21.03.1956
Sameinað þing: 48. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í D-deild Alþingistíðinda. (2263)

60. mál, vegastæði milli landsfjórðunga

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur rætt þessa þáltill. og enn fremur sent hana vegamálastjóra til umsagnar, sem sendi n. ýtarlega grg. Kemur þar fram augljós áhugi vegamálastjóra fyrir málinu, þótt hann að sjálfsögðu geri sér ekki síður en aðrir grein fyrir því, að einhver dráttur hlýtur að verða á þeirri vegagerð, sem hér er um að ræða. Gizkar vegamálastjóri t. d. á, að ekki muni vera unnt að fá fé til brúargerðar yfir Tungnaá fyrr en eftir 2–3 ár, en sú á er talin mesti farartálminn á hinni svokölluðu Sprengisandsleið, sem vegamálastjóri telur heppilegasta yfir hálendið milli Norður- og Austurlands og Suðurlands. Vegamálastjóri upplýsir, að verkfræðingur frá vegamálaskrifstofunni hafi einu sinni farið Sprengisandsleiðina, og er kostnaðaráætlun hans um vega- og brúagerðir þessa leið aðallega byggð á þeirri athugun, og telur vegamálastjóri að sjálfsögðu frekari rannsókna þörf, bæði með tilliti til vega- og brúagerða. Þá bendir vegamálastjóri á tvo möguleika til að stytta Austfirðingum meir leiðina inn á Sprengisand en fram kemur í beinni till. hans. Er önnur sú leið frá brúnni við Skjálfandafljót hjá Stóru-Völlum í Bárðardal yfir Fljótsheiði og Mývatnsheiði, en hin af Sprengisandsvegi norðan Fjórðungskvíslar, skammt frá norðurbrún Vatnajökuls, á Austurlandsveg innarlega á Jökuldal. Leggur fjvn. mikla áherzlu á, að þessar leiðir báðar verði athugaðar ásamt þeim öðrum, sem við nánari athugun kunna að koma til greina til að stytta Austfirðingum leiðina. Þá telur fjvn. rétt, að hinn svonefndi Kjalvegur verði einnig athugaður, þótt hún sé vegamálastjóra sammála um, að sú leið muni tæplega koma til greina, a. m. k. ekki sem fyrsta aðgerð til að gera akfært yfir hálendið milli landsfjórðunga.

Fjvn. leggur einróma til, eins og fram kemur í nál. hennar á þskj. 493, að þáltill. á þskj. 67, um rannsókn vegarstæðis milli landsfjórðunga, verði samþykkt.