19.03.1956
Efri deild: 87. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 707 í C-deild Alþingistíðinda. (2071)

188. mál, sýsluvegasjóður

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Eins og ég gerði grein fyrir í sambandi við næsta mál á undan, er þetta frv., sem nú er fyrir tekið, einnig komið fram af sömu ástæðu og það, sem sé til þess að auðvelda innheimtumönnum ríkisins að hagnýta sér bókhaldsvélar þær, sem nú hafa verið teknar í þjónustu ýmissa þeirra embætta. Þetta frv. til breytinga á lögum um samþykktir um sýsluvegasjóði er eingöngu þannig sniðið, að innheimta sýsluvegasjóðsgjaldanna færist frá sýslumönnum til oddvita.

Nú hefur það fyrirkomulag verið haft, þar sem sýsluvegasjóðir eru, sums staðar, að sýsluvegasjóðsgjöldin hafa verið lögð á með útsvörum og greidd í einu lagi til sýsluvegasjóðanna. Þar veldur þetta frv. engri breytingu. Á öðrum stöðum hefur aftur á móti sýslumaðurinn innheimt hjá hverjum einstökum gjaldanda, sem greiða á til sýsluvegasjóðs, gjöldin, og það er það fyrirkomulag. sem lagt er til að breytist þannig, að oddvitinn eða innheimtumaður sveitarsjóðanna innheimti sýsluvegasjóðsgjöldin eftirleiðis. Vel má vera, að það ýti undir það, að fleiri sveitarfélög en nú taki upp það fyrirkomulag að jafna niður þessum gjöldum með útsvörum, og tel ég fyrir mitt leyti, að það sé að ýmsu leyti ekki óeðlilegra fyrirkomulag.

Þau lög, sem hafa gilt áður og höfðu valdið breytingu á stofnlögunum, voru tekin inn í þetta frv., svo að einfaldara verður að ganga að því að athuga ákvæði þau, er snerta sýsluvegasjóði, ef þetta frv. verður að lögum.

Ég tel svo ekki ástæðu til þess að segja fleira í sambandi við þetta frv. Ég hef talið, að það sé rétt að ganga inn á það til þess að auðvelda framkvæmd mála, og tel, að sveitarfélögin fái nokkra uppbót, með því að þau þurfi ekki að greiða til þjóðskrárinnar, eins og ég sagði í sambandi við fyrra mál, enda geri ég ráð fyrir því, að innheimtumenn sveitarsjóðanna fái af sýsluvegaskatti, sem þeir innheimta, þau venjulegu innheimtugjöld, sem þeim eru ákveðin.