í landinu, en þau voru sett með launalögunum 1945. Það er þetta, sem þessir hv. þm. meina, ef þeir annars meina nokkuð með því, sem þeir segja. Það er þó raunar erfitt að hugsa sér, að þeir meini nokkuð með skrafi sínu, þegar þess er gætt, að þeir hafa átt þátt í því að jafna grunnlaunauppbótina, þeir hafa átt þátt í því að afnema vísitöluskerðinguna, en þykjast nú vera á móti þessu hvoru tveggja. Það er ekki í þessu frv., sem þær breytingar felast, sem þeir hafa verið að lýsa. Það er í öðrum alþingissamþykktum, sem áður hafa verið gerðar, jöfnun grunnlaunauppbótarinnar og afnámi vísitöluskerðingarinnar. Ég mun rannsaka nánar en hægt er nú, hver afstaða þeirra var í einstökum atriðum í þessum málum. En ég veit nú þegar svo mikið, að þeir höfðu engin mótmæli í frammi við afnám vísitöluskerðingarinnar núna fyrir nokkrum dögum, beittu sér því ekki á móti henni og munu hafa samþykkt hana.

Þá verður fróðlegt að sjá við framhaldsumr. launalaganna, hvaða opinberir starfsmenn það eru, sem þeir vilja lækka í launum frá því, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., og þar með lækka hlutfallslega í launum, miðað við launakjör almennt í landinu, frá því, sem þeim var ætlað að hafa 1945, þegar launalögin voru sett. Ég hef áhuga á að sjá, hvaða starfsmannahópar það eru, sem þeir vilja leggja til við 3. umr. að verði lækkaðir. Og það er rétt, að þetta komi greinilega fram, svo að þetta verði ekki bara skraf. Ég býst við, að þessum stóru orðum fylgi einhverjar till., einhverjar uppástungur, sem hægt er að festa hönd á.

Ég skal svo ekki lengja þessar umr. Ég vildi aðeins benda mönnum enn þá á, um hvað þetta frv. raunverulega er; hef ekki kunnað við að sitja alveg þegjandi undir því, að efni frv. væri svo rangfært sem þessir hv. alþm. hafa gert.