06.01.1956
Neðri deild: 39. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í C-deild Alþingistíðinda. (1672)

85. mál, mannanöfn

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Frv. þetta er undirbúið af þar til kvöddum mönnum, er ég fékk til að taka það starf að sér á s.l. sumri, eins og nánar segir frá í grg. Það hefur síðan verið samþ. í hv. Ed. með sáralitlum breytingum, en nokkuð voru þar skoðanir manna skiptar um meginefni frv., eins og við mátti búast. Út af fyrir sig skil ég það sjálfur, að mönnum sé mörgum lítið um gefið þá löghelgan á ættarnöfnum, að vísu í mjög takmörkuðum mæli, sem á að veita með þessu frv., en ég hef þó orðið sammála frv., vegna þess að ég tel það vera raunhæft, þannig að hægt sé að framfylgja reglunum, sem settar eru, en gallinn er sá á núverandi banni gegn ættarnöfnum, að því hefur aldrei verið framfylgt og að árlega bætast fleiri og fleiri við með ólögleg ættarnöfn. Ég tel heppilegra að vísa þessu í takmarkaðan þröngan farveg en að setja þá stíflu, sem sýnt er, að flætt er yfir og ekki verður að gagni.

Mér er ljóst, að þetta er nokkurt áhorfsmál, hvað gera eigi, en vonast til, að hv. deild íhugi málið, og ef hún getur ekki fallizt á þá till. að veita mjög takmarkaða heimild til ættarnafna eins og frv. gerir, bendi hún þá á, hverjar raunhæfar aðgerðir sé hægt að hafa í frammi til þess að framfylgja núverandi lagaboðum, eða geri till. um önnur framkvæmanlegri. Mér finnst það vera höfuðefnið eða atriðið í þessu að fá settar reglur, sem eru framkvæmanlegar, og tel það höfuðkost þess frv., sem hér liggur fyrir.

Ég leyfi mér svo að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. menntamálanefndar.