15.12.1955
Neðri deild: 35. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í B-deild Alþingistíðinda. (161)

86. mál, laun starfsmanna ríkisins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls lýsti ég hér yfir, að ég væri mótfallinn þeim miklu launahækkunum, sem gert er ráð fyrir að veita ýmsum hæst launuðu embættismönnum landsins með þessu frv., og þeim öðrum launabreytingum, sem samþ. hafa verið hér nú nýlega. Eins og ég gat þá um og ekki hefur verið mótmælt hér, er það svo, að launahækkun til ýmissa þeirra, sem eru hæstir í launum af ríkisstarfsmönnum, nemur 35–40%, ef athuguð er sú launahækkun, sem orðið hefur á þessu ári, sem sagt ef laun þessara manna eru tekin eins og þau voru í ársbyrjun og eins og þau mundu nú verða í árslok eða í byrjun næsta árs, þegar öll þessi nýju ákvæði hafa verið samþykkt. Hér er vitanlega um miklu stórkostlegri launahækkun að ræða en þekkzt hefur í sambandi við aðrar launabreytingar í landinu á undanförnum árum.

Hæstv. ríkisstj. þótti ærið nóg um á s. l. vori, þegar verkamenn fengu um 11% launahækkun, eða launahækkun, sem mun nema 3–4 þús. kr. á mann á ári, en nú er gert ráð fyrir því að veita ýmsum hæst launuðu embættismönnum landsins launahækkun, sem er yfir 30 þús. kr. á ári. Þessi launahækkun hefur farið fram, eins og öllum er kunnugt, með því í fyrsta lagi að veita hinum hæst launuðu mesta grunnlaunauppbót, sem hér var samþykkt með sérstöku frv., síðan fá þeir mjög verulega launahækkun með því, að vísitöluskerðing, sem einkum kom við kaup þeirra, hefur verið felld niður, og nú er síðan gert ráð fyrir því, að þeir hækki enn jafnmikið hlutfallslega og hinir lægst launuðu samkv. þessu frv. og sumir hverjir einnig færðir á milli flokka til hækkunar og samtals verði því hækkunin svona mikil.

Nú vildi ég, þó að hv. fjhn. hafi ekki tekið undir skoðanir mínar í neinu, þó freista þess að bera hér fram smábrtt. um það, að við afgreiðslu þessa frv. hækki laun í hæstu launaflokkunum ekki neitt frá því, sem áður var. Eftir sem áður er vitanlega um mikla launahækkun á árinu hjá hinum hæst launuðu að ræða, hún verður bara nokkru minni. Ég vildi því leyfa mér að flytja hér till. um það, að laun í þrem efstu launaflokkunum, I., II. og III., yrðu jafnhá og þau voru í gömlu launalögunum, en að laun í IV. flokki verði lítils háttar lægri en frv. hér gerir ráð fyrir, en hins vegar nokkru hærri en þau voru í gömlu lögunum. Ég hefði gjarnan viljað hafa þessa till. allmiklu stærri og víðtækari, en þar sem undirtektir hafa ekki orðið meiri en raun er á, þá sé ég ekki ástæðu til þess að vinna þetta mikið lengur út, en þætti hins vegar mjög fróðlegt að fá að sjá það, hversu margir hv. alþm. geta fallizt á þessa skoðun mína eða hvort það er vilji svo að segja alls þingheims að haga launabreytingum á þá lund, sem gert er hér ráð fyrir með þessum launabreytingum öllum, sem nú er verið að staðfesta hér á Alþingi.

Mín till. kemur of seint fram og er því flutt skrifleg, og vildi ég biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir till., en ég sé ekki ástæðu til að ræða málið hér frekar að sinni.