07.03.1956
Sameinað þing: 44. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í D-deild Alþingistíðinda. (2186)

78. mál, Alþingistíðindi

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka hv. fjvn. fyrir undirtektir hennar undir þessa till. og get eftir atvikum sætt mig við það, að hún verði afgreidd í því formi, sem hv. n. hefur lagt til. Vildi ég mega treysta því, að hæstv. forsetar þingsins hefðu tilbúnar till. um framkvæmd fyrri efnishluta till. fyrir næsta þing, þannig að þá geti orðið úr því, að þingtíðindi, bæði þskj. og umr., verði prentuð og gefin út hálfsmánaðarlega um þingtímann.

Ég get að vísu ekki fallizt á þá röksemd hæstv. þingforseta, að það sé utan verkahrings þingsins að láta gera stuttan útdrátt úr umr., þegar af þeirri ástæðu, að þingið telur nú þegar í sínum verkahring að skýra þjóðinni frá efni þskj. í ríkisútvarpinu. Sá fréttaflutningur fer fram á ábyrgð og á kostnað sjálfs Alþingis. Þar hefur því þingið talið það í sínum verkahring að birta þjóðinni frásagnir af mjög verulegum þætti starfs þingsins. Ég hef alltaf talið og veit, að mjög margir þm. eru mér um það sammála, að þessi fréttaflutningur sé algerlega ófullnægjandi, meðan ekkert kemur þar fram um umræður um þessi þskj., þ. e. þingmálin, sem frá er greint. Ég tel því, að það ástand, sem nú er, beri þess vott, að þingið telji sig hafa vissar skyldur gagnvart þjóðinni í þessum efnum, og tel, að þá skyldu eigi að rækja sem bezt. Það yrði gert með því, að við yrði bætt frásögn, stuttum, hlutlausum útdrætti úr umræðum.

Varðandi hina röksemd hæstv. þingforseta, að engin starfsskilyrði séu til þess að láta gera slíkan útdrátt, er þetta að segja: Líklega er þar átt við það, að það þyrfti að hafa tvo menn til þess að hlýða á umr. sitt í hvorri deild. En með þeirri tækni, sem nú er hér beitt, væri þetta alveg óþarfi. Ég sé ekki betur en að það væri ekki ofverk manns að hlýða á umr. í annarri hvorri deildinni, meðan á þingtímanum stendur, og hlýða síðan á segulbandsupptöku af umr. í hinni deildinni, ef þær fara fram samtímis, svo sem venjulega er.

Þingfréttamaður ríkisútvarpsins hefur fullt þingfararkaup fyrir þjónustu sína. Það væri því ekki til of mikils mælzt, þó að hann væri viðstaddur umr. á venjulegum þingtíma, og það væri ekki verulegur kostnaðarauki að ráða annaðhvort annan mann til þess að vera viðstaddur í hinni deildinni eða fela þingfréttaritaranum og þá ef til vill fyrir svolítið viðbótargjald að hlýða á segulbandsupptöku á því, sem fram fer í hinni deildinni á meðan. Þetta starf gæti með engu móti verið meira en starf þingmannanna sjálfra, en hvort tveggja er núna borgað með sömu upphæð.

En þó að ég geti ekki fallizt á rökin, sem fram hafa verið flutt gegn síðari lið till., þá tel ég það til mikilla bóta, að fyrri liðurinn skuli ná fram að ganga, og lýsi því fylgi mínu að svo stöddu máli við till. svo breytta.