18.10.1955
Neðri deild: 6. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í C-deild Alþingistíðinda. (1788)

20. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdómur

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í þessu frv. er lagt til að setja á stofn verðlagsnefnd, sem skylt sé að setja verðlagsákvæði á vörur og þjónustu, sem máli skiptir fyrir verðlag i landinu. Í þessari verðlagsnefnd eiga samkvæmt frv. að eiga sæti fimm menn, forstöðumenn innflutningsskrifstofunnar, sem nú fara með verðlagsvald á því sviði, sem verðlagsákvæði nú gilda, enn fremur tveir fulltrúar frá neytendasamtökunum, þ.e. Alþýðusambandi Íslands og Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, og síðan hagstofustjóri.

Þessi samsetning nefndarinnar er þannig hugsuð, að um þetta skuli áfram fjalla þeir menn, sem við þetta hafa fengizt um langan aldur og telja má að hafi sérþekkingu á því sviði, sem hér er um að ræða, einkum sökum reynslu sinnar, þar sem eru núverandi forstöðumenn innflutningsskrifstofunnar, auk þess sem þeir eru í nánum tengslum, annar við samtök kaupmanna og hinn við samtök samvinnufélaganna í landinu. Hins vegar er sjálfsagt, að fulltrúar neytenda, sem eiga mikið undir því, að verðlag sé réttlátlega og skynsamlega ákveðið, hafi einnig sitt orð að segja í verðlagsnefndinni, og það á að vera hlutur fulltrúa Alþýðusambandsins og fulltrúa Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Hvorugur aðilinn á þó að hafa úrslitavald um verðlagsákvarðanir, og er því gert ráð fyrir því, að hagstofustjóri sem hlutlaus oddamaður taki sæti í verðlagsnefndinni, og er hér um að ræða hliðstæða skipun þeirri, sem nú gildir um verðlag landbúnaðarafurða, ef ágreiningur verður í verðlagsnefnd. Hefur sú skipan þótt gefast vel á því sviði og enginn mér vitanlega brugðið hagstofustjóra um, að hann hafi ekki gegnt því oddvitahlutverki, sem honum þar er falið, af mestu samvizkusemi.

Ef þetta frv. yrði samþ., yrði tekin upp aftur hér á landi í grundvallaratriðum sama tilhögun og utanþingsstjórnin, sem fór hér með völd á árunum 1943–44, kom á í ársbyrjun 1943 fyrir forgöngu þáverandi viðskiptamálaráðherra, Björns Ólafssonar.

Verðlagseftirlit var — að frátöldu nokkru eftirliti, sem var í fyrri heimsstyrjöldinni — tekið hér upp fyrst að ráði 1938. Síðan var það smáaukið til 1943, og mátti heita, að það væri þá orðið nær algert, og var það nær algert í 7–8 ár, en var skyndilega afnumið að mestu á árinu 1951.

Nú eru aðeins mjög fáar vörutegundir háðar verðlagsákvæðum. Þær eru þessar helztar: skófatnaður, rafmagnsvírar, helztu byggingarvörur, svo sem sement, steypustyrktarjárn, miðstöðvarkatlar, fittings, linoleum, rúðugler og timbur, málningarvörur, hjólbarðar og slöngur, innflutt húsgögn, saumavélar, þvottavindur og rullur, rafmagnstæki, sjónaukar og því um líkt, skotvopn, vélar og verkfæri og sólaleður til skósmiða.

Þessar vörur einar eru nú háðar verðlagsákvörðun forstöðumanna innflutningsskrifstofunnar. Enn fremur eru nokkrar vörur háðar verðlagsákvæðum í heildsölu, ef þær eru framleiddar innanlands, þar á meðal er kex, stangarsápa, þvottaduft, ullardúkar, gólfdreglar, kápur, karlmannaföt, rafmagnstæki, barnavagnar og kerrur, og enn er haldið í gildi ákvæðum um hámarksverð á benzíni og olíum, smjörlíki, blautsápu í heildsölu, brauði, nýjum fiski, fiskfarsi, kjötfarsi og pylsum og rafmagnstækjum frá Raftækjaverksmiðjunni h/f. Nokkrar tegundir þjónustu eru og háðar samþykki verðlagsskrifstofunnar, þ.e.a.s. fargjöld, flutningsgjöld á sjó og út- og uppskipun.

Að öllu öðru leyti en því, sem ég nú hef nefnt, er verðlag og álagning frjáls hjá þeim, sem hafa vörur til sölu.

Það var ein af höfuðröksemdunum, þegar verðlagseftirlit var yfirleitt afnumið árið 1951, að við það sparaðist talsvert fé fyrir ríkissjóð. Á árinu 1952 bar ég því fram fyrirspurn hér á Álþingi um það, hver kostnaðurinn væri við verðlagseftirlitið þá og hversu mikið hann hefði lækkað við afnám verðlagsákvæðanna, sem fram fór á árinu 1951. Í ljós kom, að kostnaðurinn var 1952, eftir að verðlagsákvæðin höfðu verið afnumin að langmestu leyti, aðeins 135 þús. kr. lægri en hann hafði verið, meðan allar vörur og öll þjónusta var háð verðlagsákvæðum. Þá var gert ráð fyrir um það bil 1/2 millj. kr. kostnaði við verðgæzluna, þrátt fyrir það að nær öll verðlagsákvæði hefðu verið felld úr gildi. Það, sem ríkissjóður sparaði við afnám verðlagsákvæðanna, var aðeins 135 þús. kr., ef miðað er við árið 1952. Er það auðvitað smávægileg upphæð í samanburði við það, sem það hefur kostað allan almenning, að verðlagsákvæðin voru afnumin.

Segja má, að tvær grundvallarstefnur í efnahagsmálum séu hugsanlegar: Í fyrsta lagi sú stefna að byggja á algeru frjálsræði varðandi framleiðslu og viðskipti og treysta samkeppninni til þess að sjá um, að það sé framleitt, flutt inn og út, sem hagkvæmast sé, og að verðlag verði þá eins lágt og fært sé. Hins vegar er svo hitt sjónarmiðið, að hið opinbera hafi meiri eða minni stjórn á framleiðslunni, á fjárfestingunni, á inn- og útflutningnum og þá um leið eftirlit með verðlaginu. Í orði lýsa margir yfir fylgi sínu við fyrrnefndu stefnuna, við stefnu hins algera viðskiptafrelsis, og ekki skal ég andmæla því, að í orði hafi sú stefna marga mikla og góða kosti, ef hún væri framkvæmanleg út í æsar. Þó er það þannig, að í reynd treystir sér engin nágrannaþjóð til þess að framfylgja þessari stefnu út í æsar og sízt við Íslendingar þrátt fyrir allar yfirlýsingar ráðamanna þar að lútandi.

Í hverju kemur þetta fram hér hjá okkur? Í hverju kemur það fram, að hér er ekki fylgt boðskapnum um algert viðskiptafrelsi? Hér er ekki fylgt á borði því, sem haft er á orði.

Ég skal nefna um það nokkur dæmi. Gengi krónunnar er lögboðið. Þýðingarmesta verðið, sem myndast í efnahagskerfinu, verð á erlendum gjaldeyri, þ.e. gengi íslenzku krónunnar, fær ekki að myndast á frjálsum markaði með framboði og eftirspurn á hinum erlenda gjaldeyri. Það er lögboðið, meira að segja, af þessari stofnun, af hinu háa Alþingi. Meðan gengið er ekki frjálst, getur efnahagskerfið auðvitað ekki talið mótast af algerlega frjálsum viðskiptum.

Ég skal nefna annað dæmi. Vextir í landinu, annað þýðingarmesta verðið, sem um er að ræða í efnahagskerfinu, myndast ekki heldur á frjálsum markaði, myndast ekki heldur sem niðurstaða af framboði og eftirspurn eftir fjármagni. Vextirnir eru ákveðnir af hinu opinbera, af bönkunum, sem hér eru allir opinber eign.

Ég skal nefna fleiri dæmi. Heilar atvinnugreinar eru hér á landi raunverulega verndaðar með innflutningsbanni á samkeppnisafurðum, og á það auðvitað fyrst og fremst við landbúnaðinn, en einnig við um ýmsar tegundir iðnaðar. Á sviði landbúnaðarframleiðslunnar ríkir hér auðvitað ekki frjáls samkeppni, ríkja auðvitað ekki frjáls viðskipti, því að á innlendum markaði er ekki um að ræða neinar erlendar vörur. Það má ekki bjóða fram á innlendum markaði erlendar vörur til þess að keppa við íslenzkar landbúnaðarvörur. Verðlag landbúnaðarafurðanna er enn fremur ákveðið eftir föstum reglum, en ákveðst ekki á frjálsum markaði í frjálsri samkeppni.

Það má halda áfram. Útflutningur er ekki frjáls. Hann er í höndum einkasölufyrirtækja, og meira að segja innflutningurinn, sem viðskiptafrelsið er þó aðallega talið eiga að ná til, er langt frá því að vera frjáls. Einn þriðji innflutningsins var á s.l. ári háður opinberum leyfisveitingum, og einn sjötti hluti hans er í höndum aðila, sem hafa einkarétt til þess innflutnings, þ.e.a.s. til innflutnings á bátagjaldeyrisvörunum. Þær mega ekki aðrir flytja inn en þeir, sem fengið hafa til þess lögverndaða eða reglugerðarverndaða aðstöðu, og verður innflutningur á þeim vörum auðvitað ekki talinn frjáls. Það er ekki grundvallarsjónarmið frjálsrar samkeppni í frjálsum viðskiptum, sem þar er um að ræða, heldur þvert á móti stefnan sú að láta vissa aðila í þjóðfélaginu hagnast á vissum innflutningi.

Helmingur innflutningsins er að nafninu til á frílista, en samt má ekki kaupa verulegan hluta þeirrar vöru, sem á frílistanum er, nema frá vissum löndum, nema frá vöruskiptalöndunum. Það vita allir, hversu fjarri því fer, að innflutningurinn á þeim vörum, sem kaupa má frá dollaralöndum eða löndum í gjaldeyrisbandalagi Evrópu, sé raunverulegu frjáls. Að vísu er þar ekki um að ræða leyfakerfi, en það er um að ræða kerfi, sem jafngildir innflutningshömlum, þar eð bankarnir eru ekki skyldugir til þess og telja það ekki skyldu sína að afhenda þeim gjaldeyri, sem óska eftir honum til kaupa á vörum, sem eru á frílista. Meðan bönkunum er ekki skylt að sinna yfirfærslubeiðnum fyrir þeim vörum, sem eru á frílista, verður verzlunin auðvitað ekki talin frjáls. Allir, sem til þessara mála þekkja, vita, hversu innflytjendur þurfa lengi að bíða eftir yfirfærslum i bönkunum fyrir fjölmargar af þeim vörutegundum, sem eru á frílista. Þetta á meira að segja við um ýmsar þær vörutegundir, sem þó er heimilað að kaupa frá vöruskiptalöndunum. Meira að segja á því sviði er innflutningurinn takmarkaður, bankarnir sinna ekki umsvifalaust yfirfærslubeiðnum fyrir vöruskiptavörur, þótt á frílista séu.

Ég orðlengi þetta því ekki frekar. Það er af þessu augljóst, hversu víðs fjarri því fer, að íslenzka efnahagskerfið sé grundvallað á kenningunum um frjáls viðskipti, um frjálsa samkeppni, um alfrjálst einkaframtak. Það er því ekki heldur von, að í íslenzku efnahagskerfi gæti neinna þeirra miklu og góðu kosta, sem það kerfi getur sannarlega haft í för með sér.

Sannleikurinn er sá, að íslenzkt efnahagskerfi er bundið í alla enda og kanta og fjarri því að eiga skilið að vera kennt við frjálst hagkerfi. Meira að segja innflutningsverzlunin er háð alls konar hömlum, nema að einu leyti. Verðlagið á langflestum innfluttum vörum er frjálst. Álagningin af hálfu milliliðanna á þessum vörum er frjáls, hún er algerlega ótakmörkuð.

Í þessu kemur í raun og veru fram kjarninn í stefnu ríkisstj. Henni er ekki svo mjög sárt um, þó að verzlunarfrelsi, þó að athafnafrelsi, þó að frjáls samkeppni sé skert. Það er ekki grundvallarreglan um frjáls viðskipti, sem henni er sérlega annt um. Þá grundvallarreglu má skerða og skemma á alla enda og kanta á öllum mögulegum sviðum, eins og sýnir sig í upptalningunni áðan. En eitt verður að vera frjálst. Við einu má ekki hrófla, og það er frelsi milliliðanna til þess að skammta sér sjálfir sinn hlut, sérstaklega að því er snertir verzlun með innfluttar vörur. Það er rétt að taka það skýrt fram, þannig að engum misskilningi valdi, að það er skoðun mín, að ef innflutningsverzlunin væri raunverulega frjáls og raunverulega heilbrigð samkeppni í verzlun og framleiðslu innanlands, þá væri verðlagseftirlit óþarft, nema þá sem heimild til þess að taka í taumana gegn misnotkun á einkasöluaðstöðu og okri. Ef innflutningur til landsins væri raunverulega algerlega ótakmarkaður, eins og kenningin um frjáls viðskipti krefst, ef innflutningurinn væri algerlega frjáls, þá er verðlagseftirlit óþarft, nema í því skyni, sem ég lýsti áðan. En treystir nokkur maður sér til þess að halda því fram um íslenzka innflutningsverzlun nú í dag, að hún sé frjáls, að innflutningur til landsins sé ótakmarkaður og algerlega frjáls? Auðvitað ekki. Það sjá allir, sem málið virða fyrir sér, að innflutningurinn er hæði takmarkaður og ófrjáls. Og það er þessi staðreynd, að innflutningurinn er takmarkaður og ófrjáls, sem gerir verðlagseftirlit nauðsynlegt.

Þessi staðreynd var viðurkennd í þeirri grg., sem tveir af trúnaðarmönnum ríkisstj., hagfræðingarnir Benjamín Eiríksson og Ólafur Björnsson, sömdu fyrir gengislækkunarfrv. 1951 og segja má að innihaldi grundvallarröksemdirnar fyrir þeirri stefnu, sem fylgt hefur verið í efnahagsmálunum undanfarin ár. Þar er viðurkennt, að ef tekin væri upp leið hins svokallaða frjálsa gjaldeyris, sem i raun og veru jafngilti því, að því er segir í ritgerðinni, að koma á tvöföldu gengi á krónuna, mundi það leiða til þess, að í landinu myndaðist tvöfalt verðlag, sem mundi gera verðlagseftirlit óhjákvæmilegt. Þetta er skýrt tekið fram í raun og veru á fleiri en einum stað í ritgerðinni. Við höfum núna það, sem Þeir kölluðu frjálsan gjaldeyri, í bátagjaldeyriskerfinu. Með bátagjaldeyriskerfinu er í raun og veru skapað tvenns konar verðlag í landinu, annars vegar á bátagjaldeyrisvörunum og hins vegar á þeim vörum, sem fluttar eru inn samkvæmt frílista eða samkvæmt leyfum. Og þetta, hin raunverulega tvenns konar verðskráning á krónunni og hið tvenns konar verðlag innanlands, gerir auðvitað verðlagseftirlit eðlilegt og nauðsynlegt. Hvað var þessum tveimur sérfróðu trúnaðarmönnum ríkisstj. þegar ljóst á árinu 1950, enda segja þeir í áliti sínu á bls. 33, með leyfi hæstv. forseta:

„Hin tvö gengi og tvenns konar verðlag innanlands mundu gera nauðsynlegt að halda mjög ströngu eftirliti með verðlagi og dreifingu allra innfluttra vara. Sterk öfl mundu reyna að hækka álagningu og verðlag á vörum, sem fluttar væru inn fyrir ódýrari gjaldeyrinn, til samræmis við verðlag á þeim vörum, sem fluttar væru inn fyrir frjálsa gjaldeyrinn. Með því móti væri skapaður jarðvegur fyrir margs konar brask og óheilbrigða verzlunarhætti.“

Hér sáu hinir vísu menn nákvæmlega fyrir, hvað mundi gerast, ef tekið væri upp það, sem þeir kölluðu stefnu frjáls gjaldeyris, að einhverju leyti, en hefur hlotið í reynd nafnið bátagjaldeyriskerfi. Það ætti að eðlilegum hætti að kalla á eftirlit með verðlagi innanlands, því að ella mundi skapast jarðvegur fyrir margs konar brask og óheilbrigða verzlunarhætti. Hér sáu sérfræðingar ríkisstj. alveg rétt. Afleiðing af bátagjaldeyriskerfinu og hinu tvenns konar verðlagi í landinu, sem af því hlýzt, hefur orðið tilhneiging til þess að hækka álagningu og verðlag á vörunum, sem fluttar eru inn fyrir frjálsa gjaldeyrinn, og leyfavörunum til móts við það verðlag, sem bátagjaldeyrisvörurnar skapa.

En ríkisstj. hefur alls ekki farið eftir bendingum þessara manna frá 1950. Hún tekur nefnilega aðeins þær bendingar sinna sérfræðinga, sem henni hentar að taka, en lætur hinar sem vind um eyrun þjóta, ef þær eru ekki í samræmi við þá hagsmuni, sem ríkisstj. telur mikilsverðast að vernda. Þetta hefur einmitt komið á daginn. Það hefur orðið mikil tilhneiging til þess að þrýsta verðlagi upp á við og álagningu til samræmis við álagninguna á bátagjaldeyrisvörunum, sem er sérstaklega há, vegna þess að frá upphafi hefur það verið siður, þar sem verðlagið á bátagjaldeyrisvörunum var fyrst gefið frjálst, að leggja á allt kostnaðarverð bátagjaldeyrisvörunnar, þ.e.a.s. bátagjaldeyrisálagið líka. Það hefur gert þessar vörur sérstaklega eftirsóknarverðar í viðskiptum og álagningu og þar af leiðandi teygt álagningu á frjálsu gjaldeyrisvörunum mjög sterklega upp á við.

Á fyrri hluta þessa árs varð nokkur hækkun á tímakaupi verkalýðsfélaga, 11–12% hækkun á tímakaupi Dagsbrúnarmanna. Um það hafa orðið miklar umræður, að hversu miklu leyti þessi verðhækkun hafi gert nauðsynlegar hækkanir á verðlagi í landinu. Auðvitað hlaut verðlag á margs konar þjónustu og mörgum vörum að hækka sem bein og óhjákvæmileg afleiðing af þessari kauphækkun fjölmennra vinnuþegastétta. Við því hlutu allir að búast, og það var fullkomlega eðlilegt. En þær hækkanir áttu engan veginn að þurfa að verða svo miklar, að kauphækkunin yrði gleypt algerlega með þeim. Reynslan hefur hins vegar orðið sú, að ýmsir aðilar og þá væntanlega fyrst og fremst þeir, sem hæstv. fjmrh. kallaði í ræðu sinni hér í þessum stól í gær verðbólgubraskara, hafa notað þessa kauphækkun láglaunastéttanna sem tilefni til þess að færa sig mjög upp á skaftið og hækka verðlag og álagningu sína mjög verulega.

Ég skal ekki eyða tíma þingmanna í að nefna mörg dæmi um þetta. Ég skal aðeins geta þess, að þeir riðu á vaðið í þessum efnum, sem lítilsigldastir voru eða hitt þó heldur, en það voru olíufélögin, því að fyrsta verðhækkunin, sem tilkynnt var opinberlega, eftir að samizt hafði um kauphækkun verkamanna, var einmitt frá olíufélögunum, forríkustu félögum, sem starfa í þessu landi, og einhverjum mestu gróðafélögum, sem hér hafa nokkurn tíma starfað. Daginn eftir að samningar höfðu tekizt tilkynntu olíufélögin verðhækkun á þýðingarmikilli þjónustu um 38%. Og hvað húsbændurnir hafast að, hinir ætla sér leyfist það: þetta var tekið sem fordæmi hjá fjöldamörgum, og nú rak hver verðhækkunartilkynningin aðra, og flestar voru þær hærri en hægt var með nokkurri skynsemi að grundvalla eða rökstyðja með 11–12% hækkun á Dagsbrúnarkaupi. Tvö dæmi skal ég nefna önnur, sitt úr hvorri áttinni, annað að því er snertir opinberan aðila, þ.e. sjálfa ríkisstjórnina, þar sem daggjald á sjúkrahúsum hefur nýlega verið hækkað um 20%, og annan opinberan aðila, Reykjavíkurbæ, sem fyrir skömmu hefur hækkað verð á möl og sandi um 57%. Fjöldamörg slík dæmi mætti nefna og er hægt að nefna, ef ástæða þykir til.

Í þessu sambandi er og sérstaklega mikilsvert að minnast á eftirfarandi: Í þeim samningum, sem gerðir voru í lok verkfallsins 1952, skuldbundu viðskiptaaðilar, verzlunarráðið og Samband íslenzkra samvinnufélaga, sig til að halda álagningu fastri, lækka hana jafnvel á sumum tegundum, en halda henni fastri á vissum mikilvægum vörutegundum um óákveðinn tíma, og átti þetta að vera eins konar framlag þessara voldugu milliliðasamtaka til þess að styðja þá stefnu, sem þá varð ofan á, að leitast við að þrýsta verðlaginu niður á við og halda því niðri.

Þannig var farið að um tveggja til þriggja ára skeið, að álagningu á vissar vörur, svokallaðar samningsvörur, var haldið óbreyttri.

Þessu samkomulagi var af hálfu þessara aðila sagt upp í sumar, að því er mér er tjáð. Þá tilkynntu þessir aðilar, að þeir teldu sig ekki lengur bundna við að halda álagningunni á þessum svokölluðu samningsvörum í þeirri hundraðstölu, sem hún hafði verið ákveðin eftir desemberverkfallið 1952. Nú væri auðvitað mjög fróðlegt að fá að kynnast því nákvæmlega, hversu mikið þessir milliliðir hafa hækkað sína álagningu í framhaldi af 11–12% kauphækkun láglaunamanna á s.l. vori.

Því miður er ekki alls kostar auðvelt að fá um þetta upplýsingar. Opinberar skrifstofur eru í þessum efnum lokuð bók. Það þarf að semja um það langa lengi, það þarf að heyja um það margra vikna harðvítugt verkfall með tugmilljóna tjóni fyrir þjóðarbúið og þá auðvitað fyrst og fremst fyrir þær stéttir sjálfar, sem standa í verkfallínu, til þess að fá viðurkennda ákveðna hlutfallstöluhækkun á kaupi. En svo þegar aðrar stéttir skammta sér kauphækkun og gera það án nokkurs verkfalls, gera það einfaldlega með því að skrifa eitt bréf, senda frá sér eina tilkynningu, þá er það ekki einu sinni þannig, að það gerist svo auðveldlega, að það gerist með einu pennastriki, ef svo mætti segja, heldur gerist það líka á þann hátt, að maður fær ekki að vita, hversu miklu hækkunin nemur, þannig að óyggjandi sé. Það er launungarmál. Er hægt að hugsa sér öllu ljósara dæmi um aðstöðumun stéttanna í þessu þjóðfélagi, um aðstöðu verkalýðsstéttarinnar annars vegar og t.d. milliliðastéttarinnar hins vegar? Verkalýðsstéttin verður að heyja dýra baráttu, jafnvel berjast við sult, til þess að fá viðurkennda nokkra hækkun á kaupi sínu. Milliliðastéttin skrifar eitt bréf til þess að skammta sér hækkun á sínu kaupi og neitar að segja frá því, hvað hækkunin sé mikil. Það á að vera hennar leyndarmál.

Ég hef reynt að grennslast fyrir um það að því er snertir nokkra ákveðna vöruflokka, hversu mikið álagning á þeim mun hafa hækkað nú á s.l. sumri, eftir að samkomulaginu frá 1952 var sagt upp. Ég vil ekki nefna um þetta ákveðnar tölur, á þessu stigi málsins a.m.k., til þess eru upplýsingarnar ekki nógu áreiðanlegar. En þó, eftir því sem ég hef komizt næst eru staðreyndirnar þær, að smákaupmenn munu enn sem komið er a.m.k. mjög litið, kannske ekkert, hafa hækkað sína álagningu. Hins vegar munu heildsalar hafa hækkað álagningu sína talsvert verulega, og mun óhætt að segja, að álagning í heildsölu á ýmsum mikilvægum vörum, svo sem t.d. vefnaðarvörum, hafi á s.l. sumri hækkað um ekkí minna en 30%. Sé þessi tala vefengd, þá ættu ríkisstj. og yfirvöld að hafa góða aðstöðu til þess að fá úr því skorið, hvort þessi staðhæfing sé röng, og sanna það þá, að hún sé röng, með tölum, því að ríkisvaldið á auðvitað betri aðgang að trúnaðarmönnum, sem vita hið sanna um þetta efni, og milliliðunum sjálfum, heldur en einstaklingar. En ef það er svo, að álagning t.d. á vefnaðarvöru — og hið sama held ég að eigi við um fjölmargar aðrar vörutegundir — hafi nú á s.l. sumri hækkað um u.þ.b. 30%, þá er lítill vandi að bera það saman við þá 11—12% hækkun, sem verkamenn börðust fyrir í löngu og erfiðu verkfalli, og gera sér grein fyrir því, hvort sú kauphækkun, sem verkamenn þá knúðu fram, geti verið nægilegur rökstuðningur fyrir 30% hækkun á álagningu heildsalanna.

Verzlunarráðið mun nú vera að fara fram á hækkun á þeim álagningarreglum, sem gilda um þær vörur, sem eru undir verðlagsákvæðum. Ég veit ekki, hvað sú hækkunarbeiðni nemur miklu, en fróðlegt væri að fá um það skýrar upplýsingar, um hversu mikla hækkun þeir milliliðir, sem þar eiga hlut að máli, biðja. Mér kæmi það sannarlega mjög á óvart, ef sú hækkun væri hliðstæð þeirri hækkun, sem verkamönnum tókst að knýja fram og var talin eftir. Mér segir svo hugur um, að beiðnin frá þeim sé allmiklu hærri.

Í þessu sambandi verður ekki hjá því komizt að geta þess, að það er mjög miður, að þeirri reglu skuli ekki hafa verið haldið af hálfu hins opinbera, af hálfu viðskmrh. og af hálfu verðgæzlustjóra, að birta reglulega skýrslur um hæð álagningar á hina mikilvægustu vöruflokka, eins og gert var fyrst eftir að verðlagseftirlitið var lagt niður. Þá var sú regla tekin upp að skýra almenningi frá álagningunni og bera hana saman við álagninguna eins og hún var meðan verðlagsákvæði voru í gildi. Að slíkri skýrslugerð hefur undanfarið kveðið minna og minna. Það er nú komið rúmt ár, að því er ég held, síðan slík skýrsla hefur verið birt. Fyrst var hún þó birt á 3–4 mánaða fresti, nú er komið meira en ár síðan skýrsla var birt. Og enginn veit, hvenær von kann að vera á næstu skýrslu um þessi efni, kannske kemur hún aldrei. Þetta ber óneitanlega vott um, að hér telji einhverjir aðilar þægilegra, að sem minnst sé um talað opinberlega. Ég vil beina til hæstv. ríkisstj. þeim eindregnu tilmælum, að þessari reglu verði haldið áfram og að sem allra fyrst verði birt skýrsla um raunverulega álagningu á helztu vörum, sem fluttar eru til landsins og verzlað með innanlands.

Á eitt atriði vil ég minnast í sambandi við nauðsyn á því að taka upp aftur algert verðlagseftírlít. Það er á allra vitorði, nema ef til vill hæstv. ríkisstj., að meira kveður nú að smygli til landsins en nokkurn tíma áður. Smyglið til landsins er nú orðið að alvarlegu meini í þjóðfélaginu, og það er stundað svo að segja algerlega blygðunarlaust. Þeir, sem það stunda, virðast vera öruggir um sinn hag, svo óttalausir, að blygðunarleysi þeirra er næstum furðulegt. Mér er sagt, að svo að segja í hverri búð hér í miðbænum í Reykjavík og þá vafalaust einnig úti á landi sé til varningur, sem ekki hafi verið leyfður til innflutnings í 3–4 ár. Í búðunum er til nýr varningur, sem innflutningur er bannaður á, og þessar vörutegundir munu ekki vera ein, heldur fleiri. Þess er skemmst að minnast, að uppskátt varð um gífurlegt smygl úr einu af millilandaskipunum, sem sigla frá Ameríku. Þar er ekki um að ræða einn smápakka, einn kassa, heldur marga kassa, sem fundust svo að segja af tilviljun í lest skipsins. Hér er alveg auðséð, að um er að ræða skipulagt smygl og það í mjög stórum stíl. Allur almenningur telur, að til séu hér búðir í Reykjavík, sem að mjög verulegu leyti verzli með smyglaðar vörur. Almenningur er orðinn þessu svo vanur, að hann er meira að segja hættur að henda gaman að þessu, telur þetta eins og allt að því sjálfsagðan hlut, vegna þess að þetta er orðið svo gamalt og hefur viðgengizt svo lengi, án þess að nokkur hafi við þessu hróflað. Meðan verðlagseftirlit var hér með öllum innfluttum vörum, hafði verðlagseftirlit og verðlagseftirlitsmennirnir gífurlega mikla þýðingu einmitt í því sambandi að koma upp um smygl og þá um leið til þess að hindra það, en eftir að allt verðlag var gefið frjálst og öllu eftirliti með verðlagi á einstökum vörum var hætt, hefur þetta eftirlit með smyglvarningnum fallið niður.

Ég er ekki í nokkrum vafa um, að upptaka algers verðlagseftirlits á ný er brýn nauðsyn einnig út frá þessu sjónarmiði. Það tekst ekki að uppræta hér smyglið að fullu, fyrr en tekinn hefur verið upp sá siður að fylgjast með verðlagi yfirleift á öllum vörum, sem eru til sölu í búðunum. Þá er von til þess eins og áður, að upp komist um það, hvaða varningur er smyglaður.

Í þessum efnum ber því í raun og veru allt að sama brunni. Í raun og veru hníga öll rök að því, að aftur verði nú tekið upp verðlagseftirlit. Þeir, sem mæltu gegn verðlagseftirlitinu 1951 í þeirri von, ef til vill í þeirri trú, að það mundi takast að gera innflutninginn takmarkaðan og frjálsan, hljóta nú eftir fjögur ár að hafa séð, að hvorugt hefur tekizt. Innflutningurinn er hvorki ótakmarkaður né heldur frjáls. Einu skynsamlegu rökin fyrir því að hafa ekkert verðlagseftirlit eru þau, að innflutningurinn sé hvort tveggja ótakmarkaður og algerlega frjáls, þannig að um fullkomlega frjálsa og heilbrigða samkeppni geti verið að ræða. En samkeppnin er ekki frjáls, hún getur ekki verið frjáls eða heilbrigð, þegar innflutningurinn er jafntakmarkaður og nú á sér stað og jafnófrjáls og nú á sér stað.

Ástandið í innflutningsverzluninni, ófrelsið þar, takmarkanirnar þar, höftin þar, er því skýr og sterk rök fyrir nauðsyn þess að koma aftur á algeru verðlagseftirliti. Það er núna um að ræða sömu rökin og voru fyrir hendi 1943, þegar verðlagseftirlitið var gert algert. Þá var það gert vegna þess, að talið var augljóst, að innflutningurinn yrði að vera takmarkaður, yrði að vera ófrjáls, þá að vísu af styrjaldarástæðum. Þá var verðlagseftirlitið talið sjálfsagt. Nú er reynslan búin að sýna í fjögur ár, að heildarstefna ríkisstjórnarinnar er þannig, að innflutningurinn getur hvorki verið ótakmarkaður né frjáls, og þá er verðlagseftirlit nú jafnnauðsynlegt og það var 1943.

Aðalatriðið er þó ef til vill ekki þetta, sem ég nú hef nefnt. Aðalatriðið er þó ef til vil] það, hversu brýna nauðsyn ber nú til þess að hamla gegn öllum óþörfum verðhækkunum.

Það játa allir, sem af einhverri ábyrgðartilfinningu hugsa um íslenzk efnahagsmál, að hið hækkandi verðlag, sem er nú eitt af höfuðvandamálunum í íslenzku efnahagslífi, stefnir gengi gjaldmiðilsins í hættu. Hið hækkandi verðlag eyðileggur trú manna á framtíð gjaldeyrisins og á framtíð efnahagskerfisins yfirleitt. Hvað er þá sjálfsagðara en að gera allt, sem hugsanlegt er, til þess að sporna gegn þessum verðhækkunum, til að koma í veg fyrir þær verðhækkanir, sem eru óþarfar. Með takmarkaðan innflutning, með ófrjálsan innflutning hlýtur að verða tilhneiging til verðhækkana, sem hljóta að teljast óþarfar, og það er einmitt gegn slíkum verðhækkunum, sem verðlagseftirliti hefur alltaf verið ætlað að sporna.

Sumir segja: Verðlagseftirlit er gagnslaust í þessu skyni. Það getur ekki komið í veg fyrir þessar verðhækkanir. — Þá sömu, sem segja þetta, má spyrja aftur: Var verðlagseftirlitið gagnslaust 1943 og allt til 1951, þegar það var afnumið? Vilja þeir sömu menn sem bera ábyrgð á verðlagseftirlitinu frá 1943–51 nú allt í einu halda því fram, að það hafi verið gagnslaust allan þann tíma?

Ekki hygg ég, að það verði sagt með neinu viti eða með neinni sanngirni. Og ef það gerði gagn á árunum 1943–51, af því að innflutningurinn var takmarkaður, af því að hann var ófrjáls, hví skyldi það ekki eins geta gert gagn núna, þegar aðstæðurnar eru að mörgu leyti a]veg eins, að innflutningurinn er hvort tveggja takmarkaður og ófrjáls?

Kjarni málsins nú er því í raun og veru sá, að þetta mál er eins konar prófsteinn á hæstv. ríkisstj., á hv. þingmeirihluta, það er prófsteinn á það, hvort megi sín meira hjá hæstv. ríkisstj. baráttan gegn verðhækkununum, þ.e.a.s. umhyggjan fyrir gjaldmiðlinum, eða þá umhyggjan fyrir hagnaðarmöguleikum verðbólgubraskaranna, sem hæstv. fjmrh. nefndi svo í ræðu sinni í gær. Þeir, sem bera sanna umhyggju fyrir gjaldmiðlinum, berjast auðvitað gegn öllum óþörfum verðhækkunum. Til þess er verðlagseftirlit auðvitað eitt tækið. Þeir, sem berjast fyrir hagsmunum milliliðanna, þeir af þeim, sem eiga skilið nafngift fjármálaráðherrans: verðbólgubraskarar, berjast gegn því, að heilbrigðu verðlagseftirliti sé komið á. Hinir, sem ekki taka meira í sinn hlut en hóflegt verði að teljast, þurfa ekkert að óttast heilbrigt verðlagseftirlit, sízt af öllu framkvæmt af slíkri stjórn sem nú situr. Einu mennirnir, sem þurfa að óttast það, eru sú stétt manna, sem fjmrh. í gær kallaði verðbólgubraskara. Þetta mál er prófsteinn á það, hvor umhyggja hæstv. ríkisstj. er sterkari, umhyggjan fyrir gjaldmiðlinum eða umhyggjan fyrir verðbólgubröskurunum.