15.03.1956
Neðri deild: 87. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í C-deild Alþingistíðinda. (1646)

186. mál, kirkjuþing og kirkjuráð

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Það verða aðeins örfá orð, sem ég læt fylgja þessu frv. á þskj. 475, sem er frv. til laga um kirkjuþing og kirkjuráð íslenzku þjóðkirkjunnar. Ég skal taka fram, að það hefur orðið samkomulag um það innan ríkisstj. að leggja þetta frv. fram sem stjórnarfrv. Það eru til þess að gera mjög glöggar athugasemdir við frv., svo að hv. þm. geta þar kynnt sér, hvað þar er. Ég tel þó rétt að taka aðeins fram einstök atriði varðandi málið.

Það er ekki að ófyrirsynju, að þeir tímar, sem við lifum á, séu kallaðir öld hinna frjálsu félagssamtaka, og það, sem einna mest hefur borið á, eru hin mörgu þing, sem stofnuð hafa verið varðandi ýmsar stéttir þjóðfélagsins, bæði að því er snertir atvinnumál og hins vegar um starfsmannahópa, sem hafa skipað sér saman um það, o.fl. Elzt af þessum þingum sérstakra stétta mun búnaðarþingið vera, sem stofnað var 1899, en í kjölfar þess hafa komið svo mörg þing, að ég kann ekki tölu á þeim.

Kirkjan hefur farið mjög hóflega að í þessu efni, og þó er langt síðan farið var fyrst að hreyfa því máli, að kirkjan fengi eigið ráðgefandi þing varðandi löggjafarmálefni og annað slíkt, og er eitthvað fyllilega hálfrar aldar gamalt fyrsta frv., sem borið var fram hér á Alþingi varðandi stofnun kirkjuþings. En það varð ekkert af því, og á tímabili var svo látið nægja með lögum að ákveða kirkjuráð, sem er fimm manna ráð, stofnað samkvæmt sérstökum lögum, sem biskup hefur verið forseti fyrir og hefur verið ráðgefandi f.h. kirkjunnar um löggjafarmál varðandi kirkjustjórn og haft nokkurt vald einnig varðandi ýmis innri mál kirkjunnar, snertandi skipulagshætti þá, en vitanlega ekki neitt löggjafarvald. En á síðustu árum hefur mjög verið ýtt á það af hálfu herra biskupsins og fleiri áhugamanna innan kirkjunnar, að kirkjan fengi sitt þing, sitt ráðgefandi þing, og það frv., sem hér er borið fram af ríkisstj., er einmitt um þetta atriði. Biskupinn hefur verið mjög athafnasamur, bæði um að semja þetta frv. og sömuleiðis um að hvetja til þess, að málið kæmi hér fram á Alþingi nú, og hefur það orðið, eins og ég tók fram, að samkomulagi innan ríkisstj., að hún fyrir sitt leyti er þessu sammála og telur þetta rétt og eðlilegt, eins og nú er orðið skipað þessum málum.

Ég skal taka það fram, sem að vísu er óþarfi, af því að það kemur glöggt fram í frv. og þeim athugasemdum, sem fylgja, að lög þau, er nú gilda um kirkjuráð, eru algerlega tekin inn í þetta frv. og kirkjuráð því þar með sett undir yfirstjórn kirkjuþingsins og í raun og veru bara nokkurs konar framkvæmdastjórn, sem kirkjuþingið kýs varðandi þau málefni, sem því eru falin. Í raun og veru er hér um mjög litlar breytingar að ræða, því að efnislega má segja, að lögin um kirkjuráð séu svo að segja tekin óbreytt inn í þetta frv. um kirkjuþingið, þó að nokkrar smærri breytingar séu þar á.

Ég geri ráð fyrir, að ýmsir spyrji, hvað þetta muni kosta, og ég hef orðið var við það, að sumir voru hræddir um, að hér væri verið að setja upp mikið bákn, sem gæti orðið dýrt. En frv. er mjög hóflega orðað, og samkvæmt þeim athugunum, sem hafa verið gerðar í kirkjumrn., um það, hvað þetta mundi kosta ríkissjóð, eru það um 50 þús. kr. á ári með því peningagengi, sem nú er, og er þá gert ráð fyrir, að þingið komi saman annaðhvort ár, eins og ákveðið er í 1. gr. frv., og það hafi ekki lengri setu en mánuð hvert skipti, eins og þar er líka gert ráð fyrir, þannig að heildarkostnaður við þingið annaðhvort ár verður þá um 100 þús. kr. eða um 50 þús. kr. á ári. Þetta taldi ég rétt að nefna hér, því að ég held, að það sé ekki tekið inn í sjálfar athugasemdirnar við frv.

Það eru hér fyrirmæli um, hvernig kosningum skuli hagað. Það er ekki ætlazt til, að hér sé um að ræða almennan kosningarrétt allra þeirra, er í þjóðkirkjunni eru, varðandi þetta mál, heldur að það séu prestar og sóknarnefndir, sem kjósi, og að í hverju þeirra 7 kjördæma, sem landinu er skipt í samkv. 2. gr. frv., verði kosnir einn prestur eða andlegrar stéttar maður og einn leikmaður, og er svo ætlazt til, að á kirkjuþingi eigi sæti þar að auki biskup og kirkjumrh.

Ég geri ráð fyrir, að hið háa Alþingi muni vera nokkurn veginn sammála um það, að rétt sé að verða við óskum kirkjunnar um þessa breytingu á starfsháttum sínum, sem hér er ráð fyrir gert. Það kostar ekki mikið fé, og þar sem er verulega mikill áhugi hjá kirkjunnar mönnum um að fá þessa skipan á, þá virðist mér, að á allan hátt sé rétt og eðlilegt að verða við þeim óskum. Kostnaðurinn er það lítill, að það getur alls ekki réttlætt það, að Alþingi sjái eftir því að verja þessu fé í þessu skyni, og yfirleitt held ég, að frv. sé samið þannig, að það séu ekki miklar líkur til, að það þurfi að gera miklar breytingar á því hér. Þó getur vel verið, að þær nefndir. sem fá málið til meðferðar, kunni að finna eitthvað, sem betur megi fara, og er sjáifsagt, að það sé athugað. Veit ég, að þeir, sem um þetta mál hafa fjallað, bæði á biskupsskrifstofunni og í kirkjumrn., eru fúsir þá til að athuga það með nefndunum og að sjálfsögðu viljugir til að gera þær breytingar, sem kynnu að benda á einhvern hátt á betri leið en hér er sagt fyrir um.

Ég sé ekki ástæðu til á þessu stigi málsins að fara fleiri orðum um þetta frv., en vil leyfa mér að leggja til, að því verði að lokinni umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.