07.02.1956
Neðri deild: 64. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í C-deild Alþingistíðinda. (1730)

116. mál, Iðnaðarmálastofnun Íslands

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að ræða efnislegar hliðar þessa máls, til þess hef ég ekki kynnt mér það nógu rækilega í einstökum atriðum, en það var aðeins eitt atriði, sem gaf mér tilefni til þess að standa hér á fætur, og það var í sambandi við umsögn þá, sem vitnað hefur verið hér til og nú síðast af hv. 2. þm. Reykv. (EOl), frá atvinnumálanefnd ríkisins.

Ég hafði ekki ætlað mér, fyrr en það mál hefði verið nánar rætt í þeirri n., að gera það bréf sérstaklega að umtalsefni, en þar sem ítrekað hefur verið til þess vitnað og á því byggð till. um að vísa málinu frá, get ég þó ekki látið hjá líða að taka það fram, að í þessu bréfi mun kannske vera nokkuð mikið lagt í þá skoðun, sem kom fram í nefndinni.

Um það var fyrst og fremst rætt í atvinnumálanefndinni um þetta mál, og um það voru allir á einu máli, að það væru viss atriði í starfi þessarar stofnunar, eins og það væri fram sett í frv., sem benti til þess, að hætta væri á, að stofnunin færi inn á verksvið annarra rannsóknarstofnana, sem fyrir eru í landinu, og m.a. hefur verið bent á eitt atriði út af þessu af hv. þm. Borgf. (PO), varðandi fiskiðnaðinn. Það hefur að undanförnu verið kannað í atvinnumálanefnd, hversu háttað væri starfi rannsóknarstofnana ríkisins, og því miður er þá sögu af því að segja, að það er sannarlega ekki vanþörf á að endurskipuleggja það með einhverju móti, því að það er í sannleika sagt í hálfgerðu, ef ekki algeru öngþveiti, að því leyti til, að stofnanir hafa verið settar þar upp án hliðsjónar af verkefnum annarra stofnana, og jafnvel svo langt gengið, að lög hafa verið sett á sama þingi, þar sem um hefur verið að ræða, að tveimur stofnunum hefur verið fengið sama verkefni.

Þetta hlýtur að verða að endurskoða og breyta. Og það var með hliðsjón af þessum atvikum, sem mál þetta var rætt í atvmn., en ég tók það þar fram að mínu leyti, þegar um þetta var rætt, og var sammála mínum meðnm. varðandi þetta atriði, en benti hins vegar á, að það gæti verið nokkrum vandkvæðum bundið að setja alls ekki löggjöf um þessa stofnun, þar sem hún væri þegar komin á laggirnar hvort sem væri og farin að starfa. Það, sem væri höfuðatriðið, væri að tryggja það, að meðan ekki væri endanlega gengið frá lagasetningu um rannsóknarstofnanir ríkisins, sem atvmn. hefur í hyggju að koma á framfæri, færi þessi stofnun ekki inn á verksvið þeirra stofnana, sem fyrir væru.

Þetta var minn skilningur á afstöðu n. til málsins, en ekki það, að það ætti að leggja megináherzlu á, að málinu í heild ætti að fresta af þessum sökum, ef hægt væri að finna á þessu einhvern skynsamlegan fyrirvara eða það nægilega áskilið og þess nægilega gætt af þeim aðilum, sem fara með mál þessara stofnana, að þennan tíma, þangað til lagasetning um þetta væri fengin, væri ekki hætta á því, að stofnunin færi inn á verksvið þeirra stofnana, sem fyrir eru, hvorki iðnaðardeildar háskólans, Fiskifélagsins né annarra slíkra aðila. En það gefur auðvitað auga leið, að það getur verið nokkuð erfitt um lengri tíma að hafa stofnun sem þessa löggjafarlausa, engin ákvæði um það, hvernig henni eigi að vera stjórnað, og ég hygg, að jafnvel þó að verði komið á einhverri heildarlöggjöf um rannsóknarstofnanir ríkisins, þá verði erfitt að koma því svo fyrir, úr því að landbúnaður og sjávarútvegur hafa sínar tæknistofnanir, að þá verði ekki einnig í sambandi við iðnaðinn, sem er mjög vaxandi atvinnuvegur, einhvers konar tæknistofnun, í hvaða formi sem hún yrði. Það auðvitað skiptir mestu máli að ganga þannig frá öllum þessum stofnunum, að þær séu ekki að sinna hver annarrar verkefnum og að það nýtist sem bezt hæfileikar og starfsgeta þeirra krafta, sem þar er um að ræða.

Þetta vildi ég aðeins láta koma fram hér á þessum fundi, að að þessu leyti er kannske nokkuð sterkt til orða tekið í því bréfi, sem sent hefur verið frá atvmn., að það hafi verið einróma skoðun hennar, að það ætti að fresta málinu í heild.

Ég hafði ekki ætlað mér að ræða um þetta, fyrr en ég væri búinn að koma athugasemd minni á framfæri í n. varðandi bókun um þetta atriði, en þar sem þetta, eins og ég áðan sagði, hefur verið fært fram sem beinlínis ástæða fyrir till. um að fresta málinu í heild, taldi ég rétt að láta koma fram þessa skoðun mína. Og ég skal taka það strax fram, að ég tala hér aðeins fyrir mig sjálfan og hef ekkert umboð til þess að skýra þar sjónarmið annarra nm. í atvmn. Það kann vel að vera, að þeir hafi öðruvísi á þetta mál litið, og kemur það fram á sínum tíma.