06.01.1956
Neðri deild: 39. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í C-deild Alþingistíðinda. (1677)

85. mál, mannanöfn

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Mér fannst sá dólgslegi tónn, sem öðru hverju brá fyrir í ræðu hæstv. dómsmrh., bera vott um það, að hann geri sér sjálfur ljóst, að málstaður hans er vægast sagt mjög veikur, að það frv., sem hann hefur borið fram, er meingallað og honum til einskis sóma. Hann sagði, að hann teldi ættarnöfn ósið. Það er mjög sjaldgæft, að menn kalli eigin tillögur ósiðlegar, en það gerði hæstv. ráðherra. Hann ber fram tillögur um að löghelga ættarnöfn, sem hann sjálfur kallar ósiðleg. Sem betur fer gerist slíkt sjaldan, en hefur þó gerzt hér.

Hæstv. ráðh. misminnti algerlega um það, sem gerzt hefur í málinu undanfarin ár, þegar hann rakti sögu málsins. Mannanafnalögin hafa einmitt verið rædd rækilega þrjú undanfarin þing í sambandi við reglur um nafngiftir erlendra ríkisborgara. Þegar fyrst komu fram tillögur um að skylda erlenda ríkisborgara til þess að skipta algerlega um nafn og ég flutti till., sem gengu í aðra átt, voru einmitt nafnalögin rædd mjög ýtarlega, sérstaklega milli hv. þáverandi menntmrh., Björns Ólafssonar, og mín. Ég sagði þá, að ég mundi flytja brtt. við nafnalögin og hefði í hyggju að gera það. Hæstv. menntmrh. sagðist sjálfur hafa þetta mál í athugun í sínu ráðuneyti og hefði í hyggju að gera um þetta mál tillögur. Það var ástæðan til þess, að ég hvorki á því þingi né síðar hef flutt brtt. við sjálft nafnalagafrv. Síðan hefur hæstv. dómsmrh. einum tvisvar sinnum endurtekið þessar yfirlýsingar, þegar þetta mál hefur borið á góma. Þó sé ég, að hann hefur ekki skipað nefnd í málið fyrr en 1. marz 1955, á s.l. ári. En það man ég glöggt, að síðast þegar málið var til umr. hér á hinu háa Alþ., vék einmitt hæstv. dómsmrh. að fyrirhugaðri nefndarskipun eða sagði, að málið væri í athugun í sínu tn., og það er alls ekki eðlilegt, að þingmenn beri fram tillögur í máli, meðan fyrir liggja yfirlýsingar ráðh. um, að málin séu til athugunar í þeirra rn., sérstaklega þegar um mál er að ræða eins og þetta.

Hæstv. ráðh. sagði, um leið og hann viðurkenndi, að hér væri vandamál á ferð, og í framhaldi af þeirri yfirlýsingu sinni, að ættarnöfn væru ósiður, að í þessu máli yrði að ganga hreint til verks: annaðhvort yrði að banna öll ættarnöfn frá ákveðnum degi, t.d. byrjun næsta árs, eða taka upp þann sið, sem hann mælir með í þessu frv. Ég skal lýsa því yfir, svo að á því leiki ekki nokkur vafi, hver afstaða mín sé, að ég mundi vera því eindregið fylgjandi, ef nokkur von væri til, að Alþingi fengist til þess, að samþykkja ákvæði um, að öll ættarnöfn skyldu úr gildi numin t.d. frá byrjun næsta árs. Til að undirstrika þetta skal ég taka fram, að ég mun annaðhvort einn eða ásamt einhverjum öðrum þm. flytja brtt. um þetta einmitt við þetta frv.

Sem varatillögu mætti flytja þá hugmynd, sem ég hef lýst sem þeirri lausn, er ég teldi skynsamlegasta: að leysa þetta viðkvæma mál þannig, að ættarnöfnum yrði útrýmt, en þó án þess að sú skylda væri lögð á nokkurn fulltíða mann að skipta um nafn. Þó að ég sjálfur persónulega teldi þá lausn vera skynsamlegri og hógværari, tel ég hitt atriðið svo miklu nauðsynlegra, að tryggja, að ættarnöfnum verði útrýmt úr tungunni, að ég mundi hiklaust fylgja því, þótt það kostaði það, að allmargir menn yrðu að breyta um nöfn þegar í stað. Á þessu vildi ég engan vafa láta vera. Mér þykir vænt um, að hæstv. ráðh. skuli hafa lýst yfir fylgi sínu við þá till., sem áreiðanlega verður hér til umræðu og atkv., að t.d. frá næstu áramótum skuli öll ættarnöfn vera óheimil á Íslandi. Mér þykir mjög vænt um fylgi hans við þá tillögu, og slíkur áhrifamaður sem hann er í sínum flokki, vildi ég mega vænta þess, að till. yrði fjarri því að vera fylgislaus í flokki hans.