02.11.1955
Sameinað þing: 8. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í D-deild Alþingistíðinda. (2108)

55. mál, alþýðuskólar

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Till. þá til þál., sem hér er til umr. á þskj. 60, hef ég leyft mér að flytja ásamt þeim hv. þm. A-Sk. (PÞ), hv. 2. þm. N-M. (HÁ) og hv. þm. Mýr. (AE). Við leggjum þar til, að Alþ. skori á ríkisstj. að undirbúa löggjöf um stofnun eins eða fleiri alþýðuskóla með lýðháskólasniði án sambands við menntaskóla og sérskóla, enda verði landspróf ekki haldið í þeim skólum. Viljum við jafnframt láta athuga, hvort ekki sé hægt að koma þessu á án aukins kostnaðar með því að breyta einum eða fleiri skólum gagnfræðastigsins í þessa átt. Enn fremur leggjum við til, að haft sé samráð við Ungmennafélag Íslands um þetta mál, og óskum, að ríkisstj. leggi till. sínar um málið fyrir næsta reglulegt Alþingi.

Á þinginu í fyrra hreyfðum við flm. þessarar till. sama máli, en að vísu í nokkuð öðru formi. Þá lögðum við til, að Alþ. skoraði á ríkisstj. að hlutast til um, að einn eða fleiri æskulýðsskólar störfuðu með svipuðu sniði og fylgt var áður í héraðsskólum, meðan þeir störfuðu án sambands við menntaskóla og sérskóla, og yrðu vekjandi áhrif meginatriði skólastarfsins þar.

Ekki er annað hægt að segja en að þessari till. okkar í fyrra væri vei tekið, þótt hún dagaði uppi í þinginu. Henni var vísað til allshn. þingsins. N. mælti einróma með henni með lítils háttar orðabreytingu. Málið var og borið undir hv. fræðslumálastjóra, og var hann því mjög hlynntur efnislega, en síðar lét hann þó það álit í ljós, að til þess að framkvæma till. brysti lagaheimild. Þegar svo málið kom til 2. umr. í þinginu, lét hæstv. menntmrh. sömu skoðun í ljós, að nægileg lagaheimild væri ekki fyrir hendi, þótt hann að öðru leyti talaði vinsamlega um þá stefnu, sem í till. fólst. Umr. var svo frestað og málið ekki tekið oftar fyrir á því þingi.

Við flm. þessarar till. vorum því að vísu alls ekki sammála, sem fram kom frá fræðslumálastjóra og hæstv. menntmrh., að það bryti nokkuð í bága við lög að framkvæma till. okkar, ef samkomulag næðist um það við forráðamenn þeirra skóla, sem til greina kæmu í því efni, og skoðun okkar á því er óbreytt enn. En það tjáir ekki að deila við dómarann, og það þýðir ekki að fela ríkisstj. að vinna verk, sem hún telur óframkvæmanlegt vegna þess, að það brjóti í bága við lög. Þess vegna var það, að þegar við flm. þessarar till. hittumst hér á þinginu í haust, tókum við til athugunar, hvort ekki væri rétt að flytja lagafrv. um stofnun óháðra alþýðuskóla með lýðháskólasniði, því að skoðun okkar er enn óbreytt á því, að æskulýð landsins sé nauðsynlegt að eiga aðgang að slíkum skólum. Við nánari athugun hurfum við þó frá því ráði að flytja lagafrv. um það af tveimur ástæðum, í fyrsta lagi þeirri, að nú á síðari árum daga flest þingmannafrv. uppi í þinginu, eins og kunnugt er, og í öðru lagi töldum við tryggara bæði fyrir framgang málsins síðar og frágang þess, að fræðslumálastjórnin undirbyggi málið með ráði þeirra sérfræðinga í uppeldis- og skólamálum, sem hún getur kvatt til þeirra starfa, en við auðvitað ekki. Þess vegna er þessi þáltill. flutt nú.

Samkvæmt skólalöggjöfinni, sem sett var árið 1946, er öllum skólum landsins skipað í fast kerfi, þannig að hver skólinn tekur við af öðrum frá barnaskóla og allt til háskólans. Þetta kerfi greiðir að sjálfsögðu götu ýmissa, sem stefna að stúdentsprófi og háskólanámi. Er því án efa rétt, að þessi námsbraut sé ungmennum fær og það jafnvel þótt hún beinlínis lokki suma út í langskólanám, sem betur hefðu snúið sér að öðru. En þessir skólar, sem tilheyra kerfinu, neyðast til að miða námið aðallega við próf. Hætt er því við, að hið eiginlega uppeldi sitji á hakanum í þessum skólum, enda er töluvert um það rætt. Skólakerfið hefur því áreiðanlega sínar skuggahliðar. En svo er annað: Til eru unglingar og ekki svo fáir, sem tæplega geta sótt framhaldsskólana eins og þeir eru nú. Margir unglingar hætta skólagöngu, þegar skyldunámi þeirra er lokið. Í sveitum t. d. fara þeir þá kannske að vinna á búi foreldra sinna. Aðrir fá sér einhverja atvinnu, og atvinna er nú nægileg í landinu, eins og menn vita, líka fyrir unglinga. Svo líða nokkur ár, og þá vaknar áreiðanlega löngun hjá mörgu af þessu unga fólki til að afla sér frekari menntunar. Hvert á það þá að leita til þess? Eins og nú er, er ekki í annað hús að venda en í þá skóla, sem taka við næst á eftir skyldunáminu, en þeir eru aðallega sóttir af nýfermdum unglingum, sem haldið hafa áfram námi hiklaust. Það er áreiðanlega ekki heppilegt, að fólk, sem komið er á þroskaaldur, þurfi þannig að setjast í hálfgerða barnaskóla, þar sem aðalatriðið er að ná prófi, sem veitir rétt til inngöngu í næsta skóla fyrir ofan. Ég er sannfærður um, að fyrir þetta fólk er miklu heppilegra að eiga kost á að ganga í óháðan skola, sem legði höfuðáherzlu á alhliða þroska nemendanna, en ekki nein próf.

Nágrannaþjóðir okkar hafa skólakerfi eins og við, en þær hafa líka óháða lýðháskóla, svipaða og þessi till. fjallar um, og telja þá ómissandi.

Annars skal ég ekki fjölyrða frekar um þetta. Í fyrra gerði ég grein fyrir þessu máli og sé ekki ástæðu til að endurtaka það, sem ég sagði þá. Auk þess get ég vísað til allýtarlegrar grg., sem þessari till. fylgir, en það er þó eitt nýmæli í till. nú, sem ekki var í fyrra og ég verð að minnast á, en það eru þau orð í till., að leitað skuli álits Ungmennafélags Íslands um þetta mál.

Á fyrsta sambandsþingi ungmennafélaga Íslands á Þingvelli 1907 var því máli hreyft, að ungmennafélögin beittu sér fyrir stofnun lýðháskóla. Ég var sjálfur fulltrúi á þessu þingi, en ekki man ég samt, hvort nokkur ályktun var gerð í málinu. Hitt veit ég, að þótt ungmennafélögin hafi ekki stofnað beinlínis neinn lýðháskóla, þá voru þó ungmennafélagar jafnan stuðningsmenn þess, að skólar meti lýðháskólasniði yrðu stofnaðir, og gamlir ungmennafélagar voru víða forgöngumenn að stofnun héraðsskólanna.

Ég vona, að hugsjónir ungmennafélaganna séu enn slíkar, að þau séu vel fallin til að gefa ráð um stofnun og starf skóla með lýðháskólasniði.

Árið 1957 á samband ungmennafélaga Íslands 50 ára afmæli. Finnst mér, að það væri skemmtileg afmælisgjöf til ungmennafélaganna, að þá yrði komið á fót æskulýðsskóla, sem starfaði samkvæmt þeim hugsjónum, sem sköpuðu ungmennafélögin, en slíkt væri hægt, ef málið væri undirbúið til næsta þings og síðan sett löggjöf um það á næsta þingi.

Það hefur verið ákveðin ein umr. um þetta mál, enda sé ég ekki, að till. útheimti nein fjárútlát, eins og hún liggur fyrir, og málið er það einfalt, að ég fyrir mitt leyti teldi fært fyrir Alþ. að taka sína ákvörðun um hana þegar í stað. Samt sem áður get ég búizt við því, að hæstv. forseti fresti umr., og ef svo fer, þá vil ég leggja til, að þessari till. verði vísað til hv. allshn. þingsins.