26.03.1956
Neðri deild: 95. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í C-deild Alþingistíðinda. (1753)

191. mál, jafnvægi í byggð landsins

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 564, er komið frá Ed. Ég leyfði mér þar að flytja fyrir því stutta framsöguræðu, sem hefur nú verið prentuð í víðlesnasta blaði landsins. Ég leyfi mér að vísa til þess, sem ég þar sagði. Það var raunar ekki mikið annað eða meira en felst í greinum frv. og grg., sem frv. fylgdi. Ég tel, að ég stofni til óþarfa málalenginga með að endurtaka það hér, veit hins vegar, að komi fram gagnrýni á frv., mun hv. annar aðalhöfundur frv., hv. þm. N-Þ. (GíslG), gera nánari grein fyrir málinu, sem hann raunar kannske hvort eð er mun gera, frá sjónarmiði þeirra manna, sem að frv. hafa unnið og eru höfundar þess.

Ég endurtek svo það, sem ég sagði, að ég tel, að þetta sé merkismál, sem með tímanum geti orðið undirstaða að miklum og gagnlegum framkvæmdum í landinu, og leyfi mér að vona, að það muni fá greiðan gang gegnum þingið og að því að lokinni þessari umr. verði vísað til hv. fjhn.